Nasistinn í veislunni

Meðan íhaldsflokkarnir Venstre og Konservative Folkeparti berjast bæði inn- og útbyrðis við að halda ríkisstjórninni við völd, einsog ég fjallaði um í síðasta pistli, kemur sífellt betur í ljós hvaða afleiðingar það hefur þegar eini vinur manns er nasisti. Meðan Rasmussen og Espersen einbeita sér að spuna, spillingu og lygum í þingsal er það Dansk Folkeparti sem hefur hin raunverulegu völd bakvið tjöldin, enda ef ríkisstjórnin samþykkti ekki allar þeirra hugmyndir yrði lítið eftir af stjórninni, og ólíklegt er að nýr meirihluti yrði myndaður án þess að boðað yrði til kosninga.

Þetta þýðir að tekist hefur að berja ótrúlegustu hluti í gegnum þingið. Það nýjasta á stefnuskránni eru tvær hliðar á sama málefni sem samkvæmt flestu óbrjáluðu fólki myndi kallast að loka landamærunum að innan sem utan. Fyrri hliðin er hið svonefnda stigakerfi sem senn verður tekið upp í Danmörku. Það felur í sér að fólk utan evrópska efnahagssvæðisins þarf að afla sér tiltekið margra stiga, sem það getur unnið sér inn með ýmsu móti, áður en það fær dvalarleyfi í Danmörku. Það þýðir ennfremur að hafi manneskja dvalarleyfi í Danmörku gildi það ekki sjálfkrafa um maka viðkomandi nema að uppfylltum sömu skilyrðum.

Nauðsynlegur fjöldi stiga er 120 stig fyrir fólk undir 24 ára aldri en 60 stig fyrir fólk yfir 24 ára aldri. Stigakerfið sjálft er aftur það ósanngjarnt að það er nær ógjörningur fyrir nokkurn mann að standast kröfurnar. Til dæmis fær iðnmenntuð manneskja sem talar ensku aðeins 20 stig, af því menntunin er ekki metin til neins nema hún sé fengin úr klassískum háskóla eða viðskiptaháskóla. Þannig skín ekki einvörðungu í þjóðernisstefnu stjórnvalda heldur menntahroka einnig, og það liggur berlega í augum uppi hvaða afleiðingar hið nýja kerfi kemur til með að hafa fyrir konur frá þeim löndum heimsins þar sem réttindi þeirra til allra handa eru hvað ákafast barin niður. Hér er verið að færa jafnan rétt allra til ráðandi stétta og kynja þeirra landa sem Danmörku þóknast ekki, og það er öllu alvarlegra áhyggjuefni en þeirra fáu sem þó láta í sér heyra, en það eru aðallega háskólakennarar frá Bandaríkjunum, Asíu og miðausturlöndum sem óttast að þeir fái ekki að hafa fjölskyldur sínar hjá sér.

Ennfremur, ofan á stigakerfið, þarf manneskja sem vill „flytja inn maka sinn“ að eiga 100.000 danskar krónur á bankareikningi, af einhverjum ástæðum, og að hafa unnið jafngildi fullrar vinnu í tvö og hálft ár af síðustu þrem árum áður en makinn fær leyfi til að koma. Þessar kröfur eru auðvitað ekki nokkurri manneskju bjóðandi.

Þetta mál varðar okkur öll sem búum hér en þó fer hvorki mikið fyrir almennum viðbrögðum né sértækum, að undanskildu háskólasamfélaginu. Háskólarnir bæði í Kaupmannahöfn og Árósum hafa brugðist harkalega við hinum nýju lögum og varað við því að þau kippi starfsgrundvellinum undan fótum þeirra, enda snúist háskólastarf að miklum hluta um samstarf hins alþjóðlega þekkingarsamfélags, nýjar hugmyndir, framþróun, tækni. Að hrista þessar stoðir er hálft skref aftur til miðalda á sviði vísinda og þekkingar og ef loka á gáttinni að utan innávið er mikill auður hafður af dönsku samfélagi þegar vísindamenn hugsa sér heldur annað ef það þýði að þeir geti lifað eðlilegu lífi með sínum fjölskyldum.

Seinni hliðin er svo hinsvegar sú að stefnan er einnig tekin á að setja höft á stúdenta sem nema í Danmörku. Þeir sem ljúka meistaraprófi eða hærri gráðu mega ekki starfa utan Danmerkur næstu fimm ár eftir útskrift, nema þeir samþykki að endurgreiða alla námsstyrki sem þeir hafa þegið af ríkinu áður. Slíkir styrkir, sem hingað til hafa verið veittir til að styrkja danska vinnumarkaðinn, velferðar- og menntakerfið, verða nú hrifsaðir tilbaka af þeim eigingjörnu sem sjá atvinnu- eða menntatækifæri annarsstaðar.

Stefna dönsku ríkisstjórnarinnar er því ekkert annað en það sem heitir vistarband á góðri íslensku. Loka á landamærunum útbyrðis fyrir ljótum og leiðinlegum útlendingum, fyrir vanþakklátum lattélepjandi stúdentaræflum innbyrðis. Það kaldhæðnasta er ef til vill það, að þrátt fyrir mannfjandsamlega stefnu Danmerkur í innflytjendamálum, þá koma hingað yfrin öll af erlendum stúdentum. Sumir þessara stúdenta fá að vera hér nógu lengi til að öðlast réttindi til námsstyrks frá ríkinu, sem síðan mun hrifsa hann tilbaka aftur í sömu andrá og þau verða rekin úr landi fyrir að uppfylla ekki stigakerfið góða.

Ætli lærdómurinn sé ekki sá að ef eini vinur þinn er nasisti, þá er betra að sleppa veislunni en að bjóða honum í hana.

Birtist fyrst á Smugunni 13. desember.