Vorið 2005 fékk ég að skoða Guðbrandsbiflíu. Þessa stundina puða ég hinsvegar við að lesa óútgefið handrit eftir Þórberg. Ég á bágt með að gera upp við mig hvort var erfiðara aflestrar.
Eitt sinn var Þórbergur spurður hvers vegna hann fengi sér ekki ritvél í stað þess að handskrifa allar bækur sínar. Það gæti sparað honum mikinn tíma. Hann svaraði á þá leið að hann væri nú ekki fljótari að hugsa en þetta og þar við stóð.
En mikill munur hefði það nú verið fyrir mig ef karluglan hefði fengið sér ritvél.
Þetta tókst mér þó að skrifa upp á tæpum klukkutíma, með öllum nauðsynlegum fyrirvörum:
En mér hafði ekkert áunnist. Ég kom heim með drulluga skóna utan og innan, rennblautur í fætur, kaldur og örvæntandi. það var ekki útlit fyrir að ég gæti ort mikið í kvöld. Ég gat aldrei hugsað, þegar illa lá á mér. Ég lagðist niður á hærðan beddann og breiddi yfir mig sængurgarminn, sem var farinn að vera nokkuð óhreinn og lasburða upp á síðkastið. Verið hafði ekki verið þvegið síðan fyrir jólin. En það lagði þó yl um líkama minn undir þessum görmum, sem setti blóðið í mínum þreytta líkama á örari hreyfingu. Ég lá á bakið með blýant og pappírsblað ofar á sænginni og raulaði fyrir munni mér hinar og þessar [] En þetta gekk illa. Mér datt ekkert í hug. Það var meira að segja eins [og] hrynjandi Einars Benediktssonar væri farin að vera mér framandi. Ég örvænti. En þá var eins [og] stífla væri [tekin?] frá hversdagsvitund minni og allt sálarlífið kæmi fossandi neðan úr djúpunum upp í daglegu sálina og hendingarnar komu hlaupandi niður á pappírinn, [einfaldar?], innblásnar, næstum heimskulega [óboðnar?] og eftir lítinn tíma hafði ég ort tvítuga drápu undir fornyrðislagi. Svona á þá að yrkja, hugsaði ég. [Það var nógu einfalt?]. Að víkja skynseminni eins og [til hliðar?] og láta innblásturinn ná valdi yfir sér, þetta var þá allur [galdurinn?]. Og eftir þetta regnþrungna aprílkvöld undir skítugri sæng og drullublautum sokkum og skóna fram á gólfinu orti ég aldrei eina hendingu í anda Einars Benediktssonar. Ég hafði verið byrjaður að skrifa langa ritgerð um kvæði hans [.. mikla], en hætti við það með fyrirlitningu [þess í …]; […] Nei, svona [?] speki gat ég ekki lengur eytt tíma mínum yfir.
En þessi endurfæðing leysti ekki öll vandamál mín við skáldskaparíþróttina. Það sem [?] þá kvaddi mig og [lengi hafði valdið?] mikillar ógleði, var hið væmna [lífs-?] og ástar-vol [annara] skálda. Og skortur þeirra á frumleika í framsetningu og hugsun var mér einnig viðbjóður. Svona væl gat ég ekki fengið mig til að láta sjást eftir mig á pappír. Og ég var of frumlega þenkjandi að eðlisfari til þess að geta ort svona flatt og hversdagslega.
Þessi viðbjóður, sem var engu líkari en morgunklígja óléttri konu, leiddi mig inn í nýja skáldskaparíþrótt, sem ég átti ekkert nafn yfir, en fann síðar að líktist mjög futúrismanum, sem ég hafði þá enga hugmynd um. Og nú fór ég að yrkja í allt öðrum tón en ég hafði áður ort í. En það sem mér gekk verst með, það var að finna nógu [klunnalegt?] og [gasalegt?] orðbragð til þess að hitta hina sentimentölu skáldakynslóð í hausinn, ganga fram af guði og mönnum. Gegn þeirra væmnu bóka[r?]titlum kallaði ég fyrsta kvæðasafn mitt, sem út kom á prenti, Hálfa skósóla og það næsta Spaks manns spjarir. Og þá eitt upprennandi skáld þeirra tíma olli mér margra ára óléttuklígju með því að kalla fyrstu ljóðabók sína Svartar fjaðrir, þá svaraði ég þessu banatilræði með því að kalla þriðja og síðasta ljóðakver mitt Hvíta hrafna. [Ástareyjan … ?? … o.s.frv.] Þetta var uppreisn gegn væmni og frumleikaskorti samtímans. Og fyrir þetta var ég talinn lítið skáld. En sannleikurinn var gagnstæður. Ég var of mikið skáld til þess að geta úthelt mér framan í fjöldann.
– Þórbergur Þórðarson, Stóra handritið bls. 150-153.
Gaman að sjá þessa texta, segi ég fyrir minn hatt.
Nú hef ég ekki lesið Halldór og hef ekki Pétur hjá mér, en er það þannig að handritið sé óklárað? Og hversu stórt er það?! Ertu með original eða ljósrit? Afhverju hefur enginn gengið í að vélrita það?
Og hvað lestu útúr skriftinni?!?
Gangi þér annars vel með ritgjörðina, kv.
Sæll, og takk!
Hafirðu ekki lesið Halldór þá mæli ég eindregið með þeirri bók, ekki síður ef þú ert líka hrifinn af Gunnari.
Handritið er óklárað, varðveitt á bls. 132-428 í tveim stílabókum ögn minni en A4. Notast við ljósrit, hef ekki séð bækurnar sjálfar.
Furða mig sjálfur á því að enginn skuli hafa gefið það út, en því var stungið að mér um daginn að einhver ótilgreindur væri kannski að því. Mig fýsir að vita meira. Þar til annað kemur í ljós hamra ég inn stafræn afrit af því sem gagnast ritgerðinni, sem framanaf hefur raunar verið nær hvert einasta orð.
Hvað les ég útúr skriftinni? Maðurinn var bersýnilega ekki að vanda sig, enda bara frumdrög fyrir hann sjálfan og engan annan. Hann styttir út samtengingar, ‘og’ verður ‘&’ og ‘að’ verður ‘ð’, en það sem fer meira í taugarnar á mér er að hann sleppir oft að skrifa a í miðjum orðum, t.d. ‘þð’ í stað ‘það’. Svo eru sjálfsagt fleiri tiktúrur sem ég á eftir að uppgötva.
Alltaf þegar hann er í þann veginn að ljúka kafla verður rithöndin flausturslegri, einsog hann hafi hugsað: kláraklárakláraklára!! Einsog maðurinn hafði annars fallega rithönd.
Annars hef ég ekkert vit á skrift …
Það má vel gefa þetta út, miðað við textana sem þú birtir. Kannski tvinna eitthvað annað óútgefið með, sem hlýtur að vera til. Þetta er mjög góður texti sé litið til þess að það sé fyrsta draft. Ekki við öðru að búast kannski.
Væri sjálfur til í að hamra þetta inn, hef andskotann ekkert betra að gera.
Það er svo lítið handskrifað núna að bæði listin að skrifa vel og sérstaklega lesa það er örugglega að tapast. Ekki tapast, en þú veist hvað ég á við.
Skriftin mín fer eftir verkfæri og blaði! Annars verður einmitt og oft að g og að þá líka ð. Og þau örfáu sinn sem ég rita langan texta, kemur einmitt þetta kláraklár element inn – mjög pirrandi þegar maður vill hafa það fallegt.
Erla biður ð heilsa!