Meistaraverk æskuáranna IX: Kúrekinn og karlmennskan í Westworld

Um þessar mundir mun HBO (Hórdómur, blóð o.fl.) hafa tekið til sýningar sjónvarpsþættina Westworld, sem færri vita að byggðir eru á samnefndri kvikmynd eftir Michael Crichton sem hann bæði samdi handritið að og leikstýrði árið 1973. Í myndinni fjallar Crichton um svipuð efni og hann gerði í síðari verkum sínum, t.d. um takmörk vísindalegrar þekkingar, en einkum á Westworld margt sameiginlegt með síðari bók hans um Júragarðinn og samnefndri kvikmynd. Crichton, sem sjálfur var læknir án réttinda, var mikið í mun að láta vísindamenn hafa það óþvegið, nokkuð sem stundum hefur verið mildað í kvikmyndagerðum verka hans. Þau sjónarmið kunna að skýrast af óþoli hans á vísindahyggju og áhuga á hinu yfirskilvitlega sem hann taldi að vísindin hefðu hafnað af offorsi. Það er því töluvert áhugavert að ekki nema fjórum árum eftir að hann lýkur doktorsprófi í læknisfræði við Harvard hafi hann þegar verið orðinn svo foj út í fræðin að hann bjó til Westworld, eina af frægari kvikmyndum um ofurtrú mannsins á tækni sem gerð hefur verið; nógu fræga að minnsta kosti til að hafa verið tekin fyrir í Simpsonsþætti.

Westworld er öll löðrandi í táknum. Hún hefst á falsklegri sjónvarpsauglýsingu fyrir skemmtigarð þar sem fólk viljugt til að greiða þúsund dollara á dag getur upplifað sína leyndustu drauma. Allir sem þar koma fyrir virðast svo yfirgengilega glaðir, jafnvel þannig að þau trúa því ekki sjálf, og Colgatebrosið á þulinum í lokin er eins og til að undirstrika að þeim sem reka þennan garð sé ekki treystandi.

Næst fær áhorfandinn að kynnast hetjum myndarinnar þar sem þær sitja í einum af mörgum sigrum mannsins yfir náttúrunni: framtíðarlegri krómaðri svifflaug. Annar þeirra er hinn karlmennskulegi James Brolin, maður sem er svo þrunginn testósteróni að hann svitnar litlum Burt Reynoldsum, og hinn ekki svo karlmannlegi Richard Benjamin, sem dreymir um að vera meira karlmenni en hann er og undirstrikar það með voldugri hormottu. Í þessari senu er Benjamin eins og spenntur lítill strákur: hvernig byssuslíður fæ ég, eru byssurnar þungar? Og svo framvegis. Brolin kemur fram við hann með þolinmæði föður gagnvart syni á leiðinni í Disneyland, og gefur til kynna að val sitt á byssuslíðri sé mun karlmannlegra en það sem Benjamin hefur áhuga á. Hann hefur verið áður í þessu Disneylandi og veit hvernig það virkar.

En þetta er ekkert Disneyland. Þetta er Delos, skemmtigarður sem nefndur er eftir grísku eyjunni sem tvíburagoðin Apollon, guð sannleikans og framsýninnar, og Artemis, guð veiðinnar og meydómsins, fæddust á. Delos stendur í dag sem rústir horfins menningarsamfélags. Allt er þetta merkingarbært eins og færð verða rök fyrir hér á eftir.

Delos er skipt í þrjá hluta: Vestraheim, þar sem hægt er að upplifa villta vestrið í kringum 1860; Miðaldaheim, sem byggður er á Vestur-Evrópu 13. aldar; og Rómverjaheim, sem byggður er á borginni Pompeii fyrir gos. Gestir velja sér þann heim sem þeir vilja heimsækja og fá til þess allar græjur áður en þeim er hleypt inn í heiminn. Hér er rétt að staldra aðeins við til að átta sig á því um hvað myndin fjallar. Það liggur ljóst fyrir þegar í upphafi að Delos er skemmtigarður fyrir ríkt fólk, að sama fólk fer þangað til að uppfylla einhverjar dýpri þrár sem þeim eru óheimilar í siðlegu samfélagi, og að allt er þetta byggt á nýjustu tækni og vísindum. Í raun er skemmtigarðurinn fullur af vélmennum sem líta út og hegða sér alveg eins og fólk samkvæmt þeim lögmálum sem hver heimur er byggður á, og hinir mennsku gestir eru þangað komnir til að gera hvað sem þeim sýnist við þessi vélmenni.

Hér tekur við mikilvægt atriði: hetjur myndarinnar þurfa nú að kynna sig fyrir vísindamönnunum með nafni, en ef ég man rétt þá er hvorugur aftur nefndur á nafn þar til kárnar á dalnum. Ég kem aftur að því síðar. En það sem áhorfandinn fær út úr þessu er að nöfn þeirra skipta ekki máli í þessum tilbúna heimi. Þar eru þeir hverjir sem þeir vilja vera. Í heimi Delos eru mörk mennskunnar því í raun afmáð. Vélmennin verða ekki þekkt frá fólki og fólk getur skotið vélmennin sundur eins og því sýnist, það getur keypt af þeim vændi, það getur jafnvel tælt vélmennin til fylgilags við sig. Ekki fylgir sögunni hvað gerist ef gestur reynir að nauðga vélmenni, hvort vélmennið gefi alltaf undan, eða hvað gerist ef óreiðuhegðun gests beinist að manneskju. Það eina sem áhorfandinn fær að vita er að byssur hrífa ekki á lifandi verur, aðeins á hluti (t.d. vélmenni) sem ekki hafa líkamshita. Þessi skýring nær ekki býsna langt. Hún svarar því ekki hvað gerist ef kúlu er skotið að vélmenni sem manneskja gengur í veg fyrir (í einni senu sjáum við Brolin stökkva frá skothríð sem beinist að vélmenni, mögulega af þeirri ástæðu), og enn síður svarar hún því hvernig sverðin í hinum heimunum bíti ekki á manneskjur. Þau virðast fullvel geta það. Myndin hefði e.t.v. verið kröftugri hefði hún ekki gefið upp þann agnarlitla mun sem greina má á vélmenni og manneskju (þ.e. undarlegir lófar); ef gestir hefðu raunverulega velkst í vafa um hvort þeir hefðu alltaf drepið vélmenni fremur en manneskju. En það er út fyrir efnið hér.

Aðalatriði myndarinnar – það sem gerir hana raunverulega óhugnanlega – er einmitt hegðun hinna mannlegu gesta í hinu tilbúna sögulega umhverfi. Gestir greiða tæpast 1000 dollara á daga aðeins til að búa við lakari aðbúnað fyrri tíma. Westworld er jú einu sinni vestrið; er ekki gráupplagt að ræna bankann, skjóta fólk á barnum og nota konur fyrir kynlífsdúkkur? Það virðist okkar mönnum finnast. Þeir fara inn á bar og panta viskí (hinn kvenlegi Benjamin reynir að panta kokteil en hinn karlmannlegi Brolin segir honum að hætta þessu kjaftæði, þetta sé vestrið). Þeir eru ekki fyrr komnir á barinn en sjálfur Yul Brynner af öllum mönnum sullar viskí yfir Benjamin og segir að hann sé kærulaus með drykkinn sinn. Þessari senu mætti jafna við atriðið þegar Alan Grant og Ellie Sattler sjá fyrst risaeðlur í Júragarðinum: hér er vestragarður og Yul Brynner er vondi karlinn! Eftir nokkra eggjan frá Brolin svarar Benjamin fyrir sig og vegur Brynner í einvígi. Í fyrstu er hann ekki viss hvort hann hafi vegið mann eða vél, en Brolin sannfærir hann um að byssurnar geti aðeins skotið á dauða hluti sem fyrr var sagt. Eftir að Benjamin lætur sannfærast fer siðferðiskennd hans innan heimsins hrakandi. Þeir félagar taka þátt í barslagsmálum, kaupa vændi, skjóta fleira fólk – með öðrum orðum nota þeir yfirburði sína til að þröngva vilja sínum upp á vélar, upp á vélar sem líta út og hegða sér alveg eins og þeir sjálfir.

Á bak við þetta allt saman eru Guðirnir, eða öllu heldur táknmynd þeirra í vísindamönnunum sem hönnuðu og reka garðinn. En nú bregður svo við að vélarnar eru farnar að sýna af sér skringilega hegðun. Þær bila þótt ekkert virðist vera að þeim við nánari aðgæslu. Hegðun þeirra verður ekki skýrð með vísindunum einum. Einn vísindamaðurinn segir að sumir þættir í tækninni séu sjálfir hannaðir af tölvum; í raun réttri viti þeir ekki nákvæmlega hvernig vélarnar virki. Guðirnir hafa misst stjórnina á sköpunarverkinu. Prómeþeifur hefur fært sköpunarverkinu eldinn. Við tekur algjör viðsnúningur á aðstæðum.

Eftir að hinum fyrrum raga Benjamin hefur verið borgið úr steininum af Brolin (og þeir í sameiningu skotið fógetann) fagna þeir afrekum sínum utan við bæinn. Þá lenda þeir í því að vélskröltormur lætur til skarar skríða gegn þeim og bítur Brolin í hans karlmannlegu framlengingu – handlegginn. Undir eins og Brolin þarf að takast á við snákinn glatar hann allri karlmennsku, gróf röddin verður kvenleg, sár vonbrigði hans þegar hann uppgötvar að öryggi þeirra er ekki eins tryggt og þeir töldu brjótast út í barnslegum pirringi. Öll yfirvegun er horfin úr honum á þessu andartaki. Það þarf ekki einu sinni að vera freudisti til að skilja myndmálið; þetta er nákvæmlega sama narratífa og þegar sögusjálf Þórbergs Þórðarsonar gekk eftir Reykjavíkurtjörn og lenti í hrökkál sem slöngvaði sér upp úr og beit í besefann á honum og vanaði þar með. James Brolin hefur verið vanaður.

Það sést enn skýrar í næsta atriði þegar einn gesta í Miðaldaheimi lendir í einvígi við svarta riddarann. Áður hefur hann reynt að þröngva vilja sínum upp á unga vélstúlku sem heitir Daphne – eftir gyðju sem rétt svo var forðað frá nauðgun Appolons af Delos með því að henni var umbreytt í lárviðartré. Aftur er hið goðlega táknmál alltumlykjandi, með mannlegan fulltrúa Appolons fyrir hönd fyrirtækisins Delos. Hér kemur Guðunum ekki til hugar að forða Daphne, heldur verða þeir gramir og hugsi yfir því að vélmenni – hvað þá kynlífsvélmenni – hafi neitað gesti.

Hér vakna upp spurningar um frelsi og vilja; vélstúlka sem sýnir allar mannlegar tilfinningar þegar hún neitar ógeðfelldum manni um að gerast kynlífstæki hans þá stundina, enda þótt hún hafi verið hönnuð til þess arna. Áhorfandinn á að fyllast hluttekningu með hinum undirokuðu vélmennum rétt áður en þau bylta og drepa forréttindafólkið og umturna öllum þeirra perversjónum í einni sviphendingu. Þegar hér veit áhorfandinn hvað er í vændum. Skröltormurinn er næsta þrep á sömu leið og næst vegur svarti riddarinn tilraunanauðgara Daphnear með sverði – hinn effeminíski karlmaður penetreraður með því sama og átti að gera hann sjálfan mikinn andspænis gervifólki, því ekki er hann mikill maður meðal raunverulegra. Slíkar fantasíur enda jafnan á einn veg þegar til kastanna kemur. Hann hefur ekkert vald. Valdið var veitt honum af Guðunum, en þegar þeir hafa misst stjórnina er raunin sú að vélmennin eru voldug. Þeim hefur bara verið haldið niðri af kúgurum sínum til þessa. Við víg miðaldaperrans taka Guðirnir kast og reyna að slökkva á öllum garðinum – rétt eins og í Júragarðinum. En rafmagnsleysið losar þá endanlega undan valdi sínu, og svo fer að þeir fá ekki einu sinni opnað rafdrifnar hurðarnar að rannsóknastofu sinni og kafna þar inni allir sem einn. Guðirnir eru dauðir, og sá maður sem þeir hafa skapað er manninum öflugri.

Víkur nú sögunni að Brolin og Benjamin þar sem þeir þriðja sinni mæta Yul Brynner – þrisvar oftar en flestir. Nú ákveður Brolin að láta slag standa en Brynner plaffar hann í köku. Meðan Brolin enn lifir nafngreinir hann vin sinn og segist vera hæfður, næst skýtur Brynner hann ögn meira uns hann deyr og Benjamin ávarpar vin sinn nú líka með nafni, en hann er dáinn. Hér loksins gangast þeir við mennsku sinni sem þeir skildu eftir þegar þeir tóku á sig ímynd karlmennskunnar – kúrekans – tylltu á sig hatti, slengdu um sig belti með slíðri og þungum skotvopnum, öllu því sem gerir karlinn að manni. Og þar stendur berskjölduð söguhetjan Peter Martin sem við skyndilega munum hvað heitir, raunveruleiki Vestraheimsins orðinn svo raunverulegur að honum líkar allilla, og sjálfur Yul Brynner stendur frammi fyrir honum búinn að skjóta vin hans í spað og segir honum að draga. Okkar maður tekur á rás. Karlmennskan er horfin honum. Yul Brynner æðir á eftir honum með riffil og nær af löngu færi að skjóta af honum kúrekahattinn; tákn fyrir tákn, riffill sem framlenging reðurs hefur af hetjunni hattinn sem gerði hana að kúreka til að byrja með.

Nú eru það vélmennin sem taka yfir Delos með sömu hegðun og mannfólkið áður borgaði fjármuni til að fá að gera. Í Rómarheimi og Miðaldaheimi er fólk hakkað í spað með sverðum, í Vestraheimi eru allir skotnir í sundur, jafnvel einn Guðanna sem verður á vegi Benjamins og Brynner þiggur tvö skot í brjóstið bara fyrir að vera þar. En vélmennin gera ekki greinarmun á fólki og vélmennum; þau drepa og pynta allt sem fyrir þeim verður. Aftur vakna upp spurningar um tengslin við eyjuna Delos og guðina þaðan, sem tákna sannleika og framsýni, veiði og meydóm; hér virðist Crichton með goðafræði vara áhorfendur beinlínis við því að gæla við hugmyndir um slíka paradís, og tilraunir mannanna til að spilla meydómi vélkvenna með valdi eru að lokum kveðnar niður af vélmennum sem veiða og drepa hvern þann sem verður í vegi þeirra. Í lokaviðureign Brynners og Benjamins glatar sá fyrrnefndi andlitinu og þá sést að ekkert er á bak við það nema holt höfuðið, þakið innan með tölvukubbum eins og móðurborð.

Hér mætti taka útgangspunkt í Holu mönnum T.S. Eliot sem staddir eru milli himnaríkis og helvítis því gjörðir þeirra hafa fært þá á hvorugan staðinn, og mætti þá túlka það samfélag sem skapaði þá út frá því. Sjálfsagt væri þó meir borðleggjandi að líta á þetta sem táknmynd innantómrar neyslumenningar, þar sem maðurinn er ekkert en reynir af vanmætti að fylla upp í tómið með siðferðislega vafasömum meðölum. Ég vil þó líta svo á að hér sjái Benjamin sitt raunverulega sjálf, það helvíti sem líf hans raunverulega er, speglað í þeim sem hann reyndi að láta gremju sína bitna á. Þegar hann hefur horfst í augu við það hyldýpi missir hann fótamátt og sest niður í tilvistarlegri örvinglan. Hann hefur horfst í augu við dauðann en veit ekki hvort hann getur horfst í augu við lífið hér eftir heldur. Hann hefur glatað því sem gerði hann mennskan, og munurinn á honum og vélinni virðist honum tilfallandi núna. Áhorfandinn er skilinn eftir án lausnar, því hér endar myndin.

Túlkun myndarinnar er engu að síður fremur borðleggjandi með risi og voldugu hnigi í lokin þar sem niðursveiflan endurspeglar fyrri uppsveiflu. Það mætti stilla upp töluvert mörgum andstæðupörum frá fyrri hluta til þess seinni. Í upphafi ríkir tæknin en í lokin hrynur hún og auðnin ríkir. Í upphafi sækjast menn eftir að þröngva sér kynferðislega upp á vélar, en eru að endingu emaskúleraðir og penetreraðir af vélum. Í upphafi stjórna Guðirnir heiminum sem þeir skópu, en í lokin hefur sami heimur drepið Guðina. Í upphafi er karlmaðurinn sem síðar er kvengerður, og þar á móti er hinn kvenlegi karl sem verður karlmannlegur, en það kostar hann heimsmyndina. Siðferði er tilfallandi þegar maður aktar gegn vél, en þegar því er snúið við verða orsök og afleiðing skyndilega mjög siðferðislega áþreifanleg fyrirbæri.

Sérstaklega er áhugavert að bera saman Westworld við sjálfstætt framhald hennar Júragarðinn, þar sem hið kvenlega og dýrslega í birtingarmynd risaeðlunnar er undirokað og framleitt en hefur síðan sigur gegn hinu karlgerða og stjórnaða í birtingarmynd vísindanna. Hér er hefðbundnum valdahlutföllum snúið á hvolf þar sem hinn karllegi stjórnandi lýtur í lægra haldi og náttúran sigrar allar nauðgunartilraunir – svo vísað sé til orða Ians Malcolm í Júragarðinum þar sem hann líkir einmitt tilraunum vísindamannanna við nauðgun hins náttúrlega heims. Westworld er miklu opinskárri um viðsnúning valdahlutfallanna, þar sem vélarnar að lokum gera allt það sama við fólkið og fólkið hafði áður gert vélunum.

Sennilega mætti lesa út úr því jafnt trúarlegt siðferði (t.d. gullnu regluna) sem almennt siðferði, en beittust er Westworld einmitt í því að hér er venjulegt fólk sett í þær aðstæður að það getur gert hvað sem því sýnist við annað venjulegt fólk. Fyrrnefndi hópurinn er alveg jafnforgengilegur þeim síðari og sá síðari er þeim fyrrnefnda, og þar vakna spurningar um siðferði á við þá hvað þurfi til að geta talist manneskja, hvort hvaða hegðun sem er sé ásættanleg undir tilteknum kringumstæðum, hvort raunverulega sé enginn skaði skeður ef ofbeldi er beitt gegn veru sem ekki er „raunveruleg“: hvort sem það er skaði sem sá sem veldur þarf einnig að líða eða aðeins sá sem verður fyrir ofbeldinu. Jafnframt vekur myndin upp spurningar um forréttindi hinna ríku, hvort skemmtigarður af þessum toga væri réttlætanlegur ef hann væri mögulegur, eða hvort setja þurfi því einhver mörk sem hægt er að fá fyrir peninga. Aftur kallast þetta á við Júragarðinn, en báðar myndir virðast ekki síður kalla á sálgreiningu en marxíska greiningu; gagnrýni þeirra er ekki endilega fyrst og fremst á hið efnislega fremur en á hið siðferðislega, þótt vitaskuld haldist þetta tvennt jafnan hönd í hönd. Ekki síst vekur Westworld upp spurningar um „rétt“ karla til kvenmannslíkama, sem verða engu minna aðkallandi þótt hér eigi að vera um vélar að ræða. Þar væri vert að greina myndina nánar út frá heimspekikenningum um sjálfið, hvað geri manneskju mennska til að byrja með, en hér er ekki rúm til þess.

Sjá áður í syrpunni:
I. Backdraft er ennþá málið
II. Lilli klifurmús er sjálfselskur kúkalabbi.
III. She’s All That.
IV. The Lion King
V. Táningsstúlkan penetreruð hnífi
VI. Gremlins
VII. Good Will Hunting
VIII. Tveir á toppnum 2