Eldvarnahátíðin mest

Það var hátíðleg stund þegar órigamístjörnunni var smeygt yfir toppinn á jólatrénu.
Að jólum loknum (já, þau eru búin sama hvað þið segið) eiga þrjú fjögurra á heimilinu kindil. Védís átti svoleiðis fyrir sem hún fékk keyptan fyrir sig í Kanalandi og okkur Eyju leist svo vel á tækniundrið að við gáfum hvort öðru svoleiðis í jólagjöf. Tækið er mjög hvetjandi til lestrar þótt hætt sé við að maður viti ekki almennilega hvar maður eigi að byrja; ég er þegar kominn með fleiri tugi fræðirita sem ég átti fyrir (og forðaðist að lesa af tölvuskjá) auk örfárra skáldsagna og ljóðabóka inná kindilinn minn, sem tjáir mér á móti að ég sé búinn að lesa 43% af fyrstu bókinni. Þetta er fislétt og frábær græja sem ég mæli hjartanlega með við hvern sem er. Kindill kemur þó ekki beinlínis í staðinn fyrir bækur hvað mig varðar, hann er öðru fremur viðbót.

Forlagið er farið að dunda sér við rafbókaútgáfu núna, en einhverra hluta vegna selja þau ekki bækur sem hægt er að lesa á kindli. Þar til ég heyri rökstuðning fyrir því hvers vegna vinsælasta lestölvan er undanskilin ætla ég að leyfa mér að finnast það heimskulegt, ekki síst vegna þessa:

Þegar þú ert búin að hlaða Adobe Digital Edition niður í tölvuna og ert komin/n með Adobe ID þá virkjar þú forritið með því að fara í Library og velja Authorize Computer. Þetta þarf einnig að gera við önnur tæki sem á að nota. Þú getur lesið rafbækurnar þínar á þeim tækjum sem þú virkjar með Adobe-notandanafninu þínu.

Kindill er ansi vesenlaus samanborið við þetta.

Vitlaus tími
Eldvarnahátíðin hefur líka verið nokkur spilahátíð í ár. Við höfum spilað Kjaftöskju og Dixit, sem er eiginlega sama spilið nema Dixit er miklu skemmtilegra, og Ticket to Ride: Europe, sem líkja mætti við einfaldað Risk með járnbrautarlestum. Mæli með þessu öllu. Þá fékk ég nýja Fimbulfamb í jólagjöf sem tekið verður í bráðlega; vona að það sé ekki síðra en það gamla.

Lítið um kók og nammi þessi jól, þó. Sumarið er tíminn til að drekka kók skilst mér og það hlýtur eiginlega að vera. Ég hef ekki drukkið nema eitt glas af svoleiðis yfir hátíðarnar og man raunar ekki hvaða mánuður var þegar ég drakk það þar áður. Ég endist heldur ekkert við nammiát núorðið og forðast eftirrétti einsog heitan eldinn. Veit ekki hvort ég eigi að sakna þessara hluta eða ekki. Í öllu falli á ég voða bágt með að njóta þeirra.