Aðeins meira um umsóknina

Ég held ég hafi aldrei verið eins stressaður á ævinni einsog fyrir doktorsumsókninni, utan þegar umsóknin mín um meistaranám lá inni hjá Árósaháskóla og ég vaknaði upp við þann vonda draum að ég hafði ekki sinnt áfanga Gísla Sigurðssonar og Vilborgar Davíðsdóttur um munnlega hefð í Íslendingasögum. Ég var skráður í 5 áfanga á þeirri önn, sem var mín síðasta í BA-náminu, svo það var vandasamt að einbeita sér að öllu í einu.

Dag einn rankaði ég við mér við lestur á einhverju póstmódernísku rúnki og uppgötvaði að ég átti að skila viðamiklu rannsóknarverkefni þann daginn, sem var forsenda próftökuréttar og þar af leiðandi útskriftar minnar. Ég sendi Vilborgu póst og gekk svo um gólf í hálftíma í paníkkasti milli þess sem ég endurhlóð pósthólfinu mínu aftur og aftur. Eftir það féll ég stirður í rúmið og gat mig hvergi hrært uns ég lognaðist útaf. Daginn eftir beið mín svarbréf frá Vilborgu og mér var gefinn þriggja daga aukafrestur, sem bjargaði mér fyrir horn. Ég sinnti verkefninu illa en skilaði því þó af mér. Síðustu jól sat ég aftur í stressi með sama verkefni en sinnti því þó sómasamlega í það skiptið.

Síðustu mánuði hef ég nokkrum sinnum gengið um gólf einsog síðasta vor og hef þurft á öllu mínu að halda til að sinna vinnunni minni. Ólíkt því sem margir kynnu að halda trúi ég því nefnilega statt og stöðugt að ég sé hálfviti sem hefur ekkert í þetta að gera. Það er aðeins rétt inná milli sem ég fyllist eldmóði. Svo lengi hefur félagsleg skilyrðing gagnfræðaskólaáranna enst mér. Það er eiginlega fyndið að „hópamyndun unglinga“ er talin áhættuþáttur í starfi lögreglunnar en ekki í gagnfræðaskólum. Almennt er ég þó ekkert sérstaklega neurótískur, en ég fer hinsvegar ekki ofan af því að hárið á mér hefur misst lit síðustu fjóra mánuði. Það enda tekur á að vinna 12-16 tíma vinnudaga í þriðjung úr ári.

Og þannig er það þá að eftir fjögurra mánaða törn þekki ég mig varla í spegli. Ég hef fitnað og gránað og svo hef ég rakað mig í fyrsta sinn síðan 5. nóvember. Baugarnir eru þó ögn að minnka og svefnvenjurnar að komast í lag eftir að læknirinn minn knái, Ib Åsbjørn Fallesen, skrifaði upp á melatónín fyrir mig. Góður kollegi í Árnastofnun í Kaupmannahöfn sem var svo góður að mæla með mér í doktorinn er raunar í svipuðum pakka. Ætli þetta fylgi ekki starfinu. Enda þá þegar maður er byrjaður er ekki nokkur vegur að hætta. Í verkefnastaflanum núna liggur umsókn til Rannís, grein í Skírni og örfáar bækur. En næst á dagskrá er smá frí áður en ég fer yfirum.

Minn eigin Schrödinger

Umsókn um doktorsnám við Árósaháskóla hefur verið send af stað. Svo mikið er víst að án þeirrar góðu aðstoðar sem ég hef notið væri útlitið öllu svartara, svo burtséð frá því hvernig til tekst á ég mörgum skuld að gjalda. Gott er að eiga góða að.

Umsóknarferlið má kalla heiðarlega tilraun til að missa vitið. Rannsóknarvinnan að baki umsókninni hefur staðið yfir síðan í nóvemberbyrjun og henni lauk tímabundið í dag á hádegi þegar umsóknarfresturinn rann út. Allan þennan tíma tók ég mér tvo frídaga. Þá varði ég síðasta mánuðinum að mestu í að semja sjálfa umsóknina og svaf varla allan tímann. Ég get þá leyft mér smá frí.

Þar með er hafið 3-4 mánaða ferli sem ég hef ekki stjórn á og þá er gott að geta einbeitt sér að einhverju öðru. Umsóknin liggur í læstu rúmi sem inniheldur tvær andstæðar úrlausnir í senn, minn eigin Schrödinger. Zenón heldur um tímaglasið. Þegar allt liggur fyrir í sumar verð ég búinn að pústa nóg út til að leggjast í þá vinnu sem fylgir hvorri úrlausn fyrir sig: að leggjast í fjögurra ára rannsóknarstarf, eða endurtaka ferlið frá upphafi.