Ég var eitthvað að útmála mig um þá bræður Kaczyński hér um daginn og varð þá hugsað til pólska bjórsins Lech. Á wikisíðu þess bjórs komst ég að því að þeir bruggmenn í Lech Browary Wielkopolski hafa engu meira álit á þeim bræðrum en ég. Lech Kaczyński fórst í flugslysi og var grafinn í Wawel, sem er einhvers konar hallargarður í Krakow. Þá brugðu bruggmenn á það ráð að setja upp auglýsingaskilti nálægt Wawel með slagorðinu „Zimny Lech“ sem merkir kaldur Thule (staðfæring mín). Þetta olli fjaðrafoki og auglýsingin var tekin niður fáeinum mánuðum síðar.
Nú vill svo skemmtilega til að kollegi Jakub Morawiec er staddur í borg óttans svo honum var boðið heim á Dunhaga í kaffi og kruðerí. Get ekki sagt að sú heimsókn hafi neitt minnkað eftirvæntinguna fyrir ferðinni nema síður sé. Samdoktorand og komráður minn úr Gimli, Hrafnkell Lárusson, hefur tekið upp á þeirri sömu iðju að blogga um dvöl sína í Póllandi og lætur vel af enn sem komið er. Ekki er það heldur til að draga úr væntingum mínum. Ef einhverjir fleiri sem ég þekki eru á leiðinni getum við kannski stofnað einhvers konar Varsjárbandalag sem hefði það helst að markmiði að sötra Lech og tala illa um Kaczyńskibræður. Slíkt þarf að gerast í sellum enda ekki á það hættandi að ata þá auri opinberlega.
Námskeiðin tvö sem ég mun kenna eru farin að taka á sig nokkuð ákveðna mynd og ég hlakka til að hitta nemendurna, sem alls ófyrirsjáanlegt er hversu margir verða. Mér finnst eins og framtíðin sé óskrifað blað. Sem hún og er, ég er bara ekki vanur því að upplifa hana þannig.