Árið 2006 rættist gamall draumur þegar ég hóf íslenskunám í háskólanum. Það var margt sem heillaði við íslenskuna, en Konungsbók eddukvæða var það sem gerði útslagið um þessa ákvörðun. Sama haust og ég byrjaði í íslenskunni kom út skáldsaga eftir Arnald Indriðason, Konungsbók. Ég var fljótur að næla mér í eintak á bókasafninu og svo hófst lestur, en þeim lestri lauk snögglega. Það var eitthvað sem mér fannst ófullnægjandi við þessa bók en átti erfitt með að henda reiður á.
Sagan um „unga og bláeyga íslenskufræðinginn Valdemar“ sem kominn var til Hafnar að læra um handritin hefði eins getað verið ég nokkrum árum síðar, svo forsendur sögunnar heilluðu. Það var líka eitthvað svo stórkostleg hugmynd að nasistar berðust við íslenskufræðinga um yfirráð yfir Konungsbók með sinni dularfullu eyðu. Hugurinn hvarflar rakleiðis að dulrænum áhuga nasista, hvort Konungsbók gæti orðið vopn í höndum illra manna ef ráðgátan um eyðuna yrði leyst. Svona eins og Raiders of the Lost Ark. Nýverið fannst bókasafn Himmlers um dulræn efni og að sögn gefur safnkosturinn til kynna að áhugi hans og sumra annarra nasista á dulspeki hafi síst verið ýktur.
Mig hefur því lengi langað að lesa Konungsbók vegna hugmyndanna sem ég hafði um hvað hún hlyti að vera, og núna á dögunum lét ég loksins verða af því að lesa hana. Þannig er auðvitað ósanngjarnt að nálgast listaverk; það er ekki hægt að áfellast rithöfundinn fyrir að skrifa aðra bók en maður hélt sig lesa, heldur þarf maður að leggja eigin hugmyndir til hliðar og leyfa verkinu að tala eigin máli. En ég átti svolítið erfitt með það í tilviki Konungsbókar, því hún fjallar um efni sem ég þekki vel og hef mikinn áhuga á. Svo ég birti þetta með fyrirvara um ósanngirni.
Stíll
Bókin er endurtekningasöm. Öll bókin er lögð í munn Valdemar sem er flatur og tilgerðarlegur persónuleiki. Þrisvar í bókinni lýsir hann andaktugur þessari miklu stórborg, Kaupmannahöfn, og í hvert einasta sinn lýsir hann nákvæmlega sömu húsunum. Þegar lesandinn sér að hann er eina ferðina enn farinn að lýsa Sívalaturni og Frúarkirkju (sem er ekki sérlega imponerandi bygging) fer hann að undrast, því hann er búinn að lesa þennan kafla ekki einu sinni áður, heldur tvisvar. Valdemar endurtekur allar hugsanir sínar fram og aftur um bókina, rifjar upp sömu atvikin aftur og aftur, svo lesandinn finnur alla leið gegnum bókina hversu þunn hún er. Sem hún hefði ekki þurft að vera, nægur er efniviðurinn. Það er líka allt útskýrt svo rækilega ofan í lesandann að ekkert stendur eftir til að velta vöngum yfir, engin túlkun möguleg önnur en sú sem sögumaður býður upp á. Kannski hugsaði Arnaldur með sér að svona íslenskunemi gæti vel verið einstaklega leiðinleg persóna og lélegur penni, og ef svo er þá hefur honum sannarlega tekist vel upp. Mér er sagt að aðrar bækur Arnaldar séu mun betur stílaðar, svo skýringin er altént ekki sú að hann geti ekki gert betur.
Persónur
Valdemar er óþolandi. Hann er sannarlega bláeygur, eins og stendur aftan á bókinni, og hann malar út í eitt einhver banalítet um menningararf og hinn göfuga en brotna prófessor, og er svo teymdur grenjandi eins og ræfill út í gegnum bókina frá einum stað til annars.
Prófessorinn er ekki persóna heldur samsafn eiginleika. Hann er ofdrykkja, sorg og leyndarmál í akademísku starfi. Svo er hann alltaf æstur, nema í fáein skipti þegar hann talar blíðlega til Valdemars. Lesandinn skilur ekki af hverju prófessornum fer að líka við Valdemar, því Valdemar er ekki á nokkurn hátt áhugaverður eða nytsamlegur. Prófessorinn heitir engu nafni, sem er undarlegt. Hann heitir bara Prófessorinn. Jafnvel hinn illi von Orlepp kallar hann Prófessorinn. Prófessorinn er augljóslega pabbi Valdemars en þetta er það eina sem Arnaldur lætur liggja á milli hluta í frásögninni. Það var góð ákvörðun.
Von Orlepp er vondur nasistaforingi, sá helsti í bókinni sem nær að vera persóna, en það er líka vegna þess að við höfum svo skýrar hugmyndir um það hvernig vondir nasistaforingjar eiga að vera.
Aðrar persónur eru ekki þess verðar að nefna.
Saga
Valdemar kemur semsagt til Hafnar á eftirstríðsárunum voða bláeygur og gapandi yfir sívölum turnum og frúarkirkjum og hittir fyrir hinn viðskotailla prófessor sem nennir ekki að tala við hann. Síðan fara nasistar að angra prófessorinn og í ljós kemur að þeir eru á höttunum eftir týndu örkinni úr Konungsbók. Prófessorinn teymir Valdemar með sér rakleiðis til Þýskalands þar sem þeir finna örkina með engri fyrirhöfn í einhverjum kirkjugarði. Þá koma nasistarnir og stela örkinni og fara hlæjandi burt af sjónarsviðinu. Síðan kemur í ljós að prófessorinn er líka búinn að glata Konungsbók, hann lét hinn illa von Orlepp hafa hana í stríðinu, nauðbeygður, og bjó til mjög nákvæma eftirlíkingu af handritinu einn síns liðs með bókfelli, jurtableki og kveikjara. Mjög sennilegt allt saman. Nema hvað, svo flakka þeir einhverjar erindisleysur um Amsterdam og Hamborg uns þeir loks finna Konungsbók um borð í Gullfossi. Það babb kemur í þann bát að nasistarnir eru líka um borð, svo prófessorinn lætur Halldór Laxness fá Konungsbók, en svo hafna þeir von Orlepp í sjónum ásamt týndu örkinni og deyja en Valdemar getur þó allavega endurheimt Konungsbók frá Nóbelskáldinu.
Og til hvers var þetta þá allt saman? Jú, nasistarnir vildu nota Konungsbók á einhvern ótilgreindan hátt til að skapa sjálfum sér og þeirra kynþáttabulli einhverja ímynd um forsögu. Þetta kemur í ljós á síðustu blaðsíðum bókarinnar. Var það þá allt og sumt? Manni finnst það nú heldur sakleysislegt fyrir nasista, og ef eitthvað er frekar klént og ólíklegt til árangurs. Engin dulspeki kemur við sögu. Sagan endar á því að Konungsbók og Flateyjarbók koma í land að lokum sem réttmæt eign Íslendinga, án þess að nokkur viti hvað hefur gengið á á undan eða hvað orðið er um prófessorinn. Í raun mætti draga söguna saman í eina setningu: hún fjallar um menn sem bítast um eina bók af því þeir halda að hún geti leyst úr þjóðernislegri sjálfsmyndarkrísu þeirra. Og það er bara ekki sérlega skemmtileg saga.
Eftirþankar
Ég veit að Arnaldi er annt um söguefnið eins og mér. Hann hélt dásamlegt erindi á ráðstefnu sem haldin var á vegum Árnastofnunar í tilefni af 350 ára afmælisári Árna Magnússonar, og þar segir hann um þessa sögu sína:
„Einhvern veginn þannig er saga handritanna í hugum okkar sem horfum á þau utan frá og erum ekki innmúruð í fræðin. Það liggur alltaf einhver hræðilegur voði yfir þeim. Þau finnast í aumustu moldarkofum, týnast og brenna og sökkva í hafið og eru eins konar munaðarleysingjar sem fá ekki einu sinni að koma heim en kveljast í árhundruð hjá vondu stjúpmóður okkar allra, Dönum. Það er aldrei hátt til lofts og vítt til veggja þar sem þau dvelja. Að þeim var lengst af jafn fátæklega búið og þjóðinni á sinni tíð. Líklega er það einnig fyrir þá sök sem þau eiga svo tryggan stað í hjarta okkar. Bústaðir þeirra voru ekki skrauthallir veraldar heldur örreytiskot við myrkasta útjaðar heimsins, þar sem þau hafa legið undir skemmdum í reyk og sóti og skít. Þau bera þess líka fögur merki að hafa lifað með þjóðinni eins og Konungsbók getur best vitnað um. Hún er með öllu skrautlaust ritverk sett í ódýrasta vasabrot eins og verstu sjoppubókmenntir dagsins og laus við listfengi og óþarfa prjál í ytri búnaði. Þvert á móti er hún tötrum klædd bókardrusla, sótug upp fyrir haus, skítug og tætt, sjálf fátæktin og útjaskað allsleysi landsmanna lifandi komið. Það er auðsætt á henni að hún hefur lifað með sínu fólki og upp á þess kjör og, eins og stundum má segja um þjóðina sem bjó hana til, þá vantar í hana nokkrar blaðsíður. Konungsbók er af þeim sökum ekki endilega rétt nafngift. Það er ekkert konunglegt við hana. Hún er þvert á móti andstæða alls þess sem kallast má konunglegt. Hún hefði með réttu mátt heita Alþýðubókin.
En líkt og er með önnur íslensk handrit og handritsslitur skyldu menn vara sig á því að dæma verk eins og Konungsbók eftir ásýndinni. Þótt við ættum aðeins hana eina værum við rík að bókmenntum og hefðum lagt stóran skerf til heimsmenningarinnar. Hún geymir ómetanlegar heimsbókmenntir og þegar við skiljum ekkert lengur í því hvert Ísland stefnir er gott að eiga hana að, vegna þess að hún minnir okkur á að okkar fegursta og dýrmætasta eign er útslitin, vesæl bókardrusla. Ekki risavaxnar bankastofnanir sem stóðu á brauðfótum. Ekki íslenska fjármálasnilldin sem aðrar þjóðir áttu að taka sér til fyrirmyndar. Ekki Kárahnjúkavirkjun og útlensk álfyrirtæki. Ekki frystigeymslur austur í Kína. Ekki olíuauðlindir á Drekasvæðinu. Þegar við viljum hugsa til raunverulegra verðmæta sem aldrei láta sig varða neitt um bóluáhrif eða hagvöxt eða galdeyrishöft eða efnahagshrun og alþjóðabanka, þá er gott að hugsa til Konungsbókar.
Það rann upp fyrir mér þegar ég leitaði að einhverju sem fól í sér sönn verðmæti andstætt froðuverðmætunum og skrifaði litla ævintýrasögu um íslenskan prófessor í Kaupmannahöfn á sjötta áratugnum sem misst hafði okkar dýrmætu Konungsbók úr höndum sér og reyndi að ná henni til baka. Þegar sagan kom út árið 2006 hafði bókaþjóðin á fáeinum árum stökkbreyst í bankaþjóð og sagan af prófessornum átti að vera einhvers konar andmæli gegn þeirri vissu sem þá ríkti, að peningar einir skiptu máli í lífinu. Áminning um að við hefðum með einhverjum hætti glatað því sem meiru skipti, glatað uppruna okkar, glatað Konungsbók. Þá flugu auðmenn hér um loftin blá á einkaþotum svo varla sást til sólar. Litlar kammersveitir léku undir borðum hinna nýríku. Manngildið var metið í himinháum kúlueignum og óskiljanlegum kúlulánum. Og menn borðuðu gull suður undir dómkirkjunni fögru í Mílanó.“
Mér finnst svo ólíku saman að jafna milli sögunnar og þessarar lýsingar á kjarna hennar. Hér skrifar Arnaldur af tilfinningu sem alveg skortir í bókina, stíllinn rennur ákveðinn og blátt áfram, næmur en samt kíminn. Í bókinni verður sama meining hins vegar flöt, endurtekningasöm og einhvern veginn tilfinningasnauð. Konungsbók er tákn um eitthvað meira en aðeins sjálfa sig sem prófessorinn er tilbúinn að deyja fyrir, en samt trúir lesandinn ekki löngum einræðum um gildi hennar. Slagsmálin um borð í Gullfossi í lokin virðast frekar niðurstaða flumbrugangs og kjánaskapar en einhver mikilvæg barátta um sjálfsmynd og menningu. Það er eins og langar ræður um bókina þar sem hún er skýrð eins og fyrir barni séu hugsaðar fyrir erlenda lesendur í því tilfelli að bókin yrði þýdd, en mikilvægi Konungsbókar verður þrátt fyrir það aldrei sæmilega skýrt. Það er þess vegna sem sú Konungsbók sem Arnaldur ætlaði sér að skrifa klikkar, ef mér leyfist. Sú Konungsbók sem ég hefði viljað lesa aftur á móti, yfirgengilegt nazisploitation með kukli og hvaðeina, ég skal reyna að syrgja hana í hljóði.