Gullöldin var aldrei til

Ég heyri reglulega talað um það sem ekki er kennt í íslenskum skólum. Það er mun sjaldnar að mér hlotnast nokkur innsýn í það hvað sannarlega er kennt í íslenskum skólum. En það sem vantar er jafnan það sama: börn í dag þekkja ekki sögu landsins, enda er hún ekki kennd í skólum. Börn núorðið kunna ekki nægileg skil á beygingu sterkra sagna, þau þjást af þágufallssýki, mál þeirra er gegnsýrt af undarlegu slangri. Það er á ábyrgð skólanna að ráða bót á þessu. Allt yrði betra ef Björn Guðfinnsson gengi aftur og ef Íslandssaga Jónasar frá Hriflu yrði kennd á nýjan leik. Börn hér kunna ekki stærðfræði, og skýrir það að nokkru leyti tilurð íslenska hagkerfisins. Þau þurfa að nema við fótskör kínverskra talnaspekinga. Lestrarkunnátta íslenskra barna er svo hrikaleg að færustu sérfræðingar efast um að þau einu sinni kunni að fletta, og Barnaverndarnefnd OECD berjandi utan dyrnar eins og skessa. Raungreinalæsi er sömuleiðis ekkert meðal íslenskra barna, enda er námsefninu stýrt af ráðherra sem heldur að leysa megi öll vandamál með álbræðslum og uppistöðulónum síðan hann sjálfur var forheimskaður í skóla.

Svona hefur þetta raunar alltaf verið. Hverjum þykir sinn fugl snoturri en næsta manns illfygli.

Ég held að tvennt liggi hér að baki sem hefur minna með menntakerfið sjálft að gera en ráða mætti af umræðunni: annars vegar eru það áhugamál þeirra sem kvarta undan áherslum í menntakerfinu, hins vegar eru það áhugaefni nemendanna sjálfra. Ef við könnum fyrra atriðið þá kemur í ljós að flestum finnst halla á þann hlut menntunar sem þeim sjálfum er hvað helst hugleikinn. Margur heldur mig sig eins og sagt er og sést það best á því hvað fólk er gjarnt á að kvarta undan því að nemendur nútildags kunni ekki skil á sömu hlutum og það sjálft hafði á takteinum á sama aldri – sem það hafði á takteinum sakir áhuga á efninu, ekki vegna þess eins að téðu efni og öllum heimsins vísindum öðrum var haldið að því í skóla. Þeir sem kvarta undan skorti á sögukunnáttu hafa sjálfir haft áhuga á sögu í barnæsku og jafnvel lesið sér til utan skóla alls kyns fróðleik til viðbótar við formlega námið. Þeim sem gekk vel í tilteknu fagi eiga kannski erfiðast með að skilja hvers vegna öðrum gengur verr í því.

Þar komum við einmitt að áhuga einstakra nemenda. Ég var svona nemandi sem þreifst á sögulegum fróðleik og kemur það væntanlega engum á óvart sem þekkir mig núna. Þær kennslubækur sem ég hafði hafa ekki yfir sér sama dýrðarljóma og Íslandssaga Jónasar frá Hriflu, en þær höfðuðu til þess áhuga sem ég þegar hafði. Í skóla las ég Íslandssögu Gunnars Karlssonar frá landnámi og eitthvað fram um stórubólu. Þegar ég lærði um Sturlungaöldina í grunnskóla teiknaði ég umfangsmikla teiknimyndaseríu um atburði hennar, og fór að vísu nokkuð frjálslega með efnið. Ég lærði um sjálfstæðisbaráttuna, lýðveldisstofnunina og um þrískiptingu valdsins í fjórða bekk. Þegar ég lærði um eitthvað áhugavert í samfélagsfræði leitaði ég mér aukaupplýsinga í þeim bókum sem til voru heima (með umbeðinni aðstoð foreldra minna, að sjálfsögðu). Sama þegar kennarinn minn í þriðja bekk sagði okkur af djáknanum á Myrká. Þá spurði ég heima hvort við ættum þjóðsögur á bók. Sjálfur átti ég alfræðibækur fyrir börn sem hétu Heimur í hnotskurn, Heimur vísindanna, og sú allra besta hét því lýsandi heiti Hvers vegna, hvenær, hvernig, hvar? Aðra átti ég um sjö undur veraldar. Þetta var það sem höfðaði til mín.

Málfræði og réttritun þurfti ég ekki að hafa fyrir vegna þess að ég hafði heilmikið sjónminni og vissi einfaldlega hvernig rétt mál ætti að líta út, ég fann það á mér. Þess vegna gekk mér vel í íslensku, en það að hafa ekki lagt á mig neinn formlegan málfræðilærdóm fyrr en í framhaldsskóla hefur aftur á móti háð mér síðan; ég hef verið seinn að tileinka mér málfræðihugtök og beita þeim. Það er kannski að hluta vegna þess að ég skildi ekki tilganginn með málfræðireglum sem barn, að allir gætu ekki bara séð þetta í hendi sér, alveg eins og stærðfræðiséníin skildu ekki hvert vandamál annarra var. Allt skýrist þetta af upplagi og áhuga.

Það eiga ekki öll börn jafnauðvelt með málið og ég átti, alveg eins og það eiga ekki öll börn eins auðvelt með að læra stærðfræði. Þannig er það bara. Þeirra áhugasvið liggja þá annars staðar en í bóklestri. Sum þeirra gætu eins verið efni í stærðfræðinga, sem er fag sem mér tókst aldrei að skilja. Sjálfur lærði ég það sem ég hafði áhuga á af brennandi ástríðu en öðru tók ég sem hverju öðru hundsbiti og böðlaðist gegnum það, og þetta sama hef ég séð einnig í öllum börnum sem ég hef nokkru sinni haft kynni af, þótt það kunni að vera aðrir hlutir sem þau hafa áhuga á en ég. Það er nefnilega þannig að börn eiga það til að þrjóskast á móti því að læra það sem þeim þykir lítið spennandi, og það verður erfiðara að tileinka sér efni sem manni þykir leiðinlegt því meira sem maður er ákveðinn í að það höfði ekki til manns. Ég féll í stærðfræði níu ár í röð, frá áttunda bekk og öll mín sex ár í menntaskóla, eftir að hafa staðið mig í meðallagi fyrstu sjö ár skólagöngunnar. Kannski er skólakerfinu um að kenna að einhverju leyti – það hefur að vísu aldrei neinn Hriflu-Jónas samið goðsagnakennda stærðfræðibók – en gleymum því ekki að langflestir stóðu sig ágætlega. Ég hafði bara ekki áhuga.

Og ég var heldur ekkert sítalandi um það sem ég þó hafði áhuga á, af því ég hafði áhuga á óteljandi öðrum hlutum. Ég var sérviturt barn sem gat vitnað í Grettis sögu og kunni skil á örlögum Reynistaðabræðra en ég gekk ekki um gólf talandi um þetta, eða pínlegan dauða Snorra Sturlusonar sem hefur alla ævi verið mér hugleikinn. Ég dáði líka Davíð Stefánsson frá Fagraskógi og langaði að geta ort eins og hann. Mig grunar að nær enginn hafi vitað af þessum áhuga mínum. Ég var nefnilega eins og aðrir krakkar og talaði um tölvuleiki og bíómyndir, æfði handbolta og var í skátunum, átti mér annað heimili í Vatnaskógi og í Húsdýragarðinum á sumrin, safnaði körfuboltamyndum og pogsi, ég eyddi dögunum kubbandi úr Legó og teiknandi myndasögur, allir héldu að ég yrði arkitekt eða listamaður. Svo varð ég bókmennta- og miðaldafræðingur, þjóðfræðiáhugamaður og ljóðskáld öllum að óvörum nema sjálfum mér.

Er endilega víst að Íslandssagan sé ekki nægilega vel kennd lengur? Er það þess vegna sem „börn vita ekki einu sinni hver Jón Sigurðsson var“? Gleymum í bili sjálfsögðum breytum eins og fjölbreyttara úrvali námsgreina, fjölbreyttara úrvali afþreyingarefnis, gjörbreyttum heimilisaðstæðum, fjölda grunnskólabarna sem hefur margfaldast með ósköpum síðan á miðri síðustu öld, óteljandi framfarir í menntunarfræðum: Hefur sá sem þannig spyr spurt börn upp til hópa, eða aðeins eitt barn, eða fáein, hvort það viti hver Jón Sigurðsson var? Veist þú hver Adele er?

Er íslenskukennslu um að kenna þótt börn tali öðruvísi en Jónas frá Hriflu, eða hefur ekki internetið sýnt að fólk af öllum kynslóðum skrifar misjafnlega, og mun það ekki ætíð hafa verið þannig meðal þeirra sem á annað borð gátu skrifað? Við útrýmdum ólæsi og kvörtum svo undan því að fólk skuli skrifa, en ég verð að játa að ég átta mig ekki alveg á vandamálinu. Hvernig er það, vita börn ekki skil á kjarna, möttli og jarðskorpu eða kunna þau ekki mun á flóði og fjöru vegna þess að þetta er ekki kennt, eða gleymdist kannski að spyrja þau? Er tilhneigingin kannski helst sú að alhæfa um skólakerfið út frá fáum samræðum við börn sem auk þess var stjórnað af manneskju með tiltekin áhugamál, sem vill forvitnast um framgang þessara áhugamála í skólakerfinu?

Það held ég að sé skýringin á því að sumum finnst börn ekki vita rass um skreiðarútflutning, um spánsku veikina, um muninn á togi og þeli, um framræslu votlendis, lotukerfið og hæð Hvannadalshnjúks (sem ég hef aldrei getað munað, fyrir eða eftir breytingu). Ástæðan er einfaldlega sú að börn hafa ekki endilega áhuga á því sama og nostalgískir foreldrar þeirra, og menntakerfið virkar ekki þannig að það dæli upplýsingum í heilabú barna sem upp frá því hafi brennandi áhuga á landi, sögu og þjóð, máli og samfélagi, virkni jarðskorpunnar og gangi himintunglanna. Samhengi allra þessara hluta verður fyrst ljóst með aldri og reynslu.

Ef þú aftur á móti spyrð börn hvað þau lærðu skemmtilegt í skólanum í dag, þá kannski kemstu að raun um hvað er kennt í skólanum. Allt hitt sem þú vilt að barnið þitt kunni skil á er sennilega kennt líka. Það hefur bara ekki sérstakan áhuga á því. Barnið þitt er barn en ekki vél. Að hneykslast á því að barnið þitt sé ekki símalandi um skútuöldina eins og þegar þú varst hnokki dragandi marhnúta á eyrinni er eins og að tuða undan því að dóttir þín hafi meiri áhuga á Monster High en Hjaltabókunum. Kynslóðir eru ólíkar, þannig er það bara, og allt þetta sem sumir halda að skólar kenni ekki lengur, það er víst kennt og lærist samt. Vandinn er ekki skólakerfið heldur þessi ímyndaða gullöld íslensks skólakerfis sem aldrei var til frekar en gullöld íslenskrar menningar. Menningin er síbreytileg og fólk þarf bara að læra að díla við það.