Eitt sinn sem varstu svo unglegur þá, undurfagur á brún og brá

Ég hygg að ég sé að grána. Ég veit að maður á ekki að blogga um svona hluti. En spegillinn gegnt rúminu mínu sýnir mér ógnarstór kollvik þar sem þó vex hár þegar nánar er að gætt.

Sérstök ferð sem ég fór í rannsóknarskyni innundir flóðlýsta skuggsjá salernisins leiðir í ljós að vissulega er ég ögn ljósari í vöngum en annarsstaðar. En kollvik hef ég engin, eða agnarsmá eftir því hvernig á það er litið.

Er ég uggandi um framtíð mína sem ungmennis í ljósi þessa. Þó skilst mér að taka eigi upp útgáfu Aldnir hafa orðið þar sem frá var horfið af þessu tilefni, enda fylgir öldrun jafnan viss upphefð fram að vissu stigi – altént svo langt sem sjálfsbjargarviðleitnin nær.

Ég vænti þess hið minnsta að lesendur bíði útgáfunnar af einlægum áhuga og hysterísku jafnaðargeði. Það verður í nítjánda bindi ef ég lifi daginn.