Reglurnar í Árósaháskóla eru þær að sé tímasókn skikkanleg (75% eða meiri) fá nemendur sjálfir að velja sér prófspurningu, en að öðrum kosti er efnið valið fyrir þá. Misjafnt er svo hvernig prófað er eftir áföngum, ýmist munnleg próf, ritgerðir eða hvorttveggja í senn. Áfanginn Norræn goðafræði frá miðöldum til nútímans var af síðastnefndu sortinni, og ýmsir bekkjarfélagar mínir voru mér klókari í undirbúningi fyrir prófið.
Hver og einn átti að skila inn fimm blaðsíðna greinargerð og þá standast munnlega vörn fyrir verkið. Ég hef áður setið slík próf við HÍ og hafði nú engar stórfelldar áhyggjur af þessu, enda hafði ég skrifað um efni sem ég hef talið mig ansi fróðan um: heimildir og fræðilegt gildi þeirra. Þegar ég heyri orðin „munnlegt próf“ geri ég ráð fyrir ákveðnu ferli spurninga og svara sem nemandinn svo er metinn útfrá.
Á fimm blaðsíðum tókst mér að súmmera upp hérumbil hverja einustu heimild sem til er um norræna goðafræði, auk kosta þeirra og galla í fræðilegu tilliti. Þegar ég svo fór að gera grein fyrir þessu í prófinu gekk ég í retóríska bjarnargildru. Hún virkaði nokkurn veginn svona:
Ég fullyrði að engin varðveitt heimild sé æðri annarri, og að við þurfum að taka þær allar til greina. Það felur í sér að ég hafna því að unnt sé að rannsaka norræna goðafræði án þess að taka hverja einustu heimild sem við á, eftir tilfellum, til greina. Þær heimildir fela í sér ritaðar heimildir, á bókfelli og klappaðar í stein, frá fjölbreyttustu tímabilum (allt frá Gallastríðum Sesars til íslenskra sagna), auk örnefna og fornleifa – svona í grófum dráttum. Ómögulega er unnt að taka fornleifar til greina nema á forsendum fornleifafræðilegrar aðferðafræði.
Án þess að þessi, eftir á að hyggja augljósa, keðja orsaka og afleiðinga væri orðuð kom óhjákvæmilega spurningin:
„Þú segir að þverfagleg vinnubrögð séu nauðsynleg. Geturðu nefnt okkur dæmi um hvernig slík vinnubrögð skila okkur betri niðurstöðu?“
Þar lá hnífurinn í kúnni: það fyrirfinnst varla nokkur einasti fræðimaður á þessu sviði sem ástundar þverfagleg vinnubrögð, ef nokkur yfirhöfuð, svo það var ekki úr mörgum dæmum að velja. Einhver dæmi hefði ég ef til vill haft frá sjálfum mér ef ég stundaði ekki alfarið sagnarannsóknir utan kennslustofunnar, svo ég vissi ekki beinlínis hvar ég ætti að byrja.
Þegar ég svo hafði málað mig endanlega útí horn var dómurinn sá að ég hefði sýnt af mér tilkomumikla þekkingu á efninu, en ekki að ég kynni að beita henni til neins. Ég var gjörsamlega jarðaður.
Þegar ég svo gekk út mætti ég Kananum í bekknum. Hann hafði samið heilan fyrirlestur og glærusýningu. Algjörlega brilljant lausn sem ég vissi ekki einu sinni að væri leyfileg. En reglurnar segja víst að þótt meistaranemar megi ekki hafa með sér glósur í munnleg próf, þá séu vissar undantekningar á því – til dæmis ef maður er með glærusýningu!
Lexían er þá væntanlega sú að maður á aldrei að ganga að neinu sem vísu. Sú lexía kemur raunar helst til seint. Það eru engin önnur munnleg próf eftir á mínum námsferli.