Rófulausa kisan hennar ömmu

Þetta er ekki minning sem ég á, heldur saga sem ég heyrði snemma af sjálfum mér.

Þegar ég var lítill karl einsog það heitir á Akureyri, tveggja eða þriggja ára, hafði ég dálæti á loðhúfu ömmu minnar. Ég hélt nefnilega að hún væri köttur. Kettir hafa ætíð verið uppáhaldsdýrin mín, og einsog kettir var loðhúfan með skott.

Í hvert sinn sem við komum til ömmu bað ég um að fá að sjá kisuna, og amma færði mér loðhúfuna. Það er til mynd af mér, sitjandi með húfunni á ganginum í Byggðaveginum, andaktugur á svip. Það var ekki lítils virði að geta klappað kisu sem vildi láta klappa sér.

Ég veit ekki að hve miklu leyti mér var þetta ljóst frá upphafi, en dag einn dugði ímyndunin ekki lengur og við þá uppgötvun að kisan væri loðhúfa tók ég mikið reiðikast, sleit af henni skottið og kastaði henni út í horn, sat svo í fýlu lengi á eftir. Ég vildi ekki heyra eða sjá þennan bannsetta gervikött uppfrá þessu.

Rófulausa kisan hennar ömmu situr held ég ennþá í hattahillunni hennar, jafnvel eftir flutninga. Ég held að henni hafi þótt sagan tengd húfunni of kostuleg til að hún tímdi að henda henni.

Þegar ég fór í sjónvarpið

Sum augnablik gleymast aldrei. Allir kannast við að heyra sjálfa sig á segulbandi í fyrsta skipti, en öllu verra getur verið að sjá sjálfan sig í sjónvarpi.

Ég var í sjöunda bekk þegar sá afleiti sjónvarpsþáttur Pílan hóf stutta göngu sína (í minningunni var það bara þessi eini þáttur). Þetta var spurningakeppni milli grunnskóla og okkar bekkur átti að keppa í allra fyrsta þættinum. Fyrir okkar bekk kepptu Reynir, Björk og Siggi Hólm. Ég var fúll að hafa ekki verið valinn, en það reyndist mér heilladrjúgt miðað við það sem síðan gerðist.

Í þennan plebbalega þátt bárust uppdiktuð bréf frá börnum í vandræðum (svipað og lesendabréf „einnar í klandri“ til Æskunnar), og áhorfendur gátu gefið ráð. Þáttarstjórnandinn las fyrir okkur bréf frá stúlku sem þorði ekki að nota hjólabrettið sitt af ótta við stríðni. Auðvitað vildu allir sjást í sjónvarpi. Líka ég. Svo ég var einn þeirra sem rétti upp hönd til að peppa upp hjólabrettastelpuna. Ég man að ég labbaði heim úr Sjónvarpshúsinu við Laugaveginn bara nokkuð ánægður með kvöldið.

Þegar þættinum var sjónvarpað viku síðar fékk ég áfall. Ég er með nokkuð áberandi framstæðan kjálka og var örlítið viðkvæmur fyrir því á þessum tíma. Ég var líka með gríðarlegan varaþurrk og var með hvítan varasalva einsog fjallamenn nota. Og ég hafði hrikalegan talgalla. Í ofanálag hafði ég ekkert að segja í hljóðnemann. Svo þarna sat ég og fyllti út í sjónvarpsskjái velflestra landsmanna og leit út og hljómaði einsog fífl.

Það þýddi ekkert að reyna að ljúga því að mér að svarið mitt hefði verið best, eða að ég hefði litið vel út á skjánum. Það er hrein og klár staðreynd að ég virtist hvorki búa yfir hálfri hugsun né virtist ég vera almennilega fær um að tala, með asnalega rödd og var auk þess einsog trúður í framan. Ég varð sjálfum mér reiður fyrir að hafa ekki áttað mig á því að ég hefði ekki átt neitt erindi í þetta.

Mér var aldrei strítt á þessu. En ég varð staðráðinn í því að sama hversu fíflalega ég kynni að líta út eða koma fyrir (þrátt fyrir að vera nær aldrei strítt var ég töluvert viss um að öllum þætti ég vera asnalegur fæðingarhálfviti) þá skyldi ég laga það sem ég þó gæti haft stjórn á. Og þegar voraði hafði ég losað mig við talgallann.

Ég er enn að kljást við hann. Fólk segist ekki taka eftir neinu þegar ég tala, en ég tek eftir því. Ég kími þegar ég heyri útvarpsviðtöl við sjálfan mig. Þar heyri ég í tólf ára mér gegnum yfirvarpið. Mér líður ennþá einsog ég sé bara að feika þetta, að allir hljóti að sjá mig einsog ég sá sjálfan mig í sjónvarpinu. Það er stundum auðvelt að gleyma því að geti maður tólf ára umvent talfærum sínum á þrjóskunni einni, þá getur maður ýmislegt.

Ég er því á vissan hátt þakklátur þessu hörmungarprógrammi Pílunni fyrir þessa óbærilegu spegilmynd af mér og þætti bara gaman ef einhver græfi þetta upp núna og setti á YouTube, en á sama tíma velti ég fyrir mér hvaðan eiginlega þessi lélega sjálfsmynd mín var sprottin.

Vetur í 5. bekk

Ég er minntur á veturinn í fimmta bekk þegar við Arnar vinur minn gengum að því er virðist hvern saman heim, stundum til mín en oftar til hans. Það er alltaf mesti vetrarveturinn í minningunni. Við dóluðum okkur á leiðinni, lékum okkur í snjónum, og þegar heim var komið settum við ketilinn á helluna og biðum þess að tappinn flygi af (hann gerði það einstaka sinnum). Við drukkum hvor tvo til þrjá bolla af Swiss Miss með sykurpúðum og átum hvor tvær ristaðar brauðsneiðar með osti og sultu. Dag eftir dag. Þetta eru alltaf hátíðlegustu vetrarminningarnar mínar.

Æskuminningar – tvær huggunarsögur og hálf

Þegar ég var á fjórða ári og pabbi sótti mig til ömmu á maríunni í aftakaveðri. Félagar hans í löggunni skiluðu okkur út sennilega á horninu á Skeiðarvogi og Gnoðarvogi, þar sem við bjuggum, en þaðan er smáspotti að dyrunum. Ég átti bágt með veðrið og veðurofsinn hafði fljótt af mér paprikuskrúfupokann minn (af tegund sem ekki fæst lengur). Ég sá skrúfurnar fjúka út um allt og hafði ekki orðið vitni að öðru eins óréttlæti. Pabbi plantaði mér volandi í stofusófann, breiddi sæng yfir mig, setti spædermanspólu í vídjótækið og lofaði hátíðlega að hann myndi sko kaupa miklu stærri skrúfupoka handa mér. „Og köku?“ spurði ég. Já, og köku. Þetta efndi hann, að kökunni undanskilinni. Ég þurfti heldur enga köku.

Þegar ég stóð 4-5 ára í marki á leiktúninu í Piacenza meðan bróðir minn og pabbi skoruðu hvert markið á fætur öðru. Ég var gríðarlega óhress með þetta, svo pabbi lét einn vaða beint á mig svo ég gæti nú örugglega varið eitthvað. Það tókst, en ekki betur en svo að ég tókst á loft með boltanum og hafnaði inni í markinu, háorgandi. „Sjáðu, þú vannst okkur,“ sagði pabbi í huggunartón. „Þú varðir boltann.“ Hann hélt á mér heim.

Hversu hræddur ég var við slönguna í baðkerinu. Slangan var hvirfillinn sem myndast þegar tappinn er tekinn úr baðkeri. Einhvern tíma æddi ég upp úr baðkeri í tryllingslegum ótta þegar tappinn var fyrirvaralaust tekinn upp úr því. Ég fyrirskipaði að þetta mætti ekki, ég ætti að vera kominn upp úr fyrst. Þá leit ég í kerið og sá þar sem slangan byrjaði að liðast upp úr niðurfallinu og vagga höfðinu við yfirborðið, áreiðanlega vonsvikin að hafa enn eina ferðina misst af mér. Aldrei reyndi neinn að skýra fyrirbærið fyrir mér, ég hef sennilega ekki orðað óttann nógu skýrt. Ég man ekki hversu gamall ég var þegar ég hætti að óttast slönguna, en ég man síðast eftir að hafa velt henni fyrir mér fimm ára.