Leiðarvísir um Borgarbókasafn

Í rúm fjögur ár hef ég starfað á Borgarbókasafni og allan þann tíma hef ég ítrekað hjálpað sama fólki sem virðist fyrirmunað að læra jafn einfaldan hlut og að finna safngögn. Þess vegna langar mig til að skýra flokkunarkerfi Borgarbókasafns í fáum orðum. Það er hið svokallaða danska Deweykerfi.

Fyrsta reglan er að það þarf ekki að læra á flokkunarkerfið sjálft, aðeins hvernig bókunum er raðað. Það þarf semsé ekki að muna að 850 eru fornsögurnar og að 136-168 er kukl/sjálfshjálp. Það þarf bara að muna númerið og finna það. Önnur reglan er að kerfið er til staðar til að einfalda þér leitina, ekki til að flækja hana.

Með þetta í huga má hefjast handa við að skýra kerfið en það er tvíþætt – í Sólheimasafni er það að vísu þríþætt. Fyrst er það flokkurinn, þriggja stafa tala frá 000 upp í 999. Flokkum er raðað í talnaröð frá öðrum enda safnsins til hins. Þá er það höfundur og titill. Höfundum er raðað innan flokkanna eftir stafrófsröð og titlum er raðað í stafrófsröð eftir höfundum. Þannig kemur 994 Þór Ísl (Íslenzkur aðall) á undan 994 Þór Ofv (Ofvitinn), og 994 Þór Ásg (Þórður Kakali eftir Ásgeir Jakobsson) kemur þar á eftir, af því stafrófsröð efri línu yfirskipar þá neðri. Og nei, bókum er aldrei raðað í útgáfuröð.

Þriðji þátturinn sem er einskorðaður við Sólheimasafn er ef bækur eru merktar 4to eða 4° (lesist: kvartó). Það merkir að bækurnar eru af tilteknum stærðarflokki sem hentar ekki venjulegum hillum og því eru þær hafðar sér.

Utan kerfis standa svo skáldverk á íslensku – bæði þýdd og frumsamin. Þeim er aðeins raðað eftir stafrófi. Um stafrófsröð höfunda gildir almennt sú regla að íslenskum höfundum er raðað eftir fornafni en erlendum eftir eftirnafni (þá ber að hafa í huga að Kínverjar bera flestir en þó ekki allir ættarnafn sitt á undan eiginnafni). Skáldsögum á erlendum málum er hinsvegar raðað eftir flokki á undan stafrófi (sem er flokkur fyrir viðkomandi tungumál, t.d. 830 fyrir bækur á ensku, og sama gildir um mynddiska). Þær eru þó oft hafðar í sérhillu utan hefðbundinnar röðunar, t.d. á eftir íslenskum skáldsögum.

Þetta er nú allur galdurinn. Eina sem maður þarf er að kunna að telja og þekkja stafrófið. Flokkarnir byrja á einum enda safnsins og enda hinumegin, og ýmist á undan eða eftir flokkunum eru skáldritin geymd. Þá eru mynddiskar einnig hafðir sér og um röðun þeirra gildir sama og um röðun flokkabóka (þ.e.a.s. bókin The Secret hefur sama flokkunarnúmer og mynddiskurinn og sama gildir um bækur og myndir Davids Attenborough). Eina sem þarf að gera ef manni líst ekki á að leita blindandi í (yfirleitt) litlum myndbandadeildum safnanna er að slá upp viðkomandi titli í leitartölvu og finna númerið. Rest ætti alveg að koma af sjálfu sér.

Það er ekkert að því að biðja um hjálp, ég segi það ekki. En mér finnst alveg sjálfsagt mál að daglegir gestir á bókasöfnin læri þó inn á þetta tiltölulega einfalda kerfi. Önnur kerfi, t.d. það á Landsbókasafni, er hefðbundið Deweykerfi þar sem allt er merkt eftir flokkum. Bæði kerfi hafa sína kosti og galla en okkar kerfi er í það allra minnsta nógu einfalt til að hver sem er ætti að geta lært að nota það á kortéri. Þjálfunin sem nýir bókaverðir fá er altént ekki meiri en sú sem þú fengir ef þú gengir upp að næsta starfsmanni og bæðir um aðstoð við að læra á flokkunarkerfið.