Categories
Bókmenntir Heimspeki Kvikmyndir

„Ingenting, ingenting, nej, ingenting. – Ingenting. – Sådan er det godt. Sådan skal det være.“

Ég ætla semsagt að reyna að blogga. Aldrei gert það áður, eða, skrifaði töluvert af greinum á Starafugl reyndar. Sem væri hægt að segja að væri í rauninni bara bloggsíða. Þrátt fyrir að hafa ritstjóra samt, einhver hattagæji með einhver endalaus leiðindi og dólg alltaf hreint. Hver þarf á því að halda?
Hér er a.m.k. ekkert slíkt á ferðinni. Ég þakka öðlingnum (og fyrrum yfirmanni) Óla Gneista innilega fyrir boðið og gestrisnina, að hýsa þetta.
Sem ég veit í rauninni ekki ennþá hvað muni koma til með að verða. Það verður bara að koma í ljós, tók nú bara þessa ákvörðun í gærkvöldi. En ef ég þekki mig rétt þá mun líklegast heimspeki, kvikmyndir, bókmenntir og pólitík vera helsti fókusinn.Staðan hérna núna er annars sú sama og síðustu þrjár vikur, alveg síðan ég kom tilbaka til Kaupmannahafnar eftir að hafa verið í rúma tvo mánuði að vinna og kenna í Háskólanum á Akureyri  – lock-down með alla strákana heima. Sem þýðir að ég hef lítið getað unnið í doktorsverkefninu. Reyni það sem ég get á kvöldin eftir að þeir eru sofnaðir, en maður er ekki beint í neinu cognitive toppformi þá. Svo, hef því mest megnis reynt að lesa eins mikið og ég get í staðinn. Og svo horfa á kvikmyndir. Lesturinn gengur hægt, miðað við það sem ég er vanur, en hef síðustu rúma viku náð að koma mér upp sama schedule og ég hafði í fleiri ár – ein mynd á dag, fyrir svefninn.Enn sem komið er hafa það verið myndir sem ég missti af og átti eftir að sjá – Margaret, Marriage Story, Burning til dæmis. Þessar þrjár voru allar frábærar.

Síðasta var hinsvegar Jay and Silent Bob Reboot. Sem ég var semi-spenntur fyrir og taldi mig þurfa að sjá sem gamall aðdáandi, en reyndist á endanum einfaldlega svo skelfilega léleg að ítrekaður aulahrollur er eina tilfinningin sem hún kallar fram.

Og ég segi þetta sem töluverður Kevin Smith fan, ekki bara í gamla daga heldur alveg ennþá. Elska ennþá gömlu myndirnar og get auðveldlega horft á þær aftur og aftur. Fyrstu þrjár allavega. Chasing Amy er mögnuð mynd – engin tilviljun að hún hafi fengið Criterion útgáfu. Ég er líka enn mjög hrifinn af Dogma. Jay and Silent Bob Strike Back er svo mynd sem ég hef séð milljón sinnum. Og þrátt fyrir að vera ekkert sérstaklega góð hefur hún ákveðin sjarma og fyrst og fremst frábæran díalóg („And when its all over, say ‘oh, what a lovely tea party'“)

Þessi nýjasta hefur hinsvegar ekkert af því, er svo langt frá því að vera eins sniðug og hann, Kevin Smith, leikstjóri myndarinnar, heldur að hún sé. Hann gat alveg verið sniðugur í gamla daga, en hér virðist hann telja að einungis meta-vísanir í sjálfan sig og fyrri myndir sé fyndið og clever í sjálfu sér. Sem það er engan veginn, hann setur þetta ekki í neins konar fyndin, skemmtilegan eða áhugaverðan búning. Þetta er bara tóm leiðindi, og hann sjálfur bara einstaklega pirrandi í þeim tveimur hlutverkum sem hann fer með (annað sem hann sjálfur). Mæli ekki með og nenni í rauninni ekki að eyða fleiri orðum í.

Er annars að lesa Martha Nussbaum og nýjustu bók Wendy Brown, In the Ruins of Neoliberalism þessa stundina. Sem er bæði vinnutengt, þó ég geri engan skarpan greinarmun á bisness og pleasure í þessu – er svo heppinn að vinna við að lesa og rannsaka hluti sem ég hef gríðarlegan áhuga á.

Er þó farinn að sakna þess mikið að lesa skáldsögur. Bók Eiríks Arnar er á skrifborðinu og er búin að stara á mig síðan ég keypti hana í fríhöfninni á leiðinni hingað frá Íslandi fyrir þremur vikum. Þarf að fara að hella þessu í mig. Er töluvert spenntur, það er ekkert sem ég þarf að hafa mig í af einhverri áreynslu. Meira bara finna tímann og orkuna. Skrifa vonandi um hana hérna næst.

Segjum þetta gott sem fyrsta framlag mitt í bloggheima, enda klukkan orðin alltof mikið hérna. Og ef það er eitt sem hægt er að ganga útfrá á þessum tímum mikillar óvissu, þá er það það að strákarnir munu ekki sýna manni neina miskunn á morgnana.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *