Rófulausa kisan hennar ömmu

Þetta er ekki minning sem ég á, heldur saga sem ég heyrði snemma af sjálfum mér.

Þegar ég var lítill karl einsog það heitir á Akureyri, tveggja eða þriggja ára, hafði ég dálæti á loðhúfu ömmu minnar. Ég hélt nefnilega að hún væri köttur. Kettir hafa ætíð verið uppáhaldsdýrin mín, og einsog kettir var loðhúfan með skott.

Í hvert sinn sem við komum til ömmu bað ég um að fá að sjá kisuna, og amma færði mér loðhúfuna. Það er til mynd af mér, sitjandi með húfunni á ganginum í Byggðaveginum, andaktugur á svip. Það var ekki lítils virði að geta klappað kisu sem vildi láta klappa sér.

Ég veit ekki að hve miklu leyti mér var þetta ljóst frá upphafi, en dag einn dugði ímyndunin ekki lengur og við þá uppgötvun að kisan væri loðhúfa tók ég mikið reiðikast, sleit af henni skottið og kastaði henni út í horn, sat svo í fýlu lengi á eftir. Ég vildi ekki heyra eða sjá þennan bannsetta gervikött uppfrá þessu.

Rófulausa kisan hennar ömmu situr held ég ennþá í hattahillunni hennar, jafnvel eftir flutninga. Ég held að henni hafi þótt sagan tengd húfunni of kostuleg til að hún tímdi að henda henni.