Meistaraverk æskuáranna III: She's All That

Sjá áður í syrpunni:
I. Backdraft er ennþá málið
II. Lilli klifurmús er sjálfselskur kúkalabbi.

Paul Walker og Freddie Prinze Jr. beita unga stúlku andlegu ofbeldi til að sýna fram á hversu æðislegir þeir eru
Paul Walker og Freddie Prinze Jr. beita unga stúlku andlegu ofbeldi til að sýna fram á hversu æðislegir þeir eru

Aftur svindla ég á reglunum þar sem aldrei hefur verið hægt að halda því fram að She’s All That sé meistaraverk þótt mér hafi þótt hún áhorfanleg þegar ég var á fyrsta ári í menntó, auk þess að menntaskólaárin teljast varla til æskuáranna. Þessi mynd fær að fljóta hérna með því ég fékk þá hugmynd á dögunum að kíkja á hana aftur, í fyrsta sinn síðan ég var sextán ára.

Hún hefur ekki elst vel. Raunar hefur aldur ekkert með það að gera; svona myndir eru aldrei í lagi.

She’s All That (1999) fjallar um átján ára hönkið Zack (Freddie Prinze Jr.) sem er eins nálægt því að vera guð og hægt er í skólanum sínum. Alla ævi hefur hann verið algjörlega vammlaus og heyrt til einhverjum æðri klassa af manneskju en skólafélagarnir, þar til daginn eftir vorfrí á lokaárinu í gaggmenntó (high school) að kærastan hans Taylor (Jodi Lyn O’Keefe) — sem er flottasta stelpan í skólanum, sem gert er skýrt í myndinni að er hlutverk en ekki hlutlægur veruleiki, þannig að hún er þrátt fyrir allt skörinni lægra sett en hann sem er fæddur fullkominn — segir honum upp fyrir framan allan skólann, svo að segja, því hún hefur tekið saman við Matthew Lillard af öllum mönnum.

Það að Zack og Taylor eru ekki jafningjar kemur þegar fram í því að hlutverk sætustu stelpunnar er að vera viðhengi sætasta stráksins. Þegar Taylor hefur dömpað Zack gerir hann veðmál við ungan Paul Walker (sem verður að segjast að átti eftir að verða myndarlegri með árunum) um að hann geti gert hvaða stelpu sem er að heimkvámudrottningu sinni á lokaballinu (því vitað er að hann verður kóngurinn, það er enginn annar eins og hann í skólanum). Og þetta tekst! Svona framan af að minnsta kosti. Taylor tapar öllum vinsældum sínum af því hún er ekki lengur viðloðandi Zack, hybris hennar er að telja sig standa honum jafnfætis á grundvelli fegurðar sinnar og vinsælda og því lætur hún hvarvetna eins og hún eigi staðinn, en tapar fyrir vikið vinsældum sínum og vinum. Hún verður drottning í lokin en svo er komið fyrir henni þá að þegar hún heldur bitra heimkvámuræðuna er slökkt á míkrófóninum svo enginn þurfi að hlusta á hana.

Stúlkan sem Zack á að umbreyta úr lúða í læðu er listabrautartýpan Laney (Rachael Leigh Cook), sem vill í fyrstu ekkert með hann hafa og sýnir honum fram á með vandlætingu sinni á honum að enn geti hann bætt um betur. Þó er það að mestu leyti hann sem mótar hana og gott betur en það, í mynd fyrrverandi kærustunnar (þetta sést á því þegar þær hittast í fyrsta skipti og hann hefur keypt á hana sams konar kjól og sú fyrrverandi er í), og öll þeirra samskipti fara fram meira eða minna á hans forsendum. Stundum með valdi (ekki líkamlegu, þó).

Ekki bætir úr skák að allir krakkarnir í myndinni eru ógeðslegt Kaliforníuyfirstéttarpakk. Þau eiga sér engin vandamál, sjást aldrei læra heima, hanga á ströndinni, halda partí í einbýlishúsum með innréttuðum neonljósum á fjórum hæðum, aka um á rándýrum bílum. Það er einmitt svona fólk sem elst upp í því að niðurlægja og ráðskast með fólk af sér lægri stigum, eins og Zack sést ítrekað gera í myndinni. Það eina sem hann þarf að hafa áhyggjur af er hvort stúlkan vilji samt elska hann þótt hann hafi gert hana að tilraunadýri í ógeðslegu veðmáli og það hvaða ivy league háskóla hann eigi að velja (Yale, Dartmouth, Harvard …) því þeir hafa allir tekið við honum áður en lokaprófin eru einu sinni hafin, af því efristéttarfólk þarf ekki að fá einkunnir.

Öll myndin gerir út á þessa sérstöðu Zacks. Aldrei verður hann fyrir neinum neikvæðum afleiðingum af hátterni sínu, nema því þegar Laney verður skúffuð út í hann í svona kortér fyrir að hafa veðjað útliti hennar og stéttarstöðu að henni forspurðri. Eina önnur konfrontasjónin er þegar pabbi hans segir honum að það sé misskilningur að hann ætli að stjórna því í hvaða háskóla hann fari (með öðrum orðum: „Þú ræður mér ekki pabbi!“ — „Uh, ég er ekkert að reyna að ráða þér.“ — „Ó, úps, sorrí!“), og þegar Paul Walker ákveður að reyna sjálfur við Laney, með þeim afleiðingum raunar að hún hrekst aftur í fangið á þeim sem minna úrþvættið er.

Það er ekkert gott við þessa mynd. Hún reynir að vera gagnrýnin á firringu en endar á því að upphefja dramb, ofneyslu, stéttskiptingu, andlegt ofbeldi og þá einkum og sér í lagi manipúlasjón og andlegt niðurbrot.

Í lok myndarinnar fara Laney og Zack í sleik eins og ekkert hafi í skorist (en þá er Paul Walker nýbúinn að reyna að nauðga henni í afviknu hótelherbergi) og Zack lýsir því yfir að kannski ætli hann bara að slaufa háskóla og gerast gjörningalistamaður (sbr. hin eftirminnilega hakkísekkssena, sem reynist vera grútléleg þegar maður sér myndina aftur). Þetta getur hann því skólinn er núna eiginlega búinn og að honum loknum er enginn eftir til að tilbiðja hann. Hann, sem er algjörlega hæfileikalaus á sviði lista, getur samt sem áður stigið niður á plan konunnar sem hefur ekki lagt stund á myndlist nema lungann úr stuttri ævi sinni. Nú eru þau jöfn, reynir myndin að segja okkur. Nei. Það eru þau ekki. Við vitum nefnilega að í raun ætti myndin að heita He’s All That.

Meistaraverk æskuáranna II: Dýrin í Hálsaskógi

Lilli lofsyngur sjálfan sig. Marteinn er ekki alveg að fíla þetta.
Lilli lofsyngur sjálfan sig. Marteinn er ekki alveg að fíla þetta.

Strangt til tekið telst þessi færsla ekki með því hún fjallar um leikrit í stað kvikmyndar og kemur aðeins inn á eitt atriði. Ég áttaði mig nefnilega ekki á því fyrr en í dag að Lilli klifurmús er heldur illa liðinn í Hálsaskógi og það af gildri ástæðu: Lilli er sjálfselskur ónytjungur.

Þegar Amma mús heimsækir Martein skógarmús torgar hún ekki allri kökunni sem Marteinn býður upp á og leggur til að hann bjóði vini sínum Lilla klifurmús upp á afganginn með sér. Marteinn virðist lítið spenntur fyrir þeirri hugmynd: „Finnst þér að ég eigi að gera það?“ spyr hann.

Þegar Lilli svo mætir óboðinn í næstu andrá neitar hann að hlusta á áhyggjur Marteins af Mikka ref því hann vill syngja honum vísu, sem fjallar um Lilla sjálfan og hversu æðislegur hann sé, útskýrir Lilli. Í vísunni kemur líka fram að Lilli er landeyða sem lifir á öðrum í stað þess að leita sér sjálfur matar, og af þessu er hann stoltur. Þegar Marteinn þakkar honum flutninginn með semingi treður Lilli upp í sig restinni af kökunni og fer á brott.

Áður en Lilli flytur vísuna tekst Marteini þó að nefna að hann ætli að semja lög sem ná eiga yfir öll dýrin í skóginum, og Lilli spyr hvort þau eigi að gilda um sig líka, eins og honum þyki það ekki alveg augljóst. Eftir að Lilli er farinn semur Marteinn lögin:

1. Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir
2. Ekkert dýr má borða annað dýr

og svo eins og í beinu framhaldi af leiðindaheimsókn Lilla:

3. Dýr sem ekki afla sér sjálf matar mega ekki sníkja hjá öðrum

Þessi augljósu tengsl eru aldrei aftur nefnd í leikritinu, en ljóst er að Lilli áttar sig aldrei á því að þetta ákvæði gildi neitt sérstaklega um sig. Þegar þeir Marteinn og Bangsapabbi ákveða að kynna þessi ákvæði fyrir dýrunum treður Lilli bara í sig hunangskökum Bangsamömmu og yfirgefur fundinn eins og þetta komi sér ekki við. Og þegar Mikki refur eigrar um soltinn eftir gildistöku laganna og veit ekki hvað hann á af sér að gera ráðleggur Lilli honum að fara í heimsóknir! Óafvitandi hvetur hann Mikka til að brjóta lög, en Mikki stelur heldur svínslæri af bóndahjónum sem reynist afdrifaríkt, því leit þeirra að sökudólgnum færir þeim í hendurnar Bangsa litla.

Eftir að Bangsa er bjargað með ráði og dáð Mikka seinna í leikritinu áttaði ég mig skyndilega á því að Lilli er eins og óþolandi krakki sem enginn hefur áhuga á að viðurkenna. Þeir Marteinn hjálpast nefnilega að við að bjarga Bangsa en aðeins Marteini er þakkað, en Lilli mætir afgangi þegar Bangsapabbi áttar sig skyndilega og segir: „Já, og þú líka Lilli.“ Svona er þetta í öllum senum þar sem þeir Marteinn koma báðir við sögu, þá er Marteini hrósað en Lilli er eins og ofvirkur á meðal dýranna að reyna að fá athygli líka. Það er eins og vísurnar hans séu frekar umbornar en hitt — þær eru sannarlega ekki umbeðnar.

Af þessu dreg ég þá sjokkerandi ályktun að Lilli klifurmús þyki af hinum dýrunum í skóginum vera heldur leiðinleg týpa, ónytjungur og leiðindaskarfur sem lifir sníkjulífi á samfélaginu og sífellt er eitthvað að trana sér fram. Ekki nóg með það heldur er það skelfilega augljóst hvar sem gripið er niður í leikritið að Lilli er hvergi aufúsugestur, heldur er hann umborinn af sársaukafullri meðvirkni samfélags sem á við nógu skelfileg vandamál að stríða þótt hinir kúguðu sláist ekki innbyrðis líka.

Meistaraverk æskuáranna I: Backdraft

Ég hef sennilega alltaf verið þannig týpa sem sá fortíðina í hillingum. Gott ef ég var ekki harðlega ásakaður um nostalgíu fimmtán ára í unglingavinnu á Borgarspítalanum. Sennilega hafði ég sagt eitthvað um að ef (og aðeins ef) DVD-diskar tækju við af spólum, þá yrði engin stemning lengur í því að fara á vídjóleigur. Já, ég var svona forhertur. Að sama skapi var gullöld kvikmynda fyrir mér einmitt þeir tveir áratugir sem höfðu einna mest mótandi áhrif á mig, níundi og tíundi áratugurinn. En hvernig eru kvikmyndirnar sem ég ólst upp við raunverulega? Hvernig líta þær út öllum þessum árum síðar? Það er það sem mig langar til að kanna núna í bloggflokki um meistaraverk æskuáranna. Byrjum á Backdraft (1991).

backdraft

Backdraft fjallar um tvo bræður í Chicago sem hafa allt álíka mikið niður um sig. Brian (William Baldwin) er uppgjafarslökkviliðsmannsnemi (supercalifragilistic …), misheppnaður sölumaður og kaupahéðinn, sem í blankheitum snýr aftur á æskuslóðirnar á laun. Hann klárar námið og gerist slökkviliðsmaður til að feta í fótspor föðurins, en hann hefur dreymt um að verða eins og hann síðan í æsku. Hann dragnast með þann djöful að hafa sem strákur orðið vitni að hörmulegum dauða föðurins í eldsvoða, þar sem hann fórnaði lífinu til að bjarga vinnufélaganum Adcox (Scott Glenn), sem ásamt með eldri bróðurnum gengur Brian í föðurstað. Sá eldri, Stephen (Kurt Russell), er farinn frá konu og barni og býr í óhaffærum bát föðurins í einhverri urð við skipaskurðinn þar sem hann dundar sér við að tæma innihald Budweiserdósa milli þess sem hann þykist vera sterkur og læst sem hann vorkenni ekki sjálfum sér. Honum finnst allir misskilja sig, konan fyrrverandi, vinnufélagarnir og einkum litli bróðirinn sem ætti að vera honum þakklátur fyrir alla leiðindastælana. Stephen er svona kristslíki sem ber heiminn á herðunum jafnvel þó að enginn kæri sig um það.

Í sönnum bróðernisanda hagar Stephen því þannig að Brian endar í sinni slökkviliðsdeild í þeim tilgangi að draga úr honum gorgeirinn og fá hann til að sjá að stóri bróðir hafi rétt fyrir sér um að hinn sé sko ekkert slökkviliðsmaterial. Á meðan verða dularfullar íkveikjur mönnum að bana tvist og bast í borginni. Hinum lítt geðþekka Alderman Swayzak (J.T. Walsh) sem berst fyrir borgarstjórastólnum er mikið í mun að leysa þau mál, en fyrir hann vinnur hin forkunnarfagra Jennifer (Jennifer Jason Leigh) sem jafnframt er fyrrum kærasta Brians, og saman fá þau Brian til liðs við íkveikjurannsóknarmanninn Skugga (Robert de Niro) — svona eftir að Stephen hefur tekist að lemja úr honum metnaðinn og fá hann til að hætta í slökkviliðinu eins og hann stefndi að. Upphefst þá spennandi atburðarás þar sem draugar fortíðar lúra í hverju horni.

Mér finnst alveg lygilegt hvað þessi mynd hefur elst vel. Backdraft er spennumynd í gæðaflokki sem ekki sést lengur, þar sem persónur eru vel mótaðar og áhorfandinn fær þá tilfinningu þegar í upphafi að þær hafi verið til löngu áður en myndin hófst. Togstreita persónanna er sannfærandi, þar sem Brian tekst aldrei að verða það sem hann vill verða, en Stephen bróðir hans hefur löngu tekið föðurnum fram í starfi og um allar hetjudáðir en gleymir því að vera mennskur. Hann er því eins konar Skalla-Grímur ef Þórólfur bróðir hans væri wanker.

Myndin býr til vissa mýtólógíu um eldinn sem er vel útfærð. Stephen tönglast á því að hann „þekki eldinn betur en nokkur annar, betur en pabbi“ og því muni „eldurinn aldrei ná“ honum. Donald Sutherland leikur íkveikjubrjálæðing sem spyr Brian hvort „eldurinn hafi séð“ hann þegar hann „tók föður“ hans. Robert de Niro segir eldinn vera lífveru, sem éti og andi og hafi sjálfstæðan vilja; það sé ekki eldsmaturinn sem stýri för hans, til að sjá við honum þurfi að þekkja hann. Þessar senur auka allar tilfinningu okkar fyrir persónunum, og sömuleiðis þá tilfinningu að í heimi myndarinnar þurfi maður að vera nett klikkaður til að sýsla við eld ef þetta er þankagangurinn. Þeir eru allir dálítið eins og Vincent D’Onofrio í CSI: Criminal Intent.

Backdraft er full af æðislegum leikurum og einhvern veginn verður William Baldwin þolanlegur þeirra á meðal. Scott Glenn er alltaf flottur og aðdáendur Jennifer Jason Leigh kætast þótt ekki sé hlutverk hennar í myndinni beisið, meðan þeir reyna að rifja upp hvað hafi orðið af henni í seinni tíð. Kurt Russell er ágætur í því að vera Kurt Russell í þessari mynd þótt ég kunni nú alltaf best við hann í The Thing (svo óverdósaði hann á sjálfum sér í Tombstone sællar minningar („And Hell’s coming with me, you hear me! HELL’S coming WITH ME!“) og hefur varla sést síðan). Bestir í myndinni eru þeir Hróbjartur og Andrés og kemur það sennilega fæstum á óvart. Einnig leikur í myndinni náunginn sem lék lögguna í Reservoir Dogs. Þið megið giska á hvort fari betur fyrir honum í þessari mynd en hinni.

Tæknibrellur eru til mikillar prýði og lokasenan í efnaverksmiðjunni hefur setið í mér alveg síðan ég sá myndina fyrst, sennilega 1992. Í kjölfarið langaði mig til að verða slökkviliðsmaður en síðan hef ég lagt aðeins minni áherslu á það. Síðan er líka alvöru 90’s montage með aulahrollsvekjandi tónlist og svipmyndum af æfingum slökkviliðsmannanna og daglegum störfum þeirra. Ég áttaði mig á því á meðan að fyrir tuttugu árum fannst mér ekkert athugavert við þessa senu, en núna líður manni hálfilla undir henni.

Mat mitt er að Backdraft sé ennþá besta slökkviliðsmynd allra tíma ásamt með The Towering Inferno. Ekki að ég hafi séð þær margar. Sem spennumynd er hún næsta gallalaus, þótt á köflum efist maður um að raunveruleg slökkvilið einkennist af jafn flausturslegum vinnubrögðum. Leikurinn er almennt góður og persónurnar og þeirra keppikefli eru sannfærandi. Í lok kvikmynda birtast stundum upplýsingar á formi texta um hvernig persónum reiðir af eftir að mynd lýkur, stundum kemur þar fram tiltekinn boðskapur sem áhorfandinn á að hafa með sér út úr sýningarsalnum (eða inn á vídjóleigu þegar hann skilar myndinni), en í lok þessarar myndar er okkur tjáð að í Bandaríkjunum séu eitthvað um hundrað milljón slökkviliðsmenn starfandi. Ég veit ekkert hvað ég á að gera við þær upplýsingar, hvort það þýði að persónur myndarinnar séu bara dropi í eitthvert allsherjar haf sálarangistar og erfiðra fjölskylduaðstæðna, eða hvort manni eigi að vera sama þótt það fari illa fyrir sumum í myndinni því svo margir séu eftir, nógu margir til að gera heila seríu af Backdraftmyndum.

Registur síðustu mánaða

Einhverjum kann að þykja það skjóta skökku við að ég flutti til Kaupmannahafnar í þrjá mánuði til að sinna handritarannsóknum, en hafði frá engu að segja allan tímann á meðan sem mér þótti nægilega markvert. Annars vegar felst það í því að ég hef áður búið í Danmörku og gjörþekki það samfélag, þannig að fáar nýjungar urðu á vegi mínum meðan á dvölinni stóð; hins vegar liggur það í hlutarins eðli að í vinnuferðum gerir maður fátt annað en að vinna. Ég þuklaði þarna ýmis handrit, aðallega frá 14. öld, fann lyktina af þeim, las þau, greindi og túlkaði. Þess utan hélt ég þrjá fyrirlestra og reyndi annars sem best að njóta þess að dvelja í borginni sem ég eitt sinn elskaði umfram aðra staði. Dvöl mína kostaði danska ríkið í gegnum Árnanefnd og fyrir það verð ég eilíflega þakklátur.

Síðan ég bloggaði síðast hefur mér einnig hlotnast styrkur frá rannsóknasjóði Háskóla Íslands til þriggja ára. Þá þarf ég litlar áhyggjur að hafa af því að mér takist ekki að klára doktorsrannsóknina mína um skrímsli í íslenskum miðaldabókmenntum. Það hefur ekki lítið að segja að fá viðlíka stuðning. Það er algjörlega ómetanlegt. Mér til frekara halds og trausts fjárfesti ég í nokkrum bókum um ófreskjur fyrir óumræðanlega háa upphæð sem ég hlakka til að sökkva mér ofan í nú þegar þessar sem ég keypti í fyrra eru farnar að jaskast á hornunum og ég farinn að læra sífellt minna af þeim. Bækurnar sem ég nú bíð eftir eru:

Hybridity, Identity, and Monstrosity in Medieval Britain: On Difficult Middles eftir þann hinn mikla póstmóderíska skrímslafræðing Jeffrey Jerome Cohen.

Pride and Prodigies: Studies in the Monsters of the Beowulf Manuscript eftir Andy Orchard.

The Ashgate Research Companion to Monsters and the Monstrous í ritstjórn hins valinkunna skrímslafræðings Asa Simon Mittman sem ég næstum því hitti í Leeds í fyrra eftir sérdeilis góðan fyrirlestur hans (hann var svo umvafinn grúppíum að ég ákvað að sæta færis síðar, en hitti aldrei á hann).

Metamorphosis and Identity eftir Caroline Walker Bynum.

On Monsters and Marvels eftir 16. aldar skurðlækninn Ambroise Paré sem þjónaði konungunum Hinriki II og III auk Fransis II og Karls IX. Í þeirri bók fjallar hann meðal annars um dæmi af gyltum sem fætt hafi grísi með mannsandlit, og af andlitunum megi greina hver hafi sorðið gyltuna. Ég reikna með mjög hressri lesningu. Einhverra hluta vegna er ekki minnst á bókina á Wikipediusíðunni hans.

Sjálfsagt skrifa ég einhver orð um þessar bækur þegar ég hef fengið þær í hendur. Ég ætla semsagt að halda áfram að blogga. Þið fréttuð það fyrst hér.