Ný bók eftir Þórberg komin út

Það hlýtur að teljast til nokkurra útgáfutíðinda að út komi ný bók eftir Þórberg Þórðarsson! Áskrifendur í Klassíska kiljuklúbbnum munu fyrstir manna berja augum rit sem fengið hefur titilinn Meistarar og lærisveinar en bókin sú er byggð á „stóra handritinu“ hans Þórbergs sem er að líkindum uppkast að þriðja bindi skáldævisögu hans. Verkið er skrifað seint á fjórða áratugnum í kjölfar Íslenzks aðals og Ofvitans en þar tekur Þórbergur upp þráðinn þar sem Ofvitanum sleppir og segir frá sjálfum sér allt fram til ársins 1925.

Bókinni verður dreift til áskrifenda á allra næstu dögum en er væntanleg í bókaverslanir í byrjun ágúst.

Arngrímur Vídalín bjó handritið til prentunar en Soffía Auður Birgisdóttir ritar formála.