Misskilningur Sölva Tryggvasonar

Á náttborðinu mínu um jólin var að finna tvær bækur eftir indverska heimspekinginn Jiddu Khrisnamurti, Fátækt Fólk eftir Tryggva Emilsson, en Lífsleikni Gillz var þar líka.

[…]

Ég skil ekki fólk sem þarf að hefja sig yfir það sem þeim ekki líkar. Ég geri mitt og þú gerir þitt. En mitt er ekki fínna eða merkilegra.

Ég held að Sölvi Tryggvason sé eitthvað að misskilja. Gillzenegger er ekki lágmenning, og ég held að fáum detti í hug að kalla hann lágmenningu. Menn sem upphefja staðalmyndir og ýta undir kvenhatur dagsdaglega eru ekki lágmenning fyrir menningarelítu að meta á vogarskálunum sötrandi freyðivín; maður sem stingur upp á að nauðga femínistum er ekki þrepi lakari á menningarkvarðanum en sá sem stingur upp á ástarleik með kærustunni, einsog einskonar Rómeó fátæka mannsins.

Það er einfaldlega engin menning til að umlykja fábjánaskapinn og mannfyrirlitninguna sem skín gegnum orðræðu Gillzeneggers, burtséð frá því hvort hann eigi að vera paródía eða ekki – paródían virkar einfaldlega ekki vegna þess að hann er alveg jafn ekta og allir aðrir sem hugsa og tjá sig eins, hinir raunverulega hættulegu slordónar mannfélagsins, náungar einsog Jón stóri:

er það að gefa manni smá clue að kærastan sé of ung ef hún tekur nammið út úr sér og geymir á maganum á manni meðan hún gefur manni blowjob??:D

Í stað þess að hugsa krítískt smástund velur Sölvi heldur að hjóla í ímyndaða elítu sem telur sig yfir hann hafna, einsog þetta sé einhver spurning um menningu, og blandar saman raunverulegu umkvörtunarefni sínu – viðtökum bókar hans um Jónínu Benediktsdóttur – við öllu alvarlegra umræðuefni. Mætti sú bók eitthvað lakari viðtökum en slíkar bækur almennt? Ekki varð ég var við það. Og hvað þó þessi blessaða bók hafi ef til vill fengið vonda gagnrýni og selst illa, var það ekki hans val að semja við N1 um að selja hana eingöngu á bensínstöðvum án möguleika á vöruskilum? Sölvi heldur kannski að „menningarelítan“ hampi okkur örmum ljóðskáldum betur, en ef hann heldur það þá er það rangt. Ég veit ekki betur en að bókin hans hafi fengið gríðarlega athygli, svo þessar umkvartanir hans um hámenningarelítu eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Svo ásakar hann alla aðra en sjálfan sig um að snobba fyrir leiðindum.

Nú má Sölvi alveg kvarta einsog hann vill fyrir mér og hafa sínar skoðanir, en það að bera Gillzenegger saman við American Idol og Erp Eyvindarson er einfaldlega alveg úti í móa. Þegar hann setur Gillzenegger upp á stall með afþreyingarefni í sjónvarpi og listamanni á borð við Erp gerir hann sig sekan um að réttlæta eitthvert það alvarlegasta sálarmein sem fyrirfinnst í þjóðfélaginu, og ber það saman við það sem hann sjálfur kallar „léttmeti“. Nei, Sölvi, það sem Gillzenegger stendur fyrir er alls ekkert léttmeti. Þá er nú skömminni skárra að hampa leiðindum en kvenhatri.