The Babadook

Vatt mér loksins í að horfa á hina rómuðu mynd The Babadook, sem er áströlsk hryllingsmynd með svo óhugnanlegri kápu að ég lagði ekki í að horfa á hana lengi. Svo varð ég fyrir vonbrigðum. Ég hef séð hina og þessa mæra hana fyrir dýpt og fyrir að einblína meir á andlega hlið hryllingsins en hina holdgerðu, en mér fannst hún eiginlega nudda mér upp úr táknunum allan tímann. Hluti af því sem heillar mig við hryllingssögur er hið óþekkta, svo þegar ég fatta á fyrstu mínútunum hvað skrímslið er þá er galdurinn eiginlega horfinn. Ég athugaði hvað aðrir hafa haft um myndina að segja og fæ ekki betur séð en að túlkun myndarinnar sé svo augljós að enginn hafi farið á mis við hana. Það er ekki eitt sér slæmt en það merkir samt að myndinni mistekst að vera hryllingsmynd í hefðbundna skilningnum; henni tekst ekki að vera tvíræð. Hið sálræna er svo yfirþyrmandi að skrímslið verður ótrúverðugt nema sem hugarburður.

The Babadook fjallar um tómið eftir missi. Amelia hefur misst manninn sinn Oskar í bílslysi sem varð þegar hann ók henni á sjúkrahús að fæða son þeirra Samuel. Nú á hún aðeins soninn eftir. Og sonurinn er svo gjörsamlega óþolandi að þolinmæði hennar gagnvart honum er hreint út sagt aðdáunarverð. Hún gerir allt til að halda stráknum góðum en lífi hennar fer hrakandi frá degi til dags ekki síst vegna hegðunarvandamála hans sem setja allt hennar félagslíf í uppnám. Í ofanálag er hann einstaklega myrkfælinn og á hverju kvöldi þarf Amelia að gá undir rúm og inn í skáp til að sýna honum að ekkert skrímsli sé í herberginu, og svo lesa þau fyrir háttinn. Samuel hefur búið til ýmiss konar vopn til að díla við skrímslið sem hann heldur statt og stöðugt fram að raunverulega sé til staðar í húsinu. Snemma í myndinni fær áhorfandinn að sjá að hann hefur hengt föt og hatt föður síns á snaga niðri í kjallara, eins konar ímynd föðurins sem hann missti, einasti mögulegi staðgengill hans. Í sama rými skapar drengurinn vopn sín. Kjallarinn er jafnframt sá staður sem allar eigur föðurins eru geymdar; eins konar musteri utan um föðurinn sem enginn má hrófla við. Amelia má heldur ekki heyra hann nefndan á nafn. Hann er eins og gamalt leyndarmál, falið í kjallara.

Nú bregður svo við að Samuel finnur skrýtna bók í herbergi sínu og biður Ameliu að lesa hana fyrir sig. Henni líst ekki á blikuna, vill heldur lesa aðra bók, finnst þessi helst til óhugnanleg. En strákur gefur sig ekki. Bókin fjallar um Herra Babadúk, svartleit fígúra með langa fingur og pípuhatt, sem ekki er hægt að losna við ef maður einu sinni hleypir honum inn. Bókin verður fljótt eftir þetta mjög ógnvekjandi og lyktar með þeim orðum að hver sá sem hafi Babadúkuna heima hjá sér óski þess skjótt að deyja heldur. Móðirin rífur bókina í tætlur og fleygir. Daginn eftir er bankað þrisvar á dyrnar, rétt eins og segir í bókinni að Babadúkan muni gera, en grandvaralaus Amelia opnar dyrnar án þess að hugsa og sér engan. Næst er barið harkalega þrisvar aftur og hún opnar aftur og sér þá bókina, samanlímda fyrir utan dyrnar, og nú er bókin orðin ennþá óhugnanlegri en fyrr og sýnir nú sjálfa móðurina drepa hundinn og soninn. Hún brennir bókina.

Nú fer sögunni fram á tveim sviðum samtímis þar sem bæði móðir og sonur hafa á sinn hátt hleypt Babadúkunni inn í líf sitt. Föðurleysið er alltumlykjandi í myndinni; jafnvel þegar Amelia reynir að njóta einverustundar með titrara í rúmi sínu er sonurinn skyndilega mættur í herbergið með allan þann farangur; strákurinn verður á sinn hátt staðgengill föðurins að hann býr til vopn til verndar heimilinu og hindrar – í fjarveru föðurins – móður sína í að njóta smávægilegustu kynferðislegrar nautnar. Skorturinn á fjölskylduföður verður yfirþyrmandi. Og eftir því sem Babadúkan lætur meir á sér kræla, þeim mun ofbeldisfyllri verður móðirin; ófrjósemi hennar táknuð með rauf í eldhúsvegg hennar sem kakkalakkar skríða út um.

Fallísk táknmynd föðurins vofir yfir móðurinni í rúminu, krefjandi þess að fá að „koma inn.“
Fallísk táknmynd föðurins vofir yfir móðurinni í rúminu, krefjandi þess að fá að „koma inn.“

Það er um þetta leyti sama Babadúkan birtist Ameliu fyrst í gervi manns hennar heitins, og hér eyðileggur snilld kvikmyndagerðarmannanna fyrir sjálfum þeim. Auðvitað er Babadúkan ekki annað en faðirinn, eða öllu heldur skortur á honum, tómið eitt og sorgin. Samanber sú hryllilega sena þegar móðirin fer á lögreglustöðina og reynir að koma þeim í skilning um að einhver (eða eitthvað) sé að stalkera þau mæðgin en lögreglan neitar að hlusta, og svo sjást föt og pípuhattur Babadúkunnar hangandi á snaga aftan við móttökuna. Þetta atriði kallast fullkomlega á við efigíu föðurins sem Samuel hefur gert sér í kjallara hússins, en þetta er eyðilagt með því að blaðra því beint í áhorfandann hvað Babadúkan táknar. Áhorfandinn þarf ekki þessa handleiðslu, ekki frekar en bækur þurfa neonskilti til að auðkenna umsnúning í frásögninni.

Faðirinn er Babadúkan
Faðirinn er Babadúkan

Eins og þetta væri ekki orðið nógu augljóst þá þarf Babadúkan auðvitað að mæta aftur í gervi föðurins undir lok myndar, þegar móðirin hefur myrt hundinn eins og bókin sagði að hún myndi gera og rétt svo komist hjá því að myrða soninn sömuleiðis; táknmynd gremjunnar eftir missi eiginmannsins. Hún ælir út úr sér Babadúkunni sem hún er sjálf orðin, svartri klessu eins og eitthvað upp úr Sjóveikur í München, en þegar Babadúkunni hefur verið hafnað þannig stendur hún frammi fyrir þeim aftur um sinn eins og faðirinn; reynir svo að ráðast á mæðginin en Amelia hefur betur, grefur sorg sína og tekst á við óttann. Babadúkan hörfar niður í kjallara þar sem hún býr allar götur síðan, enda er aldrei hægt að losna við Babadúkuna eins og bókin segir. Föðurmyndin dvelur semsagt þar sem strákurinn hafði gert sér sína föðurmynd, þar sem hann hafði tekið að sér hið föðurlega ábyrgðarhlutverk og reynt að öðlast karlmennsku upp á eigin spýtur; Babadúkan býr í musteri föðurins, eins og gamalt leyndarmál sem ekki má nefna. Babadúkan er faðirinn.

Lokaatriðið er eins og hugræn atferlismeðferð, þar sem Amelia heldur niður í kjallara til að fóðra Babadúkuna á ormum. Babadúkan reynir að ráðast á hana en hún róar hana niður, svo hún hörfar aftur út í horn og étur litlu ormana sína. Amelia hefur náð tökum á tóminu í hjartanu. Það hverfur aldrei alveg, það blossar jafnvel upp niðri í kjallara minninganna, þar sem hin svarta hattklædda vera dvelur í skugga. Jafnvel forliður nafns hennar hljómar eins og faðir: Baba. Eða eins og annar gagnrýnandi benti á, að myndin gæti eins heitið The Dadabook. En þegar tekist hefur að ná tökum á óttanum er ef til vill hægt að horfa fram á við, öðlast aftur líf á eigin forsendum. Um þetta fjallar The Babadook og minnir þannig á El Orfanato, mynd um konu sem býr í fyrrum munaðarleysingjahæli og telur sig sjá afturgöngu barns sem þar dvaldi, en í raun og veru er hún fórnarlamb eigin ótta. The Babadook er ekki eins skelfilega sorgleg og sú mynd, og ekki einu sinni eins skelfileg, en báðar eru þær hryllingsmyndir sem í raun eru ekki hryllingsmyndir þegar öllu er á botninn hvolft, heldur myndir um sálræna vanlíðan og erfiðar minningar. Það er allt gott og blessað. En ég þvertek fyrir að það geri þessar myndir neitt sérstaklega djúpar. Þvert á móti verða þær einnota, því yfirskynið sem þær virka undir er horfið þegar maður horfir á þær aftur.

Ég fæ mikið meiri hroll af því að gera mér í hugarlund hvernig The Babadook hefði getað orðið en ég fékk af því að horfa á hana. Hana vantaði lítið upp á að vera góð mynd, á meðan El Orfanato er á allan hátt frábær mynd. Engu að síður eru þær sama marki brenndar að það er engin ástæða til að sjá þær oftar en einu sinni. Og það er eitthvað svo mikil synd þegar það er innbyggt í kvikmynd að hún virki aðeins einu sinni á hvern áhorfanda.