Fjórða heimsveldið – spennusaga

Trixið við að skrifa „fræðitrylli“ á við bækur Dans Brown er að hafa á hreinu einhverja eina hugmynd frá tilteknu tímaskeiði. Sú hugmynd er síðan tekin bókstaflega og yfirfærð á nútímasamfélag á tilteknum tíma. Síðan bætir maður við leynifélagi sem vill vernda þessa hugmynd, vegna þess að hún er leyndarmál, með öllum tiltækum ráðum. Aðallega samt með því að drepa leikmenn sem komist hafa að samsærinu. En einsog í Scooby Doo, þá mistekst þeim ætlunarverk sitt sökum einhverra afskiptasamra aðkomumanna.

Í okkar tilviki er það einhver fræðimaður sem þekkir aðeins kanóníseraða útgáfu hugmyndarinnar, en kemst fljótlega að leyndarmálinu – vegna þess einmitt að leynifélagið hefur myrt einhvern sem hann var kunnugur í gegnum fræðin. Okkar maður er í fyrstu fenginn til aðstoðar í málinu (af því ef einhverjir eru lögreglunni betri í að leysa morðmál, þá eru það tákn- eða sagnfræðingar) en verður síðan grunaður um að vera vitorðsmaður, ef ekki morðinginn sjálfur. En að lokum þá sigrar hann hinn aldagamla, morðóða karlaklúbb.

Ein svona hugmynd eru heimsveldin fjögur sem talað er um í spádómum Daníels í Biblíunni. Á miðöldum var sú hugmynd túlkuð sem svo að eftir fjórða heimsveldið myndi heimurinn farast, Kristur sneri aftur til að dæma lifendur og dauða mitt í stærsta stríði veraldarsögunnar á milli allra mannlegra afla og Andkrists. Fyrsta heimsveldið samkvæmt þessari túlkun var Babýlónía, næst Persaveldi, þá Grikklandsveldi Alexanders mikla, og loks Rómarveldi. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvort það hafi ekki verið þægilegt eftir fall vestrómverska ríkisins á 4. öld að enn væri hægt að tala um austrómverskt ríki allt fram á 15. öld.

En: Hvað ef Róm var ekki fjórða heimsveldið? Hvað ef það eru sjálf Bandaríkin, og hvað ef Hvíta húsið er í rauninni angi af Musterisriddarareglunni og forsetinn sjálfur stórmeistari hinnar elstu stúku sem enn varðveitir Gralið? Þegar Lehman Brothers hrynur til grunna haustið 2008 stendur heimurinn allur á öndinni, en Hvíta húsið fer á yfirsnúning. Allir paníkera. Þekktur sagnfræðingur við Smithsonian kemst að hinu sanna í málinu en finnst myrtur við Lincolnminnisvarðann – kennileiti sem á eftir að spila stóra rullu í lok sögunnar.

Trúarbragðasagnfræðingurinn Kenneth MacNamara er fenginn bæði sem karaktervitni og fyrrum kollegi hins myrta sagnfræðings, en einnig sakir sérfræðiþekkingar á undarlegri stellingu sem líkið finnst í, en vinstri fótur vísar í austur meðan sá hægri er snúinn í norður. MacNamara ídentíferar stellinguna sem obskúr útgáfu af einhverjum skrattanum úr Rig Veda og allt í einu upphefst æsilegur eltingarleikur þar sem hann hittir óvænt einhverja kynþokkafulla en harða konu sem bjargar lífi hans tvisvar, hann hennar þrisvar, og sem mun leysa gátuna með honum að lokum en síðan hverfa úr lífi hans rétt einsog fyrrverandi konurnar hans átján og kristalshauskúpan. Eltingarleikurinn færir þau meðal annars til Íslands þar sem kenningar Einars Pálssonar koma að góðum notum og Árnastofnun brennur undan flýjandi fótum þeirra fyrir tilverknað illvirkjanna úr Washington.

Það sem ég vildi sagt hafa: ein lítil hugmynd kemur manni ansi langt. Það þarf ekki meira en þessa einu hugmynd og svo má styðjast við formúluna. Og nú gef ég þessa hugmynd hverjum sem skrifa vill. Þannig að ef Fjórða heimsveldið eftir Óttar Martin birtist skyndilega fyrir næstu jól, þá þætti mér það bara gaman.

Nýtt Kalmarsamband

Þetta blogg er í tilefni af umræðum sem ég átti í (á Facebook, hvar annarsstaðar?) um Ísland og Evrópusambandið. Ég vil, í fullri alvöru, leysa upp norrænu þjóðríkin (Grænland og Færeyjar eru kannski ekki tilbúin, en ég vil endilega hafa þau með; Finnland sem alltaf líður útundan má líka vera með, og Eistland sakir mægða við Finna). Í stað þjóðþings kjósum við héraðsstjórnir líkt og yfirsveitarstjórnir, undir sameinuðu þingi og ríkisstjórn nýs Kalmarsambands.

Þetta er ekki í andstöðu við Evrópusambandið líkt og Norðurríkjabandalagið sem stundum hefur verið lagt til, heldur í andstöðu við tilgangslaus þjóðríki. Ég vil nefnilega samt að hið nýja ríki fái að kjósa um aðild að Evrópusambandinu, og helst vil ég sjálfur að það gangi í sambandið. Framtíðin liggur í samvinnu á milli þjóða en ekki í heimóttarskap.

Þannig hljóðar hið heilaga orð.

Rauðar pöndur í rennibraut

Hljóðin af leikskólanum eru óviðjafnanleg þennan morguninn. Ein stúlkan hefur fundið upp víbrandi hljóð sem kalla mætti sonic burst ef finna ætti lýsandi heiti, og önnur tvö börn virðast ætla að skila raddböndunum aftur út í náttúruna þar sem þau munu samlagast íslenskum jarðlögum um aldur og ævi. Öll eru hljóðin þó með krúttröddum barna sem hefur svipuð áhrif á mig og að sjá myndband af rauðum pöndum að leika í rennibraut. Svo þetta er gott.

Ég er ennþá sigri hrósandi síðan í gær eftir að ég fékk góða dóma fyrir verk mín og álpaðist í kjölfarið til að lesa téð verk í fyrsta skipti síðan í apríl. Er eðlilegt að þykja ótrúlegt að maður hafi skrifað eitthvað? Ég er ekki að tala um síhangandi Damóklesarsverð impostorsyndrómsins, heldur að ég meðtek svo mikið af upplýsingum dag hvern að ég gleymi stórum hlutum úr eigin rannsóknum. Sennilega er allt þetta ferli þjálfun í að hugsa stórt. Ég er enn bara að læra. Eins gott líka að ég haldi áfram að læra. Ég er megamaskína núna samanborið við sjálfan mig fyrir ári. Þá þóttist ég vita allt og þykist þó vita helmingi minna núna.

Ætti ég endalausa peninga myndi ég kaupa mér fleiri Loebklassíkera (ég á þrjár bækur af 520). Mest langar mig í Evsebíus, Beda og Ágústínus og bíð í ofvæni eftir að fleiri komi út eftir Heródótos. Ætti ég endalausa peninga myndi ég raunar kaupa mér allt settið. Og hús í Kaliforníu. En í augnablikinu myndi ég alveg sætta mig við að eignast restina af Plíníusi og þá hina fyrrnefndu.

104

Það er hætt við að bloggið deyi ef maður passar sig ekki; til þess þarf maður að hætta að gera þessar endalausu kröfur til sjálfs sín og bara blogga um allt þetta sem aldrei verður ódauðlegt.

Bloggið um Reza Aslan var mest lesna færslan á þessu ári en ég hef ekki nennt að blogga framhaldið. Áhugasamir geta þó fengið álit fræðimanns á Jesúbókinni hans hér, í Huffington Post af öllum stöðum.

Við Eyja höfum étið töluvert í sumar fyrir öll gjafakortin sem við fengum í brúðkaupsgjöf utan eitt, og svo höfum við ferðast smáræði líka. Í vikunni sem leið vorum við í Borgarfirði, þeim íslenskasta hluta Íslands. Stelpurnar fóru í sund fyrsta daginn og á öðrum deginum spyr styttra barnið mig hvað eigi að gera þann daginn. Þar sem við vorum jú í Borgarfirði fékk hún tvo valkosti (og hvorugan góðan, kom í ljós): Annað hvort að skreppa í Reykholt að skoða Snorralaug, eða á Landnámssetrið í Borgarnesi.

Orð þurfti ekki til svars þar sem svipurinn réði úrslitum. Í stað menningarlegrar innrætingar hafði ég barnið með í búðarferð sem lyktaði með ístúr í fyrrum Hyrnuna, nú musteri ins helga Bjarna byskups ór Enneinum. Tókst þó að sýna henni haug Skalla-Gríms, minnst spennandi staðinn í samnefndum garði hvað hana snerti, og taka einn rúnt um Brákarey. Ég lagði nú ekki í að segja henni frá Brák. Kannski þegar hún er orðin aðeins stærri og/eða áhugasamari um þessa durga, forfeður okkar.

Dagarnir fara í pauf við skrifborð. En ég er glaður. Framundan eru svo flutningar í póstnúmer sem ég bjó síðast í 1990. Það er gott póstnúmer en austarlegar gæti ég ekki búið í þessari borg.