Að vera kennari

Ég var að átta mig á því að í janúar komandi hef ég verið kennari í tíu ár. Töluvert hefur runnið til sjávar frá því ég stóð í fyrsta sinn vitlausu megin við kennaraborðið og reyndi að fela að ég var viti mínu fjær af hræðslu. Þegar kom að kaffipásu milli fyrri og seinni tíma forðaði ég mér inn á kaffistofu og stóð þar aleinn, stjarfur af ráðaleysi í tíu mínútur áður en ég sneri aftur í stofuna. Ég er ekki viss um að nemendur hafi tekið eftir neinu.

Eftir fyrstu kennslustundina á ferlinum settist ég við skrifborðið mitt, áttaði mig á því að ég hafði svitnað gegnum fötin mín, og fann að ég myndi ekki geta unnið neitt frekar þann daginn. Ég nefndi við einn lærimeistara minna að mér hefði þótt það gaman að kenna, en alveg óskaplega erfitt. „Það á að vera erfitt,“ sagði hann. „Ef það er ekki erfitt þá ertu að gera eitthvað rangt.“

Ég fékk oft í magann fyrir kennslu og stundum hafði ég lítið sem ekkert getað sofið nóttina á undan. En um leið og kennslustundin fór af stað þá einhvern veginn lánaðist þetta, og ég fann frá upphafi að mér þótti gaman að kenna og að ég vildi starfa við kennslu. Smám saman vandist þetta. Þrem árum síðar kenndi ég tvö námskeið á meistarastigi við pólskan háskóla og með tímanum var ég svo lánsamur að fá að kenna við ýmsa skóla í Evrópu og á Íslandi. Núna, eftir vel heppnaða kennslustund, finn ég til gleði sem er ef til vill ekki ólík því sem leikari finnur þegar tjaldið fellur í lok sýningar. Að kenna felur alltaf í sér vissa sviðssetningu og því er hún eðlilega alltaf krefjandi, en eftir því ánægjuleg þegar vel tekst til.

Kennarar eru stétt sem ég ber botnlausa virðingu fyrir. Frá því ég var í barnaskóla sá ég mig oft fyrir mér í kennarahlutverkinu, fann mér margar fyrirmyndir í því hlutverki, allt gegnum stormasöm gagnfræðaskólaárin, misgóð menntaskólaárin, og háskólaárin sem sérstaklega knúðu fram spurningar um hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór. Flestar mínar fyrirmyndir eru konur. Ég gerði mér sérstaklega far um að þakka öllum kennurum mínum í formálsorðum doktorsritgerðar minnar; án þeirra hefði það rit aldei orðið til, né ég orðið kennari. Enn bætast nöfn við það registur, fólk sem hefur haft og hefur enn mikil áhrif á mig. Fyrir allt það fólk verð ég ævarandi þakklátur.

Að kenna er að skilja sérhlífni eftir heima hjá sér sem best maður getur, mæta ólíkum einstaklingum og hópum með virðingu, og gera sitt besta til að mæta þörfum allra á sama tíma og maður reynir að miðla ástríðu fyrir því sem unnið er að í kennslustofunni og búa nemendum eins öruggt umhverfi og kostur er á. Það er krefjandi og getur að sama skapi verið lýjandi, í einhverjum tilvikum jafnvel ómögulegt. Kennarar upplifa oft vanþakklæti og skilningsleysi í garð starfa sinna, álag á þá er oft mikið og misjafnlega búið að innviðum vinnustaðanna; þeim aðbúnaði sem þarf að vera til staðar til að kennarar geti sinnt starfi sínu. Metnaður kennara er oft töluvert meiri en aðstæður bjóða upp á.

Nú þegar ég færist óðfluga inn á ellefta ár mitt sem kennari finnst mér við hæfi að þakka enn og aftur fyrir mig. Á þessum stutta tíma hef ég kennt þúsundum, hvernig sem þær tölur geta stemmt. Nú er það starf mitt að mennta aðra kennara og ég vona að ég geti bæði miðlað einhverju sem skiptir máli og verið öðrum hvatning. Kennarar eru ekki aðeins sú stétt sem skiptir mig mestu máli, heldur sú stétt að ég held sem skiptir yfirhöfuð mestu máli í heiminum. Ég er þakklátur fyrir að fá að tilheyra kennarastéttinni.