Categories
Bókmenntir Þýðing

Frú Lonelyhearts eftir Nathanael West

Svört kómedía í fjórtán hlutum

1.

Lítið skrifstofuhúsnæði. Illa til hafður maður situr fyrir framan tölvuskjá og les tölvupósta.

Kæra Frú Lonelyhearts. Ég er einstæð móðir, öryrki, með þrjú börn sem á erfitt með að ná endum saman. Hvernig útskýri ég fyrir börnunum að þau geta ekki gert allt það sama og hinir krakkarnir?Kær kveðja, ein örvæntingarfull.

Kæra Frú Lonelyhearts. Ég er tólf ára stelpa sem fæddist án nefs. Ég á enga vini og er strítt í skólanum. Oftast sit ég heima í herberginu mínu og græt. Hvað gerði ég til að verðskulda þetta? Kær kveðja, engin.

Maðurinn opnar nýtt word skjal og byrjar að skrifa:

Lífið er þess virði að lifa. Það er fullt af draumum og frið, góðmennsku og ánægju….

Maðurinn stoppar og starir framan í tölvuskjáinn. Annar maður kemur upp að honum og tekur í öxlina á honum.

-Stjórinn: Hvað er að gerast í þessu hjá þér?

Hann tekur í músina og gramsar aðeins í tölvunni og les nokkur skjöl.

-Stjórinn: Alltaf þetta sama. Jesús þetta og Guð hitt. Afhverju býðurðu þeim ekki uppá eitthvað nýtt til tilbreytingar? List til dæmis? Hérna ég skal hjálpa þér áleiðis: Listin er möguleg útgönguleið. Ekki láta lífið buga þig. Þegar gömlu farvegirnir eru orðnir ófærir vegna klúðurs og mistaka, leitaðu þá að nýjum. Listin er einmitt slíkur farvegur. Hún er eitthvað það mikilvægasta sem lífið hefur upp á að bjóða. Þeir sem geta ekki skapað, geta notið. Þeir sem…..Sko, eitthvað svona. Þú tekur þetta bara héðan.

2.

Frú Lonelyhearts er að rölta út á götu eftir vinnu. Það er haustlegt á að líta og drungalegt, ekkert líf að sjá neins staðar. Hann er mjög þungur í fari og gengur inn á lítinn bar sem hefur vægast sagt séð betri daga.

Þar heilsar hann nokkrum mönnum sem sitja að sumbli ásamt stjóranum.

-Stjórinn: Frú Lonelyhearts, minn kæri vinur, ég legg til að þú gefir lesendum þínum steina. Þegar þeir biðja um brauð, ekki gefa þeim eitthvað kex eins og kirkjan eða segja þeim að borða köku. Útskýrðu fyrir þeim að maðurinn lifi ekki á brauði einu saman og gefðu þeim svo steina. Segðu þeim að fara með þessa bæn á hverjum morgni: Gef oss í dag voran daglega stein

Frú Lonelyhearts: Æi þegiðu…

Frú Lonelyhearts fær sér bjór og sest niður, ekki skemmt.

-Stjórinn: Þú ert alltof neikvæður og svartsýnn. Gleymdu krossfestingunni og mundu eftir Endurreisninni! Það var enginn svartsýnn þá.

Stjórinn lyftir glasi.

-Stjórinn: Endurreisnin! Þvílíkt tímabil. Dauðadrukknir páfar, fallegir búningar, óskilgetin börn…

Þrátt fyrir að stjórinn talar með miklum tilþrifum, tilkomumiklum handahreyfingum, þá er hann gjörsamlega svipbrigðalaus. „Dead-pan“ út í gegn.

-Stjórinn: Til Endurreisnarinnar! Til Endurreisnarinnar! Til brúnu grísku handritanna og hjákvennanna með ómótstæðilegu útlimina…Það minnir mig reyndar á það, ég á von á einum aðdáenda minna. Einni með miklar gáfur.

Orðinu gáfur fylgja handahreyfingar sem mynda stór brjóst.

-Stjórinn: Hún vinnur í bókabúð, en bíddu bara þar til þú sérð aftan á hana.

Frú Lonelyhearts er augljóslega orðinn pirraður.

-Stjórinn: Þú ert þá ekki hrifinn af kvenfólki sem sagt? Jesús er eina ástin þín? Jesús Kristur, konungur konunganna, Frú Lonelyhearts, kærasta Frúin…

Frú Lonelyhearts heppnast það til að rétt í þessu birtist ungi aðdáandinn sem stjórinn er að bíða eftir.

-Stjórinn: Frú Fjóla!

Stjórinn lætur hana hneigja sig eins og brúðu.

-Stjórinn: Frjú Fjóla, ég vil kynna þig fyrir Frú Lonelyhearts. Sýndu honum sömu virðingu og þú sýnir mér. Hann er einnig huggari hinna andlega þjáðu og elskandi Guðs.

Hún tekur í hendina á honum snöggt og örugglega.

-Stjórinn: Frú Fjóla vinnur í bókabúð ásamt því að sinna skriftum.

Hann slær hana létt á rassinn.

-Fjóla: Hvað voruð þið svona æstir að ræða?

-Stjórinn: Trúarbrögð

-Fjóla: Náðu í drykk handa mér og haldið svo áfram. Ég hef mikinn áhuga á guðfræði heilags Tómasar frá Aquínó, sérstaklega syntesunni.

-Stjórinn: Heilagur Tómas! Hvað heldurðu að við séum eiginlega? Einhverjir djöfulsins, illa lyktandi gáfumenni? Við vorum að ræða Krist og kærustu Frú frúanna. Við höfum okkar eigin trúarbrögð. Ef þig vantar syntesu, hér er ein fyrir þig.

Hann skellir blaðaúrklippu á barborðið. Fyrirsögnin er: Trúarsöfnuður notar tölvu til að reikna syndir meðlimanna og hver kemst inn í himnaríki. „Leiðtogi: Þetta er miklu nákvæmara og skilvirkara svona“

Fjóla skellir uppúr. Stjórinn reiðist þá skyndilega og hrifsar í hana. Barþjónninn skipar þeim að yfirgefa staðinn. Stjórinn dregur Frú Lonelyhearts með þrátt fyrir andmæli hans. Þau setjast í bás. Stjórinn lyftir hendinni og lætur eins og hann ætli að slá hana, en strýkur henni um vangann í staðinn. Þegar hann er orðinn einum of ágengur fær hún nóg og ýtir hún honum í burtu. Stjórinn bregst ókvæða við.

-Stjórinn: Ég er mikill dýrlingur. Ég get gengið á eigin vatni. Hafið þið aldrei heyrt um píslagöngu stjórans í hádegismatnum eða þjáninguna við kaffivélina? Ég líkti sárunum á líkama Krists við litlar buddur þar sem við setjum klink synda okkar. Þetta er einmitt mögnuð hugmynd. En veltum nú fyrir okkur op eigin líkama og fyrir hvað þau eru opin. Undir húð mannsins er undursamur frumskógur þar sem æðar renna eins og þykkur gróður þar sem ofurþroskuð líffæri hanga og innyfli tvinna sig saman svört og rauð eins og illgresi. Í þessum frumskógi býr fugl sem nefnist sálin. Hún flögrar á milli steingrárra lunga og gylltra innyfla, frá lifur til ljóss og aftur til lifrinnar. Kaþólikkinn leitast við að veiða þennan fugl með brauð og víni, gyðingurinn með gullnu reglustrikunni, mótmælandinn með líflausri afstöðu og enn líflausari orðum, búddistinn með látbragðsleik, blökkumaðurinn með blóði. Ég hræki á þá alla. Pff! Og ég býð ykkur einnig að hrækja. Pff! Stoppið þið upp fugla? Nei, elskurnar mínar, slíkt er ekki trúarbrögð. Nei! Þúsund sinnum nei. Sannlega segi ég yður, betri er einn lifandi fugl í frumskógi líkamans en tveir uppstoppaðir á borði á bókasafni.

Strokur hans haldast í hendur við prédikunina. Í lokin grefur hann andlit sitt í háls hennar.

3.

Frú Lonelyhearts tekur leigubíl heim.

Hann býr í nöturlegu og dimmu litlu herbergi sem inniheldur ekki meira en rúm, borð og tvo stóla. Veggirnir eru tómir fyrir utan Jesús styttu sem hangir yfir rúminu. Hann klæðir sig úr, kveikir sér í sígarettu og fer upp í rúm með bókina Bræðurnir Karamazov. Við sjáum að hann hefur undirstrikað eftirfarandi kafla:

Elskaðu manninn jafnvel þegar hann syndgar, af því sú ást líkist ást guðdómlegri ást, mestu ást sem fyrirfinnst á jörðinni. Elskaðu öll sköpunarverk Guðs, heildina og hvert einasta sandkorn sem þar má finna. Elskaðu dýrin, elskaðu plönturnar, elskaðu allt. Ef þú elskar allt, skynjarðu guðdómlega leyndardóminn sem finna má í hlutum. Þegar þú hefur einu sinni skynjað hann, skilurðu hann betur og betur á hverjum degi. Og þú munt á endanum koma til með að elska allan heiminn með alltumlykjandi ást.

Frú Lonelyhearts er djúpt hugsi í smá stund og leggur sig svo í rúmið.

Allt í einu er hann staddur á sviði í troðfullu leikhúsi. Hann er töframaður sem gerir töfrabrögð með hurðarhúna. Þegar hann gefur skipun blæða þeir, blómstra, tala. Eftir atriðið reynir hann að leiða bæn. En sama hvað hann reynir kemur alltaf sama bænin, sú sem stjórinn kenndi honum og rödd hans heyrist eins og í háværu kallkerfi: Ó Drottinn, við böðum okkur ekki í víni, vatni, þvagi, edik, eldi, olíu, rommi, mjólk eða viskýi. Ó Drottinn, við böðum okkur einungis í blóði lambsins.

Nú finnur hann sig á gömlu heimavistinni sinni frá háskólaárunum. Með honum eru tveir vinir hans, stelpa og strákur, sem hnakkrífast um tilvist Guðs. Þegar þau átta sig á því að viskýið er búið fara þau út í búð. Þau labba götur bæjarins að engi. Það er vor og þau eru með alls konar fíflalæti á leiðinni. Þau finna sprúttsala og kaupa stóra krukku, fara svo þar sem verið er að selja búfénað. Þau stoppa og leika við nokkur lömb. Þau velta fyrir sér að kaupa eitt lamb til að grilla, en Frú Lonelyhearts segir að það sé skilyrði að því sé fórnað fyrir Guð áður en hægt er að grilla það. Strákurinn fer að ná í hníf hjá slátraranum á meðan að hin prútta um lambið. Á endanum verður það yngsta fyrir valinu. Þau marsera með lambið heim á meðan þau syngja. Þau koma að lítilli laut þar sem þau tína blóm sem þau setja í kringum stóran stein. Þau leggja lambið á milli blómanna. Frú Lonelyhearts er skipaður prestur og heldur á lambinu á meðan að þau kyrja öll: Kristur, Kristur, Jesús Kristur, Kristur, Kristur, Jesús Kristur. Þegar æsingurinn nær hámarki rekur hann hnífinn í lambið. En honum geigar svo lambið særist aðeins lítillega. Hann gerir sig líklegan aftur, en nú kippist lambið svo mikið að hann hittir það alls ekkert og hnífurinn brotnar á altarinu. Strákurinn lyftir höfðinu á lambinu á meðan að presturinn reynir að skera það á háls með litlu broti af hnífnum, eitthvað sem gengur ekki eftir. Þau eru öll útötuð í blóði þegar lambið sleppur. Þau hlaupa í burtu. Frú Lonelyhearts grátbiður þau um að koma og finna lambið til að binda enda á þjáningar þess, en þau neita. Hann fer einn, finnur það og lemur það í hausinn með steini. Hann skilur líkið eftir sveimandi í flugum.

Við það vaknar hann.

4.

Frú Lonelyhearts situr við tölvuna í íbúðinni sinni. Hann er að spjalla við konur á stefnumótasíðum á netinu, eitthvað sem gengur augljóslega illa. Á endanum gefst hann upp. Hann tekur upp símann og flettir símaskránni. Hann stoppar við nafnið Birta. Í tölvunni er hann með opinn spjallglugga þar sem hann er að spjalla við einhvern sem spyr: „engar stelpur sem þú þekkir og getur heyrt í“? Hann svarar: „bara Birta, og kona stjórans auðvitað“. Þá er svarað: “heyrðu í Birtu, þú hefur gott af því…“. Frú Lonelyhearts: „Einmitt, nokkrum mánuðum eftir að ég sleit trúlofuninni ætla ég bara að hringja og segja hey! Gera eitthvað í kvöld? Ég hef ekkert talað við hana síðan þá!“

„þú getur allavega ekki haft það neitt verra en núna, þú hefur engu að tapa…“

Frú Lonelyhearts stígur út úr leigubíl við íbúðarbyggingu.

Hann fer inn og tekur lyftu upp á þriðju hæð. Þar bankar hann á dyr. Kona, sem er klædd til að fara út á lífið, tekur á móti honum glöð í bragði. Hann reynir að svara en tungan vefst fyrir honum.

Frú Lonelyhearts: Þetta er auðvitað aumkunarvert, ég veit, að koma svona aftur…en….

-Birta: Borðum saman kvöldmat.

Frú Lonelyhearts: Ég get það því miður ekki.

Hún brosir fyrst og byrjar svo að hlægja, ekki á illkvittinn hátt samt. Þau færa sig inn í stofu og Frú Lonelyhearts líður greinilega óþægilega.

Frú Lonelyhearts: Birta Búddha…Þú ert með þetta sjálfumglaða glott, vantar bara ístruna…

Hann skammast sín greinilega að hafa sagt þetta og þagar. Hún sest hjá honum og heldur í hönd hans. Hann rennir hendinni sinni undir fötin hennar af gömlum vana, en verður mjög vandræðalegur þegar hann fattar það. Hún hefur þó ekkert á móti því. Senan er óbærilega vandræðaleg.

-Birta: Hvað er að? Ertu eitthvað veikur?

Það fýkur í Frú Lonelyhearts.

Frú Lonelyhearts: Hvað er eiginlega að þér?! Um leið og einhver gerir eitthvað rangt, þá segirðu að hann sé veikur. Karlmenn sem pynta eiginkonur sínar, barnaníðingar, allir bara veikir samkvæmt þér. Engin siðfræði, bara lyf. Ég er með Krist komplex. Mannkynið….ég elska mannkynið. Alla skemmdu vesalingana…

Hann kemst ekkert lengra með þessa ræðu. Hann endar með að gera sér upp lítinn, vandræðalegan hlátur. Hún hefur færst sig í annan stól.

Frú Lonelyhearts: Hvað er að elskan? Varstu ekki að fíla þennan gjörning?

Hún situr líkt og í varnarstöðu og svarar engu. Hann spyr með síhækkandi rödd sem verður á endanum örvæntingarfull:

Frú Lonelyhearts: Hvað er að? Hvað er að? Hvað er að?

-Birta: Ég elska þig

Frú Lonelyhearts: Ha?

-Birta: Ég elska þig

Frú Lonelyhearts: Og ég elska þig. Þig og þetta djöfulsins bros í gegnum tárin.

-Birta: Afhverju læturðu mig ekki vera? (hálfgrátandi) Ég hefði það fínt áður en þú komst, nú líður mér ömurlega. Farðu. Plís farðu.

5.

Frú Lonelyhearts ráfar um út á götu. Hann ákveður að kíkja á barinn að fá sér drykk.

Nokkrir vinir hans eru þar og heilsa honum. Einn af þeim er að kvarta yfir kvenkyns rithöfundum.

-Bargestur 1: Og þær heita allar þremur nöfnum! Mary Roberts Wilcox, Ella Wheeler Catheter, Ford Mary Rinehart…

-Bargestur 2: Þessar gellur þurfa bara að láta taka duglega í sig, það er málið. Eina sem virkar á þetta.

Frú Lonelyhearts hættir að hlusta. Á meðan að þeir röfla í bakgrunninum drekkur hann stíft. Allt í einu heyrir hann nafnið sitt.

-Bargestur 1: Hann stundar það að sleikja holdsveiklinga, það segir stjórinn allavega. Barþjónn! Einn holdsveikann handa herramanninum. Ef þú átt ekki holdsveikling til, láttu hann þá fá Ungverja.

-Bargestur 2: Það er einmitt vandamálið við nálgun hans á trúarbrögð. Hún er alltof helvítis bókstafleg: einfaldir söngvar, latnesk ljóðlist, miðalda málverk og svona drasl. Jafnvel þótt hann yrði fyrir raunverulegri trúarlegri reynslu, þá væri það svo persónulegt að hún væri merkingarlaus. Nema kannski fyrir sálfræðing.

-Bargestur 1: Vandamálið með hann, og reyndar okkur öll, er að við höfum ekkert ytra líf, aðeins innra. Og þá bara af nauðsyn.

-Bargestur 2: Hann stundar það að flýja. Hann vill rækta innri garð sinn. En maður getur ekki flúið, hvar ætlar hann að finna markað fyrir ávexti persónuleika síns?

-Bargestur 1: Að mínu mati, þá þarf maður að hafa ofan í sig og á. Við getum ekki öll trúað á Krist, og heldurðu að bóndanum sé ekki skítsama um list? Hann tekur skónna af til að finna fyrir ríkri og hlýrri jörðinni milli tánna. Maður getur ekki tekið skónna af í kirkju.

Frú Lonelyhearts brosir og drekkur meira. Hann er orðinn töluvert drukkinn þegar hann gengur af stað og rekst harkalega á mann með bjórglas. Þegar hann ætlar að biðjast afsökunar fær hann högg beint í andlitið.

Hann finnur sig næst í bakherbergi að mjaka lausri tönn fram og tilbaka. Grétar vinur hans kemur að honum og stingur upp á fersku lofti.

Fyrir utan er byrjað að snjóa. Þeir ganga fram hjá bensínstöð og ákveða að nota klósettin sem eru fyrir utan. Þar situr gamall maður sem er illa til fara og lúinn.

-Grétar: Nei, sjá þennan. Bara góður á því?

Gamli maðurinn kippist til af hræðslu.

-Gamli maður: Ha? Hvað viltu? Láttu mig í friði.

-Grétar: Þótt þú getir ekki náð þér í konu, þá geturðu allavega farið í bað.

Gamli maðurinn lítur á hann með grátstaf í kverkunum. En skyndilega hlær hann þar til hann fær kröftugt hóstakast með tilheyrandi slími. Hann snýr sér undan til að þrífa sig. Frú Lonelyhearts reynir að fá vin sinn til að koma með sér burt, en hann neitar að fara án gamla mannsins. Þeir grípa hann báðir og bera hann með sér. Hann flissar á meðan, eitthvað sem pirrar Frú Lonelyhearts mjög. Það er orðið mjög kalt og maðurinn er illa klæddur, eitthvað sem hann segist ekki kippa sér upp við. Þeir fara með hann í ölkjallara þar sem þeir halda áfram að drekka, þrátt fyrir mótbárur hans sem vildi frekar drekka kaffi. Grétar er orðinn mjög pirraður á honum.

-Grétar: Hættu þessu herramanns rugli og segðu okkur söguna þína.

Gamli maðurinn er ekki hrifinn af þeirri hugmynd.

-Grétar: Láttu ekki svona, við erum vísindamenn, heimsfrægir. Segðu mér, hvenær varstu fyrst var við óeðlilegar kynferðislegar hneigðir?

-Gamli maðurinn: Hvað áttu við herra…?

-Grétar: Já, ég veit, en hvað með það sem skilur þig frá öðrum karlmönnum?

-Gamli maðurinn: Hvernig vogarðu þér…(hljóðar smá af hneykslun)

Frú Lonelyhearts: Svona, svona. Ætlun hans var ekki að móðga þig. Vísindamenn geta verið hræðilega ókurteisir og tillitslausir. En þú ert samt perri er það ekki?

Gamli maðurinn lyftir staf sínum og gerir sig líklegan til að slá með honum. Grétar grípur hann að aftan og hrifsar hann úr höndum hans. Maðurinn byrjar að hósta mjög slæmt og kröftugt. Hann rétt nær að staulast að stól annars staðar.

Þetta hefur eitthvað kveikt í einhverju hjá Frú Lonelyhearts sem finnst þetta greinilega mjög spennandi.

Frú Lonelyhearts: Ég ætla að fá ævisöguna hjá þessu kvikyndi!

Hann og Grétar ganga í átt að honum. Gamli maðurinn stekkur á fætur en Frú Lonelyhearts nær taki á honum og neyðir hann til að setjast aftur.

Frú Lonelyhearts: Við erum sálfræðingar. Við viljum hjálpa þér. Hvað heitirðu?

-Gamli maðurinn: Georg Sigurðsson

Frú Lonelyhearts: Aldur, ef þú vildir vera svo vænn, og skýring á núverandi stöðu

-Gamli maðurinn: Hvaðan þykist þú hafa rétt til…

Frú Lonelyhearts: Vísindin gefa mér rétt!

-Grétar: Hættum þessu. Þessi gamli faggi er að fara að grenja.

Frú Lonelyhearts: Nei, minn kæri vísindakollegi. Tilfinningar mega aldrei hamla vísindarannsóknum.

Frú Lonelyhearts tekur utan um gamla manninn með einum handlegg.

Frú Lonelyhearts: Segðu okkur ævisögu þína (með gervi samúðartón)

-Gamli maðurinn: Ég hef enga sögu

Frú Lonelyhearts: Það getur ekki verið. Allir hafa ævisögu.

Gamli maðurinn byrjar að gráta.

Frú Lonelyhearts: Jájá, ég veit hún er sorgleg. En segðu okkur hana helvítið þitt.

Þegar gamli maðurinn neitar enn að tala, tekur Frú Lonelyhearts í hönd hans og snýr uppá hana. Grétar reynir að taka hann burt en hann neitar að sleppa. Gamli maðurinn byrjar að öskra. Einhver slær Frú Lonelyhearts að aftan með stól.

6.

Frú Lonelyhearts liggur uppí rúmi í öllum fötunum og starir út í loftið. Síminn hringir og það er stjórinn að spyrja hvort hann ætli ekki að mæta í vinnuna. Hann svarar að hann sé fullur, en ætlar samt að reyna að mæta. Hann byrjar á að sturta í sig viskýi og fer svo í sturtu. Því næst borðar hann smá og fer út. Á leiðinni starir hann samt á allt kvenfólkið sem hann sér. Á endanum sest hann niður á bekk. Hann fer í símaskránna og stoppar á nafninu María. Hann fer á bar og fær sér tvo drykki og hringir svo.

-María: Ert þetta þú? Já, komdu núna. Ég er nýbúin að vera að rífast við hann og vil hitta þig. Núna er þetta búið.

Frú Lonelyhearts: Ok, hvenær? Hvar?

-María: Hvar sem er. Ég og þetta ógeð er búið spil!

Frú Lonelyhearts: Viltu koma hingað?

María: Nei komdu hingað.

Frú Lonelyhearts stendur fyrir utan dyr og bankar. Stjórinn kemur til dyra.

-Stjórinn: Já, komdu inn hjónabands rústari! (hlær) Frúin kemur eftir smá, hún er í baði.

Stjórinn opnar flösku af víni.

-Stjórinn: Svo, þú ert allur í þessu. Viský og kona yfirmannsins?

Frú Lonelyhearts kemur engu upp

-Stjórinn: Þú ert í rannsóknarvinnu, er það ekki? Allavega, ekki setja þetta viský á útgjaldareikninginn. Hinsvegar, þá líkar mér að sjá ungan mann sem helgar sig vinnunni af öllu sínu hjarta. Það er nefnilega búið að vera í munninum á þér upp á síðkastið.

Frú Lonelyhearts gerir örvæntingarfulla tilraun til að grínast á móti

Frú Lonelyhearts: Og þú…þú ert svona gaur sem lemur konuna sína

Stjórinn springur úr hlátri

-Stjórinn: Þú hefur rangt fyrir þér væni. Það er hún sem sér um barsmíðarnar. Kæri vinur, ég vil endilega ræða við þig maður á mann. Ég elska það, en það eru bara svo fáir sem maður getur rætt þannig við í dag. Allir eru svo lokaðir. En ég vil gera skjöldinn hreinan, byrja frá byrjun. Betra en að láta hlutina grassera í sálinni (blikkar). Minn kæri vinur, þessar ásakanir særa mig. Þið andlegu verurnar haldið að þið séu þær einu sem þjást. En það er bara ekki rétt. Þótt ást mín er holdlegri, þá þjáist ég einnig. Það er þjáning sem rekur mig í fang Frúr Fjólur heimsins. Já, ég þjáist.

Hér tapar hann dead-pan grímunni.

-Stjórinn: Hún er eigingjörn. Hún er eigingjörn djöfulsins tík. Hún var hrein mey þegar ég kynntist henni og alla tíð síðan hefur hún verið að berjast fyrir að vera það áfram. Að sofa hjá henni er eins og að sofa með hníf í klofinu.

Nú hlær Frú Lonelyhearts.

-Stjórinn: Hún heldur því fram að ég hafi nauðgað henni. Geturðu ímyndað þér mig, stjórann, nauðga einhverri manneskju? Ég er eins og þú, einn af þessum þakklátu elskhugum.

María kemur inní herbergið á baðslopp. Hún hvíslar að Frú Lonelyhearts:

-María: Ekki hlusta á þetta svín. Komdu með mér og taktu viskýið með þér.

Þau fara inní svefnherbergi

-María: Hvað sagði þetta fífl við þig?

Frú Lonelyhearts: Hann sagði að þú værir eigingjörn. Kynferðislega.

-María: Að hann skuli voga sér. Veistu afhverju hann leyfir mér að fara út með öðrum karlmönnum? Til að spara pening. Hann veit að þeir koma mér í réttan gír og þegar ég kem heim skríður hann upp í rúm og grátbiður mig. Níski djöfull!

Hún klæðir sig í kjól. Hann kemur aftan að henni og kyssir hana aftan á hálsinn.

-María: Svona, svona. Þú ruglar í útlitinu.

Hann fær sér sopa af viský og gerir drykk handa henni. Þegar hann færir henni hann kyssir hún hann létt, sem verðlaun.

-María: Hvar eigum við að borða? Förum eitthvað þar sem ég get dansað. Mig langar að vera glöð.

Þau taka leigubíl á skemmtistað. Þegar þau koma inn er verið að spila kúbverska tónlist. Þjónn færir þau til boðs. María dettur strax í einhvern spænskan gír. Frú Lonelyhearts verður greinilega pirraður eftir því sem líður á.

-María: Mér líkar vel við þennan stað. Hann er pínu gervi, ég veit, en það er bara svo gaman. Og ég vil hafa gaman.

Frú Lonelyhearts: Afhverju viltu hafa gaman?

-María: Allir vilja hafa gaman. Nema þeir séu veikir

Frú Lonelyhearts: Leiðin til að hafa gaman er að gleðja aðra. Sofðu hjá mér, þá verður mjög glaður.

-María: Ég hef haft það mjög erfitt. Frá byrjun. Móðir mín dó þegar ég var barn. Fékk brjótakrabbamein. Sársaukinn var hræðilegur. Hún dó hallandi sér yfir borð.

Frú Lonelyhearts: Sofðu hjá mér.

-María: Nei, dönsum

Frú Lonelyhearts: Nei, ég vil ekki dansa. Segðu mér frá mömmu þinni.

-María: Hún dó við að halla sér yfir borð. Sársaukinn var svo hræðilegur að hún skreið út úr rúminu til að deyja

María leikur dauðateygjurnar

-María: Pabbi minn var mjög vondur við hana. Hann var portrett málari, algjör snillingur, en…

Frú Lonelyhearts hættir að hlusta. Þegar hún hættir segir hann:

Frú Lonelyhearts: Greyið þú…

Í leigubílnum á leiðinni heim suðar hann enn í henni að sofa hjá sér. Hún neitar. Þegar þau koma aftur að íbúðinni hallar hún sér að honum fyrir koss. Hann grípur æstur um hana. Hún ýtir honum í burtu.

-María: Sko, við megum ekki hætta að tala. Hann er pottþétt að hlusta á bakvið dyrnar. Ef hann heyrir ekki í okkur tala heldur hann að við séum að kyssast og opnar dyrnar. Þetta er gamalt trikk hjá honum.

Hann reynir að kyssa hana meira.

-María: Ekki á munninn. Ég verð að tala.

Hann kyssir hana á hálsinn, opnar kjólinn og kyssir hana á brjóstin.

-María: Móðir mín dó úr brjóstakrabbameini. Hún dó á borði. Faðir minn var portrett málari. Átti mjög glaða ævi. Misnotaði móðir mína. Hún fékk brjóstakrabbamein. Hún…

Hann rífur föt hennar og hún endurtekur sömu setningar. Kjóll hennar fellur í gólfið og hann rífur í nærföt hennar þar til hún stendur nakin. Hann reynir að draga hana í gólfið.

-María: Plís, hann kemur og sér okkur

Hann kyssir hana til að fá hana til að hætta að tala

-María: Leyfðu mér að fara inn elskan. Kannski er hann ekki heima. Ef ekki, þá hleypi ég þér inn.

Hann sleppir henni. Hún opnar og læðist inn, með fötin undir handleggnum. Hann heyrir hana kveikja ljósin og því var stjórinn ekki bak við dyrnar. Þá heyrir hann fótspor og felur sig. Hurðin opnast og stjórinn kíkir út á ganginn. Hann er einungis í náttfötum að ofan.

7.

Frú Lonelyhearts situr við skrifborðið sitt. Gulli samstarfsmaður hans kemur upp að honum. Hann brosir.

-Gulli: Jæja, hvað segir byttan? (hermir eftir stjóranum)

Frú Lonelyhearts: Takk fyrir að skrifa dálkinn í gær

-Gulli: Ekki málið. Ég hafði gaman af að lesa póstinn þinn.

Hann tekur bleikt umslag úr vasanum og hendir á borðið

-Gulli: Frá aðdáanda (blikkar). Hver sendir ennþá handskrifað bréf í póstinum í dag?

Frú Lonelyhearts opnar umslagið. Í því er bréf:

Frú Lonelyhearts. Ég er ekki svo góð að skrifa. Ég vil gjarnan tala við þig. Mig vantar ráðgjöf í lífi mínu og mér var bent á þig. Ég veit að þú ert karlmaður og það er gott. Ég sá þig einu sinni á bar, ég var með manni mínum sem er fatlaður. Hringdu í mig ef þú getur í númerið sem fylgir með. Kær kveðja, aðdáandi.

Hann hendir bréfinu í ruslið.

-Gulli: (hlær) Rólegur Dostojevskí. Svona gerir maður ekki. Í staðinn fyrir að taka Rússann á þetta og mæla með sjálfsmorði, þá legg ég til að þú barnir konuna og aukir þannig dreifingu síðunnar.

Frú Lonelyhearts lætur sem hann er upptekinn til að losna við hann.

Frú Lonelyhearts skrifar næsta dálk:

Lífið, fyrir flesta, virðist vera hræðilega sársaukafull barátta full af ástarsorg. Án von eða gleði. Ó kæru lesendur, það virðist bara vera þannig. Hver maður, sama hversu fátækur eða hógvær, getur lært að nota skynfæri sín. Sjáið skýóttan himininn, freyðandi hafið…finnið ilminn af trjánum…snertið flauel og satín…eins og lagið segir: „The best things in life are free“. Lífið er….

Hann ræður ekki við að halda þessari ræðu uppi lengur, veit ekkert hvert hann er að fara með þetta. Eftir smástund gefst hann upp, fer í ruslakörfuna og nær í bréfið. Hann finnur númerið og starir á það í dágóða stund. Á endanum hringir hann:

Frú Lonelyhearts: Já halló, er þetta aðdáandi Frú Lonelyhearts?

-Aðdáandi: Já sæll. Ég heiti Dagný. (greinilegur ótti í röddinni)

Frú Lonelyhearts: Þetta er Frú Lonelyhearts. Þú sagðir að ég átti að hringja?

Hún á erfitt með að stýra samtalinu. Eftir smá fram og tilbaka, ákveða þau að hittast í garði rétt hjá.

Frú Lonelyhearts er í garðinum og skimar um í leit að aðdáandanum. Á endanum kemur kona hægt og rólega upp að honum. Hann bíður og lætur hana tala fyrst.

-Dagný: Frú Lonelyhearts? Eða, ó….

Frú Lonelyhearts: Dagný? Sæl. (tekur í hendina á henni og leiðir hana burt)

-Dagný: Hvert erum við að fara?

Frú Lonelyhearts: Fá okkur drykk.

-Dagný: Við getum ekki farið á þennan sama bar, þau þekkja mig þar

Frú Lonelyhearts: Heim til mín

-Dagný: Ætti ég?

Hann svarar engu en hún streitist ekki á móti.

Í íbúðinni situr hún á rúminu hans. Hann sest við hliðin á henni.

-Dagný: Þú hlýtur að vita mikið um konur vegna vinnunnar

Hún setur hönd sína á hné hans. Þau kyssast og eru orðin nokkuð æst.

-Dagný: Ekki

Frú Lonelyhearts: Ekki hvað?

-Dagný: Slökktu ljósin elskan

Hann reykir sígarettu á meðan að hún klæðir sig úr. Ýmis skrautleg hljóð heyrast. Á endanum kallar hún á hann að koma….

Um fimmtán mínútum seinna skríður hann uppúr rúminu dauðuppgefinn og sveittur. Hún fer á klósettið, kemur svo aftur og sest í kjöltu hans.

-Dagný: Ég skammast mín. Þú mátt ekki halda að ég sé slæm manneskja

Frú Lonelyhearts: (hristir hausinn)

-Dagný: Það er ekki mikið spunnið í manninn minn Dabba. Hann er fatlaður, eins og ég sagði í bréfinu. Og miklu eldri en ég. (hlær) Hann er allur uppþornaður. Hann hefur ekki verið eiginmaður í mörg ár. Sko, Lísa, dóttir mín, er ekki hans.

Hún á greinilega von á að hann verði undrandi svo hann gerir sitt besta til að lyfta augnbrúm.

-Dagný: Það er löng saga. Það var vegna Lísu sem ég þurfti að giftast honum. Þú hlýtur að hafa velt fyrir þér afhverju ég giftist fötluðum. Það er löng saga.

Hann er alveg að sofna yfir dáleiðandi rödd hennar.

-Dagný: Það er löng, löng saga. Ég gat ekki skrifað hana alla í bréfið. Ég lenti í vandræðum þegar Dabbi bjó fyrir ofan okkur. Ég var alltaf góð við hann og fór með honum í bíó og svona, af því hann var fatlaður. Ég var samt alveg ein vinsælasta stelpan í skólanum. En þegar ég lenti í vandræðum vissi ég ekki hvað ég átti að gera og bað hann um pening fyrir fóstureyðingu. Hann átti samt ekki pening svo við giftum okkur í staðinn. Ég gerði stór mistök að treysta honum. Ég hélt hann væri herramaður, en þegar ég bað hann að giftast mér ýtti hann mér frá hurðinni og vildi ekki einu sinni gefa mér pening fyrir fóstureyðingu. Hann sagði að ef hann gæfi mér peningana myndi það þýða að það væri honum að kenna og ég hefði því eitthvað á hann. Hefurðu einhvern tímann heyrt um slíkt illmenni áður?

Frú Lonelyhearts: Nei.

-Dagný: Eftir að barnið fæddist, skrifaði ég fíflinu, en hann skrifaði aldrei tilbaka. En svo, fyrir um tveimur árum, fór ég að hugsa hversu ósanngjarnt fyrir Lísu að þurfa að reiða sig á fatlaðan og fá ekki allt sem hún á skilið. Svo, ég fletti honum upp í símaskránni og fór með Lísu að hitta hann. Eins og ég sagði við hann þá, ekki það að ég vildi eitthvað fyrir mig, en ég vildi að Lísa fengi það sem hún átti rétt á. Svo, eftir að hafa látið okkur bíða á ganginum í yfir klukkutíma – ég var alveg brjáluð get ég sagt þér, hugsandi um allt sem hann hafði gert mér og barninu mínu – vorum við loksins leidd inn í stofuna af brytanum. Mjög hljóðlátt og kvenlegt, því peningar eru ekki allt og hann er enginn herramaður frekar en ég er fín dama, skítseyðið. Ég sagði honum að hann ætti að gera eitthvað fyrir Lísu, þar sem hann er faðir hennar. En hann vogaði sér að halda því fram að hefði aldrei séð mig áður og ef ég hætti ekki að ónáða hann myndi hann láta handtaka mig. Þá varð ég brjáluð og ég réðst á fíflið og lét hann heyra það. Þá mætti allt í einu einhver kona, sem ég taldi að hlyti að vera eiginkona hans, svo ég hrópaði: „hann er faðir barns míns, hann er faðir barns míns“. Þegar þau fóru að hringja á lögregluna hljóp ég í burtu.

En nú kemur fyndnasti kaflinn: maðurinn minn er skrýtinn kall og lætur alltaf eins og hann sé faðir barnsins og talar meira að segja um barnið okkar. Þegar við komum heim var Lísa alltaf að spyrja afhverju ég sagði að einhver skrýtinn kall væri pabbi hennar. Ég hlýt að hafa verið klikkuð af því ég sagði henni að hún ætti að muna að alvöru pabbi hennar væri allt annar maður sem ég bjó til. Ég sagði henni fullt af þvælu eins og þetta, hef kannski horft á of margar bíómyndir. En þegar Dabbi kom svo heim er það fyrsta sem Lísa segir að hann sé ekki pabbi hennar. Þá verður hann fúll og vill vita hvað ég hef verið að segja við hana. Mér líkar ekki hvernig hann kemur fram við mig og segi „sannleikann“. Ég var líka orðin pirruð á að horfa upp á hvernig hann dásamaði hana. Hann kom og gaf mér högg á kinnina. Ég læt engan komast upp með það svo ég sló han tilbaka og þá sveiflaði hann stafnum sínum að mér en hrasaði og datt í gólfið og byrjaði að grenja. Krakkinn var líka grenjandi á gólfinu og það setti eitthvað af stað í mér, því áður en ég veit af er ég þar líka grenjandi.

Hún bíður eftir að hann segi eitthvað, en hann þagar þar til hún gefur honum olnbogaskot.

Frú Lonelyhearts: Maðurinn þinn elskar alveg örugglega þig og barnið

-Dagný: Kannski, en ég var sæt stelpa sem hafði úrval af strákum sem biðu í röðum. Hvaða stelpu langar að eyða ævinni með einhverri fatlaðri rækju?

Frú Lonelyhearts: Þú ert enn sæt

Hún kissir hann og dregur svo aftur í rúmið

8.

Frú Lonelyhearts liggur sárkvalinn upp í rúmi í símanum, greinilega með einhverja flensu.

Frú Lonelyhearts: Nei, ég er ekki fullur, ég er fárveikur. Já, í alvöru. Bæ.

Ýmsir draumar og ímyndir birtast honum og hverfa. Hann finnur sig fyrir framan búðarglugga að skoða pelsa, demantahringi, úr, haglabyssur, veiðigræjur og fiðlur. Hann hugsar með sér að þetta sé búðargluggi þjáningarinnar, allir þessir hlutir eru fulltrúar hennar á einn eða annan hátt. Hann telur sig þurfa að koma röð og reglu á þetta ástand. Trompet hljómar og hann þýtur af stað og byrjar að mynda typpi úr gömlum úrum og stígvélum, svo hjarta úr regnhlífum og veiðiflugum, demant úr hljóðfærum og derhúfum, svo hring, þríhyrning, ferning, hakakross. Þegar krossinn er orðinn of stór fyrir búðina færir hann hann út á strönd. Þar fyllir hver alda á byrgðir hans, hraðar en hann ræður við að sortera. Hann vinnur af öllu afli. Hann ráfar um á ströndinni, allur útataður í allskonar sjávardýrum og rusli.

Hann vaknar við bank á dyrnar. Það er Birta sem kemur inn.

-Birta: Hæ. Ég heyrði að þú værir fárveikur svo ég kom með súpu og fleira.

Hann er of þreyttur og lasinn til að segja neitt. Hann fær sér að borða. Birta lagar til og gerir sig svo klára til að fara.

Frú Lonelyhearts: Ekki fara

Hún dregur stól að rúminu og situr án þess að segja neitt

Frú Lonelyhearts: Ég biðst afsökunar á þessu um daginn. Ég var kannski veikur.

-Birta: Þetta er þessi „Frú Lonelyhearts“ vinna. Afhverju hættirðu ekki bara?

Frú Lonelyhearts: Og fer að gera hvað?

-Birta: Vinna á auglýsingastofu til dæmis

Frú Lonelyhearts: Þú skilur ekki. Ég get ekki hætt. Og þótt ég gerði það, myndi það ekki breyta neinu. Ég myndi ekki geta gleymt bréfunum, sama hvað ég gerði.

-Birta: Kannski skil ég þetta ekki, en ég held þú sért að gera sjálfan þig að fífli

Frú Lonelyhearts: Kannski get ég fengið þig til að skilja. Byrjum á byrjuninni. Maður er ráðinn til að gefa lesendum frétta- og afþreyingarsíðu ráð. Starfið er „stönt“ til að auka klikk og þar með auglýsingatekjur. Allir samstarfsmennirnir líta á þetta sem brandara. Hann tekur þó starfinu opnum örmum, þar sem það gæti leitt til alvöru blaðamennsku, eða jafnvel persónulegs dálks með fullu frelsi. Þetta er allavega langt besta tækifæri sem honum hefur boðist. Hann lítur þó á þetta sem brandara líka, en eftir nokkra mánuði, hættir hann að skilja hvað var svona fyndið. Hann skilur þá að langstærsti hluti póstanna og bréfanna eru gríðarlega auðmjúkar og raunverulegar sárbænir um hjálp og andlega ráðgjöf, tjáning á mikilli þjáningu. Hann áttar sig líka á því að lesendur hans og viðmælendur taka hann alvarlega. Í fyrsta skipti í lífi sínu neyðist hann því til að taka til gagngerrar skoðunar gildin sem stýra lífi hans. Þessi skoðun sýnir fram á að brandarinn er ekki hans, heldur á hans kostnað.

-Birta: Þú ert þreyttur. Ég ætti að fara.

Frú Lonelyhearts: Nei, ég er ekki þreyttur. Ég er bara þreyttur á að tala. Tala þú aðeins núna.

Hún segir honum sögur úr æsku sinni á sveitabæ, um ást sína á dýrum, hvað allt hljómar og lyktar öðruvísi í borginni, og þar fram eftir götunum. Á meðan hún er að tala ryðst stjórinn inn í íbúðina, blindfullur. Birta forðar sér án þess að segja bless.

-Stjórinn: Vinur minn, ég er sammála henni. Þú stundar það að flýja. En ég er ósammála aðferðafræðinni.

Frú Lonelyhearts dregur sængina yfir andlitið og snýr sér í burtu. En stjórinn lætur ekki hunsa sig.

-Stjórinn: Það eru til aðrar aðferðir og þér til gagns og gamans mun ég lýsa þeim. En byrjum á flóttanum í sveitina, eins og Birta mælir með. Þú hefur fengið nóg af borginni og þessum milljónum manna. Atferli manna, eins og að lána, eyða og rukka, er of mikið fyrir þig. Strætóinn er alltof hægfara, neðanjarðarlestin alltof troðin. Hvað gerirðu þá? Þú kaupir bóndabæ og labbar á eftir rökum afturenda hestsins þíns, enginn kragi eða bindi, plægjandi breiða akra þína. Þegar þú grefur upp frjósömu, svörtu jörðina ber vindurinn með sér ilm af trjám og gróðri, sálin endurnýjar kynni við gamlan vinnutakt. Við þennan takt sáirðu og slær, og gengur milli ófrískra raða af korni. Spor þín verða kynferðislega hlaðin eins og hjá dansdrukknum indíána og þú treður sæðinu niður í kvenkyns jörðina. Þú plantar ekki tönn drekans heldur baunum og grænmeti….

Jæja, hvað segirðu vinur? Verður það sveitin?

Frú Lonelyhearts svarar ekki.

-Stjórinn: Ég skil þögn þína á þann veg að þú hefur tekið stöðu gegn sveitinni. Ég er sammála. Slíkt líf er alltof leiðinlegt og erfitt. Tökum nú til skoðunar Suðurhöfin: þú býrð í strjákofa með dóttir kóngsins, grönn og ung mær með augu sem í býr ævaforn þekking. Brjóst hennar gylltar perur, maginn melóna og ilmurinn einstakur. Á kvöldin, við bláa lónið, undir silfurmánanum, kyrjið þið um ást ykkar á framandi og tungumáli hennar. Líkami þinn er brúngylltur eins og hennar og ferðamenn þurfa á hjálp innfæddra að halda til að bera kennsl á þig. Þeir öfunda þig áhyggjulausan hlátur þinn og litlu brúnu brúðurina og fingur frekar en gaffla. En þú endurgeldur ekki öfund þeirra og þegar falleg stelpa úr borgaryfirstéttinni kemur inn í kofa þinn eitt kvöld til að læra leyndarmál hamingju þinnar, þá sendirðu hana aftur til snekkjunnar sem hangir við sjóndeildarhringinn eins og taugaveiklaður veðhlaupahestur. Og þannig dreymirðu í burtu dagana, veiðir, dansar, syndir, kyssir og tínir blóm til að setja í hárið….

Jæja vinur. Hvað finnst þér um Suðurhöfin?

Frú Lonelyhearts lætur sem hann sofir. Stjórinn kaupir það ekki.

-Stjórinn: Aftur þögn! Og aftur hefurðu rétt fyrir þér. Suðurhöfin eru löngu orðin þreytt og það þjónar engum tilgangi að herma eftir Gauguin. En engar áhyggjur, við höfum rétt krafsað í yfirborðið. Tökum nú til skoðunar nautnahyggju, ef þú vilt ekki taka út vinninginn og stinga af…

Þú helgar líf þitt leitinni að ánægju. Engin græðgi þó, en þú veist að líkami þinn er nautnavél og þú passar eins vel uppá hann og þú getur til að fá sem mest úr honum. Golf alveg eins og brennivín. Þú vanrækir þó ekki ánægju hugarins. Þú stundar kynlíf undir málverkum Matisse og Picasso, þú drekkur úr glösum frá Endurreisnartímanum, og oft eyðirðu kvöldi við arininn með Proust og epli. En á endanum áttarðu þig á því að þú þurfir að deyja. Þú tekur því af æðruleysi og ákveður að halda lokaveislu. Þú býður öllum gömlu hjásvæfunum, þjálfurum, listamönnum og félögum. Gestirnir eru klæddir í svart, borðið er líkkista sérsmíðuð fyrir þig. Þú býður upp á kavíar og krækiber, lakkrís og kaffi án rjóma. Eftir dansatriði stelpnanna stendurðu á fætur og kallar eftir þögn til að útskýra heimspeki lífs þíns. „Lífið“ segir þú „er klúbbur þar sem þér er aðeins gefið eitt spil og þú verður að taka þátt. Jafnvel þótt spilin er köld og brennd marki örlaganna, spilið, spilið, eins og herramenn. Grípið það sem er á hlaðborðinu, kynnist stelpunum á efri hæðinni….

Ég mun ekki einu sinni spyrja hvað þér finnst um slíkan flótta. Þú átt hvorki peningana, né ertu nógu heimskur til að geta það. En sú sem við komum að núna ætti að hæfa þér betur….

List! Vertu listamaður eða rithöfundur. Þegar þér er kalt, hlýjaðu þér við elda Titians, þegar þú ert svangur, nærðu þig þá á andlegum kræsingum Bachs, Brahms eða Beethovens. Heldurðu að það sé tilviljun að nöfn þeirra byrja öll á bókstafnum B? Ekki taka neina sénsa allavega, reyktu 3 B pípu. Segðu þeim að þeir geta átt yfirstéttarhórurnar og appelsínuendurnar. Því þú ert l’art vivant, lifandi list eins og þú kallar það. Segðu þeim að þú veist að skórnir þínir eru ónýtir og þú ert með bólur og já, skemmdar tennur og þú haltrar. En þér er sama, því á morgun eru þeir að spila síðustu kvartetta Beethovens og heima bíður þín öll leikrit Shakespeares í einu bindi.

Eftir list röflar stjórinn eitthvað um sjálfsmorð og fíkniefni. Frú Lonelyhearts lognast að mestu útaf á meðan, en rankar við sér við lokaorðin:

-Stjórinn: Minn kæri vinur, ég veit auðvitað að hvorki sveitin, né Suðurhöfin, né nautnahyggja, né list, né sjálfsvíg, né fíkniefni hafa nokkra þýðingu fyrir okkur. Guð er okkar eina flóttaleið. Kirkjan er okkar eina von. Leyf mér því að lesa upp bréf til þín:

Frú Lonelyhearts. Ég er ungur maður sem starfar við blaðamennsku. Lífið fyrir mér er tómt og merkingarlaust. Ég finn enga ánægju í mat, drykk eða kvenfólki. List gerir ekkert fyrir mig lengur. Allt er eymd og volæði. Mér líður eins og ég sé í helvíti. Hvernig er hægt að trúa í dag? Er það satt að sumir merkustu vísindamennirnir trúa? Kveðja, dyggur aðdáandi.

9.

Birta og Frú Lonelyhearts keyra upp að húsinu hans. Þau eru greinilega nýkomin úr ferðalagi og það fer vel á þeim.

-Birta: Jæja, vinna á morgun. Ertu tilbúinn.

Frú Lonelyhearts: Held það

-Birta: Mundu bara allt sem við töluðum um. Það er ekki allt á þinni ábyrgð. Núna ertu búinn að sverja eyð um að vera auðmýkri.

Frú Lonelyhearts: Jújú. Ég ætla að standa við það.

Hann tekur eftir manni sem rambar á barmi dauðans staulast hinum megin við götuna. Aðeins lengra sér hann konu með hryllilega stórt kýli á hálsinum vera að skoða í búðarglugga. Hann fer inn.

Hann situr við tölvuna og skrifar í tómt skjal:

Kristur lét lífið fyrir þig. Hann dó negldur við kross fyrir þig. Gjöf hans til þín er þjáning og aðeins í gegnum þjáningu kynnistu honum. Lærðu að meta þessa gjöf því….

Hann lokar skjalinu án þess að ýta á save. Hann nær í umslag stílað á Frú Lonelyhearts í bunka á skrifborðinu, opnar og les.

10.

Á barnum með Gulla og stjóranum. Frú Lonelyhearts lítur á símann sinn. SMS frá Birtu „afhverju svararu mér ekki? :(„

-Stjórinn: (fullur) Ég verð að vera ósammála þér minn kæri Gulli. Ekki kalla trúaða veika. Það eru þeir sem eru heilbrigðir. Það eruð þið sem eruð veikir.

Gulli svarar ekki. Stjórinn snýr sér þá að Frú Lonelyhearts

-Stjórinn: Segðu okkur nú bróðir, hvernig kom það til að þú öðlaðist trú? Var það tónlist í kirkjunni, dauði ástvinar eða vitur gamall prestur kannski?

Brandarar stjórans hafa engin áhrif lengur. Frú Lonelyhearts brosir eins og dýrlingur að ofsækjanda síns.

-Stjórinn: Ahh, en heimskt af mér. Það voru auðvitað póstarnir og bréfin. Hef ég ekki sjálfur sagt að Frúr Lonelyhearts eru prestar nútímans?

Gulli hlær og stjórinn læst vera móðgaður

-Stjórinn: Gulli þú ert nú ljóta afsprengi þessarar öld trúleysis. Þú getur ekki trúað, einungis hlegið. Þú tortryggir allt með banvænum efa.

Barþjóninn truflar samræðurnar og beinir orðum sínum til Frú Lonelyhearts

-Barþjónn: Afsakið, en það er hér herramaður að nafni Dabbi sem vill ná tali af þér. Segir að þú þekkir konu hans.

Áður en Frú Lonelyhearts nær að bregðast við á nokkurn hátt er hann búinn að gefa merki til lítils karls á enda barsins sem kemur haltrandi með staf yfir til þeirra. Dabbi er mjög spenntur og tekur í höndina á öllum tvisvar, pantar svo drykki fyrir alla. Stjórinn virðist hann gaumgæfilega fyrir sér áður en hann lyftir glasi. Hann blikkar Frú Lonelyhearts

-Stjórinn: Fyrir mannkyninu! Mannkynið, mannkynið (horfir á Dabba og hristir höfuðið) Því hvað er maðurinn ef ekki…

Barþjóninn grípur aftur inní

-Barþjónn: Dabbi sér um eftirlit með mælum hjá orkuveitunni.

-Stjórinn: Og þvílík vinna sem það hlýtur að vera! Hann ætti að geta veitt okkur annað sjónarhorn. Við blaðamennirnir erum svo takmarkaðir á svo margan hátt. Mér finnst gaman að heyra frá ólíku fólki.

Dabbi hefur virt Frú Lonelyhearts fyrir sér allan tímann en segir svo:

-Dabbi: Veistu hvað fólk segir?

-Stjórinn: Nei minn kæri, hvað segir fólk?

Dabbi: Að við mælingarmennirnir séum stundum eins og ísfólk úr ævintýrunum (setur upp svip)

-Stjórinn: Hvur andskotinn! Ég sé, herra, að þú ert ekki maður að okkar skapi. Þú getur ekkert vitað um mannkynið, þú ert mannkynið. Ég læt þig í hendur Frú Lonelyhearts.

Hann kallar á Gulla og þeir ráfa burt. Dabbi er mjög ringlaður og reiður.

-Dabbi: Vinur þinn er snarklikkaður

Frú Lonelyhearts er enn brosandi, nú með samúð og smá sorg. Dabbi brosir tilbaka

-Dabbi: Já, ég var næstum búinn að gleyma. Konan mín vill bjóða þér í mat, þess vegna bað ég hann um að kynna mig fyrir þér.

Frú Lonelyhearts samþykkir boðið sem gerir Dabba mjög glaðan. Þeir fá sér annan drykk. Dabbi segist vera þreyttur svo Frú Lonelyhearts stingur uppá að þeir færa sig í bakherbergið. Dabba líður greinilega mjög óþægilega. Þegar hann loksins byrjar að tala er ekki hægt að skilja orð af því sem hann segir. Það er ekki einu sinni ljóst hvort hann sé að reyna að gera sig skiljanlegan. Hann baðar einnig út höndum í einhverri skrýtni athöfn. Frú Lonelyhearts fylgist áhugasamur með þar til hann loks tekur upp bréf og réttir honum:

Mér líður skringilega að vera að skrifa þetta bréf til þín. En þannig er mál með vexti að ég er 43 ára fatlaður maður og hef verið alla ævi. Ég hef samt aldrei verið leiður yfir því fyrr en núna. Mér er búið að líða stanslaust illa undanfarið og spyrja mig, til hvers er þetta allt saman? Afhverju er ég að þræla mér út á lúsalaunum á meðan að yfirmennirnir keyra um á flottum köggum og lifa í vellystingum? Ekki það að vinnan sé endilega málið, ég er raunar heppinn að hafa vinnu. En afhverju að vinna svona myrkrana á milli bara til að koma heim og fæ ekki að heyra annað en stanslaust tuð um peninga, peninga, peninga. Eitthvað sem ég get ekki gert neitt í. Til hvers er maður að standa í þessu? Ég frétti að þú værir menntaður og hélt því kannski að þú vissir það? Kær kveðja, Dabbi.

Á meðan að Frú Lonelyhearts les bréfið er Dabbi að rembast við að finna eitthvað undir borðinu. Hönd hans snertir óvart hönd Frú Lonelyhearts. Hann kippir henni frá um leið og lítur skömmustulega út. En Frú Lonelyhearts tekur fast í hönd hans. Þegar hann er búinn að lesa bréfið sleppir hann ekki. Dabba líður óþægilega fyrst. En á endanum sitja þeir saman í þögn og haldast í hendur.

11.

Þeir staulast vel fullir út af barnum og uppí leigubíl. Frú Lonelyhearts hjálpar Dabba út úr bílnum þegar á leiðarenda er komið. Dagný tekur á móti þeim og fer strax að bölva Dabba.

Þegar inn er komið láta Frú Lonelyhearts og Dagný vel að hvert öðru þegar Dabbi sér ekki til. Þau borða og eftir matinn, á meðan þau drekka kaffi, sest Dagný við hliðiná Frú Lonelyhearts. Hún strýkur honum undir borðinu. Dabbi er greinilega orðinn mjög þreyttur. Dagný blikkar hann og gefur einhvers konar merki. Við það verður hann mjög ósjálfsöruggur og fer að hristast og mumla eitthvað óskiljanlegt. Á endanum verður hún pirruð á honum.

-Dagný: Hvað í andskotanum ertu að blaðra þarna?

-Dabbi: (fyrst andvarp, svo stuna) Er ég í rauninni ekki bara melludólgur? Að koma svona með mann heim handa konunni minni? (taugaveiklaður hlátur)

Dagný er nú brjáluð. Hún rúllar upp dagblaði og slær manninn sinn í andlitið með því. Hann urrar eins og hundur og grípur dagblaðið með tönnunum. Þegar hún sleppir ákveður hann að fara bara alla leið, fer niður á gólf og heldur áfram að urra og gelta. Frú Lonelyhearts reynir að fá hann til að standa upp, beygir sig niður til að lyfta honum upp, en þá rífur hann í buxnaklauf Frú Lonelyhearts og opnar hana, dettur svo niður á bakið og hlær. Dagný sparkar í hann af andúð. Á endanum hættir hann að hlægja og þau setjast öll aftur. Við tekur þögn sem á endanum pirrar Dagný svo mikið að hún fer og nær í fleiri drykki. Flaskan er þó tóm og því biður hún manninn sinn um að hlaupa út í búð og kaupa meira. Hann hristir þó hausinn og neitar. Hún reynir að þræta við hann. Hann hunsar hana sem gerir hana enn brjálaðri

-Dagný: Náðu í meira gin! Náðu í gin fíflið þitt!

Frú Lonelyhearts stendur upptekin

Frú Lonelyhearts: Plís hættið að rífast. Hann elskar þig, þess vegna lætur hann svona. Vertu góð við hann.

Hún urrar eitthvað af pirringi og fer út úr herberginu. Úr eldhúsinu heyrist einhver læti. Frú Lonelyhearts fer að Dabba og brosir til hans sama brosi og áður. Hann gerir það sama og réttir út höndina. Frú Lonelyhearts tekur í hana og þeir standa haldandi í hendur og brosandi þar til Dagný kemur aftur.

-Dagný: (í hæðnum tón) Æ hvað þið eruð sætt par

Dabbi tekur höndina tilbaka eins og hann sé að fara að slá konuna sína. Frú Lonelyhearts áttar sig á að hann verður að grípa almennilega í taumana á ástandinu

Frú Lonelyhearts: Þú ert með stóran og sterkan líkama Dagný. Þú getur gefið manni þínum hlýju með því að taka hann í fangið. Þú getur fjarlægt hrollinn í beinum hans. Hann eyðir dögum sínum í kjöllurum og geymslum, berandi þunga byrði af þjáningu og lífsþreytu. Þú getur skipt þessari byrði út fyrir draum. Draum sem verður eins og vítamínsprauta fyrir hann. Þú getur gert þetta með því að leyfa honum að sigra þig í rúminu. Hann mun endurgjalda þér með því að blómstra og þjóna þér á allan…

Dagný er alltof forviða til að hlægja. Dabbi lítur undan hann fer svo hjá sér. Frú Lonelyhearts er fullmeðvitaður um hversu fáránlegur hann er. Hann reynir aftur á annan hátt.

Frú Lonelyhearts: (öskrar) Kristur er ást! Kristur er svarti ávöxturinn sem hangir á krosstrénu. Maðurinn týndist við að eta af forboðna ávextinum. Hann mun bjargast við að eta af boðna ávextinum. Svarti ávöxtur Krists, ávöxtur ástarinnar…

Þetta fór enn verr. Hann lokar augunum. Allt í einu segir Dabbi:

-Dabbi: Ég elska þig, ég elska þig

Hann opnar augun og sér hjónin vera að kyssast.

-Dagný: Ok, klikkhausinn þinn. Ég fyrirgef þér. En farðu nú útí búð og kauptu meira gin.

Án þess að líta á Frú Lonelyhearts grípur hann hattinn sinn og fer út. Dagný brosir

-Dagný: Þú varst drepfyndinn svona með opna buxnaklauf. Ég hélt ég myndi deyja.

Hann svarar ekki

-Dagný: Vá hvað hann er afbrýðissamur. Það er nóg að ég bendi á einhvern stóran og segist vilja sofa hjá honum, þá verður hann tjúllaður.

Hún er augljóslega að daðra við hann, kveikir á tónlist. Hann segist þó vera of þreyttur til að dansa. Hún tekur nokkur æsandi spor fyrir framan hann og sest svo í kjöltu hans. Hann reynir að verjast tilraunum hennar en hún þrýstir munni sínum að hans og þegar hann lítur undan fer hún á hálsinn á honum í staðinn. Þegar hún opnar kjólinn sinn færir hann lappir sínar svo hún dettur á gólfið. Hún reynir að draga hann ofan á sig. Hann slær frá sér í blindni og hittir hana í andlitið. Hún öskrar og heldur fast í hann. Hann slær hana þar til hún sleppir takinu og hleypur út.

12.

Frú Lonelyhearts gerir sig kláran fyrir rúmið og leggst upp í. Eftir að hafa starað svolítið upp í loftið lognast hann út af. Allt í einu er bankað á dyrnar. Hann fer til dyra þrátt fyrir að vera nakinn. Tvær konur öskra þegar þær sjá hann og láta sig hverfa. Þrír menn, stjórinn þar á meðal, koma þá fram. Stjórinn segir að kona hans sé með honum og hún hafi sagt að hann hafi móðgað hana. Frú Lonelyhearts bakkar inn í herbergið og stjórinn lætur eins og hann ætli að ráðast á hann. Í staðinn klappar hann honum á bakið.

-Stjórinn: Farðu í buxur kæri vinur, við erum á leiðinni í partý.

Frú Lonelyhearts lítur ekki út fyrir að vera á förum

-Stjórinn: Komdu nú, það er drykkja í einrúmi sem gerir fólk að byttum. Ekki vera svona mikill fýlupúki. Okkur langar að spila leik og vantar þig í hann. Þetta er leikur sem ég bjó til og heitir „hver og einn sinn eigin Frú Lonelyhearts“.

Á endanum fara þau í leigubíl og heim til stjórans þar sem partýið er. Þegar Frú Lonelyhearts gengur inn fær hann miklar jákvæðar viðtökur. Þegar hann stendur brosandi, ánægður með þetta afrek, sér hann Birtu sem kemur upp að honum

-Birta: Hvað er að þér? Ertu veikur aftur?

Hann svarar ekki. Þegar allir hafa sest dreifir stjórinn blöðum og pappír og leiðir svo Frú Lonelyhearts að miðju herbergisins.

-Stjórinn: Dömur mínar og herrar (eins og sirkusstjóri) Við höfum hér í kvöld mann sem þið öll þekkið og dáist af. Frú Lonelyhearts, hann með syngjandi hjartað – Mussolini sálarinnar. Hann er hér í kvöld til að hjálpa ykkur í málefnum andans og siðferðis, að veita ykkur slagorð, málstað, gildi ofar öllum öðrum og tilgang. Sum ykkar halda kannski að þið eruð of langt leidd og engin hjálp muni gagnast. Þið eruð hrædd um að hversu mikið sem bál hans brennur mun hann ekki ná að kveikja í ykkur, þið munuð aðeins sviðna með vondri lykt. En leggið traust ykkar á hann, því ég fullvissa ykkur um að þið munuð loga. Frú Lonelyhearts mun hafa yfirhöndina.

Stjórinn dregur fram bunka af útprentuðum tölvupóstum.

-Stjórinn: Við förum kerfisbundið í gegnum þetta. Fyrst mun hver ykkar gera sitt besta til að svara einu af þessum bréfum. Út frá svörum ykkar mun Frú Lonelyhearts svo greina siðferðilega villu vegar ykkar.

Stjórinn dreifir póstunum á meðal gestanna eins og töframaður útdeilir spilum. Hann kjaftar stöðugt á meðan og les hluta úr hverjum pósti áður en hann gefur hann frá sér

-Stjórinn: Hér er einn frá gamalli konu sem missti son sinn í síðustu viku. Hún er sjötíu ára og vinnur fyrir sér með því að selja blýanta. Hún á engar sokkabuxur og gengur um í þungum stígvélum sem fætur hennar blæða undan. Hún er einnig með gláku. Er einhver með pláss í hjartanu fyrir hana?

Hér er lítill strákur sem langar í fiðlu. Vandamálið er bara að hann er lamaður. Það er ýmsan lærdóm hægt að draga af þessu. Köllum hann fiðlu kapteininn…

Frú Lonelyhearts er fullkomlega rólegur. Jafnvel áhugasamur. Hann fær síðasta póstinn frá stjóranum. Hann tekur það, en lætur það svo falla í gólfið ólesið.

-Stjórinn: Þið eruð að fara að ganga inn í veröld fulla af þjáningu og eymd þar sem íbúarnir þekkja ekkert annað en sjúkdóma og lögreglumenn. Einn af öðrum eru þau elt niður…

Sársauki, sársauki, sársauki, þessi leiðinlegi, nagandi, króníski sársauki hjartans og heilans. Sársauki sem aðeins andleg meðöl geta linað…

Þegar Frú Lonelyhearts sér Birtu vera að fara eltir hann hana. Hann vill að hún sjá hvers konar klettur hann er orðinn. Stjórinn tekur á endanum eftir að hann er farinn, hann sér póstinn á gólfinu og tekur hann upp.

-Stjórinn: Meistarinn er horfinn. En enga örvæntingu. Ég er enn hér. Ég er lærisveinn hans og mun leiða ykkur áfram. Leyf mér að lesa fyrst þennan póst sem er stílaður á meistarann:

Hvers konar djöfulsins fífl ert þú? Þegar ég kom heim með ginið var konan mín hágrátandi á gólfinu og húsið fullt af nágrönnum. Hún sagði að þú hafir ráðist á sig og þau vildu hringja á lögregluna en ég sagði að ég myndi sjá um þetta sjálfur…

Jahérna, ég get varla haft eftir það sem eftir kemur, svo litríkt er tungumálið. Ég sleppi því:

Svo allir fínu ræðu þínar eru ekki meira virði en þetta ógeðið þitt, það ætti að skjóta þig í hausinn…

-Dabbi

Svo meistarinn er greinilega Raspútín endurfæddur. Það hriktir svo sannarlega í stoðum trúarinnar við þessa vitneskju. En ég get ekki trúað þessu. Ég mun ekki trúa þessu. Trú mín stendur óhögguð. Þetta er bara enn eitt tilræðið sem runnið er undan rifjum djöfulsins. Hann hefur eytt lífi sínu í baráttu við erkióvininn og mun sigra að lokum. Þá meina ég Frú Lonelyhearts, ekki djöfullinn. Guðspjallið samkvæmt stjóranum. Lof mér að segja ykkur örlítið frá lífi hans. Fyrst, strax í barnæsku, geislandi af hreinu sakleysi líkt og nýþvegin stjarna, heldur hann á braut háskóla erfiðisins og harksins. Næst, sem unglingur, er hann orðinn að veru myrkursins. Svo sem maður, Frú Lonelyhearts, er braut hans mörkuð af þessu göfuga takmarki. En sjá! Heimurinn, bitur og í hefndarhug, leggur endurtekið steina í götu hans, þrumurödd ákallar hann og segir „stopp!“. En hann lítur á hverja hindrun sem tröppu sem hann klífur hærra og hærra. Áfram klífur hann, úrvinda og einn á báti þar til…

13.

Frú Lonelyhearts nær Birtu út á gangi. Hann gengur upp að henni með bros á vör.

-Birta: Afhverju glottiru svona?

Frú Lonelyhearts: Ó fyrirgefðu, ég meina ekkert með því

Þau fara saman niður í lyftu.

Frú Lonelyhearts: Eigum við ekki að fara að fá okkur drykk? Kaffi eða gos á ég þá viðmælendur

-Birta: Nei, ég er að fara á heimavistina

Frú Lonelyhearts: Plís

Hann tekur í höndina á henni og saman fara þau á kaffihús sem er rétt hjá.

Frú Lonelyhearts: Afhverju ertu svona reið? Ég gerði ekkert, þetta var hans hugmynd og hann sá alveg um þetta allt

-Birta: Afþví að þú ert fáviti

Frú Lonelyhearts: Ég er hættur í vinnunni. Hef ekki farið þangað í næstum viku

-Birta: Hvað ætlaru að gera?

Frú Lonelyhearts: Leita að vinnu hjá auglýsingastofu

-Birta: Ég þekki einn sem þú ættir að tala við, hann á stofu. Fínn gaur. Er ástfanginn af mér

Frú Lonelyhearts: Ég gæti ekki unnið fyrir keppinaut

Þau hlægja bæði. Hlátur hennar breytist þó í grátur

-Birta: Ég er svo vitlaus

Hún hleypur út. Hann hleypur á eftir og nær henni. Hún grætur enn meira. Hann kallar á leigubíl og þau fara saman inn. Hún talar í gegnum gráturinn og segir að hún sé ólétt. Hann biður hana um að giftast sér. Hún segist ætla að fara í fóstureyðingu. Hann grátbiður hana að giftast sér, lofar henni öllu fögru, allt sem henni dreymir um.

Þegar þau eru komin heim eru þau farin að ræða plönin eftir giftinguna. Hvar þau áttu að búa, hvers konar húsgögn, o.s.frv. Hún ákveður að eignast barnið. Hann ákveður að tala við vin hennar með stofuna. Hann er sannfærður um að nýji persónuleiki sinn og lífssýn er kominn til að vera. Hann sér sig sem klett sem ekkert getur haggað.

14.

Frú Lonelyhearts liggur uppí rúmi veikur aftur. Hann starir á styttuna af Jesús á veggnum. Allt í einu verður styttan að ljósi sem dansar um herbergið eins og fluga. Ljósið verður sterkara og sterkara þar til hann er við að blindast

Frú Lonelyhearts: Kristur! Kristur!

Hann situr upp í rúminu. Hann og herbergið fyllast af náð Guðs. Hann heyrir rödd Guðs sem spyr hann „ertu tilbúinn til að taka á móti núna?“

Frú Lonelyhearts: Ég er tilbúinn, ég er tilbúinn

Hann sest við tölvuna og byrjar að skrifa pistla um Guð. Hann finnur fyrir samþykki hans. Allt í einu hringir dyrabjallan. Hann opnar og fer út á gang þar sem hann sér Dabba koma upp tröppurnar. Hann verður hæstánægður, þetta hlýtur að vera eitthvað próf frá Guði, próf sem hann ætlar sér að standast. Hann rýkur í átt að honum með hendurnar opnar. Dabbi er með eitthvað undir hendinni vafið í dagblöð. Þegar hann sér Frú Lonelyhearts grípur hann um hlutinn og stoppar. Hann hrópar viðvörun, en Frú Lonelyhearts tekur ekki mark á því, hleypur enn hraðar ef eitthvað er, þetta hlýtur að vera hróp á hjálp og hann ætlaði að kæfa hann í ást. Dabba snýr við og ætlar að flýja, en hann er of hægur og Frú Lonelyhearts nær honum. Það leiðir til átaka sem Birta gengur beint inn á. Hún skipar þeim að hætta. Dabbi dregur hlutinn undan dagblöðunum sem kemur í ljós að er byssa sem springur svo í loft upp í átökunum. Sprengingin kastar Frú Lonelyhearts niður tröppurnar og hann dregur Dabba með. Saman velta þeir niður tröppurnar.

-FIN-