Þrjár breytingar á orðnotkun

1. Að vera sáttur við eitthvað. Í mínum huga merkti þetta alltaf að hafa sætt sig við að eitthvað væri kannski ekki eins gott og við væri að búast, t.d. „nýjasta GusGus platan er ekki eins góð og allir sögðu, en ég er sáttur við hana.“ Árið 2001 heyrði ég þetta fyrst notað með öfugum formerkjum. Þá hafði vinur minn fundið gamlan leðurjakka sem hann var „heavy sáttur með“, í merkingunni að hann var stóránægður. Síðan þá hef ég rekist á þetta víða, og mér sýnist meginreglan vera sú að sé atviksorði skotið framan við þá það mjög jákvæða merkingu að vera sáttur. Ég hef þó líka heyrt þessu fleygt á gamla mátann með nýju merkingunni, en þá er viðkomandi jafnan sáttur með eitthvað en ekki við.

2. Eitthvað er snilld. Held ég hafi fyrst heyrt þetta kringum 1997 á X-inu 9.77. Þá var sagt að eitthvað lag væri „gargandi snilld“. Þetta er orðið rótgróið núna, og eldri kynslóðir eru farnar að segja þetta, en ég man að þetta kom mér á óvart. Áður var snilld einhvers fólgin í hluta einhvers, en ekki heild þess, t.d. „snilldin við Strawberry Fields felst í skiptingunni milli tóntegunda frá intróinu yfir í viðlagið“. Núorðið er jafn algengt að það sé heildin sem er snilld.

3. Að kunna að meta eitthvað. Þetta læt ég fylgja með að gamni af því það náði aldrei fótfestu, svo ég viti. Þá höfðu nokkrir vinir mínir tekið upp á því að nota þetta orðalag yfir allt sem þeim fannst frábært. „Ég kann að meta þá mynd“ merkti „þessi mynd er frábær“. Fyrir mér fól orðalagið þó alltaf í sér niðrun gagnvart viðmælandanum, einsog hann kynni ekki að meta myndina líka – sem er einmitt upphafleg merking. Sá sem ekki kann gott að meta veit einfaldlega ekki betur. Upphafleg merking getur líka borið með sér þakklæti, „ég kann að meta hjálp þína“, en það er sjaldgæft og getur virst hálfafsakandi.

Þetta er auðvitað aðeins mín túlkun. Það væri gaman að heyra frá lesendum (ef einhverjir eru) hvað þeim finnst.