Innheimta bókasafna

Sem fyrrum bókavörður get ég ekki orða bundist vegna fréttar þess efnis að lítil telpa í Mosfellsbæ hafi fengið aðvörun um innheimtu frá bókasafninu. Þetta er ekkert nýtt, þótt það sé sérlega viðkvæmt þessi misserin.

Innheimtukerfi allra bókasafna í landsgrunninum er staðlað og sjálfvirkt og hefur verið að minnsta kosti síðan Gegnir var tekinn í notkun. Eftir tiltekinn tíma ef bókum hefur ekki verið skilað er sendur tölvupóstur þar sem minnt er á að skilafrestur sé liðinn. Ótrúlega mörgum foreldrum heykist á að skrá eigið netfang á skírteini barna sinna en það ætti þó að vera skylda bókavarðar að sjá til þess að símanúmer og netföng ábyrgðarmanna séu til staðar. Annars gerist þetta að engin tilkynning berst þar til ítrekun er send í bréfpósti.

Það afsakar auðvitað ekki foreldrana. Bréfleg ítrekun er ekki send nema að tveim mánuðum liðnum frá skilafresti (þótt lánþegar haldi untantekningalítið öðru fram enda er aldrei neitt þeim sjálfum að kenna). En það er aukaatriði, aðalatriðið er hvort réttlætanlegt sé að senda svona bréf til barns. Þar vandast málið, því ef barn á skírteini þá verður bréfið sjálfkrafa stílað á barnið. Hinsvegar verður einnig að líta til þess að ef barni berst bréf frá fjármálastofnun, til dæmis banka, þá dettur vonandi engum í hug að bréfið sé ætlað barninu frekar en forráðamönnum þess. Það sama gildir um bréf frá bókasöfnum.

Annars þykir mér safnstýran svara þessu ágætlega. Það er hárrétt að þegar kemur að sjálfri innheimtunni er bréfið ekki stílað á barnið heldur skráðan ábyrgðarmann. Í kröfunni kemur aftur á móti fram nafn lánþega, kennitala og listi yfir gögn í vanskilum. Svona mál komu oft upp meðan ég vann sem bókavörður og þá var ekkert annað í stöðunni en að reyna að taka á þeim af fagmennsku og sanngirni. Mér sýnist það hafa verið gert í þessu tilviki, enda bíta bókaverðir ekki. Þetta er ansi ljúf stétt.

Það má auðvitað deila um það hvort Intrum sé raunverulega þjónusta sem æskilegt er að bókasöfnin notfæri sér. Sjálfur var ég og er enn alltaf algjörlega mótfallinn því að stunda viðskipti við svoleiðis hrægamma og finnst reyndar alveg skoðandi að binda í lög að smásala á kröfum verði háð ströngum takmörkunum, ef ekki alfarið bönnuð. Það er rétt að það komi fram að bókasöfnin gera þetta ekki til að græða peninga nema síður sé, heldur til að reyna að tryggja að safngögn skili sér þegar öll önnur von er úti. Bókasöfnin ættu að taka þá stefnu til gagngerrar endurskoðunar.

Mér þykir samt helvíti hart að svipta barn skírteininu sínu þótt ítrekunin hafi verið stíluð á barnið. Ef það var ekki öllum ljóst að slík bréf væru stíluð á korthafa, og að öll bréf frá stofnunum stíluð á börn eru eftir sem áður ætluð forráðamönnum, þá vonandi áttar fólk sig á því núna. Vanskilin eru samt sem áður á ábyrgð foreldranna og það ætti ekki að refsa barninu fyrir það. Og einum of oft hef ég séð reiða foreldra draga ringluð börn sín út af söfnum Reykjavíkur segjandi hastarlega að það sé ekki hægt að taka bækur lengur af því „mamma hefur ekki efni á því!“

Ef lesendur lenda í þessu á söfnunum þá er aðeins tvennt sem þarf að hafa í huga: Sjálfvirk tölvukerfi hafa enga samvisku, en það hafa bókaverðir hinsvegar. Úr öllum svona málum má slétta. Ekki láta það bitna á barninu. Það er fátt hollara börnum en að alast upp við bókasöfn.