Categories
hagfræði Heimspeki Óflokkað

Hannes eins og við best þekkjum hann: með allt niðrum sig

Hannes Hólmsteinn er eitthvað að derra sig í Stundinni í dag. Mikið hef ég gaman að svona. Án djóks.
https://stundin.is/grein/12460/ord-hayeks-stadfest/
 
Það tæki alla helgina að ætla að fara ofan í allt sem er að þarna. En hér er eitthvað:
 
Eins og við er að búast er flest allt í tómu tjóni hjá manninum. Hinsvegar er þó sumt vissulega rétt – einna helst þáttaskilin sem urðu við upphaf 8.áratugarins. Eins og HHG bendir réttilega á, þá markaði upphaf áratugarins, er oft miðað við Olíukrísuna sem vendipunktinn, á sama tíma upphaf allt annars tímabils í sögu Vestursins og heimsins. Gullaldarskeið kapítalismans, sem ríkt hafði frá lokum Seinni heimsstyrjaldarinnar, tók enda og var þá byrjað að innleiða hinar ýmsu stjórnmálahagfræðistefnur – sem við kennum í dag við nýfrjálshyggju – í þeim tilgangi að halda vöxtinum uppi. Hér erum við félagi minn sammála, enda þetta óumdeilanlegt.
 
Þar sem okkur greinir hinsvegar á er í orsökum þessarar krísu í upphaf 8. áratugarins. HHG vill að sjálfsögðu meina, eins og alltaf, að hér sé um einhvers konar frávik að ræða, eitthvað sem er sósíalistum að kenna. Þrátt fyrir að sannleikurinn sé augljóslega sá að gullaldarskeið kapítalismans 1945-1973 sé hið raunverulega frávik í sögu hans. Kapítalisminn, hvar sem hann hefur verið prufaður, á öllum tímum lendir í niðursveiflu, kreppu eða krísu að meðaltali á sjö ára fresti – eitthvað sem HHG flýta sér ávallt fram á völlinn til að útskýra hvernig sé frávik eða skemmdarverk sósíalista frá annars óslitinni hagsældarsögu kapítalisma. Hvernig reitt er ávallt fram sömu þvæluna, til að reyna að breiða yfir nákvæmlega sömu augljósu vandamálin, á nokkra ára fresti, er bara einhver absúrd kómedía.
 
Ræðum aðeins hin raunverulegu vandamál:
 
Upphaf 8.áratugarins markar upphaf tímabilsins sem hagfræðingurinn Robert Brenner kallar the long downturn, og á hann þar við viðvarandi krísu bandaríska hagkerfisins og heimsins alls sem birtist í síminnkandi ávöxtun fjárfestinga og þar með hagnaðar og auðsöfnunar – drifkrafts hins kapítalíska hagkerfis. Frá þeim tímapunkti hefur heildarhagnaðurinn aldrei aftur náð hæðum eftirstríðsáranna. og á hann þar við
 
Bakgrunnur þessarar krísu sérstaklega er flókin, eins og Brenner ræðir í bók sinni The Economics of Global Turbulence. Hann bendir einna helst á innbyggða tilhneigingu til offramleiðslu í iðnaði heimsins sem aðalástæðuna. Á sínum tíma komu fleiri og fleiri iðnaðarríki fram á heimsmarkaðinn – Þýskaland, Japan, asísku „tígrarnir“, og svo Kína. Þessi iðnríki, sem komu seinna fram á sjónarsviðið, fóru að framleiða sömu vörur og gömlu framleiðsluríkin – bara ódýrara. Afleiðingin var alltof mikið framboð miðað við eftirspurn í hverjum iðnaðinum á fætur öðrum sem leiddi aftur til lægra verðs og þar með minni hagnaðar. Fyrirtækin sem upplifðu minnkandi hagnað gáfust hins vegar ekki upp. Þau lögðu meiri áherslu á nýsköpun og fjárfestingar í nýrri tækni. Þessar tilraunir gerðu þó vandamálið enn verra.
Þetta ástand þýddi það að kapítalistarnir fengu sífellt minni hagnað úr fjárfestingum sínum. Því höfðu þeir engra annarra kosta völ en að hægja á vexti verksmiðjanna, uppfærslu á tækjabúnaði og nýráðningu. Á sama tíma – í tilraun til að ná hagnaðinum upp aftur – frystu þeir laun starfsmannanna á meðan að stjórnvöld drógu einnig úr eyðslu í velferðarkerfinu. Afleiðingin af þessum sparnaði hefur verið langvarandi minnkun á heildareftirspurn. Þessi viðvarandi veika heildareftirspurn er rótin að vandamáli heimshagkerfisins, og sést hvað best hjá Bandaríkjunum, Vestur-Evrópu og Japan.
 
Gerðar voru ýmsar tilraunir til að ná hagnaðinum upp aftur, eins og HHG veit allt um. Hagfræðingar fóru t.d. að hvetja til skuldasöfnunar, bæði hjá almenningi og hinu opinbera. Fjármálavæðing hagkerfisins hófst, en með henni var hægt að ná fram skjótum og gígantískum gróða sem skaut heildarhagnaðinum tímabundið upp. Til lengri tíma litið gerði fjármálavæðingin hins vegar meira slæmt en gott fyrir hið kapítalíska hagkerfi, en hún gerði ekkert til að leysa vandamálið þar sem heildarhagnaður hefur haldið áfram að falla á sama tíma og hún opnaði dyrnar að öðrum alvarlegum vandamálum, ekkí síst kreppum og bólum höfðu katastrófískar afleiðingar á áður óséðum skala, eins og gerðist árið 2008. Auðsöfnun heimshagkerfisins byggir í raun og veru að miklu leyti bara á spákaupmennsku – sem studd er með ráðum og dáð af stjórnvöldum og ráðgjöfum þeirra. Það þarf einhvern annan en mig til að setja þessa geðveiki í nægilegt samhengi.
 
En þá komum við að besta vini Hannesar. Því tilhneigingin til minnkandi hagnaðar í hinu kapítalíska framleiðslukerfi (e. the tendency of the rate of profit to fall ) er auðvitað vel þekkt og umdeilt fyrirbæri innan hagfræðinnar sem t.d. Adam Smith, David Ricardo og ekki síst Karl Marx fjölluðu um á sínum tíma. Samkvæmt Adam Smith stafaði tilhneigingin af því að aukin auðsöfnun leiðir til aukinnar samkeppni sem minnkar hagnaðinn. Ricardo færði hins vegar rök fyrir því að samkeppni geti aðeins haft áhrif á hagnað einstakra fjárfestinga, en ekki á heildarhagnað. Hann hélt því fram að heildarhagnaðurinn gæti aðeins fallið ef laun hækkuðu (nema í einstökum, sjaldgæfum tilvikum).
 
Í kafla þrettán í þriðja bindi af Das Kapital gagnrýnir Marx þennan skilning Ricardo og heldur því þvert á móti fram að tilhneigingin til minnkandi hagnaðar sé innbyggður eiginleiki hins kapítalíska framleiðslukerfis. Í Grundrisse handritinu gengur hann jafnvel svo langt að kalla þetta fyrirbæri mikilvægasta lögmál stjórnmálahagfræðinnar. Minnkandi hagnaður getur átt sér aðrar skýringar, en það er einnig kerfisbundin ástæða fyrir honum sem er óháð sveiflum á mörkuðum.
 
Samkvæmt Marx gera tækninýjungar og framfarir framleiðslu skilvirkari. Raunveruleg afköst aukast og fjárfesting í vinnuafli skilar sífellt meira af sér. Hins vegar þá fara vélar að leysa fólk af hólmi og þannig eykst lífræn samsetning fjármagnsins.[1] Ef gert er ráð fyrir að aðeins vinnuafl geti skapað umframvirði, þá mun þessi aukna framleiðsla leiða til minni umframvirðis, miðað við virði fjármagnsins sem fjárfest er í framleiðslunni. Afleiðingin er sú að heildarhagnaður iðnaðarframleiðslu minnkar með tímanum. Þversögnin er sú að hagnaður minnkar ekki vegna þess að framleiðsla minnki, heldur einmitt vegna þess að hún eykst í gegnum fjárfestingu í tækjum og búnaði. Með öðrum orðum þá leiða tækniframfarir til minni þarfar á vinnuafli og langtíma afleiðingarnar eru þær að framleiðsluhagnaður fellur– alveg óháð sveiflum á mörkuðum.
 
Marx tekur þó fram að minnkandi hagnaður sé tilhneiging sem kerfið getur unnið á móti með ýmsum hætti. Dæmin sem Marx tekur eru m.a. aukin kúgun á vinnuaflinu, lækkun launa undir virði vinnuaflsins, lækkun á kostnaði hins stöðuga fjármagns með ýmsum hætti, aukinn vöxtur umframvinnuafls (atvinnulausra) eða minni kostnaður í gegnum erlend viðskipti. En þrátt fyrir að þessi atriði geta unnið tímabundið á móti tilhneigingunni, þá mun hún þó ávallt á endanum hafa vinninginn. Kapítalíska hagkerfið mun á endanum hnigna og leysast upp vegna innbyggðra mótsagna – spurningin er einungis hversu lengi þessi mótvægi haldi áfram að virka.
 
Aðrir marxistar eins og Rosa Luxemburg og David Harvey, hafa einnig rætt ítarlega tilhneigingu kapítalismans til að færa sig um set og leggja undir sig ný landsvæði með ódýrara vinnuafli í þeim tilgangi að vinna á móti þessu lögmáli og halda hagnaðinum uppi. Rosa Luxemburg átti þar að sjálfsögðu við nýlendustefnuna en Harvey (og fleiri) hefur bent á hnattvæðinguna sem fyrirbæri af sama toga. Robert Brenner, þrátt fyrir að vera ekki marxisti sjálfur, er ekki ósammála þessari greiningu, en það skýrir að hans mati einnig ofuráhersluna á hnattvæðingu síðustu áratugi.
 
En þrátt fyrir hana hefur ávöxtun og heildarhagnaður haldið áfram að fara lækkandi, á fyrsta áratugi þessarar aldar náði hann sínum lægsta punkti, svo hnattvæðingin hefur ekki reynst vera nein lífsbjörg. Eftir fjármálakrísuna 2008, er heimshagkerfinu beinlínis haldið uppi af billjóna á billjóna ofan innspýtingum seðlabanka, sem kallað er því yndislega nafni quantitative easing – hugtak sem gæti einfaldlega ekki mögulega rembst meira við að hljóma tæknilegt og flókið (með öðrum orðum eitthvað sem er ekki fyrir almenninga að skilja). Þrátt fyrir að hlutirnir séu í rauninni mjög einfaldur: seðlabankar dæla linnulaust endalausum milljörðum til að halda uppi fársjúku efnahagskerfi sem er löngu hætt að geta staðið á eigin spýtur og allt gefur til kynna að falli eins og spilahús ef reynt er að slaka örlítið á. En þetta er þó augljóslega eitthvað sem ekki er hægt að halda áfram endalaust, eins og seðlabankastjórar gera sér vel grein fyrir og hafa því verið að gera ítrekaðar tilraunir til að komast út úr – með nákvæmlega engum árangri.
 
Hver er lærdómurinn af þessu? Hann er sá að vandamálið er ekki stefnur og ákvarðanir vissra stjórnmálamanna, mér er sama hversu miklir sósíalistar Hannes telur þá vera. Öllu heldur er það augljóslega kapítalíska hagkerfið sjálft. Það og lögmál þess ráða alfarið ferðinni. Við öll – hvort sem við erum stjórnmálamenn, fjármálabraskarar, seðlabankastjórar, strætóbílstjórar, áhrifavaldar, leikskólakennarar eða aðstoðarmenn Sigmundar Davíðs, erum einungis með misgott tak á þessu nauti – og gengur misvel í að vera ekki fleygt af baki. 
Categories
Þríburar

Þríburasögur

Handahófskenndar eineggja þríburasögur í tilefni sex ára afmæli þeirra

Einn af strákunum, Freyr, sagði „shit“ þegar við vorum að brasa eitthvað á laugardagsmorgunin.

Hvaðan hann fær það hefur maður auðvitað ekki hugmynd um. Augljóslega ekki mér samt. Er með eindæmum prúðmæltur, eins og allir vita. Kannast ekkert við slíkan munnsöfnuð.

En mundi allt í einu eftir þessu yfir kvöldmatnum núna. Fór þá að rifja það upp og útskýra fyrir þeim öllum að maður ætti ekki að segja svona lagað.

Þrefalt shit tsunami tók við um leið. Engin leið að fá shit kórinn til að þagna.

Ég er augljóslega með greindarvísitölu á við Forrest Gump.

——————————————————————————-

* Bók kvöldsins hét Koala’s Filosofi, einhver bók sem Karin keypti fyrir nokkru en við höfðum aldrei lesið. Vissum ekkert um hana, Karin keypti hana bara útaf titlinum. Ekki einungis filosofi heldur aðallega vegna þess að Kjartan er með æði fyrir Kóalabjörnum – ef bangsinn hans týnist er bara red alert í gangi hérna.

En uppbyggingin var semsagt þannig að Kóalabjörninn situr á trjágrein og er hugsi eða sorgmæddur yfir einhverju, þá kemur fugl og spyr hann hvað sé að og þeir ræða málin í framhaldinu.

Þetta var því algjör tilviljun, en fyrsta vandamálið reyndist vera að Kóalabjörninn segist líða svo vel í kjólum og vill helst vera í þeim, þrátt fyrir að vita að það sé rangt…

Freyr fór strax að segja frá öllu sem einhverjir hafi verið að segja við hann í leikskólanum.

Ég og þessi fugl tættum auðvitað þann málflutning í okkur.

——————————————————————————-

* Yfir kvöldmatnum ræddum við hvað Freyr væri góður að dansa, og Karin hafði á orði að hann væri jafnvel orðinn eins góður og ég. Hann heimtaði þá strax að sett væri á uppáhalds lögin sín í stofunni (Horses og Gloria e. Patti Smith og Tutti Frutti e. Little Richard) og byrjaði svo að Travolta gólfið á einhvern epískan hátt. Ég ætlaði að dansa með en hann skipaði mér að setjast niður. Við fylgdumst svo með eftir bestu getu, en þegar við þurftum svo að sinna hinum bræðrunum einnig á meðan varð hann á endanum brjálaður, rauk inní herbergi, sagði „showið er búið“ og vildi ekki koma út.

——————————————————————————-

* Tvær skilgreiningar á kraftaverki sem strákarnir hafa reitt fram:

„Hlutur sem þú setur í magann og pumpar svo helling af lofti í hann“ (Ágúst, nýbúinn að sjá myndir af mömmu sinni óléttri með þá)

„Loftbelgur sem flýgur á fullu á bensíni, en svo klárast bensínið, en hann heldur samt áfram að fljúga endalaust“ (Freyr, ég er augljóslega ekki enn búinn að segja honum söguna af Hindenburg)

——————————————————————————-

*Strákarnir fóru allir í sömu peysunni í leikskólann í dag. Þeir heimtuðu það, annars sendum við þá aldrei í sömu fötunum. Ég hef mikla samúð með elskulegu leikskóla starfsfólkinu sem á erfitt með að þekkja þá í sundur – og vill ekkert gera þeim starfið erfiðara.

En svo komu þeir heim og voru segjandi að fólk þekkti þá almennt ekki í sundur. Svo vorum við að ræða þetta, og þeir töldu upp (á annari hendi) hver gæti það:

-Mor

-Far

-Amma Brynja

——————————————————————————-

*Strákarnir í Pokémon slugfesti við Steinar Braga.

Nokkur highlight: „Steinar er bara steinn“, „þú færð stein í höfuðið“, og svo náði ég ekki síðasta bardaganum milli Freyr og hans, sem hann vann, en þá byrjuðu þeir að kyrja „Stein sax“ aftur og aftur. Orðaleikur: sten sax papir semsagt eða rock paper scissors…

Þeir eru með trash talkið á hreinu.

——————————————————————————-

*Strákarnir voru að fara að byggja með Duplo. Kjartan, af einskærri góðmennsku, bauðst til að skipta risa Duplo kassanum á milli þeirra. Með þessari líka blíðu og sannfærandi rödd sem var einfaldlega ekki hægt að segja nei við. Hann ræðst þá í eitthvað heljarinnar sjónarspil sem endar þannig að hann er með nánast alla kubbana og hinir tveir bræðurnir örfáa. Sem þeir eru auðvitað ekki sáttir við.

Eftir að hafa reynt að sýna fram á réttmæti skiptingarinnar með impressively ítarlegum rökstuðningi fyrir þriggja ára aldur, sem bræðurnir voru þó ekki að kaupa, endar þetta svona:

– Freyr og Ágúst (benda á hauginn fyrir aftan hann): En þú ert

með alla kubbana!

– Kjartan (blákalt): Svona er þetta bara.

Ég er sem sagt að ala upp kapítalista…

——————————————————————————-

*-Ég: „Strákar, er ekki einhver skrýtin lykt hérna?“

-Kjartan (án þess að líta upp frá Legoinu):

„Jú þetta ert þú. Það er skítalykt af þér.“

-Freyr: „Finnurðu ekki lyktina af sjálfum þér?“

Ég er að missa þetta uppeldi úr böndunum. Þennan danska munnsöfnuð fá þeir augljóslega frá móður sinni.

——————————————————————————-

*Þrátt fyrir meistaragráðu í heimspeki er ég ekkert að ráða við þær vangaveltur og spurningar sem strákarnir eru komnir útí og heimta nú svar við á öllum tímum.

Dæmi #1 Ef maður verður fyrst barn, svo fullorðinn, svo gamall, er maður þá mismunandi manneskjur?

Dæmi #2 Ef ég get orðið eins gamall og þú, afhverju getur þú ekki orðið eins gamall og ég?

Dæmi #3 Afhverju fer tíminn alltaf í hring og í hring og í hring og stoppar aldrei?

Eru þeir að laumast í Aristóteles og Ágústínus?

——————————————————————————-

*Fór með strákana í Pokémon túr, hittum þar annan ungan herramann í sama túr. Sá sannfærði mig um að tradea við sig. Eitthvað sem var svo bara epískt scam – skipti brjálað öflugum og sjaldgæfum Pokemon fyrir eitthvað fullkomið drasl. Fattaði það ekki fyrr en eftir á.

Í hvers konar heimi lifum við eiginlega þegar doktorsnemi í heimspeki er bara svívirðilega sandbagged af átta ára strák úti á götu um hábjartan dag?

——————————————————————————-

*Síðasta afmælis húllumhæ strákana var svo í leikskólanum í gær. Þar sat ég til borðs með ungum herramanni sem tjáði mér að hann og strákarnir hefðu gert samning sem kvað á um að hann væri einn af bræðrunum.

Þegar heim var komið fór ég að forvitnast aðeins útí þetta:

Kjartan: „Já, en svo sló hann mig.“

Ágúst: „Mig líka.“

Freyr: „Þá mátti hann ekki vera þríburi lengur!“

——————————————————————————-

*“Ég skal segja fyrirgefðu, en þú verður að gefa mér gjöf fyrst.“

Einn bróðirinn við annan – heyri allt í einu þessa setningu útundan mér.

Held ég sé ekki einu sinni að ala upp kapítalista. Þetta er bara eitthvað mafíósa shakedown.

——————————————————————————-

*Ég er búinn að vera að horfa á The Deuce síðustu vikur og tilkynnti Karin því í gær að ég ætlaði að láta mér vaxa yfirvaraskegg. Hún tók því vægast sagt illa, benti á að ég væri með skeggvöxt á við litla stelpu og væri aldrei að fara að vera neinn Burt Reynolds. Þetta leiddist út í þras fram og tilbaka um fagurfræðilegt gildi yfirvaraskegga á meðan að ég var að elda og strákarnir voru að leika við Karin með lestar í stofunni. Þar til einn af frumburðunum, Kjartan, lítur á mig og hrópar:

„En þú ert með svo falleg augu!“

——————————————————————————-

*Var búinn að steingleyma þessu, rifjaðist upp í umræðum um hversu lélegar Transformers myndirnar eru núna áðan.

Allavega, hef reynt að skrifa allt fyndið og skemmtilegt sem strákarnir segja eða gera hérna, svo það gleymist ekki. Þetta er golden oldy sem ég var búinn að gleyma:

Eftir að hafa verið innlögð á sjúkrahúsi með drengina í rúmlega tvo mánuði (og Karin tvo mánuði fyrir það), vorum við loks send heim með þá (og ég lenti næstum í fistfight við eitthvað fífl í strætónum á leiðinni, en það er önnur saga).

Fyrstu nóttina, vaknaði fyrsti drengurinn, og ég fór til að skipta fyrstu bleyjuna heima. Um leið og ég tók bleyjuna af gaus gosbrunnur af niðurgangi beint í andlitið á mér og uppí mig.

Sem eftir á að hyggja var gott í rauninni, því þeir voru allavega aldrei, ekki einu sinni í byrjun í því að vekja hjá manni neitt falskt öryggi.

——————————————————————————-

*“Stop mamma. Guðinn talar núna.“

Freyr við mömmu sína þegar hún var að reyna að fá hann til að laga til.

Mikið var það góð hugmynd að útskýra fyrir honum að nafn hans kemur úr norrænni goðafræði…

——————————————————————————-

*Freyr: „Þú talar alltof mikið pabbi!“

Kjartan: „Ég held að Ágúst tali samt meira“

Það er bara samkeppni í gangi hérna.

——————————————————————————-

* Náði í strákana í leikskólann, einn bróðirinn tjáði mér að annar hafi enn og aftur sagt að hann væri ljótur í einhverju rifrildi sem hafði átt sér stað fyrr um daginn.

Ég veit ekki hversu oft ég hef útskýrt fyrir þeim hversu epískt sjálfsmark þetta er, að kalla hvor aðra ljóta. Það ætlar bara ekkert að síast inn. Allur leikskólinn sprakk líka úr hlátri þegar ég útskýrði þetta fyrir þeim enn eina ferðina.

——————————————————————————-

*Við fjölskyldan sátum og borðuðum hádegisverð, ég þóttist beygja mig undir borðið, sagði svo óttasleginn að það væri risa könguló undir eldhúsborðinu. Hefði alveg eins getað öskrað „handsprengja!“ Allir stukku í allar áttir, tveir strákanna hlupu alla leið bakvið sófann í stofunni.

Sagði svo aprílgabb. Allir brjálaðir við mig, einn strákanna ekki enn búinn að taka mig í sátt. Karin spurði hvernig hálfviti eins og ég gæti verið í doktorsnámi.

Eitt af mínum betri aprílgöbbum held ég bara.

——————————————————————————-

* Gaf Karin (Trekkie dauðans) Jean-Luc Picard fígúru og Star Fleet Captain insignia í afmælisgjöf. Strákarnir voru mjög áhugasamir um þetta, við útskýrðum hvað þetta gengi útá lítillega. Svo þurfti ég að fara út með ruslið og spurði strákana hvort þeir vildu koma með. Freyr fékk að setja á sig Commander badgeið. Var fullt af tómum pappakössum. Ég spyr Freyr og Kjartan hvort þeir geti ekki borið einn saman að ruslatunnunum. Freyr segir þá við Kjartan:

„Make it so númer tvö!“

——————————————————————————-

*Pínu einkahúmor sem erfitt er að útskýra. En allavega, stundum um kvöldmatarleytið dettum við í leik sem heitir „hver er betri í“. Sem sagt við köstum fram spurningum um hver er betri í einhverju, mamma eða pabbi. Er í rauninni ekki leikur, aldrei verið svarað neinu öðru en „mamma!“. Ég er meira bara einhvers konar stökkpallur sem þessir motherboys nota til að lýsa yfir ást sinni á móður sinni.

Bara gaman að þessu.

En svo tók Karin afdrifaríkt feilspor í kvöld, spurði „hver er besti dansarinn?“.

Fyrsta skipti sem ég heyrði einróma „pabbi!!!“.

Rústaði þessu. Mikilvægustu línurnar á þessu heimili eru allavega á hreinu.

——————————————————————————-

*Hvað gerir maður eiginlega þegar maður á eineggja þríbura, og einn sjálfkrýnir sig einhvers konar Godfather, skipar hinum bræðrunum fyrir verkum og fær að ráða öllu, heimtar einhvers konar tribute frá þeim í tíma og ótíma, ásamt því að fá að bleyta gogginn í öllu sem þeir taka sér fyrir hendur og fá – sem hinir tveir bræðurnir virðast samþykkja bara sem eitthvað náttúrulögmál og koma honum svo til varnar þegar við ætlum að brjóta upp þessa racketeering starfsemi sem er í gangi þarna hjá honum?

Ég er bara að ala upp Tony Soprano hérna.

——————————————————————————-

*Var að kenna þeim íslensku.

Ég: Þið vitið auðvitað hvað þríburar eru, þekkjum við einhverja þríbura?

Freyr: Já.

Ég: Hverjir eru það?

Freyr: Rip, Rap og Rup.

——————————————————————————-

*The boys got some Star Wars Lego Clone Trooper gunship we had been saving after they found it by mistake during the brutal lice extermination campaign. Now, Kjartan is running around saying „I’m a clone, I’m a clone!“

Well, you are not wrong…

Categories
hagfræði Heimspeki

Seðlabankar, sjálfstæði og verkalýðsbarátta

Ásgeir Jónsson, Seðlabankastjóri Íslands, var nýlega í viðtali í Fréttablaðinu. Þar kallar hann eftir þéttari vörnum í kringum lífeyrissjóðina. Kemur þetta ákall Seðlabankastjóra í kjölfar þess að Ragnar Þór Ingólfsson, í yfirlýsingu 17. júlí, beindi því til stjórnarmanna sem VR skipar í Lífeyrissjóð verslunarmanna að sniðganga væntanlegt hlutafjárútboð Icelandair eða greiða atkvæði gegn þáttöku lífeyrissjóðsins. Yfirlýsingin er svo auðvitað viðbragð við grófu framferði Icelandair í kjaraviðræðum við Flugfreyjufélag Íslands. Hún og tilmæli hennar voru svo síðar dregin tilbaka af stjórn VR.

Hörður Ægisson er vægast sagt ekki hrifinn heldur. Í pistli í Fréttablaðinu kveður hann við kunnan tón og kallar forystufólk verkalýðshreyfingarinnar „hvað öðru vanstilltara í ofstæki sínu“, ásamt því að kalla eftir því að Seðlabankinn grípi „umsvifalaust til aðgerða“ og taki jafnframt til athugunar „hvort ástæða sé til að vísa málinu til ákæruvaldsins“ Hvorki meira né minna.

Það verður að koma í ljós hvort þessum tilmælum hans til Seðlabankans verði fylgt eftir. En það er ýmislegt áhugavert í málflutningi Seðlabankastjóra sem krefst nánari skoðunar. Í ofangreindu viðtali lætur hann ýmislegt falla, t.d.

„Að mínu áliti þarf að stíga miklu fastar til jarðar í því að tryggja sjálfstæði sjóðanna. Ég tel að regluumhverfi þeirra sé allt of veikt og að Fjármálaeftirlitið þurfi öflugri heimildir til inngripa,“

Ásamt:

„Í gegnum tíðina hafa ýmsir utanaðkomandi aðilar reynt að hafa áhrif á fjárfestingar lífeyrissjóðanna. Stjórnmálamenn hafa reynt að nota sjóðina í pólitísk verkefni, atvinnurekendur til þess að styðja einstök fyrirtæki og atvinnugreinar og verkalýðsfélög hafa reynt að nota þá í kjarabaráttu. Þetta er ekki nýtt vandamál og það mun dúkka upp aftur og aftur,“

„Þess vegna skiptir miklu máli að efla regluverkið þannig að sjálfstæði stjórnarmanna sé tryggt til frambúðar svo að ákvarðanir verði alltaf teknar með hagsmuni sjóðsfélaga í fyrirrúmi.“

Ef við reynum að súmmera þetta upp: lífeyrissjóðunum stafar því umtalsverð hætta af utanaðkomandi áhrifum, eins og þessi atburðarrás sem stjórn VR stóð fyrir sýnir skýrt fram á að mati Seðlabankastjóra og því þarf að tryggja „sjálfstæði“ þeirra eftir fremsta megni.

Hann heldur svo áfram:

„Það mega ekki skapast nein tækifæri til að stofna sjálfstæði stjórnarmanna í hættu. Það má ekki vera auðveldara að skipta út stjórnarmönnum í lífeyrissjóðum en í öðrum einingum tengdum almannahagsmunum. Sérstaklega í ljósi þess hve sjóðirnir eru stórir og umsvifamiklir í íslensku atvinnulífi,“

„Við höfum slæma reynslu af skuggastjórnun – afskaplega slæma, „Það var tekið hart á því í stjórnun banka og hlutafélaga í kjölfar hrunsins en lífeyriskerfið hefur setið eftir. Við svo búið má ekki standa.“

Hér er vægast sagt af mörgu skemmtilegu að taka. Ætla ég í eftirfarandi einungis að ræða eitt atriði sem ég tel mikilvægt í þessu samhengi, en óskiljanlega sjaldan er minnst á.

Paul Volcker og kaflaskipti nýfrjálshyggjunnar

Eins og fjölmargir fræðimenn hafa rætt í ítarlegu máli og ætti ekki að teljast sérstaklega umdeilt, þá markar 8. áratugurinn byrjun þess sem mætti kalla tímabil nýfrjálshyggjunnar. Það er að segja, stjórnmálahagfræðistefnan sem við köllum nýfrjálshyggju náði á þessum áratug yfirhöndinni yfir ríkjandi stjórnmálahagfræði. Sú stjórnmálahagfræði einkenndist auðvitað fyrst og fremst af kenningum John Maynard Keynes, oft kallaður faðir þjóðhagfræðinnar, sem var fullkomlega dóminerandi á tímabilinu (gróflega) frá Kreppunni miklu og New Deal Roosevelts fram að nýfrjálshyggjunni. Réðu kenningar hans þannig að mestu leyti ferðinni þegar kom að peningastefnu og hlutverki ríkisvaldsins og seðlabanka.

Þar til honum var velt af stalli af hagfræðingum og fræðimönnum eins og Friedrich Hayek fyrst og fremst, ásamt Milton Friedman, James M. Buchanan, Gary Becker, o.fl. Eru þar atburðir eins og Olíukrísan 1973 og valdaránið í Chile sama ár, ásamt mikilli verðbólgu, atvinnuleysi og lítils hagvaxtar sem einkenndi áratuginn (e. stagflation) – endalok gullaldarskeiðs kapítalismans sem ríkt hafði með stöðugum hagvexti frá lokum Seinni heimsstyrjaldar – almennt taldir vega þyngst .

Þetta ætti að vera flestum kunnt, og óþarfi að fara nánar útí hér. Ég vil frekar fókusa á annan kafla í þessari sögu, sem er ekkert síður mikilvægur, en fær sjaldnast þá athygli sem hann verðskuldar í ljósi afdrifaríkra afleiðinga hans. Þar á ég við skipun Paul Volcker sem Seðlabankastjóra Bandaríkjanna 1978. En eins og David Harvey, Melinda Cooper, Robert Brenner o.fl. benda á, þá markar sú skipun ein helstu kaflaskilin (e. paradigm shift), frá keynesískri stjórnmálahagfræði (tímabil sem stundum er kallað embedded liberalism), þar sem ríkisvaldið leitast eftir að stýra heildareftirspurninni í samfélaginu, yfir í nýfrjálshyggjutímabilið.

Fyrir nýfrjálshyggjuna var meginhlutverk seðlabanka skilið sem það að tryggja fulla atvinnu (e. full employment), eða eins og segir í Employment Act frá 1946 „promote maximum employment, production and purchasing power“ og beittu seðlabankar ýmsum meðölum í þeim tilgangi sem verkalýðurinn naut góðs af. Seðlabankar höfðu í rauninni verkalýðsfélög oft með í ráðum, og sóttust eftir trausti þeirra, að halda þeim góðum, oft með því að halda stefnum ríkisins í skefjum. Að seðlabankar fóru nú að skilja hlutverk sitt sem það að halda verðbólgu í skefjum með öllum ráðum – sama hvaða afleiðingar þau ráð kunni að hafa fyrir verkalýðinn – var ekkert annað en byltingarkennt. Það er engum ofsögum sagt. Eða, ef fylgt er David Harvey, stór og mikilvægur hluti af and-byltingu ríkjandi stétta og elítu. Ásamt Thatcher í Bretlandi og Deng Xiaoping í Kína, greinir Harvey skipun Volcker, sem greiddi svo götuna fyrir Reagan með mikilvægum hætti sem eina af þremur uppsprettum eða miðjum nýfrjálshyggju byltingarinnar. Eins og hann orðar það:

Útfrá þessum þremur miðjum breiddust út byltingaröfl með svo afdrifaríkum hætti að heimurinn allur var fljótt orðinn óþekkjanlegur“ (úr þýðingu minni á inngangi A Brief History of Neoliberalism sem finna má hér).

Paul Volcker (sem lést á síðasta ári) var skipaður af Jimmy Carter, eftir meðmæli frá David Rockefeller. Var hann undir miklum áhrifum frá peningastefnukenningu Milton Friedman (e. monetarism), sem kveður á um að hlutverk seðlabanka ætti fyrst og fremst að vera það að halda verðbólgu í skefjum. Þetta er auðvitað eitthvað sem við ættum að kannast vel við, enda er þetta einmitt skilið sem meginhlutverk Seðlabanka um allan hinn vestræna heim og víðar í dag, eins og Ásgeir Jónsson hefur oft leitt okkur í allan sannleikann um í viðtölum.

En svo við snúum aðeins aftur að Volcker, þá hófst hann þegar handa við að reyna að ná tökum á verðbólgunni með því að keyra stýrivexti uppí hæðir sem hafði ekki áður sést í sögu Bandaríkjanna. Þessar róttæku aðgerðir sendi hagkerfið í djúpa kreppu. Atvinnuleysi stórjókst. Verðbólgan var þó viðvarandi, jafnvel þótt hagkerfið byrjaði smám saman að batna. Volcker hélt áfram, keyrði stýrivexti hæst upp í 19% í janúar 1981, lét þá aðeins falla, og svo aftur uppí 19 í júní og júlí. Hagkerfið steyptist þá í verstu kreppu sem það hafði séð síðan á 4. áratugnum. Gjaldþrot ruku upúr öllu valdi, og atvinnuleysi náði 8% í nóvember 1981, 9%í mars 1982, og 10% í september. Verðbólgan, sem hafði verið að falla 1980, en ekki nægilega mikið að mati Volcker, byrjaði að falla af alvöru síðla 1981. Eftir að hún fór niður fyrir 6% í ágúst 1982, slakaði Volcker á taumunum. Ekki vegna áhyggja af stöðu verkalýðsins þó, heldur vegna þess að Mexíkó rambaði á barmi alvarlegrar krísu sem hefði getað haft alvarlegar afleiðingar fyrir Bandaríkin. Löng saga sem óþarfi er að rekja hér. En hann lýsti svo yfir að þessum róttæku aðgerðum væri lokið í ágúst 1982, en verðbólga hélt þó áfram að falla, og var komin undir 3% árið 1983.

Alan Greenspan átti svo síðar meir eftir að leika lykilhlutverk í þessari sögu. Látum þetta stutta sögulega yfirlit þó duga.

En þessar aðgerðir Volcker höfðu ýmsar afdrifaríkar afleiðingar. Jákvæðar eða neikvæðar. Það fer allt eftir því hver það er sem lítur á málin. Neikvæðar fyrir verkalýðinn augljóslega, en hátt atvinnuleysi, atvinnuóöryggi og há tíðni gjaldþrota er sjaldnast eitthvað sem verkalýðurinn upplifir sem sérstaklega jákvætt. Af augljósum ástæðum.

Hins vegar voru afleiðingarnar mjög jákvæðar frá sjónarhóli ríkjandi stétta og elítu. Þessar aðgerðir Volcker gerðu verkalýðinn lafhræddan, milljónir óttuðust nú atvinnuleysi. Ótti sem styrktist svo til muna þegar Reagan rak flugumferðastjóra í verkfalli 1981 – verkalýðsleiðtoginn þar var fjarlægður í keðjum. Þetta markaði í rauninni upphafið að brútal stórsókninni gegn verkalýðsfélögum sem Reagan og Thatcher stóðu svo fyrir á 9. áratugnum, með vel þekktum afleiðingum. Verkföll féllu t.d. í Bandaríkjunum úr 300 að meðaltali á ári á 8.áratugnum niður í 80 á tíunda. Ásamt því að aðgerðir Volcker greiddu með mikilvægum hætti götu þess að stórfyrirtæki gætu byrjað að flytja framleiðsluna úr landi í stórum stíl, eins og þau byrjuðu svo að gera á 9.áratugnum. Svo ekki sé talað um áhrifin á ójöfnuð, sem byrjaði að stóraukast í beinu framhaldi af þessari kaflaskiptingu, og hefur sú aukning haldið áfram jafnt og þétt fram á okkar daga eins og flestum ætti að vera kunnt – með engu sjáanlegu láti á í neinni náinni framtíð. Skemmst er að segja að þessar afleiðingar og þróanir hafa ekki verið sérlega jákvæðar fyrir hagmuni verkalýðsins.  

Fjármagnseigendur og fjármálabraskarar, með öðrum orðum fjármálageirinn, fagnaði enda þessum mikilvæga sigri Volcker á verkalýðshreyfingunni ákaft. Sem hann var svo sannarlega, ef hann er skilinn útfrá sjónarhóli stéttabaráttu. En sigrar fjármálageirans og ríkjandi stétta og elítu áttu svo auðvitað eftir að verða mun fleiri á næstu áratugum.

***

Ég veit svosem ekki nákvæmlega hvaða vegferð Ásgeir Jónsson er á þarna. Þetta kemur auðvitað í kjölfar Covid-19 krísunnar, þar sem seðlabankar hafa verið að grípa til aðgerða sem – að mati margra a.m.k. – eru meira í ætt við Keynes en nýfrjálshyggju stjórnmálahagfræði. Ég er nú ekki alveg sammála því mati, af ýmsum ástæðum sem ég læt vera að fara útí hér. Væri efni í annan pistil.

Þessi kafli úr sögu nýfrjálshyggjunnar ætti þó að gefa einhverjar vísbendingar myndi ég halda. Mér finnst allavega mikilvægt að benda á að peningastefna seðlabankans er ekki einungis ennþá dómineruð af stjórnmálahagfræði nýfrjálshyggjunnar, alveg eins og hún var í kjölfar krísunnar 2008 (þar sem „keynesísku“, ef ekki hreinlega sósíalísku, aðgerðir seðlabanka voru einnig lofaðar af mörgum álitsgjöfum – skemmst er að minnast forsíðu NewsweekWe are All Socialists Now“). Það er eitthvað sem flestir ættu að gera sér grein fyrir. 

Ekki síður mikilvægt að hafa í huga er að sú stjórnmálahagfræði hefur alla tíð, alveg frá byrjun, beinlínis verið miðuð gegn hagsmunum verkalýðsins, og hafa seðlabankar leikið lykilhlutverk í að berja verkalýðsbaráttu á bak aftur með beinum og harkalegum – ef ekki hreinlega miskunnarlausum – aðgerðum. Þeir eru þannig síður en svo hlutlaus fyrirbæri, „sjálfstæðar“ stofnanir hvers „sjálfstæði“ ber að tryggja og verja með öllum ráðum. Deila seðlabankar alveg jafn mikilli ábyrgð og stjórnmálamenn og atvinnurekendur á þeirri bágborinni stöðu verkalýðsfélaga, miðað við áður fyrr, sem við sjáum nánast alls staðar í dag.

Því verður að segjast eins og er að það er óneitanlega nokkuð athyglisvert að sjá Seðlabankastjóra brýna fyrir mikilvægi sjálfstæði stjórnarmanna lífeyrissjóða á þennan hátt. Þar sem fyrst og fremst er átt við sjálfstæði frá afskiptum forystu verkalýðsfélaga og verkalýðsbaráttu. Svona í ljósi sögunnar.

Þá sögu mætti alveg hafa í huga þegar kemur að því að skilja þessi ofsafengnu viðbrögð Ásgeirs Jónssonar og Harðar Ægissonar við yfirlýsingu VR til hlítar.

Categories
Dómsdagur

Kína vs. USA – þegar klukkuna vantar hundrað sekúndur í miðnætti

Bandaríkin voru semsagt að draga sig útúr Open Skies samningnum (OST). Eftir að hafa dregið sig útúr kjarnorkusamningnum við Íran, og Intermediate-range Nuclear Forces samningnum. Ásamt því að Trump stjórnin hefur lýst yfir að vilja til að endurnýja ekki New Start samninginn – sem rennur út næsta febrúar. Og eru alvarlega að velta fyrir sér að byrja á prufunum á kjarnorkusprengjum aftur samkvæmt nýjust fréttum. 

Fyrir nokkrum vikum sigldu bandarísk herskip inní Suður-Kínahaf, í meðvitaðri ögrun við Kína sem varla var greint frá fréttum.

Fyrir nokkrum mánuðum tilkynnti Rússland að það hafi þróað kjarnorkueldflaugar sem eru færar um að komast í gegnum eldflaugavarnakerfi (eða missile shield) Bandaríkjanna.

Hin fræga dómsdagsklukka, sem haldið er úti af Bulletin of the Atomic Scientists stendur nú hundrað sekúndur í miðnætti – það lengsta sem hún hefur nokkurn tímann komist. Eitthvað sem vakti einnig hér um bil enga athygli.

Ásamt þessu endalausa áróðursstríði auðvitað – þar sem Bandaríkin eru að reyna að kenna Kína um vírusinn. Sem er athyglisvert af tveimur ástæðum: 1) Spænska veikin átti að öllum líkindum upptök sín á bandarískri herstöð, er nánast sammælst um það af sérfræðingum a.m.k., þótt það sé ekki vitað með hundrað prósent vissu. 2) Kína er fjölmennasta land í heimi, svo útfrá einföldum líkindareikningi, þá væri auðvitað líklegast að slíkur vírus kæmi upp þar.

En ég er í sannleika sagt fullkomlega gáttaður á áhugaleysi almennings á þessu – jafnvel mikilvægasta málefni sem er í gangi í dag, eins og auðveldlega væri hægt að færa rök fyrir. Sem er samt auðvitað ekkert skrýtið þegar fjölmiðlar sýna þessu varla neinn áhuga, og setja hlutina ekki í neitt samhengi,

Hef þó ekki tíma til að skrifa neina nákvæmari analýsu, en ég skrifaði þó þetta fyrir nokkru á FB, sem ég endurbirti bara hér.

Nokkur lausleg atriði sem ég tók saman og myndi telja skipta máli, eða vera aðalatriði, en sjaldnast er minnst á eða sett í nægilegt samheng að mínu mati:

* Ef við byrjum bara á því að Kína sé kommúnistaríki: þrátt fyrir að Kína sé vissulega stjórnað af sama Kommúnistaflokki og komst til valda í langstærstu sósíalísku byltingu mannkynssögunnar – flokkur sem sver enn hliðhollustu við Marx og Lenín og arfleið þeirra – þá eru ýmis önnur atriði sem þarf að hafa í huga:

* Hagvöxturinn í Kína frá líberaliseringu (eða nýfrjálshyggjuvæðingu) Deng Xiaoping í lok 8. áratugarins til í dag er ekki bara einsdæmi í mannkynssögunni, hann er á ólýsanlegum skala. Heimsbankinn áætlaði að um 850 milljónir manns lifðu við fullkomna örbirgð 1980. Árið 2014 var talan komin niður í 40 milljónir. Stefna þeirra er að hún verði komin í núll 2022.

* Fjórir stærstu bankar heims eru kínverskir. J.P. Morgan kemur í fimmta eða sjötta sæti (síðast þegar ég gáði).

* Kínverska hagkerfið ræðst af allt öðru en einhverri þunglamalegri miðstýringu – sem er auðvitað fantasía frjálshygjumanna um kommúnistaríki. Það er gríðarlega dýnamískt, og flókið auðvitað, með víxlverkun miðstýringar og afmiðstýringar þar sem sum svæði opnast og eru í samkeppni á meðan önnur eru lokuð og vernduð – allt er hinsvegar vandlega yfirséð og varið ef þess þarf af ríkinu. Þetta er vél sem er mun betur smurð og keyrir miklu betur en það sem dysfunctional stjórnir Vestursins í dag geta státað af – samanburðurinn er raunar bara hlægilegur.

* Í Kína er það ríkið sem skipar bönkum fyrir, frekar en öfugt eins og við eigum að venjast í Vestrinu. Þetta gerði Kína kleift að komast uppúr krísunni 2008 á einhvern mest spectacular hátt sem sést hefur. Bönkunum var skipað að lána eins mikið og þess var þörf, fleiri tugir milljóna sem misstu vinnuna vegna hruns markaða í Bandaríkjunum voru ráðnir aftur nánast yfir nótt og ráðist var í innviðauppbyggingu sem er svo gígantísk að varla er hægt að ná huganum utan um það. Á árunum 2009-2012 notaði Kína meiri sement en Bandaríkin á allri 20.öld til dæmis.

* Þessi gríðarlega uppbygging – sem krafðist auðvitað gríðarlegs innflutnings – hélt uppi heimshagkerfinu í kjölfar krísunnar.

* Fjögur af tíu stærstu tæknifyrirtækjum heims eru kínversk. Og þrátt fyrir alla þessa absúrd Silicon Valley celebrity-, ef ekki bara einhver Guðadýrkun, lítur allt út fyrir að Kína sé á leiðinni að taka tæknigeirann yfir. Sérstaklega þar sem þeir voru fyrstir til að átta sig á mikilvægi A.I., fóru in the game á undan öllum öðrum, og eru að fara að leiða þar.

Hér er lýsing úr nýlegri bók um tæknigeirann í Kína:

Silicon Valley’s entrepreneurs have earned a reputation as some of the hardest-working in America: passionate young founders who pull all-nighters in a mad dash to get a product out and then obsessively iterate that product, while seeking out the next big thing. Entrepreneurs there do indeed work hard, but I’ve spent decades deeply embedded in both Silicon Valley and China’s tech scene, working at Apple, Microsoft, & Google before incubating and investing in dozens of Chinese startups. I can tell you that Silicon Valley looks downright sluggish compared to its competitor across the Pacific. China’s successful internet entrepreneurs have risen to where they are by conquering the most cutthroat competitive environment on the planet. They live in a world where speed is essential, copying is an accepted practice, and competitors will stop at nothing to win a new market. Every day spent in China’s startup scene is a trial by fire, like a day spent as a gladiator in the Colosseum. The battles are life or death, and your opponents have no scruples.”

* Samkvæmt hefðbundnum mælikvörðum, GDP eða vergri landsframleiðslu, þá er Kína annað stærsta hagkerfi heims á eftir Bandaríkjunum. En ef byggt er á kaupmáttarjöfnuði, þá er það þegar orðið stærst.

* Bandaríkin eru fyrsta heimsveldi mannkynssögunnar sem náð hefur óskoruðum yfirráðum yfir heimshöfunum. Þetta „colossal imperium on an unprecedented scale“ byggist á stjórn yfir tveimur „strategic axial points“ með orðum sagnfræðingsins John Darwin við sitthvorn enda Evrasíu. Bandaríkin tryggðu þetta með NATO samstarfinu í Vestrinu, og fjórum varnarsamningum við Japan, Filippseyjar, Suður-Kóreu og Ástralíu í Austrinu. Snemma í Kalda stríðinu semsagt, þegar Kína var eitthvað algjört backwater sem lítið sem ekkert geo-pólitískt tillit þurfti að taka til.

Í dag er staðan ekki bara allt önnur, Kína er búið að vera að spila langa, vel planaða og úthugsaða strategíu þar sem enda takmarkið er að slá þetta axial point í austrinu úr höndunum á þeim – sem myndi kippa einhverja langmikilvægustu stoð heimsveldis þeirra undan þeim. Það er semsagt þetta sem spennan í Suður-Kínahafi snýst um, og er ekkert sem byrjaði með Trump stjórninni og eða hún byrjaði á uppúr þurru (það er þetta sem Bannon var að tala um þegar hann lýsti yfir, eins og frægt er, að Bandaríkin væru á leið í stríð við Kína innan tíu ára). Það var Obama sem kom með nýja utanríkisstefnu sem hann kallaði pivot to Asia. Það var að undirlagi yfirmanna hersins, til að countera þessa strategíu hjá Kína. Sem þeir voru samt mjög seinir að átta sig á.

* Kapítalistar voru auðvitað mjög hrifnir af ódýra vinnuaflinu sem Kína bauð þeim – í þeim tilgangi að byggja upp hagkerfi sitt. Því hafa þeir ávallt neitað að fylgja efnahagslegum forskriftum The Washington Consensus – hafandi fylgst með krísu asísku tígrana 1997 og hvernig fór fyrir þeim. En sú krísa var beinlínis búin til af Vestrænum fjármálastofnunum og Bandaríkjunum í þeim tilgangi að láta greipar sópa um eignir þeirra. Að þeir geti ekki gert það sama við Kína gerir þá auðvitað brjálaða.

Kína býður auðvitað enn uppá ódýrari vinnuafl en á Vesturlöndum (sjá nýlega Foxconn skandalinn: skólabörn eru þrælkuð út á einhverjum sólarhringsvöktum, allt í boði Jeff Bezos og Amazon). Margir kapítalistar hafa þó hugsað sér enn betur til glóðarinnar og flutt starfsemina frá Kína til landa eins og Bangladesh sem bjóða þeim enn meiri eymd og þjáningu.

En Kína í dag er orðið að allt öðru fyrirbæri en Vestrið nýtti sér í hnattvæðingu 9. og 10. áratugarins. Er ekki bara orðið rival heimsveldi: Kína er að outplaya og outperforma Bandaríkin á basically alla uppáhalds mælikvarða neóklassíkra hagfræðinga. Og Bandaríkin sætta sig ekki við neitt minna en full spectrum dómineringu – þau hafa steypt heilu löndunum í rúst með tilheyrandi blóðbaði vegna minnstu ögrunar eða óhlýðni.

* Kína hefur auðvitað ekki síst það fram yfir Bandaríkin að það er fært um langtíma strategíur, að spila the long game. Fjármálavæddi kapítalisminn í Bandaríkjunum er löngu farinn að cannabalizea sjálfan sig, fullkomlega ókleift að hugsa um annað eða lengra en hagnað næsta ársfjórðungs – sem hann étur eigin undirstöður til að halda uppi.

* Þróunin og breytingarnar í Kína eru gríðarlega hraðar, svo það er engin leið að vita hvað nákvæmlega er að gerast í rauninni, hvað þá hvert þetta stefnir.
En miðað við það sem við vitum þó, þá lítur flest út fyrir að í Kína sé að finna nýjustu umbreytingu og þar með framtíð kapítalismans.

* Eftir stendur þó auðvitað að Bandaríkin hafa langstærsta og öflugasta herinn, það er það eina sem Kínverjar geta engan veginn keppt við þá í. A.m.k. ekki næstu tíu-tuttugu árin. Og ekkert við blóðuga sögu hernaðaríhlutuna og stríðsreksturs Bandaríkjanna, né retórík þeirra og efnahagsaðgerðir gagnvart Kína sem er í gangi akkúrat núna og escalatear stöðugt og hratt, gefur til kynna að þeir hafi í hyggju að rúlla sér bara yfir á hliðina og samþykkja friðsamlega að vera velt af stalli sem dóminerandi heimsveldi. Þau vörpuðu kjarnorkusprengjum í stríði áður, og það var einungis til að hnykla vöðvana og sýna sig. Ég er a.m.k. ekki bjartsýnn á einhver yfirveguð skynsemis viðbrögð þegar staða, völd og áhrif þeirra fer loks að standa frammi fyrir terminal ógn – staða sem Bandaríska heimsveldið hefur auðvitað aldrei fundið sig í áður. Og er nákvæmlega það sem er að eiga sér stað núna. 

Það er semsagt meira og meira verið að taka hanskana af í deilu sem að öllum líkindum myndi marka endalok siðmenningarinnar – a.m.k. samkvæmt áætlunum vísindamanna á takmörkuðu (e. limited) kjarnorkustríði. Módelið þar var stríð milli Indlands og Pakistan, þar sem 50-100 standard kjarnorkuvopn, þ.e. ekki vetnissprengjur (e. thermonuclear weapons) eins og Bandaríkin og Kína búa yfir voru notuð.

Niðurstaðan var mannfall á bilinu þrír milljarðar til allt mannkynið.

(Myndin er af fyrstu vetnissprengjunni sem sprengd var. Var gefið code-nameið Ivy Mike og var sprengd 1. nóvember, 1952 af Bandaríkjunum á Marshall eyjum.)

Categories
Bókmenntir Þýðing

Frú Lonelyhearts eftir Nathanael West

Svört kómedía í fjórtán hlutum

1.

Lítið skrifstofuhúsnæði. Illa til hafður maður situr fyrir framan tölvuskjá og les tölvupósta.

Kæra Frú Lonelyhearts. Ég er einstæð móðir, öryrki, með þrjú börn sem á erfitt með að ná endum saman. Hvernig útskýri ég fyrir börnunum að þau geta ekki gert allt það sama og hinir krakkarnir?Kær kveðja, ein örvæntingarfull.

Kæra Frú Lonelyhearts. Ég er tólf ára stelpa sem fæddist án nefs. Ég á enga vini og er strítt í skólanum. Oftast sit ég heima í herberginu mínu og græt. Hvað gerði ég til að verðskulda þetta? Kær kveðja, engin.

Maðurinn opnar nýtt word skjal og byrjar að skrifa:

Lífið er þess virði að lifa. Það er fullt af draumum og frið, góðmennsku og ánægju….

Maðurinn stoppar og starir framan í tölvuskjáinn. Annar maður kemur upp að honum og tekur í öxlina á honum.

-Stjórinn: Hvað er að gerast í þessu hjá þér?

Hann tekur í músina og gramsar aðeins í tölvunni og les nokkur skjöl.

-Stjórinn: Alltaf þetta sama. Jesús þetta og Guð hitt. Afhverju býðurðu þeim ekki uppá eitthvað nýtt til tilbreytingar? List til dæmis? Hérna ég skal hjálpa þér áleiðis: Listin er möguleg útgönguleið. Ekki láta lífið buga þig. Þegar gömlu farvegirnir eru orðnir ófærir vegna klúðurs og mistaka, leitaðu þá að nýjum. Listin er einmitt slíkur farvegur. Hún er eitthvað það mikilvægasta sem lífið hefur upp á að bjóða. Þeir sem geta ekki skapað, geta notið. Þeir sem…..Sko, eitthvað svona. Þú tekur þetta bara héðan.

2.

Frú Lonelyhearts er að rölta út á götu eftir vinnu. Það er haustlegt á að líta og drungalegt, ekkert líf að sjá neins staðar. Hann er mjög þungur í fari og gengur inn á lítinn bar sem hefur vægast sagt séð betri daga.

Þar heilsar hann nokkrum mönnum sem sitja að sumbli ásamt stjóranum.

-Stjórinn: Frú Lonelyhearts, minn kæri vinur, ég legg til að þú gefir lesendum þínum steina. Þegar þeir biðja um brauð, ekki gefa þeim eitthvað kex eins og kirkjan eða segja þeim að borða köku. Útskýrðu fyrir þeim að maðurinn lifi ekki á brauði einu saman og gefðu þeim svo steina. Segðu þeim að fara með þessa bæn á hverjum morgni: Gef oss í dag voran daglega stein

Frú Lonelyhearts: Æi þegiðu…

Frú Lonelyhearts fær sér bjór og sest niður, ekki skemmt.

-Stjórinn: Þú ert alltof neikvæður og svartsýnn. Gleymdu krossfestingunni og mundu eftir Endurreisninni! Það var enginn svartsýnn þá.

Stjórinn lyftir glasi.

-Stjórinn: Endurreisnin! Þvílíkt tímabil. Dauðadrukknir páfar, fallegir búningar, óskilgetin börn…

Þrátt fyrir að stjórinn talar með miklum tilþrifum, tilkomumiklum handahreyfingum, þá er hann gjörsamlega svipbrigðalaus. „Dead-pan“ út í gegn.

-Stjórinn: Til Endurreisnarinnar! Til Endurreisnarinnar! Til brúnu grísku handritanna og hjákvennanna með ómótstæðilegu útlimina…Það minnir mig reyndar á það, ég á von á einum aðdáenda minna. Einni með miklar gáfur.

Orðinu gáfur fylgja handahreyfingar sem mynda stór brjóst.

-Stjórinn: Hún vinnur í bókabúð, en bíddu bara þar til þú sérð aftan á hana.

Frú Lonelyhearts er augljóslega orðinn pirraður.

-Stjórinn: Þú ert þá ekki hrifinn af kvenfólki sem sagt? Jesús er eina ástin þín? Jesús Kristur, konungur konunganna, Frú Lonelyhearts, kærasta Frúin…

Frú Lonelyhearts heppnast það til að rétt í þessu birtist ungi aðdáandinn sem stjórinn er að bíða eftir.

-Stjórinn: Frú Fjóla!

Stjórinn lætur hana hneigja sig eins og brúðu.

-Stjórinn: Frjú Fjóla, ég vil kynna þig fyrir Frú Lonelyhearts. Sýndu honum sömu virðingu og þú sýnir mér. Hann er einnig huggari hinna andlega þjáðu og elskandi Guðs.

Hún tekur í hendina á honum snöggt og örugglega.

-Stjórinn: Frú Fjóla vinnur í bókabúð ásamt því að sinna skriftum.

Hann slær hana létt á rassinn.

-Fjóla: Hvað voruð þið svona æstir að ræða?

-Stjórinn: Trúarbrögð

-Fjóla: Náðu í drykk handa mér og haldið svo áfram. Ég hef mikinn áhuga á guðfræði heilags Tómasar frá Aquínó, sérstaklega syntesunni.

-Stjórinn: Heilagur Tómas! Hvað heldurðu að við séum eiginlega? Einhverjir djöfulsins, illa lyktandi gáfumenni? Við vorum að ræða Krist og kærustu Frú frúanna. Við höfum okkar eigin trúarbrögð. Ef þig vantar syntesu, hér er ein fyrir þig.

Hann skellir blaðaúrklippu á barborðið. Fyrirsögnin er: Trúarsöfnuður notar tölvu til að reikna syndir meðlimanna og hver kemst inn í himnaríki. „Leiðtogi: Þetta er miklu nákvæmara og skilvirkara svona“

Fjóla skellir uppúr. Stjórinn reiðist þá skyndilega og hrifsar í hana. Barþjónninn skipar þeim að yfirgefa staðinn. Stjórinn dregur Frú Lonelyhearts með þrátt fyrir andmæli hans. Þau setjast í bás. Stjórinn lyftir hendinni og lætur eins og hann ætli að slá hana, en strýkur henni um vangann í staðinn. Þegar hann er orðinn einum of ágengur fær hún nóg og ýtir hún honum í burtu. Stjórinn bregst ókvæða við.

-Stjórinn: Ég er mikill dýrlingur. Ég get gengið á eigin vatni. Hafið þið aldrei heyrt um píslagöngu stjórans í hádegismatnum eða þjáninguna við kaffivélina? Ég líkti sárunum á líkama Krists við litlar buddur þar sem við setjum klink synda okkar. Þetta er einmitt mögnuð hugmynd. En veltum nú fyrir okkur op eigin líkama og fyrir hvað þau eru opin. Undir húð mannsins er undursamur frumskógur þar sem æðar renna eins og þykkur gróður þar sem ofurþroskuð líffæri hanga og innyfli tvinna sig saman svört og rauð eins og illgresi. Í þessum frumskógi býr fugl sem nefnist sálin. Hún flögrar á milli steingrárra lunga og gylltra innyfla, frá lifur til ljóss og aftur til lifrinnar. Kaþólikkinn leitast við að veiða þennan fugl með brauð og víni, gyðingurinn með gullnu reglustrikunni, mótmælandinn með líflausri afstöðu og enn líflausari orðum, búddistinn með látbragðsleik, blökkumaðurinn með blóði. Ég hræki á þá alla. Pff! Og ég býð ykkur einnig að hrækja. Pff! Stoppið þið upp fugla? Nei, elskurnar mínar, slíkt er ekki trúarbrögð. Nei! Þúsund sinnum nei. Sannlega segi ég yður, betri er einn lifandi fugl í frumskógi líkamans en tveir uppstoppaðir á borði á bókasafni.

Strokur hans haldast í hendur við prédikunina. Í lokin grefur hann andlit sitt í háls hennar.

3.

Frú Lonelyhearts tekur leigubíl heim.

Hann býr í nöturlegu og dimmu litlu herbergi sem inniheldur ekki meira en rúm, borð og tvo stóla. Veggirnir eru tómir fyrir utan Jesús styttu sem hangir yfir rúminu. Hann klæðir sig úr, kveikir sér í sígarettu og fer upp í rúm með bókina Bræðurnir Karamazov. Við sjáum að hann hefur undirstrikað eftirfarandi kafla:

Elskaðu manninn jafnvel þegar hann syndgar, af því sú ást líkist ást guðdómlegri ást, mestu ást sem fyrirfinnst á jörðinni. Elskaðu öll sköpunarverk Guðs, heildina og hvert einasta sandkorn sem þar má finna. Elskaðu dýrin, elskaðu plönturnar, elskaðu allt. Ef þú elskar allt, skynjarðu guðdómlega leyndardóminn sem finna má í hlutum. Þegar þú hefur einu sinni skynjað hann, skilurðu hann betur og betur á hverjum degi. Og þú munt á endanum koma til með að elska allan heiminn með alltumlykjandi ást.

Frú Lonelyhearts er djúpt hugsi í smá stund og leggur sig svo í rúmið.

Allt í einu er hann staddur á sviði í troðfullu leikhúsi. Hann er töframaður sem gerir töfrabrögð með hurðarhúna. Þegar hann gefur skipun blæða þeir, blómstra, tala. Eftir atriðið reynir hann að leiða bæn. En sama hvað hann reynir kemur alltaf sama bænin, sú sem stjórinn kenndi honum og rödd hans heyrist eins og í háværu kallkerfi: Ó Drottinn, við böðum okkur ekki í víni, vatni, þvagi, edik, eldi, olíu, rommi, mjólk eða viskýi. Ó Drottinn, við böðum okkur einungis í blóði lambsins.

Nú finnur hann sig á gömlu heimavistinni sinni frá háskólaárunum. Með honum eru tveir vinir hans, stelpa og strákur, sem hnakkrífast um tilvist Guðs. Þegar þau átta sig á því að viskýið er búið fara þau út í búð. Þau labba götur bæjarins að engi. Það er vor og þau eru með alls konar fíflalæti á leiðinni. Þau finna sprúttsala og kaupa stóra krukku, fara svo þar sem verið er að selja búfénað. Þau stoppa og leika við nokkur lömb. Þau velta fyrir sér að kaupa eitt lamb til að grilla, en Frú Lonelyhearts segir að það sé skilyrði að því sé fórnað fyrir Guð áður en hægt er að grilla það. Strákurinn fer að ná í hníf hjá slátraranum á meðan að hin prútta um lambið. Á endanum verður það yngsta fyrir valinu. Þau marsera með lambið heim á meðan þau syngja. Þau koma að lítilli laut þar sem þau tína blóm sem þau setja í kringum stóran stein. Þau leggja lambið á milli blómanna. Frú Lonelyhearts er skipaður prestur og heldur á lambinu á meðan að þau kyrja öll: Kristur, Kristur, Jesús Kristur, Kristur, Kristur, Jesús Kristur. Þegar æsingurinn nær hámarki rekur hann hnífinn í lambið. En honum geigar svo lambið særist aðeins lítillega. Hann gerir sig líklegan aftur, en nú kippist lambið svo mikið að hann hittir það alls ekkert og hnífurinn brotnar á altarinu. Strákurinn lyftir höfðinu á lambinu á meðan að presturinn reynir að skera það á háls með litlu broti af hnífnum, eitthvað sem gengur ekki eftir. Þau eru öll útötuð í blóði þegar lambið sleppur. Þau hlaupa í burtu. Frú Lonelyhearts grátbiður þau um að koma og finna lambið til að binda enda á þjáningar þess, en þau neita. Hann fer einn, finnur það og lemur það í hausinn með steini. Hann skilur líkið eftir sveimandi í flugum.

Við það vaknar hann.

4.

Frú Lonelyhearts situr við tölvuna í íbúðinni sinni. Hann er að spjalla við konur á stefnumótasíðum á netinu, eitthvað sem gengur augljóslega illa. Á endanum gefst hann upp. Hann tekur upp símann og flettir símaskránni. Hann stoppar við nafnið Birta. Í tölvunni er hann með opinn spjallglugga þar sem hann er að spjalla við einhvern sem spyr: „engar stelpur sem þú þekkir og getur heyrt í“? Hann svarar: „bara Birta, og kona stjórans auðvitað“. Þá er svarað: “heyrðu í Birtu, þú hefur gott af því…“. Frú Lonelyhearts: „Einmitt, nokkrum mánuðum eftir að ég sleit trúlofuninni ætla ég bara að hringja og segja hey! Gera eitthvað í kvöld? Ég hef ekkert talað við hana síðan þá!“

„þú getur allavega ekki haft það neitt verra en núna, þú hefur engu að tapa…“

Frú Lonelyhearts stígur út úr leigubíl við íbúðarbyggingu.

Hann fer inn og tekur lyftu upp á þriðju hæð. Þar bankar hann á dyr. Kona, sem er klædd til að fara út á lífið, tekur á móti honum glöð í bragði. Hann reynir að svara en tungan vefst fyrir honum.

Frú Lonelyhearts: Þetta er auðvitað aumkunarvert, ég veit, að koma svona aftur…en….

-Birta: Borðum saman kvöldmat.

Frú Lonelyhearts: Ég get það því miður ekki.

Hún brosir fyrst og byrjar svo að hlægja, ekki á illkvittinn hátt samt. Þau færa sig inn í stofu og Frú Lonelyhearts líður greinilega óþægilega.

Frú Lonelyhearts: Birta Búddha…Þú ert með þetta sjálfumglaða glott, vantar bara ístruna…

Hann skammast sín greinilega að hafa sagt þetta og þagar. Hún sest hjá honum og heldur í hönd hans. Hann rennir hendinni sinni undir fötin hennar af gömlum vana, en verður mjög vandræðalegur þegar hann fattar það. Hún hefur þó ekkert á móti því. Senan er óbærilega vandræðaleg.

-Birta: Hvað er að? Ertu eitthvað veikur?

Það fýkur í Frú Lonelyhearts.

Frú Lonelyhearts: Hvað er eiginlega að þér?! Um leið og einhver gerir eitthvað rangt, þá segirðu að hann sé veikur. Karlmenn sem pynta eiginkonur sínar, barnaníðingar, allir bara veikir samkvæmt þér. Engin siðfræði, bara lyf. Ég er með Krist komplex. Mannkynið….ég elska mannkynið. Alla skemmdu vesalingana…

Hann kemst ekkert lengra með þessa ræðu. Hann endar með að gera sér upp lítinn, vandræðalegan hlátur. Hún hefur færst sig í annan stól.

Frú Lonelyhearts: Hvað er að elskan? Varstu ekki að fíla þennan gjörning?

Hún situr líkt og í varnarstöðu og svarar engu. Hann spyr með síhækkandi rödd sem verður á endanum örvæntingarfull:

Frú Lonelyhearts: Hvað er að? Hvað er að? Hvað er að?

-Birta: Ég elska þig

Frú Lonelyhearts: Ha?

-Birta: Ég elska þig

Frú Lonelyhearts: Og ég elska þig. Þig og þetta djöfulsins bros í gegnum tárin.

-Birta: Afhverju læturðu mig ekki vera? (hálfgrátandi) Ég hefði það fínt áður en þú komst, nú líður mér ömurlega. Farðu. Plís farðu.

5.

Frú Lonelyhearts ráfar um út á götu. Hann ákveður að kíkja á barinn að fá sér drykk.

Nokkrir vinir hans eru þar og heilsa honum. Einn af þeim er að kvarta yfir kvenkyns rithöfundum.

-Bargestur 1: Og þær heita allar þremur nöfnum! Mary Roberts Wilcox, Ella Wheeler Catheter, Ford Mary Rinehart…

-Bargestur 2: Þessar gellur þurfa bara að láta taka duglega í sig, það er málið. Eina sem virkar á þetta.

Frú Lonelyhearts hættir að hlusta. Á meðan að þeir röfla í bakgrunninum drekkur hann stíft. Allt í einu heyrir hann nafnið sitt.

-Bargestur 1: Hann stundar það að sleikja holdsveiklinga, það segir stjórinn allavega. Barþjónn! Einn holdsveikann handa herramanninum. Ef þú átt ekki holdsveikling til, láttu hann þá fá Ungverja.

-Bargestur 2: Það er einmitt vandamálið við nálgun hans á trúarbrögð. Hún er alltof helvítis bókstafleg: einfaldir söngvar, latnesk ljóðlist, miðalda málverk og svona drasl. Jafnvel þótt hann yrði fyrir raunverulegri trúarlegri reynslu, þá væri það svo persónulegt að hún væri merkingarlaus. Nema kannski fyrir sálfræðing.

-Bargestur 1: Vandamálið með hann, og reyndar okkur öll, er að við höfum ekkert ytra líf, aðeins innra. Og þá bara af nauðsyn.

-Bargestur 2: Hann stundar það að flýja. Hann vill rækta innri garð sinn. En maður getur ekki flúið, hvar ætlar hann að finna markað fyrir ávexti persónuleika síns?

-Bargestur 1: Að mínu mati, þá þarf maður að hafa ofan í sig og á. Við getum ekki öll trúað á Krist, og heldurðu að bóndanum sé ekki skítsama um list? Hann tekur skónna af til að finna fyrir ríkri og hlýrri jörðinni milli tánna. Maður getur ekki tekið skónna af í kirkju.

Frú Lonelyhearts brosir og drekkur meira. Hann er orðinn töluvert drukkinn þegar hann gengur af stað og rekst harkalega á mann með bjórglas. Þegar hann ætlar að biðjast afsökunar fær hann högg beint í andlitið.

Hann finnur sig næst í bakherbergi að mjaka lausri tönn fram og tilbaka. Grétar vinur hans kemur að honum og stingur upp á fersku lofti.

Fyrir utan er byrjað að snjóa. Þeir ganga fram hjá bensínstöð og ákveða að nota klósettin sem eru fyrir utan. Þar situr gamall maður sem er illa til fara og lúinn.

-Grétar: Nei, sjá þennan. Bara góður á því?

Gamli maðurinn kippist til af hræðslu.

-Gamli maður: Ha? Hvað viltu? Láttu mig í friði.

-Grétar: Þótt þú getir ekki náð þér í konu, þá geturðu allavega farið í bað.

Gamli maðurinn lítur á hann með grátstaf í kverkunum. En skyndilega hlær hann þar til hann fær kröftugt hóstakast með tilheyrandi slími. Hann snýr sér undan til að þrífa sig. Frú Lonelyhearts reynir að fá vin sinn til að koma með sér burt, en hann neitar að fara án gamla mannsins. Þeir grípa hann báðir og bera hann með sér. Hann flissar á meðan, eitthvað sem pirrar Frú Lonelyhearts mjög. Það er orðið mjög kalt og maðurinn er illa klæddur, eitthvað sem hann segist ekki kippa sér upp við. Þeir fara með hann í ölkjallara þar sem þeir halda áfram að drekka, þrátt fyrir mótbárur hans sem vildi frekar drekka kaffi. Grétar er orðinn mjög pirraður á honum.

-Grétar: Hættu þessu herramanns rugli og segðu okkur söguna þína.

Gamli maðurinn er ekki hrifinn af þeirri hugmynd.

-Grétar: Láttu ekki svona, við erum vísindamenn, heimsfrægir. Segðu mér, hvenær varstu fyrst var við óeðlilegar kynferðislegar hneigðir?

-Gamli maðurinn: Hvað áttu við herra…?

-Grétar: Já, ég veit, en hvað með það sem skilur þig frá öðrum karlmönnum?

-Gamli maðurinn: Hvernig vogarðu þér…(hljóðar smá af hneykslun)

Frú Lonelyhearts: Svona, svona. Ætlun hans var ekki að móðga þig. Vísindamenn geta verið hræðilega ókurteisir og tillitslausir. En þú ert samt perri er það ekki?

Gamli maðurinn lyftir staf sínum og gerir sig líklegan til að slá með honum. Grétar grípur hann að aftan og hrifsar hann úr höndum hans. Maðurinn byrjar að hósta mjög slæmt og kröftugt. Hann rétt nær að staulast að stól annars staðar.

Þetta hefur eitthvað kveikt í einhverju hjá Frú Lonelyhearts sem finnst þetta greinilega mjög spennandi.

Frú Lonelyhearts: Ég ætla að fá ævisöguna hjá þessu kvikyndi!

Hann og Grétar ganga í átt að honum. Gamli maðurinn stekkur á fætur en Frú Lonelyhearts nær taki á honum og neyðir hann til að setjast aftur.

Frú Lonelyhearts: Við erum sálfræðingar. Við viljum hjálpa þér. Hvað heitirðu?

-Gamli maðurinn: Georg Sigurðsson

Frú Lonelyhearts: Aldur, ef þú vildir vera svo vænn, og skýring á núverandi stöðu

-Gamli maðurinn: Hvaðan þykist þú hafa rétt til…

Frú Lonelyhearts: Vísindin gefa mér rétt!

-Grétar: Hættum þessu. Þessi gamli faggi er að fara að grenja.

Frú Lonelyhearts: Nei, minn kæri vísindakollegi. Tilfinningar mega aldrei hamla vísindarannsóknum.

Frú Lonelyhearts tekur utan um gamla manninn með einum handlegg.

Frú Lonelyhearts: Segðu okkur ævisögu þína (með gervi samúðartón)

-Gamli maðurinn: Ég hef enga sögu

Frú Lonelyhearts: Það getur ekki verið. Allir hafa ævisögu.

Gamli maðurinn byrjar að gráta.

Frú Lonelyhearts: Jájá, ég veit hún er sorgleg. En segðu okkur hana helvítið þitt.

Þegar gamli maðurinn neitar enn að tala, tekur Frú Lonelyhearts í hönd hans og snýr uppá hana. Grétar reynir að taka hann burt en hann neitar að sleppa. Gamli maðurinn byrjar að öskra. Einhver slær Frú Lonelyhearts að aftan með stól.

6.

Frú Lonelyhearts liggur uppí rúmi í öllum fötunum og starir út í loftið. Síminn hringir og það er stjórinn að spyrja hvort hann ætli ekki að mæta í vinnuna. Hann svarar að hann sé fullur, en ætlar samt að reyna að mæta. Hann byrjar á að sturta í sig viskýi og fer svo í sturtu. Því næst borðar hann smá og fer út. Á leiðinni starir hann samt á allt kvenfólkið sem hann sér. Á endanum sest hann niður á bekk. Hann fer í símaskránna og stoppar á nafninu María. Hann fer á bar og fær sér tvo drykki og hringir svo.

-María: Ert þetta þú? Já, komdu núna. Ég er nýbúin að vera að rífast við hann og vil hitta þig. Núna er þetta búið.

Frú Lonelyhearts: Ok, hvenær? Hvar?

-María: Hvar sem er. Ég og þetta ógeð er búið spil!

Frú Lonelyhearts: Viltu koma hingað?

María: Nei komdu hingað.

Frú Lonelyhearts stendur fyrir utan dyr og bankar. Stjórinn kemur til dyra.

-Stjórinn: Já, komdu inn hjónabands rústari! (hlær) Frúin kemur eftir smá, hún er í baði.

Stjórinn opnar flösku af víni.

-Stjórinn: Svo, þú ert allur í þessu. Viský og kona yfirmannsins?

Frú Lonelyhearts kemur engu upp

-Stjórinn: Þú ert í rannsóknarvinnu, er það ekki? Allavega, ekki setja þetta viský á útgjaldareikninginn. Hinsvegar, þá líkar mér að sjá ungan mann sem helgar sig vinnunni af öllu sínu hjarta. Það er nefnilega búið að vera í munninum á þér upp á síðkastið.

Frú Lonelyhearts gerir örvæntingarfulla tilraun til að grínast á móti

Frú Lonelyhearts: Og þú…þú ert svona gaur sem lemur konuna sína

Stjórinn springur úr hlátri

-Stjórinn: Þú hefur rangt fyrir þér væni. Það er hún sem sér um barsmíðarnar. Kæri vinur, ég vil endilega ræða við þig maður á mann. Ég elska það, en það eru bara svo fáir sem maður getur rætt þannig við í dag. Allir eru svo lokaðir. En ég vil gera skjöldinn hreinan, byrja frá byrjun. Betra en að láta hlutina grassera í sálinni (blikkar). Minn kæri vinur, þessar ásakanir særa mig. Þið andlegu verurnar haldið að þið séu þær einu sem þjást. En það er bara ekki rétt. Þótt ást mín er holdlegri, þá þjáist ég einnig. Það er þjáning sem rekur mig í fang Frúr Fjólur heimsins. Já, ég þjáist.

Hér tapar hann dead-pan grímunni.

-Stjórinn: Hún er eigingjörn. Hún er eigingjörn djöfulsins tík. Hún var hrein mey þegar ég kynntist henni og alla tíð síðan hefur hún verið að berjast fyrir að vera það áfram. Að sofa hjá henni er eins og að sofa með hníf í klofinu.

Nú hlær Frú Lonelyhearts.

-Stjórinn: Hún heldur því fram að ég hafi nauðgað henni. Geturðu ímyndað þér mig, stjórann, nauðga einhverri manneskju? Ég er eins og þú, einn af þessum þakklátu elskhugum.

María kemur inní herbergið á baðslopp. Hún hvíslar að Frú Lonelyhearts:

-María: Ekki hlusta á þetta svín. Komdu með mér og taktu viskýið með þér.

Þau fara inní svefnherbergi

-María: Hvað sagði þetta fífl við þig?

Frú Lonelyhearts: Hann sagði að þú værir eigingjörn. Kynferðislega.

-María: Að hann skuli voga sér. Veistu afhverju hann leyfir mér að fara út með öðrum karlmönnum? Til að spara pening. Hann veit að þeir koma mér í réttan gír og þegar ég kem heim skríður hann upp í rúm og grátbiður mig. Níski djöfull!

Hún klæðir sig í kjól. Hann kemur aftan að henni og kyssir hana aftan á hálsinn.

-María: Svona, svona. Þú ruglar í útlitinu.

Hann fær sér sopa af viský og gerir drykk handa henni. Þegar hann færir henni hann kyssir hún hann létt, sem verðlaun.

-María: Hvar eigum við að borða? Förum eitthvað þar sem ég get dansað. Mig langar að vera glöð.

Þau taka leigubíl á skemmtistað. Þegar þau koma inn er verið að spila kúbverska tónlist. Þjónn færir þau til boðs. María dettur strax í einhvern spænskan gír. Frú Lonelyhearts verður greinilega pirraður eftir því sem líður á.

-María: Mér líkar vel við þennan stað. Hann er pínu gervi, ég veit, en það er bara svo gaman. Og ég vil hafa gaman.

Frú Lonelyhearts: Afhverju viltu hafa gaman?

-María: Allir vilja hafa gaman. Nema þeir séu veikir

Frú Lonelyhearts: Leiðin til að hafa gaman er að gleðja aðra. Sofðu hjá mér, þá verður mjög glaður.

-María: Ég hef haft það mjög erfitt. Frá byrjun. Móðir mín dó þegar ég var barn. Fékk brjótakrabbamein. Sársaukinn var hræðilegur. Hún dó hallandi sér yfir borð.

Frú Lonelyhearts: Sofðu hjá mér.

-María: Nei, dönsum

Frú Lonelyhearts: Nei, ég vil ekki dansa. Segðu mér frá mömmu þinni.

-María: Hún dó við að halla sér yfir borð. Sársaukinn var svo hræðilegur að hún skreið út úr rúminu til að deyja

María leikur dauðateygjurnar

-María: Pabbi minn var mjög vondur við hana. Hann var portrett málari, algjör snillingur, en…

Frú Lonelyhearts hættir að hlusta. Þegar hún hættir segir hann:

Frú Lonelyhearts: Greyið þú…

Í leigubílnum á leiðinni heim suðar hann enn í henni að sofa hjá sér. Hún neitar. Þegar þau koma aftur að íbúðinni hallar hún sér að honum fyrir koss. Hann grípur æstur um hana. Hún ýtir honum í burtu.

-María: Sko, við megum ekki hætta að tala. Hann er pottþétt að hlusta á bakvið dyrnar. Ef hann heyrir ekki í okkur tala heldur hann að við séum að kyssast og opnar dyrnar. Þetta er gamalt trikk hjá honum.

Hann reynir að kyssa hana meira.

-María: Ekki á munninn. Ég verð að tala.

Hann kyssir hana á hálsinn, opnar kjólinn og kyssir hana á brjóstin.

-María: Móðir mín dó úr brjóstakrabbameini. Hún dó á borði. Faðir minn var portrett málari. Átti mjög glaða ævi. Misnotaði móðir mína. Hún fékk brjóstakrabbamein. Hún…

Hann rífur föt hennar og hún endurtekur sömu setningar. Kjóll hennar fellur í gólfið og hann rífur í nærföt hennar þar til hún stendur nakin. Hann reynir að draga hana í gólfið.

-María: Plís, hann kemur og sér okkur

Hann kyssir hana til að fá hana til að hætta að tala

-María: Leyfðu mér að fara inn elskan. Kannski er hann ekki heima. Ef ekki, þá hleypi ég þér inn.

Hann sleppir henni. Hún opnar og læðist inn, með fötin undir handleggnum. Hann heyrir hana kveikja ljósin og því var stjórinn ekki bak við dyrnar. Þá heyrir hann fótspor og felur sig. Hurðin opnast og stjórinn kíkir út á ganginn. Hann er einungis í náttfötum að ofan.

7.

Frú Lonelyhearts situr við skrifborðið sitt. Gulli samstarfsmaður hans kemur upp að honum. Hann brosir.

-Gulli: Jæja, hvað segir byttan? (hermir eftir stjóranum)

Frú Lonelyhearts: Takk fyrir að skrifa dálkinn í gær

-Gulli: Ekki málið. Ég hafði gaman af að lesa póstinn þinn.

Hann tekur bleikt umslag úr vasanum og hendir á borðið

-Gulli: Frá aðdáanda (blikkar). Hver sendir ennþá handskrifað bréf í póstinum í dag?

Frú Lonelyhearts opnar umslagið. Í því er bréf:

Frú Lonelyhearts. Ég er ekki svo góð að skrifa. Ég vil gjarnan tala við þig. Mig vantar ráðgjöf í lífi mínu og mér var bent á þig. Ég veit að þú ert karlmaður og það er gott. Ég sá þig einu sinni á bar, ég var með manni mínum sem er fatlaður. Hringdu í mig ef þú getur í númerið sem fylgir með. Kær kveðja, aðdáandi.

Hann hendir bréfinu í ruslið.

-Gulli: (hlær) Rólegur Dostojevskí. Svona gerir maður ekki. Í staðinn fyrir að taka Rússann á þetta og mæla með sjálfsmorði, þá legg ég til að þú barnir konuna og aukir þannig dreifingu síðunnar.

Frú Lonelyhearts lætur sem hann er upptekinn til að losna við hann.

Frú Lonelyhearts skrifar næsta dálk:

Lífið, fyrir flesta, virðist vera hræðilega sársaukafull barátta full af ástarsorg. Án von eða gleði. Ó kæru lesendur, það virðist bara vera þannig. Hver maður, sama hversu fátækur eða hógvær, getur lært að nota skynfæri sín. Sjáið skýóttan himininn, freyðandi hafið…finnið ilminn af trjánum…snertið flauel og satín…eins og lagið segir: „The best things in life are free“. Lífið er….

Hann ræður ekki við að halda þessari ræðu uppi lengur, veit ekkert hvert hann er að fara með þetta. Eftir smástund gefst hann upp, fer í ruslakörfuna og nær í bréfið. Hann finnur númerið og starir á það í dágóða stund. Á endanum hringir hann:

Frú Lonelyhearts: Já halló, er þetta aðdáandi Frú Lonelyhearts?

-Aðdáandi: Já sæll. Ég heiti Dagný. (greinilegur ótti í röddinni)

Frú Lonelyhearts: Þetta er Frú Lonelyhearts. Þú sagðir að ég átti að hringja?

Hún á erfitt með að stýra samtalinu. Eftir smá fram og tilbaka, ákveða þau að hittast í garði rétt hjá.

Frú Lonelyhearts er í garðinum og skimar um í leit að aðdáandanum. Á endanum kemur kona hægt og rólega upp að honum. Hann bíður og lætur hana tala fyrst.

-Dagný: Frú Lonelyhearts? Eða, ó….

Frú Lonelyhearts: Dagný? Sæl. (tekur í hendina á henni og leiðir hana burt)

-Dagný: Hvert erum við að fara?

Frú Lonelyhearts: Fá okkur drykk.

-Dagný: Við getum ekki farið á þennan sama bar, þau þekkja mig þar

Frú Lonelyhearts: Heim til mín

-Dagný: Ætti ég?

Hann svarar engu en hún streitist ekki á móti.

Í íbúðinni situr hún á rúminu hans. Hann sest við hliðin á henni.

-Dagný: Þú hlýtur að vita mikið um konur vegna vinnunnar

Hún setur hönd sína á hné hans. Þau kyssast og eru orðin nokkuð æst.

-Dagný: Ekki

Frú Lonelyhearts: Ekki hvað?

-Dagný: Slökktu ljósin elskan

Hann reykir sígarettu á meðan að hún klæðir sig úr. Ýmis skrautleg hljóð heyrast. Á endanum kallar hún á hann að koma….

Um fimmtán mínútum seinna skríður hann uppúr rúminu dauðuppgefinn og sveittur. Hún fer á klósettið, kemur svo aftur og sest í kjöltu hans.

-Dagný: Ég skammast mín. Þú mátt ekki halda að ég sé slæm manneskja

Frú Lonelyhearts: (hristir hausinn)

-Dagný: Það er ekki mikið spunnið í manninn minn Dabba. Hann er fatlaður, eins og ég sagði í bréfinu. Og miklu eldri en ég. (hlær) Hann er allur uppþornaður. Hann hefur ekki verið eiginmaður í mörg ár. Sko, Lísa, dóttir mín, er ekki hans.

Hún á greinilega von á að hann verði undrandi svo hann gerir sitt besta til að lyfta augnbrúm.

-Dagný: Það er löng saga. Það var vegna Lísu sem ég þurfti að giftast honum. Þú hlýtur að hafa velt fyrir þér afhverju ég giftist fötluðum. Það er löng saga.

Hann er alveg að sofna yfir dáleiðandi rödd hennar.

-Dagný: Það er löng, löng saga. Ég gat ekki skrifað hana alla í bréfið. Ég lenti í vandræðum þegar Dabbi bjó fyrir ofan okkur. Ég var alltaf góð við hann og fór með honum í bíó og svona, af því hann var fatlaður. Ég var samt alveg ein vinsælasta stelpan í skólanum. En þegar ég lenti í vandræðum vissi ég ekki hvað ég átti að gera og bað hann um pening fyrir fóstureyðingu. Hann átti samt ekki pening svo við giftum okkur í staðinn. Ég gerði stór mistök að treysta honum. Ég hélt hann væri herramaður, en þegar ég bað hann að giftast mér ýtti hann mér frá hurðinni og vildi ekki einu sinni gefa mér pening fyrir fóstureyðingu. Hann sagði að ef hann gæfi mér peningana myndi það þýða að það væri honum að kenna og ég hefði því eitthvað á hann. Hefurðu einhvern tímann heyrt um slíkt illmenni áður?

Frú Lonelyhearts: Nei.

-Dagný: Eftir að barnið fæddist, skrifaði ég fíflinu, en hann skrifaði aldrei tilbaka. En svo, fyrir um tveimur árum, fór ég að hugsa hversu ósanngjarnt fyrir Lísu að þurfa að reiða sig á fatlaðan og fá ekki allt sem hún á skilið. Svo, ég fletti honum upp í símaskránni og fór með Lísu að hitta hann. Eins og ég sagði við hann þá, ekki það að ég vildi eitthvað fyrir mig, en ég vildi að Lísa fengi það sem hún átti rétt á. Svo, eftir að hafa látið okkur bíða á ganginum í yfir klukkutíma – ég var alveg brjáluð get ég sagt þér, hugsandi um allt sem hann hafði gert mér og barninu mínu – vorum við loksins leidd inn í stofuna af brytanum. Mjög hljóðlátt og kvenlegt, því peningar eru ekki allt og hann er enginn herramaður frekar en ég er fín dama, skítseyðið. Ég sagði honum að hann ætti að gera eitthvað fyrir Lísu, þar sem hann er faðir hennar. En hann vogaði sér að halda því fram að hefði aldrei séð mig áður og ef ég hætti ekki að ónáða hann myndi hann láta handtaka mig. Þá varð ég brjáluð og ég réðst á fíflið og lét hann heyra það. Þá mætti allt í einu einhver kona, sem ég taldi að hlyti að vera eiginkona hans, svo ég hrópaði: „hann er faðir barns míns, hann er faðir barns míns“. Þegar þau fóru að hringja á lögregluna hljóp ég í burtu.

En nú kemur fyndnasti kaflinn: maðurinn minn er skrýtinn kall og lætur alltaf eins og hann sé faðir barnsins og talar meira að segja um barnið okkar. Þegar við komum heim var Lísa alltaf að spyrja afhverju ég sagði að einhver skrýtinn kall væri pabbi hennar. Ég hlýt að hafa verið klikkuð af því ég sagði henni að hún ætti að muna að alvöru pabbi hennar væri allt annar maður sem ég bjó til. Ég sagði henni fullt af þvælu eins og þetta, hef kannski horft á of margar bíómyndir. En þegar Dabbi kom svo heim er það fyrsta sem Lísa segir að hann sé ekki pabbi hennar. Þá verður hann fúll og vill vita hvað ég hef verið að segja við hana. Mér líkar ekki hvernig hann kemur fram við mig og segi „sannleikann“. Ég var líka orðin pirruð á að horfa upp á hvernig hann dásamaði hana. Hann kom og gaf mér högg á kinnina. Ég læt engan komast upp með það svo ég sló han tilbaka og þá sveiflaði hann stafnum sínum að mér en hrasaði og datt í gólfið og byrjaði að grenja. Krakkinn var líka grenjandi á gólfinu og það setti eitthvað af stað í mér, því áður en ég veit af er ég þar líka grenjandi.

Hún bíður eftir að hann segi eitthvað, en hann þagar þar til hún gefur honum olnbogaskot.

Frú Lonelyhearts: Maðurinn þinn elskar alveg örugglega þig og barnið

-Dagný: Kannski, en ég var sæt stelpa sem hafði úrval af strákum sem biðu í röðum. Hvaða stelpu langar að eyða ævinni með einhverri fatlaðri rækju?

Frú Lonelyhearts: Þú ert enn sæt

Hún kissir hann og dregur svo aftur í rúmið

8.

Frú Lonelyhearts liggur sárkvalinn upp í rúmi í símanum, greinilega með einhverja flensu.

Frú Lonelyhearts: Nei, ég er ekki fullur, ég er fárveikur. Já, í alvöru. Bæ.

Ýmsir draumar og ímyndir birtast honum og hverfa. Hann finnur sig fyrir framan búðarglugga að skoða pelsa, demantahringi, úr, haglabyssur, veiðigræjur og fiðlur. Hann hugsar með sér að þetta sé búðargluggi þjáningarinnar, allir þessir hlutir eru fulltrúar hennar á einn eða annan hátt. Hann telur sig þurfa að koma röð og reglu á þetta ástand. Trompet hljómar og hann þýtur af stað og byrjar að mynda typpi úr gömlum úrum og stígvélum, svo hjarta úr regnhlífum og veiðiflugum, demant úr hljóðfærum og derhúfum, svo hring, þríhyrning, ferning, hakakross. Þegar krossinn er orðinn of stór fyrir búðina færir hann hann út á strönd. Þar fyllir hver alda á byrgðir hans, hraðar en hann ræður við að sortera. Hann vinnur af öllu afli. Hann ráfar um á ströndinni, allur útataður í allskonar sjávardýrum og rusli.

Hann vaknar við bank á dyrnar. Það er Birta sem kemur inn.

-Birta: Hæ. Ég heyrði að þú værir fárveikur svo ég kom með súpu og fleira.

Hann er of þreyttur og lasinn til að segja neitt. Hann fær sér að borða. Birta lagar til og gerir sig svo klára til að fara.

Frú Lonelyhearts: Ekki fara

Hún dregur stól að rúminu og situr án þess að segja neitt

Frú Lonelyhearts: Ég biðst afsökunar á þessu um daginn. Ég var kannski veikur.

-Birta: Þetta er þessi „Frú Lonelyhearts“ vinna. Afhverju hættirðu ekki bara?

Frú Lonelyhearts: Og fer að gera hvað?

-Birta: Vinna á auglýsingastofu til dæmis

Frú Lonelyhearts: Þú skilur ekki. Ég get ekki hætt. Og þótt ég gerði það, myndi það ekki breyta neinu. Ég myndi ekki geta gleymt bréfunum, sama hvað ég gerði.

-Birta: Kannski skil ég þetta ekki, en ég held þú sért að gera sjálfan þig að fífli

Frú Lonelyhearts: Kannski get ég fengið þig til að skilja. Byrjum á byrjuninni. Maður er ráðinn til að gefa lesendum frétta- og afþreyingarsíðu ráð. Starfið er „stönt“ til að auka klikk og þar með auglýsingatekjur. Allir samstarfsmennirnir líta á þetta sem brandara. Hann tekur þó starfinu opnum örmum, þar sem það gæti leitt til alvöru blaðamennsku, eða jafnvel persónulegs dálks með fullu frelsi. Þetta er allavega langt besta tækifæri sem honum hefur boðist. Hann lítur þó á þetta sem brandara líka, en eftir nokkra mánuði, hættir hann að skilja hvað var svona fyndið. Hann skilur þá að langstærsti hluti póstanna og bréfanna eru gríðarlega auðmjúkar og raunverulegar sárbænir um hjálp og andlega ráðgjöf, tjáning á mikilli þjáningu. Hann áttar sig líka á því að lesendur hans og viðmælendur taka hann alvarlega. Í fyrsta skipti í lífi sínu neyðist hann því til að taka til gagngerrar skoðunar gildin sem stýra lífi hans. Þessi skoðun sýnir fram á að brandarinn er ekki hans, heldur á hans kostnað.

-Birta: Þú ert þreyttur. Ég ætti að fara.

Frú Lonelyhearts: Nei, ég er ekki þreyttur. Ég er bara þreyttur á að tala. Tala þú aðeins núna.

Hún segir honum sögur úr æsku sinni á sveitabæ, um ást sína á dýrum, hvað allt hljómar og lyktar öðruvísi í borginni, og þar fram eftir götunum. Á meðan hún er að tala ryðst stjórinn inn í íbúðina, blindfullur. Birta forðar sér án þess að segja bless.

-Stjórinn: Vinur minn, ég er sammála henni. Þú stundar það að flýja. En ég er ósammála aðferðafræðinni.

Frú Lonelyhearts dregur sængina yfir andlitið og snýr sér í burtu. En stjórinn lætur ekki hunsa sig.

-Stjórinn: Það eru til aðrar aðferðir og þér til gagns og gamans mun ég lýsa þeim. En byrjum á flóttanum í sveitina, eins og Birta mælir með. Þú hefur fengið nóg af borginni og þessum milljónum manna. Atferli manna, eins og að lána, eyða og rukka, er of mikið fyrir þig. Strætóinn er alltof hægfara, neðanjarðarlestin alltof troðin. Hvað gerirðu þá? Þú kaupir bóndabæ og labbar á eftir rökum afturenda hestsins þíns, enginn kragi eða bindi, plægjandi breiða akra þína. Þegar þú grefur upp frjósömu, svörtu jörðina ber vindurinn með sér ilm af trjám og gróðri, sálin endurnýjar kynni við gamlan vinnutakt. Við þennan takt sáirðu og slær, og gengur milli ófrískra raða af korni. Spor þín verða kynferðislega hlaðin eins og hjá dansdrukknum indíána og þú treður sæðinu niður í kvenkyns jörðina. Þú plantar ekki tönn drekans heldur baunum og grænmeti….

Jæja, hvað segirðu vinur? Verður það sveitin?

Frú Lonelyhearts svarar ekki.

-Stjórinn: Ég skil þögn þína á þann veg að þú hefur tekið stöðu gegn sveitinni. Ég er sammála. Slíkt líf er alltof leiðinlegt og erfitt. Tökum nú til skoðunar Suðurhöfin: þú býrð í strjákofa með dóttir kóngsins, grönn og ung mær með augu sem í býr ævaforn þekking. Brjóst hennar gylltar perur, maginn melóna og ilmurinn einstakur. Á kvöldin, við bláa lónið, undir silfurmánanum, kyrjið þið um ást ykkar á framandi og tungumáli hennar. Líkami þinn er brúngylltur eins og hennar og ferðamenn þurfa á hjálp innfæddra að halda til að bera kennsl á þig. Þeir öfunda þig áhyggjulausan hlátur þinn og litlu brúnu brúðurina og fingur frekar en gaffla. En þú endurgeldur ekki öfund þeirra og þegar falleg stelpa úr borgaryfirstéttinni kemur inn í kofa þinn eitt kvöld til að læra leyndarmál hamingju þinnar, þá sendirðu hana aftur til snekkjunnar sem hangir við sjóndeildarhringinn eins og taugaveiklaður veðhlaupahestur. Og þannig dreymirðu í burtu dagana, veiðir, dansar, syndir, kyssir og tínir blóm til að setja í hárið….

Jæja vinur. Hvað finnst þér um Suðurhöfin?

Frú Lonelyhearts lætur sem hann sofir. Stjórinn kaupir það ekki.

-Stjórinn: Aftur þögn! Og aftur hefurðu rétt fyrir þér. Suðurhöfin eru löngu orðin þreytt og það þjónar engum tilgangi að herma eftir Gauguin. En engar áhyggjur, við höfum rétt krafsað í yfirborðið. Tökum nú til skoðunar nautnahyggju, ef þú vilt ekki taka út vinninginn og stinga af…

Þú helgar líf þitt leitinni að ánægju. Engin græðgi þó, en þú veist að líkami þinn er nautnavél og þú passar eins vel uppá hann og þú getur til að fá sem mest úr honum. Golf alveg eins og brennivín. Þú vanrækir þó ekki ánægju hugarins. Þú stundar kynlíf undir málverkum Matisse og Picasso, þú drekkur úr glösum frá Endurreisnartímanum, og oft eyðirðu kvöldi við arininn með Proust og epli. En á endanum áttarðu þig á því að þú þurfir að deyja. Þú tekur því af æðruleysi og ákveður að halda lokaveislu. Þú býður öllum gömlu hjásvæfunum, þjálfurum, listamönnum og félögum. Gestirnir eru klæddir í svart, borðið er líkkista sérsmíðuð fyrir þig. Þú býður upp á kavíar og krækiber, lakkrís og kaffi án rjóma. Eftir dansatriði stelpnanna stendurðu á fætur og kallar eftir þögn til að útskýra heimspeki lífs þíns. „Lífið“ segir þú „er klúbbur þar sem þér er aðeins gefið eitt spil og þú verður að taka þátt. Jafnvel þótt spilin er köld og brennd marki örlaganna, spilið, spilið, eins og herramenn. Grípið það sem er á hlaðborðinu, kynnist stelpunum á efri hæðinni….

Ég mun ekki einu sinni spyrja hvað þér finnst um slíkan flótta. Þú átt hvorki peningana, né ertu nógu heimskur til að geta það. En sú sem við komum að núna ætti að hæfa þér betur….

List! Vertu listamaður eða rithöfundur. Þegar þér er kalt, hlýjaðu þér við elda Titians, þegar þú ert svangur, nærðu þig þá á andlegum kræsingum Bachs, Brahms eða Beethovens. Heldurðu að það sé tilviljun að nöfn þeirra byrja öll á bókstafnum B? Ekki taka neina sénsa allavega, reyktu 3 B pípu. Segðu þeim að þeir geta átt yfirstéttarhórurnar og appelsínuendurnar. Því þú ert l’art vivant, lifandi list eins og þú kallar það. Segðu þeim að þú veist að skórnir þínir eru ónýtir og þú ert með bólur og já, skemmdar tennur og þú haltrar. En þér er sama, því á morgun eru þeir að spila síðustu kvartetta Beethovens og heima bíður þín öll leikrit Shakespeares í einu bindi.

Eftir list röflar stjórinn eitthvað um sjálfsmorð og fíkniefni. Frú Lonelyhearts lognast að mestu útaf á meðan, en rankar við sér við lokaorðin:

-Stjórinn: Minn kæri vinur, ég veit auðvitað að hvorki sveitin, né Suðurhöfin, né nautnahyggja, né list, né sjálfsvíg, né fíkniefni hafa nokkra þýðingu fyrir okkur. Guð er okkar eina flóttaleið. Kirkjan er okkar eina von. Leyf mér því að lesa upp bréf til þín:

Frú Lonelyhearts. Ég er ungur maður sem starfar við blaðamennsku. Lífið fyrir mér er tómt og merkingarlaust. Ég finn enga ánægju í mat, drykk eða kvenfólki. List gerir ekkert fyrir mig lengur. Allt er eymd og volæði. Mér líður eins og ég sé í helvíti. Hvernig er hægt að trúa í dag? Er það satt að sumir merkustu vísindamennirnir trúa? Kveðja, dyggur aðdáandi.

9.

Birta og Frú Lonelyhearts keyra upp að húsinu hans. Þau eru greinilega nýkomin úr ferðalagi og það fer vel á þeim.

-Birta: Jæja, vinna á morgun. Ertu tilbúinn.

Frú Lonelyhearts: Held það

-Birta: Mundu bara allt sem við töluðum um. Það er ekki allt á þinni ábyrgð. Núna ertu búinn að sverja eyð um að vera auðmýkri.

Frú Lonelyhearts: Jújú. Ég ætla að standa við það.

Hann tekur eftir manni sem rambar á barmi dauðans staulast hinum megin við götuna. Aðeins lengra sér hann konu með hryllilega stórt kýli á hálsinum vera að skoða í búðarglugga. Hann fer inn.

Hann situr við tölvuna og skrifar í tómt skjal:

Kristur lét lífið fyrir þig. Hann dó negldur við kross fyrir þig. Gjöf hans til þín er þjáning og aðeins í gegnum þjáningu kynnistu honum. Lærðu að meta þessa gjöf því….

Hann lokar skjalinu án þess að ýta á save. Hann nær í umslag stílað á Frú Lonelyhearts í bunka á skrifborðinu, opnar og les.

10.

Á barnum með Gulla og stjóranum. Frú Lonelyhearts lítur á símann sinn. SMS frá Birtu „afhverju svararu mér ekki? :(„

-Stjórinn: (fullur) Ég verð að vera ósammála þér minn kæri Gulli. Ekki kalla trúaða veika. Það eru þeir sem eru heilbrigðir. Það eruð þið sem eruð veikir.

Gulli svarar ekki. Stjórinn snýr sér þá að Frú Lonelyhearts

-Stjórinn: Segðu okkur nú bróðir, hvernig kom það til að þú öðlaðist trú? Var það tónlist í kirkjunni, dauði ástvinar eða vitur gamall prestur kannski?

Brandarar stjórans hafa engin áhrif lengur. Frú Lonelyhearts brosir eins og dýrlingur að ofsækjanda síns.

-Stjórinn: Ahh, en heimskt af mér. Það voru auðvitað póstarnir og bréfin. Hef ég ekki sjálfur sagt að Frúr Lonelyhearts eru prestar nútímans?

Gulli hlær og stjórinn læst vera móðgaður

-Stjórinn: Gulli þú ert nú ljóta afsprengi þessarar öld trúleysis. Þú getur ekki trúað, einungis hlegið. Þú tortryggir allt með banvænum efa.

Barþjóninn truflar samræðurnar og beinir orðum sínum til Frú Lonelyhearts

-Barþjónn: Afsakið, en það er hér herramaður að nafni Dabbi sem vill ná tali af þér. Segir að þú þekkir konu hans.

Áður en Frú Lonelyhearts nær að bregðast við á nokkurn hátt er hann búinn að gefa merki til lítils karls á enda barsins sem kemur haltrandi með staf yfir til þeirra. Dabbi er mjög spenntur og tekur í höndina á öllum tvisvar, pantar svo drykki fyrir alla. Stjórinn virðist hann gaumgæfilega fyrir sér áður en hann lyftir glasi. Hann blikkar Frú Lonelyhearts

-Stjórinn: Fyrir mannkyninu! Mannkynið, mannkynið (horfir á Dabba og hristir höfuðið) Því hvað er maðurinn ef ekki…

Barþjóninn grípur aftur inní

-Barþjónn: Dabbi sér um eftirlit með mælum hjá orkuveitunni.

-Stjórinn: Og þvílík vinna sem það hlýtur að vera! Hann ætti að geta veitt okkur annað sjónarhorn. Við blaðamennirnir erum svo takmarkaðir á svo margan hátt. Mér finnst gaman að heyra frá ólíku fólki.

Dabbi hefur virt Frú Lonelyhearts fyrir sér allan tímann en segir svo:

-Dabbi: Veistu hvað fólk segir?

-Stjórinn: Nei minn kæri, hvað segir fólk?

Dabbi: Að við mælingarmennirnir séum stundum eins og ísfólk úr ævintýrunum (setur upp svip)

-Stjórinn: Hvur andskotinn! Ég sé, herra, að þú ert ekki maður að okkar skapi. Þú getur ekkert vitað um mannkynið, þú ert mannkynið. Ég læt þig í hendur Frú Lonelyhearts.

Hann kallar á Gulla og þeir ráfa burt. Dabbi er mjög ringlaður og reiður.

-Dabbi: Vinur þinn er snarklikkaður

Frú Lonelyhearts er enn brosandi, nú með samúð og smá sorg. Dabbi brosir tilbaka

-Dabbi: Já, ég var næstum búinn að gleyma. Konan mín vill bjóða þér í mat, þess vegna bað ég hann um að kynna mig fyrir þér.

Frú Lonelyhearts samþykkir boðið sem gerir Dabba mjög glaðan. Þeir fá sér annan drykk. Dabbi segist vera þreyttur svo Frú Lonelyhearts stingur uppá að þeir færa sig í bakherbergið. Dabba líður greinilega mjög óþægilega. Þegar hann loksins byrjar að tala er ekki hægt að skilja orð af því sem hann segir. Það er ekki einu sinni ljóst hvort hann sé að reyna að gera sig skiljanlegan. Hann baðar einnig út höndum í einhverri skrýtni athöfn. Frú Lonelyhearts fylgist áhugasamur með þar til hann loks tekur upp bréf og réttir honum:

Mér líður skringilega að vera að skrifa þetta bréf til þín. En þannig er mál með vexti að ég er 43 ára fatlaður maður og hef verið alla ævi. Ég hef samt aldrei verið leiður yfir því fyrr en núna. Mér er búið að líða stanslaust illa undanfarið og spyrja mig, til hvers er þetta allt saman? Afhverju er ég að þræla mér út á lúsalaunum á meðan að yfirmennirnir keyra um á flottum köggum og lifa í vellystingum? Ekki það að vinnan sé endilega málið, ég er raunar heppinn að hafa vinnu. En afhverju að vinna svona myrkrana á milli bara til að koma heim og fæ ekki að heyra annað en stanslaust tuð um peninga, peninga, peninga. Eitthvað sem ég get ekki gert neitt í. Til hvers er maður að standa í þessu? Ég frétti að þú værir menntaður og hélt því kannski að þú vissir það? Kær kveðja, Dabbi.

Á meðan að Frú Lonelyhearts les bréfið er Dabbi að rembast við að finna eitthvað undir borðinu. Hönd hans snertir óvart hönd Frú Lonelyhearts. Hann kippir henni frá um leið og lítur skömmustulega út. En Frú Lonelyhearts tekur fast í hönd hans. Þegar hann er búinn að lesa bréfið sleppir hann ekki. Dabba líður óþægilega fyrst. En á endanum sitja þeir saman í þögn og haldast í hendur.

11.

Þeir staulast vel fullir út af barnum og uppí leigubíl. Frú Lonelyhearts hjálpar Dabba út úr bílnum þegar á leiðarenda er komið. Dagný tekur á móti þeim og fer strax að bölva Dabba.

Þegar inn er komið láta Frú Lonelyhearts og Dagný vel að hvert öðru þegar Dabbi sér ekki til. Þau borða og eftir matinn, á meðan þau drekka kaffi, sest Dagný við hliðiná Frú Lonelyhearts. Hún strýkur honum undir borðinu. Dabbi er greinilega orðinn mjög þreyttur. Dagný blikkar hann og gefur einhvers konar merki. Við það verður hann mjög ósjálfsöruggur og fer að hristast og mumla eitthvað óskiljanlegt. Á endanum verður hún pirruð á honum.

-Dagný: Hvað í andskotanum ertu að blaðra þarna?

-Dabbi: (fyrst andvarp, svo stuna) Er ég í rauninni ekki bara melludólgur? Að koma svona með mann heim handa konunni minni? (taugaveiklaður hlátur)

Dagný er nú brjáluð. Hún rúllar upp dagblaði og slær manninn sinn í andlitið með því. Hann urrar eins og hundur og grípur dagblaðið með tönnunum. Þegar hún sleppir ákveður hann að fara bara alla leið, fer niður á gólf og heldur áfram að urra og gelta. Frú Lonelyhearts reynir að fá hann til að standa upp, beygir sig niður til að lyfta honum upp, en þá rífur hann í buxnaklauf Frú Lonelyhearts og opnar hana, dettur svo niður á bakið og hlær. Dagný sparkar í hann af andúð. Á endanum hættir hann að hlægja og þau setjast öll aftur. Við tekur þögn sem á endanum pirrar Dagný svo mikið að hún fer og nær í fleiri drykki. Flaskan er þó tóm og því biður hún manninn sinn um að hlaupa út í búð og kaupa meira. Hann hristir þó hausinn og neitar. Hún reynir að þræta við hann. Hann hunsar hana sem gerir hana enn brjálaðri

-Dagný: Náðu í meira gin! Náðu í gin fíflið þitt!

Frú Lonelyhearts stendur upptekin

Frú Lonelyhearts: Plís hættið að rífast. Hann elskar þig, þess vegna lætur hann svona. Vertu góð við hann.

Hún urrar eitthvað af pirringi og fer út úr herberginu. Úr eldhúsinu heyrist einhver læti. Frú Lonelyhearts fer að Dabba og brosir til hans sama brosi og áður. Hann gerir það sama og réttir út höndina. Frú Lonelyhearts tekur í hana og þeir standa haldandi í hendur og brosandi þar til Dagný kemur aftur.

-Dagný: (í hæðnum tón) Æ hvað þið eruð sætt par

Dabbi tekur höndina tilbaka eins og hann sé að fara að slá konuna sína. Frú Lonelyhearts áttar sig á að hann verður að grípa almennilega í taumana á ástandinu

Frú Lonelyhearts: Þú ert með stóran og sterkan líkama Dagný. Þú getur gefið manni þínum hlýju með því að taka hann í fangið. Þú getur fjarlægt hrollinn í beinum hans. Hann eyðir dögum sínum í kjöllurum og geymslum, berandi þunga byrði af þjáningu og lífsþreytu. Þú getur skipt þessari byrði út fyrir draum. Draum sem verður eins og vítamínsprauta fyrir hann. Þú getur gert þetta með því að leyfa honum að sigra þig í rúminu. Hann mun endurgjalda þér með því að blómstra og þjóna þér á allan…

Dagný er alltof forviða til að hlægja. Dabbi lítur undan hann fer svo hjá sér. Frú Lonelyhearts er fullmeðvitaður um hversu fáránlegur hann er. Hann reynir aftur á annan hátt.

Frú Lonelyhearts: (öskrar) Kristur er ást! Kristur er svarti ávöxturinn sem hangir á krosstrénu. Maðurinn týndist við að eta af forboðna ávextinum. Hann mun bjargast við að eta af boðna ávextinum. Svarti ávöxtur Krists, ávöxtur ástarinnar…

Þetta fór enn verr. Hann lokar augunum. Allt í einu segir Dabbi:

-Dabbi: Ég elska þig, ég elska þig

Hann opnar augun og sér hjónin vera að kyssast.

-Dagný: Ok, klikkhausinn þinn. Ég fyrirgef þér. En farðu nú útí búð og kauptu meira gin.

Án þess að líta á Frú Lonelyhearts grípur hann hattinn sinn og fer út. Dagný brosir

-Dagný: Þú varst drepfyndinn svona með opna buxnaklauf. Ég hélt ég myndi deyja.

Hann svarar ekki

-Dagný: Vá hvað hann er afbrýðissamur. Það er nóg að ég bendi á einhvern stóran og segist vilja sofa hjá honum, þá verður hann tjúllaður.

Hún er augljóslega að daðra við hann, kveikir á tónlist. Hann segist þó vera of þreyttur til að dansa. Hún tekur nokkur æsandi spor fyrir framan hann og sest svo í kjöltu hans. Hann reynir að verjast tilraunum hennar en hún þrýstir munni sínum að hans og þegar hann lítur undan fer hún á hálsinn á honum í staðinn. Þegar hún opnar kjólinn sinn færir hann lappir sínar svo hún dettur á gólfið. Hún reynir að draga hann ofan á sig. Hann slær frá sér í blindni og hittir hana í andlitið. Hún öskrar og heldur fast í hann. Hann slær hana þar til hún sleppir takinu og hleypur út.

12.

Frú Lonelyhearts gerir sig kláran fyrir rúmið og leggst upp í. Eftir að hafa starað svolítið upp í loftið lognast hann út af. Allt í einu er bankað á dyrnar. Hann fer til dyra þrátt fyrir að vera nakinn. Tvær konur öskra þegar þær sjá hann og láta sig hverfa. Þrír menn, stjórinn þar á meðal, koma þá fram. Stjórinn segir að kona hans sé með honum og hún hafi sagt að hann hafi móðgað hana. Frú Lonelyhearts bakkar inn í herbergið og stjórinn lætur eins og hann ætli að ráðast á hann. Í staðinn klappar hann honum á bakið.

-Stjórinn: Farðu í buxur kæri vinur, við erum á leiðinni í partý.

Frú Lonelyhearts lítur ekki út fyrir að vera á förum

-Stjórinn: Komdu nú, það er drykkja í einrúmi sem gerir fólk að byttum. Ekki vera svona mikill fýlupúki. Okkur langar að spila leik og vantar þig í hann. Þetta er leikur sem ég bjó til og heitir „hver og einn sinn eigin Frú Lonelyhearts“.

Á endanum fara þau í leigubíl og heim til stjórans þar sem partýið er. Þegar Frú Lonelyhearts gengur inn fær hann miklar jákvæðar viðtökur. Þegar hann stendur brosandi, ánægður með þetta afrek, sér hann Birtu sem kemur upp að honum

-Birta: Hvað er að þér? Ertu veikur aftur?

Hann svarar ekki. Þegar allir hafa sest dreifir stjórinn blöðum og pappír og leiðir svo Frú Lonelyhearts að miðju herbergisins.

-Stjórinn: Dömur mínar og herrar (eins og sirkusstjóri) Við höfum hér í kvöld mann sem þið öll þekkið og dáist af. Frú Lonelyhearts, hann með syngjandi hjartað – Mussolini sálarinnar. Hann er hér í kvöld til að hjálpa ykkur í málefnum andans og siðferðis, að veita ykkur slagorð, málstað, gildi ofar öllum öðrum og tilgang. Sum ykkar halda kannski að þið eruð of langt leidd og engin hjálp muni gagnast. Þið eruð hrædd um að hversu mikið sem bál hans brennur mun hann ekki ná að kveikja í ykkur, þið munuð aðeins sviðna með vondri lykt. En leggið traust ykkar á hann, því ég fullvissa ykkur um að þið munuð loga. Frú Lonelyhearts mun hafa yfirhöndina.

Stjórinn dregur fram bunka af útprentuðum tölvupóstum.

-Stjórinn: Við förum kerfisbundið í gegnum þetta. Fyrst mun hver ykkar gera sitt besta til að svara einu af þessum bréfum. Út frá svörum ykkar mun Frú Lonelyhearts svo greina siðferðilega villu vegar ykkar.

Stjórinn dreifir póstunum á meðal gestanna eins og töframaður útdeilir spilum. Hann kjaftar stöðugt á meðan og les hluta úr hverjum pósti áður en hann gefur hann frá sér

-Stjórinn: Hér er einn frá gamalli konu sem missti son sinn í síðustu viku. Hún er sjötíu ára og vinnur fyrir sér með því að selja blýanta. Hún á engar sokkabuxur og gengur um í þungum stígvélum sem fætur hennar blæða undan. Hún er einnig með gláku. Er einhver með pláss í hjartanu fyrir hana?

Hér er lítill strákur sem langar í fiðlu. Vandamálið er bara að hann er lamaður. Það er ýmsan lærdóm hægt að draga af þessu. Köllum hann fiðlu kapteininn…

Frú Lonelyhearts er fullkomlega rólegur. Jafnvel áhugasamur. Hann fær síðasta póstinn frá stjóranum. Hann tekur það, en lætur það svo falla í gólfið ólesið.

-Stjórinn: Þið eruð að fara að ganga inn í veröld fulla af þjáningu og eymd þar sem íbúarnir þekkja ekkert annað en sjúkdóma og lögreglumenn. Einn af öðrum eru þau elt niður…

Sársauki, sársauki, sársauki, þessi leiðinlegi, nagandi, króníski sársauki hjartans og heilans. Sársauki sem aðeins andleg meðöl geta linað…

Þegar Frú Lonelyhearts sér Birtu vera að fara eltir hann hana. Hann vill að hún sjá hvers konar klettur hann er orðinn. Stjórinn tekur á endanum eftir að hann er farinn, hann sér póstinn á gólfinu og tekur hann upp.

-Stjórinn: Meistarinn er horfinn. En enga örvæntingu. Ég er enn hér. Ég er lærisveinn hans og mun leiða ykkur áfram. Leyf mér að lesa fyrst þennan póst sem er stílaður á meistarann:

Hvers konar djöfulsins fífl ert þú? Þegar ég kom heim með ginið var konan mín hágrátandi á gólfinu og húsið fullt af nágrönnum. Hún sagði að þú hafir ráðist á sig og þau vildu hringja á lögregluna en ég sagði að ég myndi sjá um þetta sjálfur…

Jahérna, ég get varla haft eftir það sem eftir kemur, svo litríkt er tungumálið. Ég sleppi því:

Svo allir fínu ræðu þínar eru ekki meira virði en þetta ógeðið þitt, það ætti að skjóta þig í hausinn…

-Dabbi

Svo meistarinn er greinilega Raspútín endurfæddur. Það hriktir svo sannarlega í stoðum trúarinnar við þessa vitneskju. En ég get ekki trúað þessu. Ég mun ekki trúa þessu. Trú mín stendur óhögguð. Þetta er bara enn eitt tilræðið sem runnið er undan rifjum djöfulsins. Hann hefur eytt lífi sínu í baráttu við erkióvininn og mun sigra að lokum. Þá meina ég Frú Lonelyhearts, ekki djöfullinn. Guðspjallið samkvæmt stjóranum. Lof mér að segja ykkur örlítið frá lífi hans. Fyrst, strax í barnæsku, geislandi af hreinu sakleysi líkt og nýþvegin stjarna, heldur hann á braut háskóla erfiðisins og harksins. Næst, sem unglingur, er hann orðinn að veru myrkursins. Svo sem maður, Frú Lonelyhearts, er braut hans mörkuð af þessu göfuga takmarki. En sjá! Heimurinn, bitur og í hefndarhug, leggur endurtekið steina í götu hans, þrumurödd ákallar hann og segir „stopp!“. En hann lítur á hverja hindrun sem tröppu sem hann klífur hærra og hærra. Áfram klífur hann, úrvinda og einn á báti þar til…

13.

Frú Lonelyhearts nær Birtu út á gangi. Hann gengur upp að henni með bros á vör.

-Birta: Afhverju glottiru svona?

Frú Lonelyhearts: Ó fyrirgefðu, ég meina ekkert með því

Þau fara saman niður í lyftu.

Frú Lonelyhearts: Eigum við ekki að fara að fá okkur drykk? Kaffi eða gos á ég þá viðmælendur

-Birta: Nei, ég er að fara á heimavistina

Frú Lonelyhearts: Plís

Hann tekur í höndina á henni og saman fara þau á kaffihús sem er rétt hjá.

Frú Lonelyhearts: Afhverju ertu svona reið? Ég gerði ekkert, þetta var hans hugmynd og hann sá alveg um þetta allt

-Birta: Afþví að þú ert fáviti

Frú Lonelyhearts: Ég er hættur í vinnunni. Hef ekki farið þangað í næstum viku

-Birta: Hvað ætlaru að gera?

Frú Lonelyhearts: Leita að vinnu hjá auglýsingastofu

-Birta: Ég þekki einn sem þú ættir að tala við, hann á stofu. Fínn gaur. Er ástfanginn af mér

Frú Lonelyhearts: Ég gæti ekki unnið fyrir keppinaut

Þau hlægja bæði. Hlátur hennar breytist þó í grátur

-Birta: Ég er svo vitlaus

Hún hleypur út. Hann hleypur á eftir og nær henni. Hún grætur enn meira. Hann kallar á leigubíl og þau fara saman inn. Hún talar í gegnum gráturinn og segir að hún sé ólétt. Hann biður hana um að giftast sér. Hún segist ætla að fara í fóstureyðingu. Hann grátbiður hana að giftast sér, lofar henni öllu fögru, allt sem henni dreymir um.

Þegar þau eru komin heim eru þau farin að ræða plönin eftir giftinguna. Hvar þau áttu að búa, hvers konar húsgögn, o.s.frv. Hún ákveður að eignast barnið. Hann ákveður að tala við vin hennar með stofuna. Hann er sannfærður um að nýji persónuleiki sinn og lífssýn er kominn til að vera. Hann sér sig sem klett sem ekkert getur haggað.

14.

Frú Lonelyhearts liggur uppí rúmi veikur aftur. Hann starir á styttuna af Jesús á veggnum. Allt í einu verður styttan að ljósi sem dansar um herbergið eins og fluga. Ljósið verður sterkara og sterkara þar til hann er við að blindast

Frú Lonelyhearts: Kristur! Kristur!

Hann situr upp í rúminu. Hann og herbergið fyllast af náð Guðs. Hann heyrir rödd Guðs sem spyr hann „ertu tilbúinn til að taka á móti núna?“

Frú Lonelyhearts: Ég er tilbúinn, ég er tilbúinn

Hann sest við tölvuna og byrjar að skrifa pistla um Guð. Hann finnur fyrir samþykki hans. Allt í einu hringir dyrabjallan. Hann opnar og fer út á gang þar sem hann sér Dabba koma upp tröppurnar. Hann verður hæstánægður, þetta hlýtur að vera eitthvað próf frá Guði, próf sem hann ætlar sér að standast. Hann rýkur í átt að honum með hendurnar opnar. Dabbi er með eitthvað undir hendinni vafið í dagblöð. Þegar hann sér Frú Lonelyhearts grípur hann um hlutinn og stoppar. Hann hrópar viðvörun, en Frú Lonelyhearts tekur ekki mark á því, hleypur enn hraðar ef eitthvað er, þetta hlýtur að vera hróp á hjálp og hann ætlaði að kæfa hann í ást. Dabba snýr við og ætlar að flýja, en hann er of hægur og Frú Lonelyhearts nær honum. Það leiðir til átaka sem Birta gengur beint inn á. Hún skipar þeim að hætta. Dabbi dregur hlutinn undan dagblöðunum sem kemur í ljós að er byssa sem springur svo í loft upp í átökunum. Sprengingin kastar Frú Lonelyhearts niður tröppurnar og hann dregur Dabba með. Saman velta þeir niður tröppurnar.

-FIN-

Categories
Heimspeki

The Dark Side of Enlightenment: Arendt, Kant, de Sade and The Frankfurt School

The problem of evil has always been a central concern of human thought. Philosophy has dealt with evil in various ways even though religion has been the most accessible source of answers to this question through the ages. But confronted with actions of such unprecedented, unimaginable horrors as were the Nazi concentration camps, Hannah Arendt evoked harsh criticism with her understanding of evil as „banal.“ Even though the implications of her understanding are disturbing enough, later theorists have exposed deeper complexities which go to the root of modern society and the subjects which it produces. The philosophers I here want to focus on are the Frankfurt school theorists Adorno and Horkheimer on the one hand, and the psychoanalytically minded Lacan and Žižek on the other. Both revealed, in different ways, more complex and dark impulses beneath the facade of modernity and progress. I will begin my discussion with Arendts understanding of Eichmann and his surprising appeal to the Kantian imperative. Next I will discuss Kant‘s ethics briefly before I move on the critique of Enlightenment from Adorno and Horkheimer. The final part will surpass the earlier philosophers and argue rather for a psychoanalytic understanding of the atrocities of our age and the people who commit them. In so doing, I hope to show how Arendt misunderstood the source of the horrors she was faced with. Rather than lack of thinking, the capability and willingness of Eichmann to carry out the final solution is a capability which is to be found in the unconscious of the modern subject and has it‘s root in our cultural and philosophical tradition.

Arendt and Eichmann: Genocide as Kantian Morality?

Hannah Arendt‘s philosophical legacy is now unavoidably intertwined with that of Adolf Eichmann, the infamous organizer of the Nazi death camps. Her covering of Eichmann‘s trial raised a storm of controversy, and the debate over her (at the time) surprising and original account of the source of Eichmann‘s „evil“, and how the unimaginable horror of the camps was possible, still occupies the work of many academics trying to understand sufficiently the dangers lurking under the surface of ordinary, modern men.
To summarize Arendt‘s position, for her Eichmann was not evil in the standard sense at all. That is to say, Eichmann was certainly not filled with any kind of diabolical evil, he didn‘t have any overwhelming urge to commit immoral acts or harm anyone as far as she understood him. He seemed to be, on the contrary, quite normal: „Despite all the efforts of the prosecution, everybody could see that this man was not a „monster“, but it was difficult indeed not to suspect that he was a clown.“1 So, Eichmann, even though he certainly did give rise to feelings of perplexity and disgust because of his actions, did not provoke any kind of feeling of being in the presence of great evil in Arendt. On the contrary, in Eichmann, Arendt saw a very normal person. It was precisely this normality of Eichmann which, in her view raised a much more disturbing aspect of the Holocaust. If the capability of carrying out these kinds of crimes did not come from a rare, inherently evil source it raises the question of whether they could be performed by anyone given the right circumstances. As she writes:

„Evil in the Third Reich had lost the quality by which most people recognize it – the quality of temptation. Many Germans and many Nazis, probably an overwhelming majority of them, must have been tempted not to murder, not to rob, not to let their neighbors go off to their doom (for that the Jews were transported to their doom they knew, of course, even though many of them may not have known the gruesome details), and not to become accomplices in all these crimes by benefiting from them. But, God knows, they had learned how to resist temptation.“2

With her concept „the banality of evil“ Arendt means precisely this ordinariness of evil. It‘s most disturbing factor is the fact that there is nothing inherently special about it, it is capable of laying within anyone, even someone as mundane and (otherwise) uninteresting as Eichmann. It‘s chief features are blindly going with the flow of things, just following orders without thinking of the consequences of your actions. This is precisely what Eichmann was most guilty of, seeing his unconditional obeying of orders, without regard to the content of those orders, and despite his own feelings and desires, as a virtuous act. Arendt writes:

„When he said in the police examination that he would have sent his own father to his death if that had been required, he did not mean merely to stress the extent to which he was under orders, and ready to obey them; he also meant to show what an „idealist“ he had always been. The perfect „idealist,“ like everybody else, had of course his personal feelings and emotions, but he would never permit them to interfere with his actions if they came into conflict with his „idea.“3

So, Eichmann, as he himself explains it, wasn‘t necessarily in agreement with the policies that he carried out and was responsible for, the genocidal policies of the Nazi regime. But, he saw his own personal opinion and wishes as irrelevant. What mattered was orders and the law. As he said: „He did his duty, as he told the police and the court over and over again; he not only obeyed orders, he also obeyed the law.“4


It is here we come to the main point for our purposes. Eichmann, in explaining his ideological motivation, appeals to the Kantian categorical imperative. As Arendt explains, during police examinations: „he suddenly declared with great emphasis that he had lived his whole life according to Kant‘s moral precepts, and especially according to a Kantian definition of duty“5 Needless to say, Arendt found this attempt, trying to use Kant to justify undeniable atrocities and genocide, „outrageous“ even though, to her and the examiners surprise, Eichmann did not necessarily misunderstand Kant or have some vague, unclear idea of his moral philosophy but remembered it quite well and could explain it and his position sufficiently correctly.6 But Eichmann went on later to explain that, by appealing to the imperative he meant that he always tried to do his duty and thereby he was appropriating Kant: „for the household use of the little man.“7


Rather than dismissing Eichmann‘s appeal to Kant outright and finding it pathetic or ridiculous, she rather views it as a peculiar distortion of the real Kant. For her, Kantian ethics and the categorical imperative, if followed, would prevent figures like Eichmann from committing the deeds he did because it would precisely prevent moral agents from following orders blindly. Kant identified the moral law as having it‘s origin in reason but for Eichmann the moral law, which he followed blindly and unconditionally, was reinterpreted as being the orders of the Führer, they were unconditional and had to be obeyed. For this reason she writes that: „in one respect Eichmann did indeed follow Kant‘s precepts: a law was a law, there could be no exceptions.“8
In light of this discussion, I find it necessary to move briefly on to Kant and his categorical imperative as it will become central for the remaining part of the article. But before I do I find it necessary to mention that Arendt herself came to find her concept of the banality of evil to be much misunderstood by later commentators. In a later writing, she claimed that she: „meant with this no theory or doctrine but something quite factual, the phenomenon of evil deeds, committed on a gigantic scale“ and that the perceived monstrousness of the perpetrators lay not in the fact that they were monsters but in a: „curious, quite authentic inability to think.“9

The radicalness of Kant‘s ethics lies in the fact that he, unlike previous moral philosophies of, for example, eudaimonia10 (Aristotele‘s virtue ethics) or ataraxia11 (Epicurus, Pyrrho and stoicism), dispenses with any kind of grounding of morality in man‘s natural surroundings. That is to say, Kant doesn‘t come to his understanding of ethics by looking at man in his actuality, his passions and desires and the environment and context that he is always inevitably caught up in. On the contrary, Kant sees ethics, how moral agents should behave, as being derived wholly and entirely from reason. In this sense Kant completely ruptures the link between moral agency and any kind of appeal to „the good“, or the desire or happiness of the subject. As he says: „all moral concepts have their seat and origin completely a priori in reason, and indeed in the most common reason just as in reason that is speculative in the highest degree; that they cannot be abstracted from any empirical and therefore merely contingent cognitions.“12


The moral law that Kant derives from reason is universal and places it‘s burden on the shoulders of every rational, thinking agent. It is a categorical (as opposed to merely hypothetical, concerning particular, optional ends) imperative and as such unconditional. As he formulates it: „There is, therefore, only a single categorical imperative and it is this: act only in accordance with that maxim through which you can at the same time will that it become a universal law.“13 So, an action is moral if, and only if, it can satisfy this demand, that the agent can at the same time will that his action be a universal law. Thereby typical immoral acts are excluded such as lying, murder and theft for example. The agent cannot possibly will that these actions become universalized as the very acts presuppose that they are not (a thief would not want to have his possessions stolen, a lier would not want lying to be a universal law as it would undermine the basis for his lying, and so forth.)
This view of morality is revolutionary in the sense that the law that the agent should follow does not come from an outside source according to Kant, whether it is the patriarch, contingent circumstance, a head of state, a divine Other and so forth. The law is derived entirely from within the agent himself, from his reason. In this sense the agent is autonomous as he acts according to a law which he himself constitutes. For Kant: „A rational being belongs as a member to the kingdom of ends when he gives universal laws in it but is also himself subject to these laws. He belongs to it as sovereign when, as lawgiving, he is not subject to the will of any other.“14 So even though every rational agent is bound by the unconditional, categorical imperative, this does not diminish his autonomy, but precisely establishes it.


Another crucial feature of Kant‘s moral philosophy, which is important to stress here as it will become important later, is the condition which an act must fulfill to count as a moral act. An act must of course satisfy the categorical imperative in Kant‘s formulation but another important condition is that it must not only be an act which is in agreement with the imperative but must be carried out because of it. Any kind of pathology underlying an act would preclude it from counting as moral as such. A moral agent obeys the imperative because he recognizes it as his duty and acts accordingly. Therefore an act isn‘t necessarily moral even though it could be universalized. It must be an action from duty only. As Kant writes:

„…an action from duty is to put aside entirely the influence of inclination and with it every object of the will; hence there is left for the will nothing that could determine it except objectively the law and subjectively pure respect for this practical law, and so the maxim of complying with such a law even if it infringes upon all my inclinations.“15

So feelings, desires and all personal goals and ambitions must be put aside in Kant‘s moral philosophy. The agent precisely renounces his own insignificant motivations and gives himself up to the universal moral law. This he does without any kind of assurance or worse yet, anticipation of a favorable outcome or consequence for his own sake. The law must be obeyed for its own sake whatever the circumstance. Kant even goes so far as to claim that thinking about the consequences of the act is already a tainting of the purity of the act as it is concerned with something merely empirical and contingent, whereas the moral law is much higher and more significant than any such concerns.16

In this elementary overview of Kant‘s moral philosophy I have tried to draw out and emphasize the elements which will now become important. But the disturbing parallel between Eichmann‘s explanations, his justification of his actions and Kant‘s morals should also be apparent. Eichmann‘s dispensing of all of his own desires, acting according to a law unconditionally with no concern for the consequences of these very actions and even seeing nobility and goodness in so acting rhymes almost too well with Kant. The difference, as pointed out by Arendt, is that in place of the universal law as understood by Kant, Eichmann placed the command of the Führer. In so doing he was perfectly capable, despite his normality, to commit unspeakable evil, acts: „so absolutely evil that, like no other event in human history, it defies capacities for human understanding.“17


But as mentioned before, Arendt has been much criticized by later commentators, criticisms which she herself found at times to be perplexing or frustrating as they often were derived from complete misunderstandings or based on claims which she never made.18 But one of the biggest criticisms of her work on Eichmann is that she is all too willing to believe what he says, his justifications and explanations for his actions. Moreover, her view of evil as „banal“ is based on Eichmann‘s apparent normality but her understanding of his normality is largely based on his own self-description, attained through interrogation after the fact, which she doesn‘t seem to seriously doubt. I will now proceed to argue, on the contrary, that Arendt didn‘t take Eichmann seriously enough.19 In his reference to, and discussion of Kant, Eichmann hinted at a disturbing link which other twentieth century philosophers also noticed. We will now move on to the first of these.

Kant and Sade

For Adorno and Horkheimer, who both fled Europe because of the Nazi tyranny, something horribly wrong had gone wrong in twentieth century Europe. As they understood it, this modernity, which has led to catastrophe and unspeakable horrors, has it‘s roots back in intellectual and philosophical history and, to understand how we arrived at the current situation and point to possible emancipation, they find it necessary to conduct a historical analysis of european intellectual history. As they explain their project: „It turned out, in fact, that we had set ourselves nothing less than the discovery of why mankind, instead of entering into a truly human condition, is sinking into a new kind of barbarism.“20
Their influential work, Dialectic of Enlightenment, seeks not only to locate the genesis of the problems that modern, liberal and technological society faces, but also the very irrationality which is inherent in it. That is to say, for them the Enlightenment, a project for human emancipation and prosperity based on universal reason as a guiding light with the aim of: „the disenchantment of the world; the dissolution of myths and the substitution of knowledge for fancy“21, has reverted into irrationality, alienation and misery for the modern subject. That is not to say that the Enlightenment was a wholly negative turning-point but rather, the progressive elements which the Enlightenment emphasized unleashed at the same time certain negative, regressive traits which have been completely overlooked or supressed by western self-understanding. But the root of these traits they diagnose as going to the heart of western rationality and self-understanding itself, a problem which has been unfolding dialectically through historical change and has now culminated in science and it‘s technical domination of nature. As they write:

„Myth turns into Enlightenment, and nature into mere objectivity. Men pay for the increase of their power with alienation from that over which they exercise their power. Enlightenment behaves toward things as a dictator toward men. He knows them in so far as he can manipulate them. The man of science knows things in so far as he can make them. In the metamorphosis the nature of things, as a substratum of domination, is revealed as always the same.“ 22

It is this instrumental rationality, as they call it, which has led to a modern society of technology and domination, and this rationality has also dialectically developed to allow the possibility of an event like Auschwitz, a distinctly modern, all too rational project. Therefore, in Adorno and Horkheimers understanding, the horrors witnessed in the Second World War, were the consequence of the culmination in modernity of the dialectical development of society and culture which has as it‘s underlying basis domination of nature through rational understanding. The Enlightenment was an important turning point in western history, a development which is still unfolding, but the instrumental rationality, domination and resulting alienation from nature, goes all the way back to Homer‘s Odyssey and the figure of Odysseus, which they give a comprehensive analysis of and see as the beginning of the modern subject.23


But in their work are several essays, each dealing with a certain topic, either of modern society or European history and culture, in which they reveal the hidden, darker aspect of our history and present. I will now mainly focus on one of these as it reveals a disturbing, hidden connection between Kantian moral philosophy and one of the Enlightenments most notorious offsprings, The Marquis de Sade.

In Adorno and Horkheimers analysis, the Enlightenment came fully to fruition in Kant. It was through him that rationality reached it‘s modern form as the guiding endeavour of all human thought and action. In Kant‘s philosophical system, reason systematizes all human experience, synthesising concept and intuition. After this philosophical groundwork, Kant believed himself to have put human knowledge and science on a sure footing, an unshakeable ground in philosophy, the mother of sciences. But Adorno and Horkheimer see another consequence of Kants philosophy:

„With Kant‘s consequent, full confirmation of the scientific system as the form of truth, thought seals its own nullity, for science is technical practice, as far removed from reflective consideration of its own goal as are other forms of labor under the pressure of the system.“ 24

Modern science, the proud offspring of the Enlightenment, is a method, a technical practice which is completely blind to it‘s own goals. What is most important is the systematization, not any particular desirable telos which has human well-being in mind. Individual or collective human aspirations are wholly irrelevant. In this sense Kant‘s ethics are the perfect realization and formulation of the Enlightenment and science. What matters is precisely not feelings and desires, individual hopes and goals, but the empty, formal law of reason which is itself devoid of all purpose or content. The subject in all its diversity and multiplicity is neutralized, subsumed under a general universal law, a system. The Enlightenment seeks to emancipate the subject by way of reason but: „Reason is the organ of calculation, of planning; it is neutral in regard to ends; its element is coordination.“25


But the Kantian imperative, though derived from reason, still guards against the reduction of the subject to a mere object of domination as it compels respect for the others reason and prohibits treating him as a mere means. Fascism, a further development which still has it‘s origin in the Enlightenment, has broken away from this limitation and has culminated in total domination. It dispenses with the imperative as it: „saves its subject peoples the trouble of moral feelings.“26


Fascism and its totalitarianism is a realization of the potential hidden in science, it unleashes it totally and in so doing reveals what, to the Enlightenment thinkers, Kant especially, was not fully grasped. Totalitarianism should therefore not be understood as appropriating science and twisting it for it‘s own evil and perverted ends. The calculation, planning and efficiency governing the death camps are not a distorted and immoral use of science but science as such, seen in its full realization. Adorno and Horkheimer point out that the groundwork had been laid by philosophy, from Kant to Nietzsche: „but one man made out the detailed account. The work of the Marquis de Sade portrays „understanding without the guidance of another person“: that is, the bourgeois individual freed from tutelage.“27


Kant put forth and formulated the rationalization of experience but he did it in philosophical reflection and grounded the ego transcendentally. Sade goes further and follows Kants systematizing to its inevitable end empirically. For Sade, in his depraved attempt to break through every boundary, whether natural or moral, conducts his sexual orgies in his writings rationally and scientifically. The satisfaction is not to be derived from any end goal, the acts do not serve any final purpose. The enjoyment comes precisely from the organization and structures themselves, they are the most important aspect. In Adorno and Horkheimer’s analysis:

„The architectonic structure of the Kantian system, like the gymnastic pyramids of Sade‘s orgies and the schematized principles of the early bourgeois freemasonry – which has its cynical mirror image in the strict regimentation of the libertine society of the 120 Journées – reveals a organization of life as a whole which is deprived of any substantial goal. These arrangements amount not so much to pleasure as to its regimented pursuit – organization…“28

Through their analysis of Sade‘s writings, Adorno and Horkheimer disclose, not the incoherent and demented perversion of a sadistic writer, but an expression of the underlying logic of the Enlightenment. In proclaiming all values as meaningless and indulging in immoral acts, Sade‘s character Juliette shares certain characteristics with Nietzsche, in that she is: „properly a child of the new age: for the first time she is consciously performing a transvaluation of values.“29 Juliette is a rational agent, a product of the Enlightenment. Employing her reason, she dispenses with values and human goals, seeing them as illusions. This is precisely what the Enlightenment reveals itself to end in. In its formalization of reason and through science, instrumental rationality dispenses with all ends and all value as they lose any kind of objective status, whither away when held up to its scrutiny. In so doing: „The means is fetishized, and absorbs pleasure“ and „Domination survives as an end in itself, in the form of economic power.“30


Therefore Sade can be seen, along with Kant, as one of the key thinkers of the Enlightenment. In this sense Sade is fully in line with Enlightenment philosophy and Kant, revealing the Enlightenment and the instrumental rationality driving it, as leading quite unproblematically to obscene perversion, to acts traditionally conceived of as immoral but, after Enlightenment, cannot be argued to be against morality or societal values. Adorno and Horkheimer view Sade‘s work as: „a spur to the salvation of the Enlightenment“ because „he did not leave it to the Enlightenment‘s opponents to make it take fright at its own nature.“31

How does Eichmann appear when viewed through The Frankfurt schools conception of Enlightenment and modern society? Eichmann is then precisely not abnormal or some kind of exception but his response to the interrogations rather reveal how modern he really was. He carried out his project with the utmost care and to the best of his abilities, without any regard to the consequences of his actions. What mattered the most was the means, the method, the planning, calculation, efficiency. Ends are wholly irrelevant. This is also apparent in Eichmanns description of the Wannsee conference, where the final solution was discussed and planned, as a: „cozy little social gathering“32. Transfixed by the method of execution the participants were completely devoid of any concern for the consequences of their planning.


Here we can see a disagreement with Arendt which, in her more existentialist leaning philosophy, placed greater importance on the power of the judgement and thinking of the individual. The Frankfurt school theorists reveal the determining power of the subjects environment and its grounding in historicity. Modern societies, both fascist and totalitarian on the one hand and liberal and capitalist on the other, are forms of domination and oppression, producing subjects which are incapable of even perceiving this domination as they are pacified by the culture industry33 or under the spell of a transfixing ideology. In this respect it is not surprising at all that Eichmann followed his orders and had little difficulty playing a large role in the extermination. Oppressive and dominating societies inevitably produce subjects which follow the societies logic. The conditions of society must be changed. Adorno, in a later writing, placed special importance on education in preventing the conditions which gave birth to the Holocaust. He wrote: „Barbarism continues to exist as long as the conditions that called forth that relapse essentially persist. This is the horror in it all. Social oppression continues to weigh heavy despite all lack of perceiving any peril today.“34

The Frankfurt school saw the need for a critical theory, which would dialectically critique modern, technological, dominating society and the achievements it prides itself on. Even though there can be found a glimmer of hope in their writings, for the most part they remained profoundly pessimistic about modernity and the possibility of significant or even revolutionary change. Indeed, Adorno even famously claims in his later, major work that the moment to realize philosophy (its marxist promise of changing the world) was missed and for this reason philosophy remains important.35


But despite the pessimism of the Frankfurt school there arose a different understanding of the issue of totalitarianism, genocide and its perpetrators. This (I will argue) even darker view of humanity has its roots in the psychoanalysis of Freud.36 We now move on to the psychoanalysis of mainly Lacan, which appropriated but also changed many of Freud‘s key insights, and Žižek, perhaps Lacans most famous and influential student.

Psychoanalysis and the Critique of Ideology: the „Unknown Knowns“

Before we move on to a discussion of Lacanian psychoanalysis, a few words on Freud, its father, are in order. The psychoanalysis of Freud and his discovery and theorization of the unconscious37, led to a very serious critique of society and the effect of it on modern subjects and their reality. In short, Freud came to see civilization and progress as a necessary repression of its subjects deeper, darker impulses and urges. Because of this the modern man can never be truly happy and content as he will always be under the painful spell of a dominating, repressive super-ego which counter-acts the more primordial pleasure principle. This is the unavoidable price of civilization which gives rise to all sorts of psychological hysterias and anxieties which psychoanalysis tries to bring to the surface. As Freud writes: „Civilization, therefore, obtains mastery over the individual’s dangerous desire for aggression by weakening and disarming it and by setting up an agency within him to watch over it, like a garrison in a conquered city.“38 But it is precisely this dark, pessimistic view of the modern subject which Lacanian psychoanalysis appropriates and elaborates on.


Lacan also discovered a link between Kant and Sade39 but he understands it differently from the Frankfurt school. For them, Kant and Sade revealed the Enlightenment basis which then developed into fascism, while Lacan reads Sade as being complementary to Kant. In Lacan‘s psychoanalytic reading Sade should be understood as a Kantian. The notorious Sadean motto that everyone has the right to enjoy everyone else‘s bodies takes the form of an unconditional imperative in the Kantian sense. The Sadean imperative involves a maxim for jouissance40, understood by Lacan as a traumatic, excessive enjoyment beyond the limit of simple pleasure, the achievement of which always necessarily results in a painful experience for the subject. Therefore jouissance is always unescapably painful but also involves a certain perverse pleasure in the pain itself. As Žižek explains the concept: „The basic paradox of jouissance is that it is both impossible and unavoidable: it is never fully achieved, always missed, but, simultaneusly, we can never get rid of it – every renunciation of enjoyment generates an enjoyment in renunciation… „41


Even though the Sadean imperative for excessive enjoyment shares almost all of Kant‘s, such as the possibility of it being universalized into a law applying in every case at all times for every subject, and the dismissing of all pathological inclinations, Lacan sees a slight difference. The Kantian imperative speaks to an inner voice, the voice of conscience whereas the Sadean is necessarily spoken by an Other. In so doing Sade‘s maxim: „by pronouncing itself from the mouth of the Other, is more honest than appealing to the voice within, since it unmasks the splitting, usually conjured away, of the subject.“42


As we have seen, the Kantian imperative imposes an unconditional command for the subject to obey it at all costs for its own sake and discards all pathological motivations. Kant thereby divorces morality from any concern for the pleasure or happiness of the subject, the good is conceived as an unattainable Thing-in-itself, not approached by following the moral law. But, for Lacan, the subject, in renouncing its own pleasure in this way, experiences another form of enjoyment, jouissance which is intimately connected to the Freudian death drive. So the Kantian imperative should be understood as obscene. But in what does this obscenity consist? As Žižek writes: „The moral law is obscene in so far as it is its form itself which functions as a motivating force driving us to obey its command – that is, in so far as we obey moral law because it is law and not because of a set of positive reasons“43 For Lacan then, within the Kantian imperative to obey lies a concealed command to enjoy. Desire is the other side of the law as Sade realized it and therefore the two imperatives complement and support each other.44 „Obey!“ on the one hand (Kant) and „enjoy!“ on the other (Sade) are two different universal imperatives which still take on the same form. Kant implies Sade with the unconditional character of his moral law. Sade takes advantage of the radicalness of Kant‘s ethics to realize its potential.


With his radical autonomy of the subject Kant therefore, in his seperating of the moral law and the good, introduced a radical break into ethics and the subjects understanding of it‘s own actions. This is an irreversible development according to Lacan, bringing about „the great revolutionary crises of morality“ 45, a change which opened up the space for Sadean excessive enjoyment. In this sense Lacan claims that Sade is the truth of Kant, the consequence Kant could not face but Sade realized empirically. This development in the actions of the subject and the motivations behind them after Kant, Žižek understands in the following sense: „the free act in its abyss is unbearable, traumatic, so that when we accomplish an act out of freedom, in order to be able to bear it, we experience it as conditioned by some pathological motivation.“46


But Žižek, even though he recognizes this connection between Kant and Sade discovered by Lacan, does not follow the Frankfurt school to a similar conclusion, that their respective ethics lead to the horror of the camps. There is, of course, an obscene jouissance involved in the subjects renouncing his own inclinations to follow an external, unconditional demand of a big Other.47 But Žižek claims that Kant and Sade, even though they opened up the possibility of Sadean enjoyment with his moral law and the rupturing of the natural order, would precisely prevent the avoidance of responsibility by people like Eichmann, by an appeal to a big Other. That is why there is not a line that can be drawn from Kant/Sade to the Holocaust because they highlight the importance of autonomy. His conclusion is that:

„…this is absolutely not the case with Nazism. Nazism, on the contrary, is the ultimate perversion of logic of the supreme good. Nazism is not about the ultimate idiosyncratic assertion of autonomy. Nazism means that everything, even the worst crimes, should be undertaken for the good of the nation. The positing as a supreme good some entity, like the nation, is exactly opposite of Sadean ethics. The logic of the holocaust is, rather, inscribed in the tension between law, moral law and its obscene underside superego.“48

So there is precisely a kind of perverse enjoyment in the Lacanian sense that Žižek finds at work in totalitarian societes. Arendt, in her understanding of Eichmann, failed to take into account the concealed psychological and ideological motivations which governed his actions. These motivations are concealed, not only from observers but in most cases the subject itself, buried deep in his unconscious. It is centrally important to reveal these „unknown knowns“ (Žižek‘s saying by which he means the Freudian unconscious).49 Therefore psychoanalysis should be seen as an indispensable tool in understanding totalitarian societies, for it is capable of shedding light on the motivations and causes which have its roots in the unconscious of the subject. In one commentators words, Arendts account: „absent of psychoanalytic insights, it is unable to account for the workings of fascism on the level of the subject. This task can only be shouldered by a politically informed psychoanalysis.“50


Žižek, even though he recognizes the importance of Arendts account of Eichmann, dismisses the link between Kantian ethics and the Nazis as: „The Kantian autonomous subject precisely cannot say that this is simply an order, that it is an injunction based on fear or that it is good for the nation. The Kantian position is that you are fully responsible.“51 Arendt’s account does not penetrate the veil of banality and bureaucracy which she saw as the main feature of Eichmann‘s evil. Žižek sees the Nazis as rather playing a kind of perverse, obscene game:

„The elaborate bureaucracies and rituals of power were all part of this obscene economy of enjoyment. The Nazis were in this sense playing bureaucratic roles in order to enhance their pleasure. Secretly, they knew that the rituals of duty were a pretence to disguise the enjoyment derived from doing something horrible – even the guilt feelings generated here served to enhance their pleasure. So it was a kind of perverted game.“52

Žižek, in this vein, continues Lacan’s reading of Kantian moral law as obscene by seeing it as being carried out practically in a perverse way in totalitarian societies. There the demand placed on the shoulders of its citizens is precisely a command to obey despite all personal motivations or desires. The duty toward the state and it‘s leader is sacred, the most profound expression of citizenship and belonging. This command to obey is incomprehensible to the subject and opposed to his desire. But in his renunciation of his own desire for another, external law, the subject experiences perverse gratification. As Žižek claims:

„…the fascist ideology is based upon a purely formal imperative: Obey, because you must! In other words, renounce enjoyment, sacrifice yourself and do not ask about the meaning of it – the value of the sacrifice lies in its very meaninglessness; true sacrifice is for its own end; you must find positive fulfilment in the sacrifice itself, not in its instrumental value: it is this renunciation, this giving up of enjoyment itself, which produces a certain surplus-enjoyment.“53

This surplus-enjoyment is what Lacan called objet petit a, an unnameable X factor, a remnant left-over of the subjects symbolization of reality which can never be symbolized fully and is therefore always unattainable even though the subjects desire is structured around it. The objet petit a embodies jouissance which means that the subject is always inescapably attracted to and horrified by it simultaneously.


But fascist ideology is characterized by this strict formality, the value of which is to be found in its structure itself, solely serving its own means without any regard to an end. This is why Žižek finds it important to undertake a critique of ideology54, unveiling the underlying motives which are often (but not always) hidden to the subject which still acts in accordance with it, thereby maintaining and upholding it. If a proper unmasking of the ideological motivations which determine them is successful, when the realization that the purpose of acts derived from ideology serve only the purpose of sustaining the ideology itself, it leads to self-defeat. Why is this? Because this unmasking: „would reveal the enjoyment which is at work in ideology, in the ideological renunciation itself. In other words, it would reveal that ideology serves only its own purpose, that it does not serve anything – which is precisely the Lacanian definition of jouissance.“55


Lacanian psychoanalysis, for Žižek, also reveals a different understanding of anti-semitism56. In the traditional conception, the anti-semitism of the Nazis is seen as a kind of useful excuse for all the ills that plagued German society. In this sense the Jews were scapegoats which the Nazis used conveniently to unify the rest of society around. In their hatred of the Jew as outsider, the community was strengthened around the Nazi leaders and the Führer particularly, at the same time increasing solidarity (amongst the „real Germans“ only of course.)


But this understanding doesn’t go deep enough. For Žižek it is not that the Jew is perceived as a threat to the harmony of the established, fascist ideology and by denouncing him it thereby guards against the threat and works at its self-preservation. On the contrary, fascist ideology, in its essence, recognizes the unattainableness of its utopia and the Jew represents this impossibility at the heart of the ideology itself. For this reason anti-semitism is so rampant and brutal, it is the ideological edifice sub-consciously confronting and trying to come to terms with its own necessary and unavoidable incompleteness, the realization that its proper actualization will never come to pass. As he explains: „The whole Fascist ideology is structured as a struggle against the element which holds the place of the immanent impossibility of the whole Fascist project: the ´Jew´ is nothing but a fetishistic embodiment of a certain fundamental blockage.“57


From this angle, how should we understand Eichmann’s claim that he was not an anti-semite, indeed that he had nothing personally against the Jews?58 In this sense, his claims are both right and wrong. They are right in the sense that he personally most likely had nothing against Jews, the subject itself has no real stake in upholding the reigning ideology. On the other hand, Eichmann still did support and uphold the fascist ideology. His claims that he did it despite his own feelings would be understood by Lacan and Žižek not only as a painful act of renunciation, but as an opening up of a jouissance on behalf of the big Other. Eichmann, like the other citizens of totalitarian societies was under the spell of a fascist ideology and the way fascist ideology works is that it imposes itself on the subjects understanding to such an extent that: „we do not feel any opposition between it and reality – that is, when the ideology succeeds in determining the mode of our everyday experience of reality itself. „59


Žižek, using Lacan, reveals much more complex causes and motivations for fascist, totalitarian societies and how they are made possible by the subject. For him, the reasons many perpetrators of various horrors gave for their complicity in the atrocities, that they were afraid of their life or well-being, afraid of punishment etc., is insufficient to explain the unconscious motivating factors. Psychoanalysis reveals a different picture of the deep, unconscious libidinal forces (discovered by Freud) which, although consciously unknown to the subject, assert immeasurable importance on its actions and motivations. These libidinal forces can be harnessed and exploited by totalitarian societes and lead to catastrophe such as the death camps of Nazi Germany or the purges of Stalinism. As he writes in this connection:

„The question to be raised concerns power (domination) and the unconscious: how does power work, why do its subjects obey it? This brings us to the (misleadingly named) „erotics of power“: subjects obey not only because of physical coercion (or the threat of it) and ideological mystification, but because they have a libidinal investment in power. The ultimate „cause“ of power is the objet petit a, the object-cause of desire, the surplus-enjoyment by means of which power „bribes“ those it holds in its sway. This objet petit a is given form in the (unconscious) fantasies of the subjects of power…“60

Conclusion

Where does this leave us with respect to Adolf Eichmann? Arendt, in her formulization of „the banality of evil“ did not go far enough. It was not only that Eichmann lacked the ability of thinking and proper judgement, but he was rather a perfect example of modernity and the modern subject whose thinking is determined, for a large part, by a reigning ideology which the subject itself, in most cases, is blind to. The fault in Arendt‘s account lies both in her over-willingness to take Eichmann at his word, thereby missing the deeper motivations which were concealed even from himself, and in her over-emphasization on him as an individual and his personal responsibility, discarding the historical, dialectical development of the society which produced him and the unconscious driving forces.
Lacan and Žižek on the one hand, and Adorno and Horkheimer on the other give a much more comprehensive and detailed account of the conditions which gave rise to the horrors of the camps. Even though this is not done in the same fashion, the Frankfurt school emphasizes the importance of a historicist and holistic understanding of modern society, while Lacan‘s psychoanalysis focuses on the subject and its unconscious motivations, both isolated Kant and his unlikely companion Sade, and their Enlightenment philosophies, as crucial precursors to our modern situation. Even though these two different schools of thought come from the same, continental philosophical tradition, there is much disagreement between them and their perspectives cannot be integrated completely without numerous theoretical difficulties. As an example of these disagreements, Žižek dismisses the dialectic of Enlightenment in Adorno and Horkheimers analysis as shooting over the mark, seeing as the underlying driving force of modernity an „instrumental rationality“ which has its beginning in ancient times and underlies both capitalism and communism. Žižek dismisses this analysis and focuses rather on „the inherent structure of capitalist reproduction“ and sees societal ills stemming from „the concrete totality of today‘s global society“ where „capitalism is the determining factor“.61
Adorno on the other hand, in a later writing, understood Eichmann as belonging to a sort of people who: „blindly adjust themselves to collectives“ and „already make themselves into something like material and invalidate themselves as self-determined beings.“62 Psychoanalysis precisely reveals this tendency to be an all too human tendency exploited by totalitarianism, rather than constituted by it.

The picture which psychoanalysis gives of the subject is certainly not optimistic. But the importance of Freud, Lacan and Žižek comes precisely from being willing to face this dark side of the subject head on, not shirking away when things become too disturbing. Although the Frankfurt school gave a necessary and important insight into the holistic, dialectical development of modernity through history and the basis in the philosophical tradition for an event like Auschwitz, psychoanalysis completed the picture by plunging into the deep recesses of the individuals psyche, his unconscious desires and motivations. Therefore, both narratives, the Frankfurt schools critical theory and Freud‘s psychoanalysis as developed by Lacan and Žižek, are necessary for truly getting to the bottom of the most traumatic and incomprehensible events of our times. Of course there are differences between them, but both reveal important sides of the pressing issue. Arendt‘s account of Eichmann, while important and revealing, should be seen as a starting-point which still didn‘t go far enough, to the heart of the matter. Therefore, her account was necessarily surpassed and expanded on by the two traditions which I have here discussed.

References:

1 Arendt 2006: 54

2 Arendt 2006: 150

3Arendt 2006: 42

4Arendt 2006: 135

5Arendt 2006: 135-136

6 Arendt 2006: 136

7Arendt 2006: 136

8Arendt 2006: 137

9 Both quotes: Arendt 2003a: 159

10 Commonly translated as happiness although a more direct translation would be human blossoming or flourishing.

11 An ideal state of being which is characterized by an absence of any kind of worry.

12 Kant 2002: 23

13 Kant 2002: 31

14 Kant 2002: 41

15 Kant 2002: 13-14

16 Kant 2002: 35

17 Nieman 2002: 2

18 Arendt 2003b: 17-18

19 I wish to make clear that Arendt‘s political philosophy, which her account of Eichmann ties into, is far too wide-ranging and comprehensive for me to do justice to in the limited space I have here. I am well aware of the limited discussion Arendt receives which may not do her the justice she deserves, and will undoubtedly leave my thesis wide-open for various criticisms to the effect that my view of Arendt is too limited or mistaken as it does not consider her other writings. But, I find this unavoidable limitation not to be all-too serious as I am considering Arendt and her account of Eichmann more as a starting point which later philosophical traditions surpassed. Therefore I am not necessarily trying to refute Arendt, I rather read the Frankfurt school and psychoanalysis as complementing and deepening her basic account of Eichmann. See the concluding remarks.

20 Adorno & Horkheimer 2010: xi

21 Adorno & Horkheimer 2010: 3

22 Adorno & Horkheimer 2010: 9

23 Adorno & Horkheimer 2010: 43-80

24 Adorno & Horkheimer 2010: 85

25 Adorno & Horkheimer 2010: 88

26 Adorno & Horkheimer 2010: 86

27 Adorno & Horkheimer 2010: 86

28 Adorno & Horkheimer 2010: 88

29 Adorno & Horkheimer 2010: 103-104

30 Both quotes: Adorno & Horkheimer 2010: 104

31Both quotes: Adorno & Horkheimer 2010: 117

32 Arendt 2006: 113

33 See their discussion of the role the culture industry plays in modern society in: Adorno & Horkheimer 2010: 120-168

34 Adorno 1997: 11

35 Adorno 2006: 3

36 The Frankfurt school was by no means unaware or dismissive of Freud‘s theories. One of it‘s members, Herbert Marcuse, saw both Freud and Marx essential to understanding modern society. The complex connection between psychoanalysis and the Frankfurt school is too big a topic to elaborate on here, but suffice to say they did recognize the need, in understanding society holistically, of joining together not only sociology and philosophy, but psychology also. But the emphasis here will be on Lacanian psychoanalysis, a later development.

37 Although, of course, the unconscious had been anticipated by earlier philosophers, most notably Schopenhauer and Kierkegaard.

38 Freud 1989: 84

39 Dialectic of Enlightenment made its first appearance in 1944 while Lacans discovery of the link laid out in „Kant avec Sade“ came later. It is not clear whether Lacan had read the Frankfurt school and was influenced by them or made the discovery of the link between Kant and Sade independently. Whatever the truth of the matter, this question will not be discussed as I do not find it to be centrally important.

40 Lacan 1989: 58

41Žižek 2010: 304

42 Lacan 1989: 59

43 Žižek 2008: 89

44 Lacan 1989: 73

45 Lacan quoted in: Cutrofello 2005: 173

46 Žižek 2009: 92

47 The big Other is the outside source which structures our symbolic reality and grounds meaning, such as the will of the Führer in Nazi Germany, God for religious communities or the market in our capitalist ideology. The big Other does not have any ontological status in itself, it is always an illusion on the part of the subject but still has very serious effects on the subjects actions and symbolic reality which gives it its importance. It is: „the thick symbolic texture of knowledge, expectations, prejudices, and so on….“ Žižek 2010: 338

48 Daly & Žižek 2004: 126

49 Žižek 2010: 292

50 Maccannell 1996: 65

51 Daly & Žižek 2004: 127

52 Daly & Žižek 2004: 128

53 Žižek 2008: 89

54 It is necessary to point out that, although I am here primarily focused on Žižek‘s conception of fascist ideology and its function, ideology plays no lesser role in modern, liberal, societies in his view. It exceeds the purpose of this paper to give a sufficiently comprehensive view of his account of the importance of ideology but suffice to say that ideology is always an accompaniment of the subjects reality because: „The mask is not simply hiding the real state of things; the ideological distortion is written into its very essence.“ Žižek 2008: 25

55 Žižek 2008: 92

56 But of course, Adorno and Horkheimer also devote an entire chapter of Dialectic of Enlightenment to this issue so it wasn‘t only important to psychoanalysis. I do not have the space for a detailed comparison but, in short, the Frankfurt school also emphasizes the role of ideology and see anti-semitism as an obvious clue to deeper problems in modern society. See: Adorno & Horkheimer 2010: 168-209

57 Žižek 2008: 142-143

58 Arendt 2006: 26

59 Žižek 2008: 49

60 Žižek 2010: 400

61All quotes: Žižek 2010: 188

62 Both quotes: Adorno 1997: 16

 

Bibliography

Adorno, T.: „Education after Auschwitz“ in Never Again! The Holocaust‘s Challenge for Educators, Kramer, 1997, pp. 11-20.

Adorno, T.: Negative Dialectics, E.B. Ashton transl. Routledge, London & New York, 2006.

Adorno, T. & Horkheimer, M.: Dialectic of Enlightenment, John Cumming trans. Verso, London & New York, 2010.

Arendt, H.: Eichmann in Jerusalem: A Report on the Banality of Evil, Penguin books, New York, 1994.

Arendt, H.: „Thinking and Moral Considerations“. In Responsibility and Judgment, J. Kohn ed. New York, Shocken Books, 2003a, pp.159-189.

Arendt, H.: „Personal Responsibility Under Dictatorship.“ In Responsibility and Judgment, J. Kohn ed. New York, Shocken Books, 2003b, pp.17-48.

Cutrofello.: Continental Philosophy: A Contemporary Introduction. Routledge, New York & London, 2005.

Daly, G. & Žižek, S.: Conversations with Žižek. Blackwell Publishing Ltd. Oxford, 2004.

Freud, S.: Civilization and its Discontents, James Strachey trans. W.W. Norton & Company, New York & London, 1989.

Kant, I.: Groundwork of the Metaphysics of Morals. Mary Gregor edited and trans. Cambridge University Press, Cambridge. 2002.

Lacan, J.: „Kant with Sade“, James B. Swenson Jr. Trans. In October, vol.51, 1989, pp.55-75.

Maccannell, J.F.: „Fascism and the Voice of Conscience“ in Radical Evil, Joan Copjec ed. Verso, 1996, p. 46-73.

Nieman, S.: Evil in Modern Thought: An Alternative History of Philosophy. Princeton University Press, Princeton & Oxford, 2002.

Žižek, S.: Living in the End Times. Verso, London & New York, 2010.

Žižek, S.: The Parallax View. The MIT Press, Cambridge & London, 2009.

Žižek, S.: The Sublime Object of Ideology. Verso, London & New York, 2009

Categories
Óflokkað

„This tyrannical spirit, wanting to play bishop and banker everywhere.“

Var í smá viðtali um daginn, í þátt að nafni Rauða borðið. Sem er öll virk kvöld kl.8 skilst mér. Á stöð sem er nýbyrjuð og býður uppá ýmsa aðra þætti einnig. Ég hef samt lítið náð að fylgjast með þessu, og veit því í rauninni ekki nákvæmlega hvað sé í gangi þarna. Annað en að þetta er tilraun til að skapa vinstri fjölmiðil, sem býðir uppá róttæka samfélagsumræðu. Sem er nóg fyrir mig til að mæla hjartanlega með þessu – hvet alla til að likea stöðina á Facebook og deila og ræða og þar fram eftir götunum. Og leggja hvað sem maður getur af mörkum.

Því var ég auðvitað meira en tilbúinn til að mæta. Vissi það reyndar ekki fyrr en ca. tveimur tímum fyrr að ég væri að fara að gera það – þótt það hafi vissulega verið rætt áður. Hvort það hafi verið ég sem misskildi það samtal eða hvað gerðist skiptir ekki máli, ég kom allavega af fjöllum þegar haft var samband og sagt að þetta væri eftir smá.

Nú hef ég ekki horft á þetta sjálfur – og mun aldrei gera (er einhver sem getur haldið það út að horfa á eða hlusta á sjálfan sig tala?). Efast þó ekki um hversu slæmt þetta hlýtur að vera. Vissi mjög óljóst hvað ég væri að fara að ræða og var eintómur kaos í gangi hérna alveg fram á mínútuna fyrir crunch time. Karin sneri þá alla þrjá strákana sem voru búnir að vera öskrandi eins og bavíanar niður og þaggaði niður í þeim á einhvern ótrúlegan hátt. Veit ekkert hvernig hún fór að þessu.

Allavega, it is what it is. Þýðir ekkert að koma með einhverjar afsakanir eða væla yfir því.

Er samt nokkur atriði þarna sem ég myndi vilja skýra nánar, ásamt öðru sem ég tel mikilvægt en náði ekki að koma að.

Vinsældir ríkisstjórnarinnar, og sérstaklega Mette Frederiksen, hafa vissulega rokið upp í vinsældum í kjölfar aðgerðana gegn vírusnum. Það er auðvitað sláandi hversu hratt og ákveðið hún og ríkisstjórnin gengu til verks. Enda vakti það heimsathygli. Danir eru auðvitað alltaf að vekja heimsathygli. Oftast fyrir einhverja nýja gerð af pyntingu á útlendingum. Eitthvað sem Mette og Sósíaldemókratar hafa auðvitað lengi tekið þátt í með bestu lyst. Jafnvel bara verið í forystunni með. Þetta er eitthvað sem hefur bara gufað upp núna – jafnvel eins og það hafi aldrei átt sér stað. Ég tók dæmi af umræðunni um dagpengekerfið, sem lýsandi um hversu ótrúlega hratt pólitíska landslagið hefur tekið 180 gráðu snúning. Þetta væri annað.

Ég er hinsvegar svo sannarlega ekki búinn að gleyma því í einhverri leiðtogadýrkun, eins og einhverjir virðast hafa sakað mig um. Veit reyndar ekki hvort einungis um troll hafi verið að ræða eða hvað – aldrei að vita með þessa svokölluðu vini mína. Þeir eru svo skemmtilegir, ég elska auðvitað gott troll.

En ef einhver skuli vera í vafa, því það væri kannski hægt að skilja mig sem svo þarna: ég er minnsti aðdáandi danskra Sósíaldemókrata í heimi. Ég er að reyna að halda þessari bloggsíðu fjölskylduvænni, því ætla ég ekkert útí lýsingarorðin sem eru nauðsynleg til að geta lýst því almennilega hvað þau eru og ættu að gera að mínu mati.

Þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru hinsvegar eitthvað sem ég hef mjög blendnar tilfinningar gegn. Eitthvað sem er á sama tíma ógnvekjandi og impressive.

Það neikvæða er augljóst: neyðarlögin gefa dönsku ríkisstjórninni og heilbrigðisyfirvöldum mjög hættuleg völd. Sem eins og Pernille Skipper, leiðtogi róttækra Sósíalistana í Enhedslisten (sem er einn af stuðningsflokkum ríkisstjórnarinnar) ættu ekki að finnast í neinu siðmenntuðu, frjálsu samfélagi. Lögin eru semsagt sett með einskonar inniföldu self-destruct eða hvað þetta heitir á lögfræðimáli sem ég nenni hreinlega ekki að fletta upp – munu falla sjálfkrafa úr gildi eftir ákveðinn tíma. Svo þetta er undantekningarástand, eins og ítrekað er fullvissað um.

Nú er ég enginn (algjör) nöttari sem heldur að Mette og Sósíaldemókratar séu að fara að púlla einhvern Reichstag bruna, afnema lýðræði og gera svo innrás í Rússland. En hér er þó augljóslega samt sem áður full ástæða til að vera mjög áhyggjufull/ur. Einfaldlega vegna þróunarinnar síðustu ár, rísandi þjóðernishyggju – sem Sósíaldemókratar hafa ekki beint neitað að taka þátt í. Jafnvel þótt þetta sé gert í góðri trú, af hjartahreinni góðmennsku þar sem einungis er verið að reyna að bjarga mannslífum (sem þetta er auðvitað gert til að gera, þótt efnahagsleg sjónarmið spili einnig stóran þátt), þá er það sem er ógnvekjandi við þetta fordæmið. Þetta hefur nú verið gert. Það er búið að brjóta “tabooið”. Um leið og það er gert, þá er mun auðveldara og jafnvel sterk tilhneiging til að gera það aftur – og þá ekki endilega í eins góðum tilgangi.

En kannski verða slíkar afdráttarlausar ákvarðanir, sem gjörbreyta samfélaginu yfir nótt nánast, einmitt teknar – af góðum (vinstri) tilgangi. Aldrei af Mette Frederiksen augljóslega, en hún hefur a.m.k. sett fordæmi og skapað tækifæri sem ég skil ekki að hægt sé að láðst að sjá sem risa opnun fyrir vinstrið.

Vinstri ævintýri Mette virðist þó af öllu að dæma að fara að ljúka. Stjórnmálagreinandi Information leiðir í dag að þvi líkum að hún muni ditcha rauð-grænu flokkana og hoppa uppí sæng með Venstre i einhverju grand coalition. Sem verður að koma í ljós hvort gerist. En þar væru auðvitað Sósíaldemokratar eins og við þekkjum þá.

En svo er spurningin um hversu effektívar þessar aðgerðir séu er til að stoppa útbreiðsluna og ná böndum á ástandinu. Það er auðvitað eitthvað sem verður bara að koma í ljós, akkúrat núna lítur staðan sæmilega út – nógu sæmilega til að byrja að opna leikskóla og skóla upp til 5. bekks aftur 15. maí. Og Svíar hafa löngum verið álitnir sem í tómu tjóni í þessu – eitthvað sem mér finnst yndislega írónískt. Það gæti þó verið katastrófísk mistök auðvitað í gangi hjá þeim, þótt eftir því sem ég fæ best séð þá var þeirra leið ekki nærri eins galin og talið var. En verður það kannski. Eða leið Danmerkur. Eða ekki. Hver veit? Ég nenni í rauninni ekki inní þennan debat, um hvaða leiðir séu bestar. Ekki af því að mér finnist að fólk megi ekki ræða það og setja spurningarmerki hérna – ég er í alvörunni mun þreyttari á fólkinu sem tuðar yfir og gerir lítið úr “sjálfskipuðum sérfræðingum í þessum málum” en því fólki sjálfu. Augljóslega eru fullt af nötturum og vitleysingum sem vita ekkert um þessi mál að segja einhverja bilaða hluti á netinu – eins og alltaf um öll mál. Það þýðir þó ekki að öll gagnrýnin umræða um þessi mál sé slæm – hvað þá að fólk ætti bara ekkert að ræða þessi né önnur tengd mál eins og margir virðast vilja meina – og þá í einhverjum göfugum tilgangi eins og þeir sjálfir virðast telja. Það væri hin sanna nöttara afstaða að mínu mati: grjóthaldið kjafti bara basically .

Þetta er einmitt einnig einn allra mikilvægasti punkurinn sem ég hefði viljað ná að koma að þarna: í krísum er ávallt mjög sterk krafa um að vera ekki í neinni pólitík, að nú séu fordæmalausir tímar þar sem venjulegar reglur gildi ekki – undantekningarástandið fræga sem Agamben hefur auðvitað lengi rætt og því verið að benda sérstaklega á undanfarið augljóslega. Nú þarf að sýna samstöðu, vera ekki að efast, hugsa, gagnrýna eða spyrja…

Það væri það versta sem við gætum mögulega gert. Það er nákvæmlega á krísutímum sem það er mikilvægara en nokkru sinni. Sem er eitthvað sem elítan skilur mjög vel en almenningur ekki. Eða ekki nægilega allavega. Og það er eitthvað sem verður einfaldlega að breytast mjög hratt.

“Never Let a Serious Crises Go to Waste” eins og Phillip Mirowski titlaði bók sína um síðustu krísu og hvernig nýfrjálshyggjunni tókst að lifa hana af. Þrátt fyrir að „fordæmalaust“ „óvissuástand“ ríki vissulega, þá er sumt sem við getum verið fullkomlega viss um: ef vinstrið notar ekki tækifærið þá gera hinir það – eins og þeir eru þegar byrjaðir á fullu að gera.

Til að taka af allan vafa, þá á ég samt augljóslega ekki við að fólk ætti ekki að fylgja tilmælum sóttvarnarlæknis, þvo hendur eins mikið og hægt er, fara eins lítið út og hægt er, stunda social distancing, eða það sé allt í lagi að fara í sumarbústað eins og eitthvað vonlaust fífl. Augljóslega gerir maður það, allt annað kallast ekki að vera gagnrýninn eða sjálfstætt hugsandi – það kallast að vera douchebag.

Annars er ég búinn að vera að sjá einhverjar hreint út sagt stórfurðulegar umræður og greinar um Bernie Sanders og “ósigur” hans í Bandaríkjunum. Ég verð að fara almennilega útí í það seinna. Verð þó að benda á nokkur atriði. Fyrir það fyrsta að það að tala um ósigur í þessu sambandi er bara óskiljanlegt, pólitísk móbílisering milljóna manna í kringum mjög prógressívar sósíalískar (á USA mælikvarða augljóslega) stefnur, eitthvað sem enginn hefði getað dreymt að væri einu sinni mögulegt einungis fyrir örfáum árum er augljóslega enginn ósigur. Demókrataflokkurinn er augljóslega sá sem tapar hérna með því að velja Biden – á katastrófískan hátt. Hvort sem unnið er eða tapað.

Mikið af umræðunni sem ég hef séð virðist á einhvern furðulegan hátt ganga út frá að Bandaríkin séu fúnkerandi lýðræðisríki.

Því er einnig haldið fram að stétt og stéttahagsmunir eru augljóslega vonlaus áhersluatriði, búið að sanna það í eitt skipti fyrir öll. Og vísað í Corbyn og Labor auðvitað því til stuðningar. Þrátt fyrir að sigur Bidens gæti einfaldlega ekki verið meira illustratívt dæmi um ráðandi hlutverk nákvæmlega þessara atriða. Þessi myopic sýn sem oftast má finna þarna er bara absúrd – á svo margan hátt. Ásamt tímaleysinu sem stjórnmál virðast almennt vera skilin í, eðli stjórnmálahreyfinga, (nýfrjálshyggju) ofurtrúin á frambjóðendur og kosningar, sem er meira „image management“ en nokkurs konar stjórnmál, o.fl. o.fl….

Ætlaði að klára þetta fyrir svefninn, en það er alltof margt í þessu, meira en ég hef orku í núna. Nenni ekki einu sinni að lesa þetta yfir.

Bara eitt að lokum: Demókrata establishmentið sjálft myndi, 100% pottþétt án nokkurs einasta vafa, frekar kjósa Trump en Sanders. Eitthvað sem þeir hlakka yfir ósigri Sanders og telja Biden betri kost mættu alveg velta aðeins fyrir sér.

En köllum þetta teaser fyrir næst, to be continued…

(Titillinn er tilvitnun úr skáldsögu, einni allra bestu allra tíma, eftir kvenkyns rithöfund….facebook leikur sem enginn ætlar nokkurn tímann að vinna virðist vera. Koma svo með þetta!)

Categories
Bókmenntir Heimspeki Kvikmyndir

„Ingenting, ingenting, nej, ingenting. – Ingenting. – Sådan er det godt. Sådan skal det være.“

Ég ætla semsagt að reyna að blogga. Aldrei gert það áður, eða, skrifaði töluvert af greinum á Starafugl reyndar. Sem væri hægt að segja að væri í rauninni bara bloggsíða. Þrátt fyrir að hafa ritstjóra samt, einhver hattagæji með einhver endalaus leiðindi og dólg alltaf hreint. Hver þarf á því að halda?
Hér er a.m.k. ekkert slíkt á ferðinni. Ég þakka öðlingnum (og fyrrum yfirmanni) Óla Gneista innilega fyrir boðið og gestrisnina, að hýsa þetta.
Sem ég veit í rauninni ekki ennþá hvað muni koma til með að verða. Það verður bara að koma í ljós, tók nú bara þessa ákvörðun í gærkvöldi. En ef ég þekki mig rétt þá mun líklegast heimspeki, kvikmyndir, bókmenntir og pólitík vera helsti fókusinn.Staðan hérna núna er annars sú sama og síðustu þrjár vikur, alveg síðan ég kom tilbaka til Kaupmannahafnar eftir að hafa verið í rúma tvo mánuði að vinna og kenna í Háskólanum á Akureyri  – lock-down með alla strákana heima. Sem þýðir að ég hef lítið getað unnið í doktorsverkefninu. Reyni það sem ég get á kvöldin eftir að þeir eru sofnaðir, en maður er ekki beint í neinu cognitive toppformi þá. Svo, hef því mest megnis reynt að lesa eins mikið og ég get í staðinn. Og svo horfa á kvikmyndir. Lesturinn gengur hægt, miðað við það sem ég er vanur, en hef síðustu rúma viku náð að koma mér upp sama schedule og ég hafði í fleiri ár – ein mynd á dag, fyrir svefninn.Enn sem komið er hafa það verið myndir sem ég missti af og átti eftir að sjá – Margaret, Marriage Story, Burning til dæmis. Þessar þrjár voru allar frábærar.

Síðasta var hinsvegar Jay and Silent Bob Reboot. Sem ég var semi-spenntur fyrir og taldi mig þurfa að sjá sem gamall aðdáandi, en reyndist á endanum einfaldlega svo skelfilega léleg að ítrekaður aulahrollur er eina tilfinningin sem hún kallar fram.

Og ég segi þetta sem töluverður Kevin Smith fan, ekki bara í gamla daga heldur alveg ennþá. Elska ennþá gömlu myndirnar og get auðveldlega horft á þær aftur og aftur. Fyrstu þrjár allavega. Chasing Amy er mögnuð mynd – engin tilviljun að hún hafi fengið Criterion útgáfu. Ég er líka enn mjög hrifinn af Dogma. Jay and Silent Bob Strike Back er svo mynd sem ég hef séð milljón sinnum. Og þrátt fyrir að vera ekkert sérstaklega góð hefur hún ákveðin sjarma og fyrst og fremst frábæran díalóg („And when its all over, say ‘oh, what a lovely tea party'“)

Þessi nýjasta hefur hinsvegar ekkert af því, er svo langt frá því að vera eins sniðug og hann, Kevin Smith, leikstjóri myndarinnar, heldur að hún sé. Hann gat alveg verið sniðugur í gamla daga, en hér virðist hann telja að einungis meta-vísanir í sjálfan sig og fyrri myndir sé fyndið og clever í sjálfu sér. Sem það er engan veginn, hann setur þetta ekki í neins konar fyndin, skemmtilegan eða áhugaverðan búning. Þetta er bara tóm leiðindi, og hann sjálfur bara einstaklega pirrandi í þeim tveimur hlutverkum sem hann fer með (annað sem hann sjálfur). Mæli ekki með og nenni í rauninni ekki að eyða fleiri orðum í.

Er annars að lesa Martha Nussbaum og nýjustu bók Wendy Brown, In the Ruins of Neoliberalism þessa stundina. Sem er bæði vinnutengt, þó ég geri engan skarpan greinarmun á bisness og pleasure í þessu – er svo heppinn að vinna við að lesa og rannsaka hluti sem ég hef gríðarlegan áhuga á.

Er þó farinn að sakna þess mikið að lesa skáldsögur. Bók Eiríks Arnar er á skrifborðinu og er búin að stara á mig síðan ég keypti hana í fríhöfninni á leiðinni hingað frá Íslandi fyrir þremur vikum. Þarf að fara að hella þessu í mig. Er töluvert spenntur, það er ekkert sem ég þarf að hafa mig í af einhverri áreynslu. Meira bara finna tímann og orkuna. Skrifa vonandi um hana hérna næst.

Segjum þetta gott sem fyrsta framlag mitt í bloggheima, enda klukkan orðin alltof mikið hérna. Og ef það er eitt sem hægt er að ganga útfrá á þessum tímum mikillar óvissu, þá er það það að strákarnir munu ekki sýna manni neina miskunn á morgnana.