Ástin á tímum fasismans

Stærstan hluta ævi minnar hef ég búið við frjálsa Evrópu. Ég bjó í Evrópu á ófrjálsum tímum og við kalt stríð en vissi ekki af því. Þegar Berlínarmúrinn féll voru það mér engin tíðindi. Þegar Sovétríkin hættu að vera tamt hugtak og Rússland Jeltsíns tók við og sömuleiðis ýmis önnur ríki, þá varð ég ekki vel var við það. Ég tók eftir því þegar Júgóslavía hætti að vera til, enda hafði ég verið þar. Ég skildi ekki hvernig land gat hætt að vera til. Ég hélt að það hefði horfið af yfirborði jarðar þegar mér var sagt frá því. Stríðið í kjölfarið stóð í áratug, allt til 2001.

Það hefur í raun ekki verið friður í Evrópu neitt sérstaklega lengi. Það er enn ekki friður í Evrópu í raun og nægir að líta til átaka um Krímskagann. Evrópusambandið sjálft stendur völtum fótum og áhrifamáttur Sameinuðu þjóðanna virðist vera veikur ef nokkur. Sjálfur hef ég búið við þau forréttindi að hafa alltaf verið laus við átök í mínu lífi og þannig trúað því í blindni að Evrópa – og heimurinn almennt – sé í góðum málum. Að stríð í Evrópu séu liðin tíð og að framtíðin sé sjálfkrafa bjartari en grimm fortíðin. Um tvítugt trúði ég einlægt á slíka framfarahyggju. Núna fylgist ég með upprisu fasismans og skil loksins hvað heimurinn er brothættur.

Eftir tuttugu daga flyt ég til Póllands skamma hríð til að kenna þar námskeið við háskólann í Katowice í Slesíu. Pólland er núna fasistaríki. Það er eitthvað öfugsnúið við það, að þetta ágæta land sé núna í fylkingarbrjósti fasista í Evrópu þegar það var þeirra fyrsta fórnarlamb á fyrri helmingi síðustu aldar. En sú þróun á sér raunar afar langa sögu.

Hvað um það, nú les ég í blaðinu að nasistatvibbinn Jarosław Kaczyński sé farinn að funda með helvítis skepnunni Viktor Orbán í Niedzica í Póllandi – pottþétt í kastalanum þar. Eru ekki illmenni alltaf í kastölum? Um þann síðarnefnda er helst að segja að honum að þakka hef ég aðra ástæðu utan við þá augljósu fyrir því að ég mun aldrei gleyma brúðkaupsdeginum mínum: þá að þann dag las ég fyrirsögnina „Ungverjaland ekki lengur lýðræðisríki“. Það sem þá hafði átt sér stað var eiginlegt afnám prentfrelsis í landinu. Um hinn fyrrnefnda hef ég ekkert fegurra að segja, en ég játaði þegar Lech bróðir hans fórst í flugslysi 2010 að ég varð fyrir vonbrigðum þegar kom í ljós að fyrstu fréttir um að báðir bræður hefðu verið um borð reyndust rangar, og fékk nokkrar ákúrur fyrir kaldrifjað sjónarmið. Ég get ekki staðið við það, en hitt er enn að ég legg á fáa menn eins mikla fæð og hann.

Það sem nú stendur til hjá Kaczyński er að feta í fótspor Orbáns, að herða tökin á ríkisfjölmiðlum svo stýra megi fréttaflutningi af ríkisstjórninni (þetta er raunar það sem Vigdís Hauksdóttir hefur lýst yfir að hún vilji gera á Íslandi, bara með aðeins frábrugðnu orðalagi). Og óneitanlega minnir þetta nýja kærustupar á Hitler og Mussolini; báðir hafa lengi verið fasistar í eigin heimalandi en eru nú farnir að skiptast á ráðgjöf og reynslu um hvernig best megi koma ár fasismans fyrir borð. Mér lægi við að segja að þetta sé svolítið krúttlegt, væri þetta ekki svona skelfing óhugnanlegt.

Nú stendur Evrópusambandið frammi fyrir því að stjórnvöld í Svíþjóð og Danmörku, sem óneitanlega draga taum líkrar hugmyndafræði og þeir Orbán og Kaczyński aðhyllast og sömuleiðis ýmsir aðrir starfsbræður þeirra s.s. Geert Wilders í Hollandi, eru að brjóta svona líka hressilega Schengensáttmálann með því að taka upp landamæraeftirlit. Að auki brjóta þau mannréttindi á hælisleitendum með því að ræna af þeim fjármunum og heyrst hefur í sænskum lögreglufulltrúa sem segist einfaldlega hlýða því sem honum er sagt; sé hann beðinn um að rífa gullfyllingar úr hælisleitendum þá einfaldlega geri hann það. Á sama tíma brjóta Orbán og Kaczyński grundvallarmannréttindi heima fyrir, eins og réttinn til tjáningar, og því verður ekki tekið þegjandi heldur.

Stærstu fólksflutningar síðari ára standa yfir sakir borgarastyrjalda í mið-Austurlöndum sem eru bein afleiðing af stríðsrekstri Vesturlanda þar, og upp úr þessu spretta andófshreyfingar eins og Íslamska ríkið sem Vesturlönd kunna ekki önnur svör við en frekari stríðsrekstur, og Evrópa heldur áfram að reyna að einangra sig frá umheiminum á meðan hún leysist hratt en örugglega upp innan frá. Evrópusambandið átti að vera trygging gegn stríði í Evrópu eftir Síðari heimsstyrjöldina. En nú er heimsvaldastefnan loks komin aftan að og farin að bíta Vesturlönd í rassinn. Vesturlönd hafa löngum þóst ætla að „frelsa“ fólk í mið-Austurlöndum frá hroðalegum harðstjórum, en þegar fólkið flýr stríðið heima fyrir veit enginn neitt hvernig á að höndla bankið á dyrnar. Viljinn til hjálpar sýnir sitt rétta andlit á meðan fólk drukknar í Miðjarðarhafi og frýs til dauða á Lesbos.

Hvert leiðir þetta allt saman? Ég veit það ekki. Sannast sagna vildi ég helst vera laus við að þurfa að hugsa um það. En það getur enginn neitað því að Evrópa er í hræðilegu ásigkomulagi um þessar mundir og getur engum um kennt nema sjálfri sér. Og nú er ég á leið til Póllands, til lands sem gegnum tíðina hefur mátt þola margt en hefur nú ríkisstjórn sem vill undir forystu ógeðslegs manns verða heimssögulegur gerandi í upprisu fasismans.

Pólland er yndislegt land segja mér allir, og ég er fullur tilhlökkunar. Á sama tíma óttast ég að hin sameinaða Evrópa, sem þrátt fyrir að vera ung er sú eina sem ég þekki, muni leysast upp í vitleysu – að skammtímasjónarmið verði látin vega þyngra á metunum en langtímahagsmunir, að öfgaöfl verði áhrifameiri en nokkru sinni fyrr. Þegar okkar nánustu nágrannar á Norðurlöndum eru farnir að hegða sér eins og nasistar eru blikur á lofti.

Ég er búinn að missa trúna á Facebook sem samskiptatæki svo ég ætla að endurvirkja þetta blogg á meðan ég er í Póllandi og á ferðalögum um mið- og austur-Evrópu. Sennilega verður það allt voðalega hversdagslegt, en ég er af forvitnu sortinni og mun reyna að læra ekki síður um skoðanir fólks á þessu öllu saman en um land, tungu og menningu.

Eins og skáldið sagði: Þetta verður eitthvað.

 

2 thoughts on “Ástin á tímum fasismans”

  1. Þegar ég byrjaði í sagnfræði áttaði ég mig einmitt á þessu og það var frekar óþægileg uppgötvun. Stríð er normið, friðartímarnir sem við lifum á eru alger undantekning. Ég vonaði alltaf að við værum samt komin á þann stað í þróuninni að stríð tilheyrðu fortíðinni en maður er ekki beinlínis bjartsýnn þessa dagana.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *