Litlu verður Vöggur feginn

Sumir dagar eru þannig að án þess að gera neitt flytur maður fjöll. Þannig hófst fyrri partur dagsins í dag þegar ég rúntaði hálfsárslega túrinn niður í Mastercard með sömu kankvíslegu tilgerðarhógværð og ég vanalega set upp af tilefninu, vitandi upp á mig sökina að hafa algjörlega trassað að greiða reikningana, og verið drullusama (nokkuð sem ég ætla að bæta úr frá og með nýju ríkisfangi).

Þá hafði ég víst sýnt þá fyrihyggju einhverntíma í fyrra, og steingleymt því, að biðja um að láta skuldfæra kortið á bankareikninginn minn mánaðarlega. Svo ég var alveg skuldlaus. Ég vel að merkja þoli ekki greiðslukort og nota þau aldrei nema til raðgreiðslna, og í haust keypti ég mér tölvu sem ég hélt að ég skuldaði meira eða minna fjórðung í ennþá (ég hef það lágar tekjur að maður tekur ekki eftir því hvort muni 8000 kalli á mánuði, og Reykjavík sendir ekki lengur út launaseðla svo ég sé það ekki þar heldur).

Mér fannst ég hafa grætt nokkuð á fyrirhyggjunni og hélt ósköp glaður á næsta stað að kaupa ferðatöskurnar sem ég tímdi ekki að kaupa deginum áður. Önnur var merkt á 13 þúsund en hin á 11. Þegar ég kom að kassanum kostuðu þær saman 9 þúsund, sem er mér algjörlega óskiljanlegt. En ekki fer ég að kvarta undan svoleiðis prís. Þaðan lá leið mín í bankann að tryggja mér framfærslulán í vetur sem verður greitt mánaðarlega inn á danskan reikning sem ég sæki um í vikubyrjun næstkomandi. Þegar ég kom aftur í vinnuna hafði vinur minn úti boðið mér að hjáleigja herbergið sitt í kommúnu í einhverju úthverfi þar til ég fengi eigin íbúð.

Eftir vinnu tókst okkur pabba svo loksins að:

1. Tæma geymsluna heima hjá mömmu af gamla draslinu hans.
2. Henda því sem henda mátti.
3. Laga voða fínt til eftir okkur svo hennar dót sé aðgengilegt úr öllum áttum.

Af Laugarnesveginum hentumst við svo í Hafnarfjörðinn og skófluðum draslinu af handahófi í geymsluna hér. Þá er flestu því leiðinlegasta aflokið allt á einum degi og ég get hlakkað til þess að kynna flunkunýja sjötíu ára gamla bók eftir Þórberg í Bókabúð Máls og menningar annað kvöld eftir að ég hef gengið frá leigjendaskiptum að skrifstofunni minni í Reykjavíkurakademíunni.

Og enda þótt ég gleymdi alveg að borða í dag þykir mér ekki amalega að verki staðið á einum degi.