Ég er farinn að halda að Árósaháskóli vilji alls ekki losna við mig, slíku dauðataki heldur hann í mig. Sagan hefst á því að ég skilaði ritgerðinni minni í mars, einsog lög gerðu ráð fyrir. Langur tími leið, líklega 4-5 vikur, uns ég fékk athugasemdir tilbaka frá leiðbeinanda, nokkuð sem ég var orðinn efins um að ég fengi yfirhöfuð. Það hefði bæði verið auðvelt og erfitt að fylgja þeim eftir til hlítar, en ég var bundinn af blaðsíðufjölda sem ég hafði þegar yfirskriðið og í kapphlaupi við tímann, svo á endanum gerði ég lítið við athugasemdirnar. Ég skerpti aðeins á röksemdafærslu hér og þar, bætti við dálitlu efni og setti aðeins skýrari fyrirvara við verkið (sem ég sé eftir að hafa gert núna). Ég skilaði ritgerðinni aftur í maí, til leiðbeinanda, nokkuð á eftir áætlun.
Svo fékk ég bréf frá leiðbeinandanum mínum. Mánuði síðar. Hann sá ástæðu til þess að spyrja mig hvort ég hefði ekki örugglega skilað ritgerðinni. Hann átti víst ekki að fá ritgerðina heldur skrifstofa skólans, og hann einfaldlega gerði ráð fyrir að ég vissi það svo hann gerði engar athugasemdir við það þótt hann fengi ritgerðina aftur í pósti. Svosem ekki mikið mál, að ég hélt. Ég sendi ritgerðina á skrifstofuna. Ekkert svar. Í Danmörku getur það vitað á allt gott og illt milli himins og jarðar að fá ekki svar við tölvupósti. Einu sinni sat ritgerð eftir mig mánuðum saman á skrifborði hjá manneskju af því það vantaði eyðublað með henni. Engum datt í hug að hafa samband við mig eða kennarann í það skiptið.
Og viti menn, tveim vikum síðar spyr leiðbeinandinn mig hvort ég hafi ekki skilað eyðublaði með ritgerðinni. Þar hófst eltingarleikur við meint eyðublað sem entist nokkra streituvaldandi daga. Enginn vissi hvaða eyðublað það væri sem vantaði eða hvar ég gæti fengið téð eyðublað. En það voru hreinar línur að það vantaði eyðublað. Án þess yrði ritgerðin ekki lesin hvað þá annað. Ég sendi bréf til nýrrar konu á skrifstofunni (öllu fyrirkomulaginu er breytt á tveggja ára fresti og í hvert sinn er skyldum eins starfskrafts jafnan deilt á fleiri; nýja konan virtist þá vera býrókratinn sem tekur við ritgerðum og eyðublöðum). Þrír dagar liðu án svars, svo ég hringdi í hana. Hún varð reið og sagðist myndu svara bréfinu þegar hún hefði tíma! Þegar svarið barst síðla sama dag sagði hún ekki annað en að það vantaði eyðublað. Ég sendi henni annað bréf og spurði hvaða eyðublað það væri og hvar ég gæti nálgast það. Ekkert svar.
Til að gera langa sögu stutta þá á endanum varð nýja konan alveg foxill sökum endalausra fyrirspurna minna um keisarans skegg og leyfði mér að skila ritgerðinni án eyðublaðsins sem ég aldrei fékk úr skorið hvar ég eiginlega fengi eða til hvers væri. Þetta var 14. júní og hún sagði að skólinn áskildi sér þrjá mánuði til að meta ritgerðina; einkunn bærist eigi síðar en 14. september. Í fyrradag hringdi leiðbeinandinn í mig á Skype og sagði að búið væri að meta ritgerðina mína, en ég hefði gleymt því að hafa útdrátt á öðru tungumáli fremst í henni og að ekki væri hægt að útskrifa mig án hans. Það væri í reglunum.
Ég skrifaði eina blaðsíðu á dönsku og var tilbúinn með hana sama dag. Daginn eftir kemur í ljós að leiðbeinandinn veit ekki hvort útdrátturinn eigi að vera á dönsku eða ensku, þar sem honum hefur verið tjáð hvorttveggja af sömu manneskjunni (nýju konunni á kontórnum) og nú segir hann þrjár blaðsíður en ekki ein. Eftir óvenju snörp bréfaskipti við konuna á kontórnum varð ljóst að útdrátturinn á að vera þrjár blaðsíður og má vera á ensku eða dönsku af því ég var fyrst skráður í skólann 2009 (síðan þá hefur heildarfyrirkomulaginu verið breytt að minnsta kosti tvisvar og deildin mín leyst upp inn í einhverja allt aðra deild).
Nú vona ég bara að þau taki sér ekki aðra þrjá mánuði í að registrera jafnmargar blaðsíður sem engu bæta við heildarverkið. Ég held ekki að nein stofnun nokkru sinni hafi lagt jafn marga steina í götu mína af eins lítilfjörlegu tilefni. Hálft ár horfið fyrir eyðublað og útdrátt. Maður hefði haldið að það mætti redda öðru eins á einni viku í mesta lagi (til samanburðar skilaði ég BA-ritgerðinni þegar ég var búinn með hana og fékk einkunn; flóknara var það nú ekki). Þrátt fyrir allt er ég nokkuð vongóður um að ég fái að útskrifast úr meistaranáminu einhvern tíma áður en ég ver doktorsritgerðina.
Og öllu þessu hefðir þú getað komist hjá ef þú hefðir bara byrjað á að lesa reglurnar og gert þetta rétt frá upphafi ;o)
Þeim finnst þú bara vera svo góður nemandi.Þér gefur líka verið svo góður í náminu þarna úti.