Í myrkri þungu mætast kannski varir
og magna lífsins slátt í þöglu brjósti
og eins og sækir aldan heim að landi
er öldugjálfrið ríslandi við hjartað.
Og nóttin breiðir næfurþunna slæðu
af nærfærni yfir höfuð okkar beggja
og stjörnur himins öfunda mig allar
því augu þín í mínu hjarta sindra.
Í myrkri þungu mætast varir okkar
og magna lífsins slátt í þöglu brjósti;
þá verður kyrrðin klökk af fegurð þinni
og kossar okkar stjörnublik á himni.
-Úr bókinni „Herjólfur er hættur að elska“ eftir Sigtrygg Magnason.