Þetta blogg er í tilefni af umræðum sem ég átti í (á Facebook, hvar annarsstaðar?) um Ísland og Evrópusambandið. Ég vil, í fullri alvöru, leysa upp norrænu þjóðríkin (Grænland og Færeyjar eru kannski ekki tilbúin, en ég vil endilega hafa þau með; Finnland sem alltaf líður útundan má líka vera með, og Eistland sakir mægða við Finna). Í stað þjóðþings kjósum við héraðsstjórnir líkt og yfirsveitarstjórnir, undir sameinuðu þingi og ríkisstjórn nýs Kalmarsambands.
Þetta er ekki í andstöðu við Evrópusambandið líkt og Norðurríkjabandalagið sem stundum hefur verið lagt til, heldur í andstöðu við tilgangslaus þjóðríki. Ég vil nefnilega samt að hið nýja ríki fái að kjósa um aðild að Evrópusambandinu, og helst vil ég sjálfur að það gangi í sambandið. Framtíðin liggur í samvinnu á milli þjóða en ekki í heimóttarskap.
Þannig hljóðar hið heilaga orð.