Strangt til tekið telst þessi færsla ekki með því hún fjallar um leikrit í stað kvikmyndar og kemur aðeins inn á eitt atriði. Ég áttaði mig nefnilega ekki á því fyrr en í dag að Lilli klifurmús er heldur illa liðinn í Hálsaskógi og það af gildri ástæðu: Lilli er sjálfselskur ónytjungur.
Þegar Amma mús heimsækir Martein skógarmús torgar hún ekki allri kökunni sem Marteinn býður upp á og leggur til að hann bjóði vini sínum Lilla klifurmús upp á afganginn með sér. Marteinn virðist lítið spenntur fyrir þeirri hugmynd: „Finnst þér að ég eigi að gera það?“ spyr hann.
Þegar Lilli svo mætir óboðinn í næstu andrá neitar hann að hlusta á áhyggjur Marteins af Mikka ref því hann vill syngja honum vísu, sem fjallar um Lilla sjálfan og hversu æðislegur hann sé, útskýrir Lilli. Í vísunni kemur líka fram að Lilli er landeyða sem lifir á öðrum í stað þess að leita sér sjálfur matar, og af þessu er hann stoltur. Þegar Marteinn þakkar honum flutninginn með semingi treður Lilli upp í sig restinni af kökunni og fer á brott.
Áður en Lilli flytur vísuna tekst Marteini þó að nefna að hann ætli að semja lög sem ná eiga yfir öll dýrin í skóginum, og Lilli spyr hvort þau eigi að gilda um sig líka, eins og honum þyki það ekki alveg augljóst. Eftir að Lilli er farinn semur Marteinn lögin:
1. Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir
2. Ekkert dýr má borða annað dýr
og svo eins og í beinu framhaldi af leiðindaheimsókn Lilla:
3. Dýr sem ekki afla sér sjálf matar mega ekki sníkja hjá öðrum
Þessi augljósu tengsl eru aldrei aftur nefnd í leikritinu, en ljóst er að Lilli áttar sig aldrei á því að þetta ákvæði gildi neitt sérstaklega um sig. Þegar þeir Marteinn og Bangsapabbi ákveða að kynna þessi ákvæði fyrir dýrunum treður Lilli bara í sig hunangskökum Bangsamömmu og yfirgefur fundinn eins og þetta komi sér ekki við. Og þegar Mikki refur eigrar um soltinn eftir gildistöku laganna og veit ekki hvað hann á af sér að gera ráðleggur Lilli honum að fara í heimsóknir! Óafvitandi hvetur hann Mikka til að brjóta lög, en Mikki stelur heldur svínslæri af bóndahjónum sem reynist afdrifaríkt, því leit þeirra að sökudólgnum færir þeim í hendurnar Bangsa litla.
Eftir að Bangsa er bjargað með ráði og dáð Mikka seinna í leikritinu áttaði ég mig skyndilega á því að Lilli er eins og óþolandi krakki sem enginn hefur áhuga á að viðurkenna. Þeir Marteinn hjálpast nefnilega að við að bjarga Bangsa en aðeins Marteini er þakkað, en Lilli mætir afgangi þegar Bangsapabbi áttar sig skyndilega og segir: „Já, og þú líka Lilli.“ Svona er þetta í öllum senum þar sem þeir Marteinn koma báðir við sögu, þá er Marteini hrósað en Lilli er eins og ofvirkur á meðal dýranna að reyna að fá athygli líka. Það er eins og vísurnar hans séu frekar umbornar en hitt — þær eru sannarlega ekki umbeðnar.
Af þessu dreg ég þá sjokkerandi ályktun að Lilli klifurmús þyki af hinum dýrunum í skóginum vera heldur leiðinleg týpa, ónytjungur og leiðindaskarfur sem lifir sníkjulífi á samfélaginu og sífellt er eitthvað að trana sér fram. Ekki nóg með það heldur er það skelfilega augljóst hvar sem gripið er niður í leikritið að Lilli er hvergi aufúsugestur, heldur er hann umborinn af sársaukafullri meðvirkni samfélags sem á við nógu skelfileg vandamál að stríða þótt hinir kúguðu sláist ekki innbyrðis líka.