Á leiðinni til Álaborgar frá Árósum keyrði lestin á eitthvað og tætti það svo í sundur undir hjólunum. Titringurinn og óhljóðin fundust óbærilega vel og ég grínaðist með að við hefðum keyrt yfir dádýr. Stuttu síðar var tilkynnt í hátalarakerfinu að við hefðum keyrt yfir dádýr.
Álaborg virtist mér vera ágætispláss en hún er smámsaman að deyja. Störfum fækkar og flestir flytja annað til að mennta sig. Þar var ágætisbar sem heitir The Wharf. Bjórinn er afgreiddur úr stórum ámum sem liggja á hliðinni bakvið barinn. Þær eru merktar með heiti og greinargóðri bragðlýsingu. Hvergi hef ég séð annað eins úrval og einsog allir góðir barir var þar reykingalókall.
Við Christian og Mathias gistum þá nótt hjá Olle, sem þó heitir Carsten, í Nørresundby sem liggur hinumegin árinnar, svipað og hvað hinn bærinn heitir hinumegin Lagarfljóts. Við vöknuðum fjórum tímum síðar og ekki grunaði nokkurn okkar þá að þannig ætti það eftir að verða alla næstu viku. Við tókum lestina til Friðrikshafnar og þaðan ferju yfir til Oslóar.
Ferjan Stena Saga, sem var líkari litlu skemmtiferðaskipi en neinni ferju sem ég hef áður tekið, er sérkapítuli í ferðinni allri. Þar var bara gjörsamlega stórfurðulegt fólk, flestir Norðmenn í rossignolúlpum með aflitað hár, mottu og ýstru. Á ellefta dekki mátti komast á netið og þegar ég kom þangað upp stóð hópur af Dönum á nærfötunum sem spurðu hvort þau fengju töskuna mína lánaða. Ég starði á þau og tókst á endanum að æla útúr mér nei. Þau voru víst að leika einhvern leik og þegar hann var búinn skiluðu þau ýmsum hlutum til annarra í rýminu og klæddu sig.
Tveir Norðmenn voru þegar fullir þegar við sigldum úr vör og við teljum að þeir hafi keypt sér miða báðar leiðir. Í lok ferðar voru tveir Norðmenn einmitt kallaðir upp fjórum sinnum því þeir hefðu ekki yfirgefið herbergi sín, sjálfsagt dauðir. Skipið allt var svo smekkleysislega hannað að fá orð leyfa sannleikanum að njóta sín í stuttri bloggfærslu. Á einum margra veitingastaða mátti svo sjá allskonar viðrini vappa milli hlaðborðs og bars skreyttum með veggmyndum af Friðþjófi forvitna einsog við hefðum keypt miða á fríksjó P.T. Barnums.
Þetta var eitt allsherjar fljótandi geðveikrahæli. Barinn á sjöunda dekki var nákvæmlega einsog ég sá fyrir mér barinn í Hinu stórkostlega leyndarmáli heimsins eftir Steinar Braga. Hann hét C-View (!), með eftir því góðu útsýni, að því undanskildu að hann snérist ekki. Diskókúlur hér og þar og yndislega vandvirknislega valin drasldiskólög ómuðu um salinn. Eftir skamma hríð höfðum við þó vanist þessari vitleysu og þegar rigningunni hafði slotað gátum við setið við stafninn, drukkið bjór og beðið eftir að strendur Noregs dúkkuðu upp við sjóndeildarhringinn. Ferðin tók níu tíma í allt.
Ekki beið okkur neitt betra í Osló. Þar settumst við á Kebabstað sem var rekinn af melludólg. Mellurnar stóðu fyrir utan staðinn og strákar á öðru götuhorni reyndu að selja gangandi vegfarendum aðgang að þeim og rapporteruðu svo til kebabmannsins. Til að kóróna dópistana við höfnina mátti svo sjá eitthvert það ótrúlegasta samsafn af forljótum svartleitum háhýsum með ljósaskiltum að kauphöllinni og fljótandi markaðsvirði hlutabréfa fljótandi frá hægri til vinstri á stafrænum skjá engan veginn undanskilinni.
Í Osló komst ég að því að hvorki danski síminn né kortið virka utan Danmerkur. Með þá gleði í hjarta fór ég í partí um borð í skipi við höfnina, sem er einhverskonar partíbátur/bar sem á þar varanlegt aðsetur. Þar hittum við félagar vinkonu eins, Silje nokkra, sem keyrði okkur til Drammen þar sem við gistum þá nóttina. Hún er ásatrúar og ekki síður en fyrir kurteisissakir en fyrir þann sið færðum við henni vodkaflösku fyrir greiðann. Hún átti eftir kom á daginn að hjálpa okkur enn meira þar sem strætósamgöngur í Noregi eru út í hött og óskiljanlegar með því að keyra okkur þónokkra vegalengd að lestarstöðinni klukkan 6 um morgun.
Þannig leið fyrsti einn og hálfur sólarhringurinn í stuttu máli.