Titlatog

Þá eru komnar athugasemdirnar við Cand. Mag. ritgerðina og eina sem er eftir er að fara yfir ritverkið með þær til hliðsjónar áður en ég skila inn endanlega. En það er þetta með titilinn, ég veit ekki hvað ég á að kalla þetta. Að einhverju leyti er þetta titlasnobb, ég játa það alveg, en fyrst og fremst er þetta þó spurning um að rétt skuli vera rétt – þetta er tæpast MA ritgerð nema hún heiti það.

Danskar háskólagráður fylgja flóknari nafnareglum en íslenskar. Meistarapróf í hugvísindagrein er þannig Cand. Phil. (sbr. gráðan sem Íslendingar fengu á árum áður ef þeir luku heimspekilegum forspjallsvísindum) nema aukagrein sé tekin með (ég tók sagnfræði aukalega) og þá verður það Cand. Mag. Svo mér finnst óþægilegt að kalla þetta MA, þótt að öllu leyti sé gráðan samt bara venjulegt meistarapróf. Sumir kalla þetta einfaldlega kandídatspróf en fæstir skilja einu sinni hvað það þýðir (á Íslandi eru allir brautskráðir stúdentar hvort sem er með BA eða MA gráður kandídatar, en í Danmörku eru aðeins meistarar kandídatar).

En svo er þetta allt saman að breytast hvort eð er svo ég veit í raun ekki hvort gráðan mín fylgir nafnahefðinni eða ekki. Raunar skilst mér að enginn við Árósaháskóla viti það almennilega þar sem prófskírteini eru ekki gefin út þar, svo ég get líklega allteins kallað mig úmglobb í norrænum fræðum. Skólastigið er þó kennt við kandídat eftir hefðinni og því er líklega öruggast að kalla þetta Cand. Mag. uns annað kemur í ljós. Venjulega skipti þetta engu sérstöku máli nema fyrir það að það er svona betra að vita það þegar maður sækir um framhaldsnám, svo allt sé nú örugglega rétt. Lúxusvandamál? Nei, það nær því ekki einu sinni.

En semsagt: athugasemdirnar eru komnar í hús. Ég gef mér nokkra daga til að fara yfir þetta og sjá að hve miklu leyti mér finnst taka því að breyta ritgerðinni úr því sem komið er (það mun enginn lesa hana hvort eð er). Ég hef lítinn áhuga á að staldra við þetta en þeim mun meiri á að halda áfram, eða einsog ég reyndi að útskýra fyrir góðviljuðum ættingjum mínum sem vildu fagna með mér BA prófinu: fagnið seinna, ég er ekki búinn!

Raunar, þegar ég hugsa út í það, þá vona ég að ég hitti aldrei manneskju sem telur sig vera búna. Hvað er þá eftir?

One thought on “Titlatog”

  1. Þegar ég loksins lauk helvítis doktorsprófinu fannst mér ég loksins hafa fattað hvernig ég ætti að fara að því að læra eitthvað af viti. Ég tek undir áhyggjur af fólki sem telur sig einhvern tíma búið að læra allt, þótt það hafi kannski lokið formlegu námi innan skólakerfis. Mér finnst svo að þú ættir endilega að kalla þig úmglobb, hvort sem það er í norrænum fræðum eða einhverju öðru. Þeim sem fara yfir umsóknir þínar um doktorsnám er vonandi kunnugt um merkingu Cand. Mag. og gagnvart öðrum ætti ekki að skipta máli hvað gráðan heitir. Meistari Arngrímur hljómar samt dálítið smart.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *