Categories
hagfræði Heimspeki

Seðlabankar, sjálfstæði og verkalýðsbarátta

Ásgeir Jónsson, Seðlabankastjóri Íslands, var nýlega í viðtali í Fréttablaðinu. Þar kallar hann eftir þéttari vörnum í kringum lífeyrissjóðina. Kemur þetta ákall Seðlabankastjóra í kjölfar þess að Ragnar Þór Ingólfsson, í yfirlýsingu 17. júlí, beindi því til stjórnarmanna sem VR skipar í Lífeyrissjóð verslunarmanna að sniðganga væntanlegt hlutafjárútboð Icelandair eða greiða atkvæði gegn þáttöku lífeyrissjóðsins. Yfirlýsingin er svo auðvitað viðbragð við grófu framferði Icelandair í kjaraviðræðum við Flugfreyjufélag Íslands. Hún og tilmæli hennar voru svo síðar dregin tilbaka af stjórn VR.

Hörður Ægisson er vægast sagt ekki hrifinn heldur. Í pistli í Fréttablaðinu kveður hann við kunnan tón og kallar forystufólk verkalýðshreyfingarinnar „hvað öðru vanstilltara í ofstæki sínu“, ásamt því að kalla eftir því að Seðlabankinn grípi „umsvifalaust til aðgerða“ og taki jafnframt til athugunar „hvort ástæða sé til að vísa málinu til ákæruvaldsins“ Hvorki meira né minna.

Það verður að koma í ljós hvort þessum tilmælum hans til Seðlabankans verði fylgt eftir. En það er ýmislegt áhugavert í málflutningi Seðlabankastjóra sem krefst nánari skoðunar. Í ofangreindu viðtali lætur hann ýmislegt falla, t.d.

„Að mínu áliti þarf að stíga miklu fastar til jarðar í því að tryggja sjálfstæði sjóðanna. Ég tel að regluumhverfi þeirra sé allt of veikt og að Fjármálaeftirlitið þurfi öflugri heimildir til inngripa,“

Ásamt:

„Í gegnum tíðina hafa ýmsir utanaðkomandi aðilar reynt að hafa áhrif á fjárfestingar lífeyrissjóðanna. Stjórnmálamenn hafa reynt að nota sjóðina í pólitísk verkefni, atvinnurekendur til þess að styðja einstök fyrirtæki og atvinnugreinar og verkalýðsfélög hafa reynt að nota þá í kjarabaráttu. Þetta er ekki nýtt vandamál og það mun dúkka upp aftur og aftur,“

„Þess vegna skiptir miklu máli að efla regluverkið þannig að sjálfstæði stjórnarmanna sé tryggt til frambúðar svo að ákvarðanir verði alltaf teknar með hagsmuni sjóðsfélaga í fyrirrúmi.“

Ef við reynum að súmmera þetta upp: lífeyrissjóðunum stafar því umtalsverð hætta af utanaðkomandi áhrifum, eins og þessi atburðarrás sem stjórn VR stóð fyrir sýnir skýrt fram á að mati Seðlabankastjóra og því þarf að tryggja „sjálfstæði“ þeirra eftir fremsta megni.

Hann heldur svo áfram:

„Það mega ekki skapast nein tækifæri til að stofna sjálfstæði stjórnarmanna í hættu. Það má ekki vera auðveldara að skipta út stjórnarmönnum í lífeyrissjóðum en í öðrum einingum tengdum almannahagsmunum. Sérstaklega í ljósi þess hve sjóðirnir eru stórir og umsvifamiklir í íslensku atvinnulífi,“

„Við höfum slæma reynslu af skuggastjórnun – afskaplega slæma, „Það var tekið hart á því í stjórnun banka og hlutafélaga í kjölfar hrunsins en lífeyriskerfið hefur setið eftir. Við svo búið má ekki standa.“

Hér er vægast sagt af mörgu skemmtilegu að taka. Ætla ég í eftirfarandi einungis að ræða eitt atriði sem ég tel mikilvægt í þessu samhengi, en óskiljanlega sjaldan er minnst á.

Paul Volcker og kaflaskipti nýfrjálshyggjunnar

Eins og fjölmargir fræðimenn hafa rætt í ítarlegu máli og ætti ekki að teljast sérstaklega umdeilt, þá markar 8. áratugurinn byrjun þess sem mætti kalla tímabil nýfrjálshyggjunnar. Það er að segja, stjórnmálahagfræðistefnan sem við köllum nýfrjálshyggju náði á þessum áratug yfirhöndinni yfir ríkjandi stjórnmálahagfræði. Sú stjórnmálahagfræði einkenndist auðvitað fyrst og fremst af kenningum John Maynard Keynes, oft kallaður faðir þjóðhagfræðinnar, sem var fullkomlega dóminerandi á tímabilinu (gróflega) frá Kreppunni miklu og New Deal Roosevelts fram að nýfrjálshyggjunni. Réðu kenningar hans þannig að mestu leyti ferðinni þegar kom að peningastefnu og hlutverki ríkisvaldsins og seðlabanka.

Þar til honum var velt af stalli af hagfræðingum og fræðimönnum eins og Friedrich Hayek fyrst og fremst, ásamt Milton Friedman, James M. Buchanan, Gary Becker, o.fl. Eru þar atburðir eins og Olíukrísan 1973 og valdaránið í Chile sama ár, ásamt mikilli verðbólgu, atvinnuleysi og lítils hagvaxtar sem einkenndi áratuginn (e. stagflation) – endalok gullaldarskeiðs kapítalismans sem ríkt hafði með stöðugum hagvexti frá lokum Seinni heimsstyrjaldar – almennt taldir vega þyngst .

Þetta ætti að vera flestum kunnt, og óþarfi að fara nánar útí hér. Ég vil frekar fókusa á annan kafla í þessari sögu, sem er ekkert síður mikilvægur, en fær sjaldnast þá athygli sem hann verðskuldar í ljósi afdrifaríkra afleiðinga hans. Þar á ég við skipun Paul Volcker sem Seðlabankastjóra Bandaríkjanna 1978. En eins og David Harvey, Melinda Cooper, Robert Brenner o.fl. benda á, þá markar sú skipun ein helstu kaflaskilin (e. paradigm shift), frá keynesískri stjórnmálahagfræði (tímabil sem stundum er kallað embedded liberalism), þar sem ríkisvaldið leitast eftir að stýra heildareftirspurninni í samfélaginu, yfir í nýfrjálshyggjutímabilið.

Fyrir nýfrjálshyggjuna var meginhlutverk seðlabanka skilið sem það að tryggja fulla atvinnu (e. full employment), eða eins og segir í Employment Act frá 1946 „promote maximum employment, production and purchasing power“ og beittu seðlabankar ýmsum meðölum í þeim tilgangi sem verkalýðurinn naut góðs af. Seðlabankar höfðu í rauninni verkalýðsfélög oft með í ráðum, og sóttust eftir trausti þeirra, að halda þeim góðum, oft með því að halda stefnum ríkisins í skefjum. Að seðlabankar fóru nú að skilja hlutverk sitt sem það að halda verðbólgu í skefjum með öllum ráðum – sama hvaða afleiðingar þau ráð kunni að hafa fyrir verkalýðinn – var ekkert annað en byltingarkennt. Það er engum ofsögum sagt. Eða, ef fylgt er David Harvey, stór og mikilvægur hluti af and-byltingu ríkjandi stétta og elítu. Ásamt Thatcher í Bretlandi og Deng Xiaoping í Kína, greinir Harvey skipun Volcker, sem greiddi svo götuna fyrir Reagan með mikilvægum hætti sem eina af þremur uppsprettum eða miðjum nýfrjálshyggju byltingarinnar. Eins og hann orðar það:

Útfrá þessum þremur miðjum breiddust út byltingaröfl með svo afdrifaríkum hætti að heimurinn allur var fljótt orðinn óþekkjanlegur“ (úr þýðingu minni á inngangi A Brief History of Neoliberalism sem finna má hér).

Paul Volcker (sem lést á síðasta ári) var skipaður af Jimmy Carter, eftir meðmæli frá David Rockefeller. Var hann undir miklum áhrifum frá peningastefnukenningu Milton Friedman (e. monetarism), sem kveður á um að hlutverk seðlabanka ætti fyrst og fremst að vera það að halda verðbólgu í skefjum. Þetta er auðvitað eitthvað sem við ættum að kannast vel við, enda er þetta einmitt skilið sem meginhlutverk Seðlabanka um allan hinn vestræna heim og víðar í dag, eins og Ásgeir Jónsson hefur oft leitt okkur í allan sannleikann um í viðtölum.

En svo við snúum aðeins aftur að Volcker, þá hófst hann þegar handa við að reyna að ná tökum á verðbólgunni með því að keyra stýrivexti uppí hæðir sem hafði ekki áður sést í sögu Bandaríkjanna. Þessar róttæku aðgerðir sendi hagkerfið í djúpa kreppu. Atvinnuleysi stórjókst. Verðbólgan var þó viðvarandi, jafnvel þótt hagkerfið byrjaði smám saman að batna. Volcker hélt áfram, keyrði stýrivexti hæst upp í 19% í janúar 1981, lét þá aðeins falla, og svo aftur uppí 19 í júní og júlí. Hagkerfið steyptist þá í verstu kreppu sem það hafði séð síðan á 4. áratugnum. Gjaldþrot ruku upúr öllu valdi, og atvinnuleysi náði 8% í nóvember 1981, 9%í mars 1982, og 10% í september. Verðbólgan, sem hafði verið að falla 1980, en ekki nægilega mikið að mati Volcker, byrjaði að falla af alvöru síðla 1981. Eftir að hún fór niður fyrir 6% í ágúst 1982, slakaði Volcker á taumunum. Ekki vegna áhyggja af stöðu verkalýðsins þó, heldur vegna þess að Mexíkó rambaði á barmi alvarlegrar krísu sem hefði getað haft alvarlegar afleiðingar fyrir Bandaríkin. Löng saga sem óþarfi er að rekja hér. En hann lýsti svo yfir að þessum róttæku aðgerðum væri lokið í ágúst 1982, en verðbólga hélt þó áfram að falla, og var komin undir 3% árið 1983.

Alan Greenspan átti svo síðar meir eftir að leika lykilhlutverk í þessari sögu. Látum þetta stutta sögulega yfirlit þó duga.

En þessar aðgerðir Volcker höfðu ýmsar afdrifaríkar afleiðingar. Jákvæðar eða neikvæðar. Það fer allt eftir því hver það er sem lítur á málin. Neikvæðar fyrir verkalýðinn augljóslega, en hátt atvinnuleysi, atvinnuóöryggi og há tíðni gjaldþrota er sjaldnast eitthvað sem verkalýðurinn upplifir sem sérstaklega jákvætt. Af augljósum ástæðum.

Hins vegar voru afleiðingarnar mjög jákvæðar frá sjónarhóli ríkjandi stétta og elítu. Þessar aðgerðir Volcker gerðu verkalýðinn lafhræddan, milljónir óttuðust nú atvinnuleysi. Ótti sem styrktist svo til muna þegar Reagan rak flugumferðastjóra í verkfalli 1981 – verkalýðsleiðtoginn þar var fjarlægður í keðjum. Þetta markaði í rauninni upphafið að brútal stórsókninni gegn verkalýðsfélögum sem Reagan og Thatcher stóðu svo fyrir á 9. áratugnum, með vel þekktum afleiðingum. Verkföll féllu t.d. í Bandaríkjunum úr 300 að meðaltali á ári á 8.áratugnum niður í 80 á tíunda. Ásamt því að aðgerðir Volcker greiddu með mikilvægum hætti götu þess að stórfyrirtæki gætu byrjað að flytja framleiðsluna úr landi í stórum stíl, eins og þau byrjuðu svo að gera á 9.áratugnum. Svo ekki sé talað um áhrifin á ójöfnuð, sem byrjaði að stóraukast í beinu framhaldi af þessari kaflaskiptingu, og hefur sú aukning haldið áfram jafnt og þétt fram á okkar daga eins og flestum ætti að vera kunnt – með engu sjáanlegu láti á í neinni náinni framtíð. Skemmst er að segja að þessar afleiðingar og þróanir hafa ekki verið sérlega jákvæðar fyrir hagmuni verkalýðsins.  

Fjármagnseigendur og fjármálabraskarar, með öðrum orðum fjármálageirinn, fagnaði enda þessum mikilvæga sigri Volcker á verkalýðshreyfingunni ákaft. Sem hann var svo sannarlega, ef hann er skilinn útfrá sjónarhóli stéttabaráttu. En sigrar fjármálageirans og ríkjandi stétta og elítu áttu svo auðvitað eftir að verða mun fleiri á næstu áratugum.

***

Ég veit svosem ekki nákvæmlega hvaða vegferð Ásgeir Jónsson er á þarna. Þetta kemur auðvitað í kjölfar Covid-19 krísunnar, þar sem seðlabankar hafa verið að grípa til aðgerða sem – að mati margra a.m.k. – eru meira í ætt við Keynes en nýfrjálshyggju stjórnmálahagfræði. Ég er nú ekki alveg sammála því mati, af ýmsum ástæðum sem ég læt vera að fara útí hér. Væri efni í annan pistil.

Þessi kafli úr sögu nýfrjálshyggjunnar ætti þó að gefa einhverjar vísbendingar myndi ég halda. Mér finnst allavega mikilvægt að benda á að peningastefna seðlabankans er ekki einungis ennþá dómineruð af stjórnmálahagfræði nýfrjálshyggjunnar, alveg eins og hún var í kjölfar krísunnar 2008 (þar sem „keynesísku“, ef ekki hreinlega sósíalísku, aðgerðir seðlabanka voru einnig lofaðar af mörgum álitsgjöfum – skemmst er að minnast forsíðu NewsweekWe are All Socialists Now“). Það er eitthvað sem flestir ættu að gera sér grein fyrir. 

Ekki síður mikilvægt að hafa í huga er að sú stjórnmálahagfræði hefur alla tíð, alveg frá byrjun, beinlínis verið miðuð gegn hagsmunum verkalýðsins, og hafa seðlabankar leikið lykilhlutverk í að berja verkalýðsbaráttu á bak aftur með beinum og harkalegum – ef ekki hreinlega miskunnarlausum – aðgerðum. Þeir eru þannig síður en svo hlutlaus fyrirbæri, „sjálfstæðar“ stofnanir hvers „sjálfstæði“ ber að tryggja og verja með öllum ráðum. Deila seðlabankar alveg jafn mikilli ábyrgð og stjórnmálamenn og atvinnurekendur á þeirri bágborinni stöðu verkalýðsfélaga, miðað við áður fyrr, sem við sjáum nánast alls staðar í dag.

Því verður að segjast eins og er að það er óneitanlega nokkuð athyglisvert að sjá Seðlabankastjóra brýna fyrir mikilvægi sjálfstæði stjórnarmanna lífeyrissjóða á þennan hátt. Þar sem fyrst og fremst er átt við sjálfstæði frá afskiptum forystu verkalýðsfélaga og verkalýðsbaráttu. Svona í ljósi sögunnar.

Þá sögu mætti alveg hafa í huga þegar kemur að því að skilja þessi ofsafengnu viðbrögð Ásgeirs Jónssonar og Harðar Ægissonar við yfirlýsingu VR til hlítar.