Til að byrja með er rétt að taka það fram að mér finnst umfjöllun íslenskra fjölmiðla um málefni Guðbergs Bergssonar vera bjánaleg og full af vanvirðingu. Þetta snýst ekki um peninga, og kemur heldur engum í raun við. Aðalmálið er að Guðbergur missti manninn sinn, og hann ætti að fá að vera í friði með það.
Hinsvegar get ég ekki annað en brosað út í eitt af fréttum þess efnis að hann sé að erfa flugvöllinn í Alicante. Kannski finnst Guðbergi bara svona fyndið að atast í íslenskum blaðamönnum. En með smá rannsóknarvinnu kemur eftirfarandi í ljós:
Kona Pedro Salinas, föður Jaime Salinas, sambýlismanns Guðbergs, átti land sem var tekið eignarnámi til að byggja á flugvöll eftir að hún lét lífið í borgarastyrjöldinni. Afkomendur þeirra hjóna héldu þó áfram að búa á landareigninni, sem heyrir undir flugvallarsvæðið, og búa þar enn. Lagaþræturnar snúast um hvort fjölskylda móðurinnar eða föðurins eigi réttinn að landinu.
Svo vill til að deilan um eignarréttinn snýst óhjákvæmilega um flugvallarsvæðið í heild sinni einnig. En Guðbergur á tæpast möguleika á neinu sérstöku tilkalli til þess, og ef svo fer að fjölskylda Salinas fær hluta af landinu tilbaka, þá kaupir spánska ríkisstjórnin landið hreinlega af þeim einsog um hefðbundið eignarnám sé að ræða. Svo Guðbergur er í raun að fara þangað til að afsala sér mögulegu tilkalli til þessarar jarðar.
Fæstar fjölskyldur sem sættu þjóðnýtingu Francos hafa enn fengið landareignir sínar tilbaka, og sama gildir í þessu máli. Stærsta fréttin hlýtur því að vera sú að Guðbergur er ekki skíthæll sem beitir lagaklækjum til að reka fjölskyldur á dyr þótt hann hljóti gegnum arf afskaplega vafasamt tilkall til hluta landareignarinnar. En við gátum svosem öll sagt okkur það.
Ég óska íslenskum fjölmiðlum til hamingju með árangurinn. Heimildavinna er víst ekki öllum gefin.
Æ þúst, þaerso hrikaleg ervit að fletta upp dóti. Eða eitthvað.
Heill og sæll ágæti Arngrímur ungi Vídalín. Tek undir fróðleik þinn um málavöxtu alla um þetta undarlega mál, sem ég er þó viss um að Guðbergi sjálfum, þeim netta húmorista og engilmanni, að sögn Málfríðar Einarsdóttur í Samastað hennar í tilverunni, finnst það dulítið húmorískt að þannig hfi farið að úr varð saga …
Saga af manni sem fékk flugvöll í höfuðið
… þannig getur ein fluga orðið að flugvelli.