I’m Chevy Chase and You’re Not (2026)★★☆☆☆🫳

Það kemur í ljós að Chevy Chase er ekki sérstaklega indæll.

Fyrsta myndin sem ég elskaði með Chevy Chase var Seems Like Old Time. Ég átti hana á spólu og horfði á aftur og aftur.

Ég treysti I’m Chevy Chase and You’re Not ekki sérstaklega af því að sá partur af henni sem fjallar um atburði sem ég þekki til eru undarlegar fram settir.

Chevy Chase lék í sjónvarpsþáttaröðinni Community sem eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Án þess að fara út í smáatriði kom hann ekki vel fram við fólk þar og því var ekki tekið vel.

Í I’m Chevy Chase and You’re Not segir dóttir Chevy Chase að pabbi sinn hafi neitað að halda áfram í Community af aðalhöfundurinn Dan Harmon fengi ekki að snúa aftur. En Chevy sneri aftur í fjórðu seríunni eftir Harmon var rekinn.

Leikstjórinn Jay Chandrasekhar hélt líka fram að Dan Harmon hafi skrifað línurnar sem urðu til að Chevy æsti sig upp að því marki að hann var rekinn. En það var í fjórðu seríu og Harmon var ekki á svæðinu.

Eitt sem ég hef séð í umræðunni um I’m Chevy Chase and You’re Not er að fólk segir að ofbeldið sem Chevy Chase varð fyrir í æsku hafi ekkert með það að gera hvernig hann kom fram við fólk þegar hann varð fullorðinn. Rökstuðningurinn er sá að fullt af fólki hafi verið lamið sem krakkar án þess að verða fífl.

Mér hefur alltaf þótt svona rök slök, þetta er eins og að benda á að sumt reykingafólk hafi ekki fengið krabbamein. Auðvitað skipti þetta máli. Lexían er samt ekki að við ættum að fyrirgefa Chevy Chase vegna þess heldur að við ættum að vernda börn fyrir slíku ofbeldi. Mér finnst allt í lagi að finna til samúðar með honum um leið og mér finnst fullkomlega eðlilegt að nær enginn vilji vinna með honum.

Chevy Chase er auðvitað flókinn. Dan Harmon hefur til dæmis sagt fallegar sögur af því hve langt hann gekk til þess að gleðja aðdáendur sína.

I’m Chevy Chase and You’re Not er alveg áhorfanleg mynd fyrir fólk sem hefur áhuga á Chevy Chase en ekki mikið meira en það.

Hundrað sinnum í bíó og kvikmynd á hverjum degi (2025)

Fyrir um tveimur árum áttaði ég mig á hve mikið ég saknaði þess að horfa á kvikmyndir. Eitt af því fyrsta sem ég gerði var að búa til lista með kvikmyndum sem mig hefði alltaf langað til að horfa á og um leið myndir sem ég hafði misst af síðustu ár. Þó mér hafi tekist að horfa á margar af þessum myndum lengist hann sífellt. Nú eru um fjórtán hundruð myndir á honum.

Ég náði að smita eldri son minn af þessum áhuga. Gunnsteinn gerði eigin lista og byrjaði að fylgjast með nýjum og klassískum myndum sem voru að koma í bíó. Það verður auðvitað til þess að ég fer oftar í bíó.

Í lok síðasta árs ákvað ég að sameina tvö markmið. Í fyrsta lagi að halda áfram að horfa á kvikmyndir og um leið að skrifa um þær. Stefnan var ekki að horfa á eina mynd á dag eða fara á hundrað myndir í bíó. Sá partur var „óvart“.

Ástæðan fyrir því að ég vildi skrifa um myndir er af því ég hef lítið sem ekkert skrifað síðustu árin. Ég hef orðið of meðvitaður um hve fáir lesa það sem ég hef fram að færa miðað við gullöld bloggsins. Þannig að ég ákvað að mér þyrfti að vera sama hvort fólk væri að lesa. Ég varð reyndar full einbeittur í því og átti jafnvel erfitt með að taka jákvæðum viðbrögðum

Snemma árinu dó Ásgeir. Ef við undanskiljum fólk sem ég hef bókstaflega búið með var hann sá sem ég hafði oftast farið með í bíó. Við höfðum þann sið/ósið að ræða helst ekki kvikmyndir sem við vorum sammála um. Við eyddum þess í stað tíma okkar í að rífast um allar hinar. Frá því að Ásgeir dó hef ég varla horft á mynd án þess að hugsa til hans.

Letterboxd tölfræði

Á árinu skráði ég mig á Letterboxd og er þar með dagbók yfir kvikmyndir sem ég hef séð. Þið getið kíkt á þetta hvort sem þið eruð skráð eða ekki.

Þar sem árinu var að ljúka birti Letterboxd greiningu á áhorfi mínu 2025. Ólíkt Spotify gerist þetta sumsé í janúar og inniheldur þar með allt árið.

Samkvæmt þeim skráði ég 377 kvikmyndaáhorf. Ég er ekki alltaf sammála Letterboxd um hvað telst kvikmynd því þarna eru líka örfáir þættir og stuttmyndir. Þó er ég viss um um að ég náði að horfa á rúmlega eina kvikmynd á hverjum degi að meðaltali.

Sá leikari sem ég sá oftast í þessum myndum var Dick Miller (10) en sá sem leikstýrði flestum þeirra var Joe Dante (9). Miðað við að sá fyrrnefndi lék í öllum myndum hins síðarnefnda eru þessar tölur ekki óháðar.

Fyrsta myndin var Nosferatu en sú síðasta Gremlins (sem ég er að skrifa um og kominn með um tvöþúsund orð).

Flestar kvikmyndir sá ég á miðvikudögum sem skýrist af því að þá eru gjarnan sýndar klassískar myndir í Sambíóunum og Bíó Paradís er með lengri dagskrá þannig að ég fór stundum á fleiri en eina mynd í sömu heimsókn.

Ég sá 106 kvikmyndir í bíó í fyrra. Þar af voru 43 frá 2024 eða 2025. Það munar sumsé mikið um allar þessar klassísku myndir. Flestar myndir sá ég í Bíó Paradís (39) og skiptar töluverðu máli að vera með árskort. Flestar myndirnar sá ég með Gunnsteini sem sá bara 103 myndir í bíó.

Dómarnir

Dómarnir mínir byrjuðu að formast þegar á leið árið. Ég leiddist líka út í stjörnugjöf því fólk virtist misskilja þumlana mína (mér einum líklega finnst það fyndið að þeir eru báðir vinstrimegin) og handahreyfingar. Öll stjörnugjöf er auðvitað vitleysa og það á sérstaklega við um mínar. Það er samt nauðsyn að hafa eitthvað viðmið.

Ekki búast við „bestu myndir 2025“ frá mér strax því mér leiðist að gera svona lista sem eru á skjön við tímabilið sem flestir erlendir listar miða við. Síðast gerði ég þetta í kringum Óskarinn enda hafði ég þá haft tækifæri til að sjá flest sem talið var best. Líklega verður sú raunin í ár.

Mikið vildi ég að fleiri skoðuðu þessar færslur á blogginu. Það er allt svo mikið snyrtilegra og með fullt af tenglum. RSS er líka besta tólið til að berjast við vondu fyrirtækin.

Halda áfram að lesa: Hundrað sinnum í bíó og kvikmynd á hverjum degi (2025)

Christmas in Connecticut (1945) ★★★★⯪👍👍🖖

Eftir að skipi hans var sökkt lendir bandarískur sjóliði í rómantískum lygavef út í sveit.

William Bibbiani í Critically Acclaimed hlaðvarpinu mælti með Christmas in Connecticut (frá 1945, ekki endurgerð Schwarzenagger). Mögulega kallaði hann þetta bestu jólamynd allra tíma.

Christmas in Connecticut er eiginlega farsi þó takturinn sé ekki alveg jafn hraður í mörgum slíkum. Mér leið eins og ég hefði brosað alla myndina. Brandararnir eldast vel en til þess að allt gangi upp þarf áhorfandinn að vera meðvitaður um að kynlíf utan hjónabands var ekki vel séð á þessum tíma.

Barbara Stanwyck er frábær en Una O’Connor (sem lék í öllum myndum) og S. Z. Sakall stela mörgum atriðum.

Maltin gefur ★★⯪☆.

Óli gefur ★★★★⯪👍👍🖖.

Eternity (2025) ★★★⯪☆👍

Sambandsmál eru flókin í handanheimum.

Eternity er á svipuðum slóðum og Albert Brooks myndin Defending My Life sem er oft talin vera frábær þó ég telji hana bara vera fína. Þessi samanburður er samt erfiður á köflum. Þó er vissulega verið að reyna að gera aðeins öðruvísi hluti.

Satt best að segja hefur mér sjaldan fundist „paradís“ vera jafn fráhrindandi og í Eternity. Reglurnar eru skelfilegar, valkostirnir eru óspennandi og fólkið virðist ekki hafa þroskast neitt.

Þetta hljómar allt neikvætt. Eternity er stórfyndin og leikarnir eru auðvitað góðir. Þó var erfitt að sannfæra mig um að Callum Turner væri svona rosalega myndarlegur. Ég verð bara að taka því sem gefnu að öðrum finnist hann vera það.

Aðrir aðalleikarar eru Miles Teller (Whiplash), Elizabeth Olsen (yngri systir Mary Kate og Ashley), Da’Vine Joy Randolph (Holdovers og sjónvarpsþáttunum High Fidelity) og John Early (Search Party).

Óli gefur ★★★⯪☆👍.

Clerks (1994) ★★★★★👍👍🖖

Maður á ekki einu sinni að vera í vinnunni í dag og sleppur naumlega við að vera skotinn til bana.

Clerks er fyrsta mynd Kevin Smith. Sagan af gerð hennar er eiginlega jafnfræg henni sjálfri. Hún var fjármögnuð með sölu á teiknimyndasögusafni leikstjórans og ýmsum greiðslukortum.¹ Hún er svarthvít útaf djúpum listrænum ákvörðunum um að slíkar filmur væru miklu ódýrari.

Skrifaðu það sem þú þekkir er mantra. Kevin Smith gerði það. Söguhetjan okkar vinnur í kjörbúð sem er sambyggð myndbandaleigu þar sem vinur hans vinnur (þegar hann nennir). Þeir tala saman um líf, dauða, sambönd og heimspeki, oft með vísunum í poppkúltúr.² Þessar samræður hafa oft verið kallaðar raunsannar en þó þær fjalli vissulega um það sama og gaurar af þessari (cirka minni) kynslóð voru að tala um þá er allt stílfært.

Af öllum umræðuefni sem ber á góma í Clerks eru pælingarnar um Dauðastjörnuna það áhugaverðasta. Spurningin hvort fólk þurfi að velta fyrir sér fyrir hverja það vinnur er sígræn. Auðvitað hefur þakviðgerðarmaðurinn rétt fyrir sér. Ef þú vinnur fyrir skíthæla getur það komið harkalega í bakið á þér. Auðvitað vann Kevin Smith fyrir einn versta skíthæl í Hollywood í mörg ár. Þó hafði hann vissulega þegar slitið á tengslin þegar almenningur varð fyrst meðvitaður um hve slæmur Weinstein raunverulega var.

Clerks er síns tíma. Sem getur verið gott og slæmt. Hættan er auðvitað fyrst og fremst sú að fólk sem ekki man þessa tíma geti ekki skilið hana án þess samhengis. Ég held að hún sé tímahylki sem gefi innsýn. Sumsé að hún geti staðið ein. En ég get auðvitað ekki verið viss og það er vel mögulegt að mitt eigið sjónarhorni blindi mig.

Útgáfan af Clerks sem var sýnd í Bíó Paradís er með aukaatriði sem Kevin Smith náði ekki að taka upp á sínum tíma. Tíu árum seinna var það búið til sem stutt teiknimynd sem hefur verið skeytt inn. Lukkulega er upprunalegi endirinn ekki með þannig að Dante slapp frá byssumanninum.

Heimurinn sem Clerks skapaði heldur áfram. Mallrats fylgdi, Chasing Amy, Dogma … og síðan margar misgóðar en yfirleitt fyndnar. Ég hef ekki enn horft á Clerks 3. En ef þið viljið eitthvað öðruvísi frá Kevin Smith mæli ég alveg með The 4:30 Movie.

Maltin gefur ★★★☆.

Óli gefur ★★★★★👍👍🖖 eftir um mánaðar íhugun því það er erfitt að vita hve mikið þetta snýst um persónuleg tengsl við myndina. Það eina sem mætti breyta við Clerks er titilspjaldið fyrir View Askew.

¹ Það er rétt að minnast á að Smith var undir miklum áhrifum frá Richard Linklater sem gerði Slacker (1991).

² Slíkar vísanir voru ekki jafn algengar árið 1994 og þær hafa verið síðustu þrjátíu ár undir áhrifum frá Kevin Smith og Quentin Tarantino.

 

Die My Love (2025) ★★★★⯪👍👍

Kona þarf að kljást við fæðingarþunglyndi, einangrun og erfiðan eiginmann.

Einhvers staðar sá ég þá gagnrýni að Die, My Love væri skrýtin til þess að vera skrýtin. Mér þykir það ekki sanngjarnt. Ég held að það sé skýr tilgangur með þessu öllu. Um leið er ég nokkuð viss um að myndin er ekki fyrir alla.

Þó við horfum á persónu Jennifer Lawrence utan frá sýnir Die, My Love okkur lífið frá hennar sjónarhorni. Það er ekki alltaf þægileg reynsla. Til dæmis er það tónlistin. Hún er góð en stundum er hávaðinn truflandi. Það er samt auðvitað til að endurspegla hugarástand.

Die, My Love er á köflum fyndin, almennt á dapurlegan hátt. Sérstaklega samskipti Lawrence við fólk sem er örugglega velmeinandi en samt óþolandi glórulaust.

Ég þekkti ekki Nick Nolte undir þessu skeggi en hann er góður þó hlutverið sé ekki stórt. Sissy Spacek fær aðeins meira að gera sem tengdamóðir Lawrence og nýtir það.

Líklega er ágætt að Robert Pattison sé bara á svæðinu, skilningssljór og ánalegur. Hann gerir allavega enga tilraun til að draga athyglina frá Jennifer Lawrence sem á Die, My Love.

Lynne Ramsay er leikstjóri og annar handritshöfunda Die, My Love. Því miður hef ég ekki séð meira frá henni.

Í lok myndarinnar fannst mér ég hafa upplifað eitthvað öðruvísi sem er ekki eitthvað sem allar kvikmyndir bjóða upp á.

Óli gefur ★★★★⯪👍👍.

No Other Choice (2025) ★★★★☆👍

Maður á engra annarra kosta völ en að taka þátt í hinu kapítalíska samfélagi.

Dökk gamanmynd frá Park Chan-wook sem gerði m.a. Oldeuboi og skrifaði handritið að Uprising. Það eru mörg fyndin og flott atriði. Ádeilan er oft beitt. Einhvern veginn vonaði ég samt að No Other Choice myndi ná meiri hæðum, miðað við hvernig hefur verið talað um hana. Að heildin væri sterkari.

Líklega er þetta tengt lengdinni. Ef No Other Choice hefði verið skorin niður hefði hún mögulega virkað betur.

Óli gefur ★★★★☆👍

Eyes Wide Shut (1999) ★☆☆☆☆👎

Tom Cruise þjáist af kynferðislegum vanmætti og ráfar um London New York þar sem hann hittir ýmsa litríka karaktera.

Ég sá Eyes Wide Shut þegar hún kom út. Ég var ekki hrifinn. Núna sá ég hana aftur og féll ekki fyrir henni heldur. Ég reyndi að hafa augun opin fyrir að hann væri með lokuð augu en þetta er aðallega svo ógurlega langdregið.

Það hjálpar ekki að hafa Tom Cruise í aðalhlutverki. Þol mitt fyrir honum er takmarkað. Núverandi kenning mín er að Kubrick hafi dáið vegna þess að það var svo erfitt að fá hann til að leika.

Mögulega hefði Eyes Wide Shut verið betri ef hún hefði verið svona klukkutíma styttri. Það hefði mátt sleppa svona 75% af þeim tíma sem fer í að horfa á Tom Cruise í sálarkreppu og/eða labba. Það hefði verið áhugavert að sjá endurklippta útgáfu því við erum vön að sjá myndir sem Kubrick breytti eftir að þær voru komnar í sýningar.

Líklega hefði verið best ef Eyes Wide Shut hefði verið gamanmynd. Uppáhaldsatriðin mín eru fyndin. Alan Cumming náði þessu alveg. Það er líka miklu auðveldara að hlæja að Tom Cruise en að finna vott af samúð með honum.

Það er annars eitt atriði sem ég er sannfærður um að sé draumur því það er mjög greinilega tekið upp í Hamley’s í London sem er, eðli málsins samkvæmt, ekki í New York. Ég veit að Eyes Wide Shut er öll tekin í London (og nágrenni) en hve augljós er hægt að vera? Ef ekki væri fyrir Harrod’s myndi ég fullyrða að þetta væri frægasta búð borgarinnar.

Maltin gefur ★★★☆ og hefur væntanlega verið meyr vegna dauða Kubrick.

Óli gefur ★☆☆☆☆👎 og er hissa að myndin hafi ekki verið nema 160 mínútur, þetta virtist miklu lengra.

A Muppet Family Christmas (1987)★★★★★👍👍🖖

Prúðuleikararnir ætla að eyða jólunum á sveitabæ í eigu mömmu Fossa.

Þann 25. desember 1988 var Jólahátíð Prúðuleikara á dagskrá Sjónvarpsins. Líklega eina sýningin í íslensku sjónvarpi fyrr eða síðar. Lukkulega átti ég myndbandstæki. Þannig að A Muppet Family Christmas varð jólahefð. Þetta er ekki kvikmynd í fullri lengd þannig að á mínu heimili er hún yfirleitt á dagskrá rétt áður en eldamennskan fer á fullt á aðfangadag.

Sagan er einföld. Prúðuleikararnir fara út í sveit og koma mömmu Fossa á óvart. Það sem gerir A Muppet Family Christmas nær einstaka er að hérna koma líka fram persónur úr Sesemístræti og Búrabyggð ásamt sjálfum Jim Henson.

Töfrarnir við A Muppet Family Christmas er tónlistin. Jólalög af öllu tagi sungin af Prúðuleikurum. Gömul og ný. Þarna er líka ekkijólalagið It’s in Every One of Us. Það kom áður fyrir á plötu John Denver með Prúðuleikurunum og var sungið í minningarathöfn Jim Henson (sem er þess virði að horfa á). Lagið er líka til í flutningi Freddie Mercury og Cliff Richard (ef þið bara leitið).

A Muppet Family Christmas býr í höfundaréttarhelvíti. Ekki var samið um réttinn á tónlistinni nema til sýningar í sjónvarpi þannig að allar formlegar útgáfur sem ég veit um eru styttar. Þar að auki er eiga mismunandi fyrirtæki þessar persónur í dag sem flækir málin væntanlega töluvert.

Lukkulega er til góðhjartað fólk sem hefur deilt ákaflega góðum útgáfum af A Muppet Family Christmas á netinu. Þær fyrstu sem birtust voru greinilega bara teknar af venjulegum VHS-spólum en þegar á leið virðast einhverjir hafa náð að afrita og deila útsendingareintökum sjónvarpsstöðva. Mig grunar að það sé jafnvel eitthvað pirrað innanbúðarfólk sem var ósátt við útgáfustöðuna sem sáu um að koma þessum eintökum í umferð.

Óli gefur ★★★★★👍👍🖖 því þetta er besta jólamynd allra tíma. Allir aðdáendur verða að sjá A Muppet Family Christmas.

The Muppet Christmas Carol (1992)👍👍🖖

Ef þið horfið á The Muppet Christmas Carol á DisneyPlús þá verðið þið að passa ykkur á að velja lengri útgáfuna sem er sett í „aukaefni“.

Þegar Jim Henson lést langt fyrir aldur fram¹ var allt óvíst um framtíð Prúðuleikaranna. Hann virtist vera ómissandi þáttur í snilld þeirra. Mig grunar þó að ef fólk sé spurt um uppáhalds Prúðuleikaramynd sína sé The Muppet Christmas Carol oftast svarið.

Þrátt fyrir andlát Jim var ákveðið að halda áfram. Sonur hans Brian tók við stjórninni og fékk þá ágætu tillögu frá umboðsmanni sínum að búa til útgáfu af Jólasögu Dickens. Upprunalega átti að gera þetta að vera jólasjónvarpsmynd en þegar Disney blandaðist í málið varð hugmyndin að bíómynd.

Brian Henson reyndi að koma sér undan því að leikstýra The Muppet Christmas Carol en aðrir höfnuðu tilboðum. Þó er líklegt að Frank Oz (Svínka, Fossi osfrv.) hafi verið tilbúinn á hliðarlínunni með ráðleggingar.²

Það hvernig Prúðuleikararnir myndu aðlaga Dickens var óljóst. Fyrst átti þetta að vera algjör grínútgáfa af sögunni. Hugmyndin þróaðist og úr varð handrit, skrifað af Jerry Juhl, sem fylgir að mestu leyti bókinni. Ef þið lesið Jólasöguna getið þið séð hve mikið af textanum er notaður orðréttur. Bara með Prúðuleikurum.

Líklega er mikilvægasti hluti The Muppet Christmas Carol leikaravalið. Michael Caine ákvað að nálgast hlutverk Skröggs eins og hann væri að leika á móti mannfólki í fullkomlega alvarlegri útgáfu af sögunni.

Auðvitað eru samt endalausir brandarar í The Muppet Christmas Carol. Þegar kom að því að velja í hlutverk sögumannsins Charles Dickens var spurningin einfaldlega „Hvað Prúðuleikari er ólíklegastur í hlutverið?“. Auðvitað var það Gunnsi³. Honum til halds og trausts er rottan Rizzo.⁴ Sem tvíeyki eru þeir ómótstæðilegir.

Rizzo: Boy, that’s scary stuff! Should we be worried about the kids in the audience?
Gonzo: Nah, it’s all right. This is culture!

Af öðrum „leikurum“ má helst að nefna Kermit sem Bob Cratchit og Svínku sem eiginkona hans. Stærsta breytingin frá Jólasögu Dickens er að Marley verður að bræðrum, leiknir af Statler og Waldorf.⁵ Svo eru fjölmargir aðrir Prúðuleikarar í minni hlutverkum.

Brian Henson ákvað að fá líka aðstoð frá manni sem ber einna mesta ábyrgð á arfleifð Prúðuleikaranna án þess að hafa nokkru sinni verið innanbúðarmaður. Það er Paul Williams sem m.a. samdi The Rainbow Connection.

Eitt af þeim lögum sem Paul Williams samdi fyrir The Muppet Christmas Carol er When Love Is Gone. Það lag er tilfinningalegur kjarni myndarinnar en var klippt út vegna þess að Jeffrey Katzenberg (forstjóri Disney) taldi að börn hefðu ekki þolinmæði til að hlusta á það.⁶ Þið ættuð að fara að fyrirmælum mínum og sjá útgáfuna með laginu.

Við fjölskyldan horfum á The Muppet Christmas Carol á hverri einustu Þorláksmessu fyrir utan í fyrra þegar við fórum á hana aðeins fyrr í bíó. Ég taldi því óhætt að skrifa um myndina aðeins fyrr. Hún væri líklega eftirlætis jólamyndin ef ekki væri fyrir þá sem ég mun horfa á á morgun.

Maltin gefur ★★★☆ og er greinilega að máta sig við hlutverk Skröggs.

Óli gefur ★★★★★👍👍🖖

¹ Því er oft ranglega haldið fram að Jim Henson hafi dáið vegna þess að trú hans hafi bannað honum að leita læknishjálpar vegna sýkingar sem hefði átt að vera auðhöndlandleg. Það er greinilega ósatt því þó hann hafi verið alinn upp við „Kristin vísindi“ sem hafnar læknavísindum hafði hann löngu sagt skilið við þær trúarkenningar. Það er kannski auðveldast að segja að trú hans hafi verið í anda hippakynslóðarinnar. Hann var „andlegur“. Aftur á móti er ekki ósennilegt að uppeldi hans hafi orðið til þess að hann leitaði ekki nógu fljótt til lækna.

² Frank Oz er auðvitað leikstjóri sjálfur og gerði meðal annars Little Shop of Horrors þar sem Brian Henson tók þátt í að stjórna plöntunni geðþekku.

³ Svo við notum íslenska nafnið á Gonzo. Á ensku virðist nafnið vísa beint til Hunter S. Thompson og „gonzo-blaðamennsku“ hans.

⁴ Rizzo fær nafn sitt frá persónu Dustin Hoffman Ratso Rizzo í Midnight Cowboy.

⁵ Báðir nefndir eftir hótelum í New York.

⁶ Þegar ekki var hægt að fá myndina í heild klippti ég saman útgáfu af The Muppet Christmas Carol til þess að hafa lagið með þegar við horfðum á hana saman á Þorláksmessu. Það var auðvitað augljós klipping, ekki bara út af gæðamuninum heldur var When Love Is Gone í 4:3 DVD-hlutföllum en restin í 16:9.

Jingle Bell Heist (2025) ★★★☆☆👍

Steliþjófur og öryggissérfræðingur stefna á að uppfylla boðskap jólanna með því að ræna frá hinum ríku og færa hinum þurfandi.

Algjörlega fyrirsjáanleg jólamynd fær aukakraft frá sjarmerandi leikurum, þ.e. Olivia Holt (Totally Killer) og Connor Swindells (Sex Education). Peter Serafinowicz (Shaun of the Dead) á skilið að vera rændur. Michael Fimognari (To All the Boys I’ve Loved Before) leikstýrir.

Óli gefur ★★★☆☆👍

Scrooged (1988)★★★⯪☆👍👍

Sjónvarpsstjóri lærir lexíu af þremur öndum. Ekki kvakandi.

Áður en Prúðuleikararnir eyðilögðu þetta fyrir öllum hinum var Scrooged uppáhaldsútgáfan mín af Jólasögu Dickens. Ekki að ég hafi séð margar áður. Ég elskaði líka Bill Murray.

Scrooged er leikstýrt af Richard Donner (Superman) og tónlistin er eftir Danny Elfman (Batman).

Það eru frægir leikarar í Scrooged. John Houseman (einn af höfundum Citizen Kane), Karen Allen (Raiders), Bobcat Goldthwait (Police Academy 2), John Glover (Gremlins 2) Anne Ramsey (Goonies), Robert Mitchum (Night of the Hunter), Alfre Woodard (Crooklyn), Michael J. Pollard (Bonnie & Clyde og Roxanne), John Forsythe (Dynasty), David Johansen (New York Dolls, hljómsveitin sumsé, og Let It Ride) og ekki bara einn, ekki bara tveir, heldur þrír bræður Bill Murray.

Síðast en ekki síst er Carol Kane (The Princess Bride) sem eignast myndina í hlutverki anda núverandi jóla. Hún er stjarnfræðilega fyndin og hækkar stjörnugjöfina ein síns liðs.

Scrooged er meira fyndin en góð. Endirinn nær ekki alveg að virka. En það er alveg hægt að syngja með og hafa gaman.

Maltin gefur ★★☆☆.

Óli gefur ★★★⯪☆👍👍.

Sigurður Ólafsson (1951 – 2025)

Ég heyrði af „SÓ“ áður en ég hóf nám við Menntaskólann á Akureyri. Orðspor hans var slíkt og mig hlakkaði sérstaklega til að komast í áfanga sem hann kenndi. Heimspekikennsla hans stóðst væntingar.

Ég var reyndar ekki fyrirmyndarnemi. Sérstaklega náði ég að ergja hann með því að vitna mjög ítarlega í Gunnar Dal í ritgerð um René Descartes. Ekki man ég orðalagið nákvæmlega en hann sagði eitthvað á þá leið að það væri rangt að brenna bækur en ef þær væru eftir …

Sigurði Ólafssyni tókst að kveikja hjá mér áhuga á heimspeki, þó þekking mín sé frekar víð en djúp. Á háskólaárunum kom það sér mjög vel að hafa lært hjá honum. Það að geta hugsað um Das Ding an sich hefur til að mynda oft verið gagnlegt í þekkingarleit.

Þegar heimspekikennarinn barst í tal í Stekkjargerðinu man ég alltaf þegar amma sagði „Hann Siggi litli var alltaf í svo miklu uppáhaldi hjá ömmu sinni“. Umrædd amma var Rúna, elsta systir Guðmars afa. Mér finnst eins og ég hafi mögulega minnst á fjölskyldutengslin við Sigurð meðan hann kenndi mér en ég gerði ekki mikið úr þeim. Hafdís systir var líklega sneggri að útskýra þau þegar hún byrjaði að vinna með honum.

Við SÓ hittumst ekki oft eftir að Menntaskólagöngu minni lauk. Árið 2007 fór ég á fyrirlestur sem hann hélt á Borgarbókasafninu um dauðasyndina óhóf. Það sem stóð uppúr var punktur sem hann kom með um hvernig fólk kæmi sér undan gagnrýni á óhóf sitt og græðgi með því að ásaka fólk á móti um þriðju dauðasyndina, öfund. Þetta var mikilvægt innlegg á þeim tíma og líklega á öllum tímum. Við megum ekki leyfa hinum gráðugu að koma sér undan gagnrýni með slíkum hætti.

Síðast hittumst við Sigurður á ættarmóti og áttum gott spjall. Ég reyndi, og vona að ég hafi náð, að gera honum grein fyrir hve mikilvæga ég taldi kennslu hans hafa verið.

Ég sendi samúðarkveðjur mínar til fjölskyldu Sigurðar. Ég get sagt ykkur fyrir víst að við erum ótalmörg sem verðum ævinlega þakklát fyrir lexíurnar hans. SÓ gerði innilega sitt besta til að koma í veg fyrir að nemendur hans mættu sömu örlögum og René Descartes í brandaranum gamla, sumsé hugsa ekki.

The Holiday (2006) ★★★⯪☆👍👍

Fallegar konur eiga í vandræðum í ástarlífinu og skiptast á húsum yfir jólin.

Það er erfitt að gera mikið betri „svona“ mynd. Hún er sæt og ljúf jólamynd án sérstaks boðskaps. Sem er í góðu lagi. Nancy Meyers leikstýrir Cameron Diaz, Kate Winslet, Jude Law, Jack Black og auðvitað Eli Wallach.

Maltin gefur ★★⯪☆ og segir hana fulllanga.

Óli gefur ★★★⯪☆👍👍 og fann lítið fyrir lengdinni.

The Shining (1980) ★★★★★👍👍🖖

Fjölskylda ákveður að eyða vetrinum ein á afskekktu hóteli sem á sér litríka sögu.

Ég las bókina Duld áður en ég sá myndina. Við vorum nokkrir í sjöunda bekk í Lundaskóla sem vorum að lesa Stephen King og einn þeirra lánaði mér bóksafnsbókina svo ég þyrfti ekki að fara á biðlista hjá Amtinu.

Það var ekki löngu seinna að Hafdís leigði spóluna og við horfðum á sama. Mér fannst bókin betri. Allavega þá.

Eftir að Kubrick dó voru nokkrar af myndum hans sýndar Í Nýja bíó á Akureyri þannig að ég hef áður séð The Shining í bíó.

Það er frægt að Stephen King var ákaflega ósáttur við The Shining.¹ Ég get eiginlega tekið undir það sem hann (og Maltin) sagði um að Jack Nicholson hafi ekki verið nógu eðlilegur fyrir hlutverkið. Núllstillingin hans er eiginlega á toppnum þannig að það þarf lítið til að fara yfirum. Ég er hins vegar á því að Shelley Duvall sé ákaflega góð og ferill persónu hennar er mun trúverðugra. Síðan er Danny Lloyd frábær sem strákurinn.

Auðvitað er The Shining ein ívitnaðasta mynd sem gerð hefur verið. Ég hef oft heyrt fólk endurtaka „Here’s Johnny“ línuna án þess að átta sig á að hún sé vísun í Johnny Carson. Síðan er auðvitað „All work and no play…“.

Sjónrænar vísanir í The Shining eru jafnvel ennþá algengari. Ég meina, gólfteppismynstrið sést í Toy Story (hjá óheilbrigða nágrannadrengnum Sid). Systurnar (ekki tvíburar eða hvað?) hafa líka sést víða.

Síðan eru samsæriskenningarnar. Í The Shining lék Kubrick sér að vísunum í tunglferðirnar af því að þá þegar voru komnar kenningar um að hann hafi kvikmyndað tunglendinguna (á jörðinni). Auðvitað fattaði þetta lið ekki að hann væri að gera grín að þeim og tóku þetta sem frekari sannanir fyrir ruglinu sínu.

Hljóðumhverfi The Shining er stór hluti af því sem gerir þessa mynd frábæra. Það þegar Danny hjólar yfir teppin og það dempar hljóðið af hjólunum er einhvers konar útgáfa af þessu ASMR sem krakkarnir eru alltaf að tala um. Auðvitað á þetta líka við um tónlistina hennar Wendy Carlos sem er ítrekað brædd saman við skuggaleg andrúmsloftshljóðin.

The Shining er líka falleg, jafnvel þegar hún er ógeðsleg. Ef þið hafið lesið eitthvað af þessum færslum mínum þá vitið þið að ég er veikur fyrir fallegri beitingu lita og það á vissulega við hérna. Teppið fellur til dæmis í þann flokk.

Í þetta sinn var ég að pæla í einu atriði sem ég hef áður tekið eftir og flokkað sem klúður en núna er ég eiginlega á því að þetta sé vísbending. Sumsé, Jack (leikinn af Jack) þekkir forvera sinn og segist hafa séð mynd af honum í blöðunum. Hvers vegna? Þekkti hann sögu hótelsins áður en hann sótti um? Las hann sér til áður hann þurfti að mæta? Líklega er stór úrklippubók sem við sjáum við hlið ritvélar hans í einu atriðinu svarið.

Eitt sem fólk hefur bent á sem mistök er að Wendy talar um að Jack hafi lofað að hætta að drekka eftir „atvikið“ og hafi verið þurr í fimm mánuði. Seinna í myndinni segir Jack að „atvikið“ hafi átt sér stað fyrir þremur árum. Það er engin þversögn, Jack hefur fallið í millitíðinni og Wendy fyrirgaf honum.²

Það er auðvitað ógeðfellt hvernig Stanley Kubrick kom fram við Shelley Duvall við tökur á The Shining. Ég held samt að hann hafi ekki verið einn af þeim leikstjórum sem kom sérstaklega illa fram við konur. Hann kom svona fram við marga leikara, t.d. Tom Cruise,³ af fullkomnunaráráttu. Einhver orðaði það þannig að Kubrick hafi ekki vitað hvað hann vildi, bara hvað hann vildi ekki.

Á blogginu vanda ég mig við að gefa efnisorð sem eru byggð á Wikidata. Það þýðir að stuttslóð efnisorða er alltaf á forminu Q+tala. Ég lifi í voninni að leitarvélar muni einhvern tímann nota efnisorð. Annars einkenni Stanley Kubrick á Wikidata Q2001.

Maltin gefur ★★☆☆ og var greinilega ekki glaður.

Óli gefur ★★★★★👍👍🖖 þrátt fyrir að það þýði athugasemd frá Flosa.

¹ Svo kom framhald af The Shining og Duld. Sumsé, af þessum mismunandi útgáfum af sögunni. Ég hef ekki séð (eða lesið) Dr. Sleep og veit ekki hvort það virkaði.

² Á þessum tímapunkti áttaði ég mig á að ég gæti skrifað endalaust um smáatriði í myndinni og ákvað að klára þetta bara. Ef ég horfi á heimildarmyndina Room 237 get ég fengið meiri útrás.

³ Sem mér finnst fyndið af því mér er mjög illa við Tom Cruise. Hann er lykilmaður í költi sem hefur rústað lífi fjölmargra, bæði meðlima og gagnrýnenda. Ólíkt t.d. Shelley Duvall sem átti ekkert illt skilið.

It’s a Wonderful Life (1946)★★★★★👍👍🖖

Sparisjóðsstjóri í vandræðum hefur lifað dásamlegu lífi.

Árið 1994 ákvað Stöð 2 að sýna It’s a Wonderful Life á Aðfangadagskvöldi (en það er undarlegra að Hamlet frá 1990 var sýnd strax á eftir). Auðvitað horfði ég ekki „beint“ en ég tók hana upp á spólu. Þeim fannst sniðug hugmynd að sýna hana „litaða“, sumsé ferli sem breytti svarthvítum myndum í föllitaðar myndir. Joe Dante ber líklega ábyrgð á því að mér datt ekki í hug að horfa á myndina þannig.¹ Ég „afmettaði“ litina í sjónvarpinu til að halda tryggð við sýn Frank Capra.

Nú er söguþráðurinn ekki leyndarmál. Ég var nokkru fyrr búinn að sjá lokaþátt Dallas þar sem spilað er með hugmyndina. Mér þótti myndin góð og hef horft á hana nokkrum sinnum í gegnum árin.

Sambíóin ákváðu að sýna It’s a Wonderful Life núna fyrir jól. Ég held að þetta sé elsta mynd sem þeir hafa sýnt. Þar sem báðir synirnir voru spenntir að sjá myndina drifum við okkur. Af tilviljun var þetta hundraðasta myndin sem ég sé í bíó á árinu.²

Ef ég hefði ekki verið búinn að kaupa miða hefði ég væntanlega ekki farið í bíó. Ég vaknaði við fréttirnar af Rob Reiner og varð ákaflega dapur. Það kom mér á óvart að It’s a Wonderful Life náði að láta mér líða aðeins betur.

Það að sjá mynd í bíó er mikill hvati til að fylgjast vel með. Ég var búinn að gleyma hve góð It’s a Wonderful Life væri. Allir þræðir leiða eitthvert. Smáatriði fá merkingu þegar á líður.

Eitt það frægasta við It’s a Wonderful Life er að hún náði engum vinsældum þegar hún kom út. Leikstjórinn Frank Capra og aðalleikarinn Jimmy Stewart voru að snúa aftur eftir að hafa tekið þátt í Seinni heimsstyrjöld (Capra gerði myndir en Stewart var í virkri herþjónustu) og þurftu núna báðir að endurræsa feril sinn. Þessi mynd hjálpaði lítið. Nýstofnað framleiðslufyrirtæki Capra fór á hausinn.

Vegna þess að bandarísk höfundalög voru voðalega skrýtin þá endaði It’s a Wonderful Life í hálfgerðu limbói. Sjónvarpsstöðvar áttuðu sig á því og byrjuðu að sýna myndina fyrir jól. Hún varð því eiginlega óvart bráðnauðsynleg á bandarískum heimilum.

Donna Reed leikur eiginkonu Stewart, Thomas Mitchell (Stagecouch, High Noon) er ringlaði frændinn, Lionel Barrymore (fræg leikarafjölskylda, bróðir hans John var afi Drew) er vondi kallinn, Henry Travers er Clarence og síðan er Gloria Grahame³ eftirminnileg sem gellan sem er skotin í sparisjóðsstjóranum.

It’s a Wonderful Life er að vissu leyti ein af mörgum útgáfum af Jólasögu Dickens. Auðvitað er mörgu breytt en það er auðvelt að sjá kjarnann. George Bailey er auðvitað enginn Skröggur en aftur á móti er hann langt frá því að vera fullkominn. Þegar allt virðist vera að fara til fjandans kemur hann illa fram við fólkið í kringum sig. Hann er mannlegur. Þetta er ekki sykursæt mynd.

Að vanda vanda ég mig að forðast höskulda en ég þarf eiginlega að leyfa mér einn í þessari málsgrein. It’s a Wonderfull Life var gerð á tímum Hays-ritskoðunarinnar og ögrar henni. Lögbrjóturinn kemst upp með glæpinn. Hans eina refsing er að vera hann sjálfur. Þetta ergir líka áhorfendur enn þann dag í dag. Sjálfur er ég á því að þetta sé lykilþáttur í að gera þetta frábæra mynd.

Maltin gefur ★★★★.

Óli gefur ★★★★★👍👍🖖.

¹ Sjá Gremlins 2 The New Batch.

² Ég ætla ekki að skrifa neitt sérstaklega um nítugustu og níundu myndina sem ég sá. Orðið melódrama eitt sér afgreiðir hana. Það var samt skondið að sjá It’s a Wonderful Life rétt á eftir Óðali feðranna. Þær speglast nefnilega. Mynd Hrafn gæti allt eins heitið Þetta er ömurlegt líf.

³ Gloria Grahame átti sér áhugavert líf. Hún giftist leikstjóranum Nicholas Ray og seinna syni hans, fyrrverandi stjúpsyni sínum. Það var víst gerð mynd um lokakafla lífs hennar með Annette Benning í aðalhlutverki sem heitir Film Stars Don’t Die in Liverpool.

The NeverEnding Story (1984) ★★★☆☆👍

Síbrotadrengur lærir um töfra lesturs. Í kvikmynd.

Ég á ekki bíómiða en ég man sterkt eftir að hafa séð Söguna endalausu í bíó. Ég fletti því upp og hún var sýnd örfáa daga í Borgarbíó rétt fyrir jól árið 1985.

Fjörtíu árum seinna fór ég aftur á hana með fjölskyldunni. Alveg var ég búinn að gleyma því að sagan hverfist um dreng sem er nýlega búinn að missa móður sína. Þetta sá ég væntanlega rétt rúmu ári eftir að ég lenti í því sama. Ég mundi bara eftir grjótætunni og flughundinum (út af atriðinu í blálokin).

Die unendliche Geschichte er ekki frábær mynd en hún er ekki sjarmalaus. Hún fer bara of oft yfir mörkin og verður hallærisleg.

Grjótætan er ennþá flott en flughundurinn er dapurlegri. Ef þetta allt er borið saman við það sem Jim Henson var að gera á sama tíma sjáum við hver var meistarinn.

Það virðist vera að The NeverEnding Story hafi verið talsett eftir á að evrópskum sið þó aðalleikararnir hafi talað ensku. Allavega mörg atriði. Leikarar virðast alltaf vera lélegri þegar ekki er um beina upptöku (eða rosalega vandaða talsetningu). Líklega er hægt að kalla þetta fyrstu mynd Wolfgang Petersen á ensku. Skondið að hugsa til þess að næsta mynd hans á undan hafi verið Das Boot.

Tónlistin í The NeverEnding Story á góða spretti en aðallega þegar spiluð eru stef úr titillaginu (Limahl og Giorgio Moroder). En það er samt eins og það sé verið stríða áhorfendum því lagið sjálft kemur aldrei. Bömmer.

Maltin er frekar jákvæður og gefur ★★★☆.

Óli er minna jákvæður og gefur ★★★☆☆👍.

Dust Bunny (2025) ★★★★★👍👍

Ung stúlka leitar ásjár nágranna síns vegna þess að það hættulegt skrýmsli undir rúminu hennar. Í bíó núna.

Ég þekki Bryan Fuller aðallega fyrir sjónvarpsþættina Pushing Daisies sem mér þóttu frábærir. En hann hefur líka skrifað Star Trek-þætti og er núna frægastur fyrir Hannibal-þættina (mannætan, ekki fílagaurinn). Þetta er fyrsta kvikmyndin sem hann gerir.

Í aðalhlutverkum Dust Bunny eru Mads Mikkelsen, Sigourney Weaver og Sophie Sloan. Þau eru öll frábær. Þið þekkið ekki Sophie af því hún er ung skosk leikkona sem hefur leikið í fáu en slær alveg í gegn hérna.

Útlitslega minnir Dust Bunny mig sérstaklega á Pushing Daisies en það mætti líkja við þessu blandi af Tim Burton og Wes Anderson.

Markmið Fuller var að gera Amblin mynd. Sumsé, í anda þeirra mynda sem Steven Spielberg framleiddi á níunda áratugnum. Hryllingsmynd fyrir krakka. Þar efst á lista er auðvitað Gremlins og sá húmor er kannski líkastur því sem við fáum í Dust Bunny.

Dust Bunny er því miður bönnuð innan sextán ára. Það er auðvitað persónubundið en ég held að flestir tólf ára krakkar gætu auðveldlega þolað þessa mynd. Það er kannski ágætt að miða við hvernig krakkarnir þoldu Gremlins.

Ég var glaður frá upphafi til enda myndarinnar og hló endalaust. Ég held að Dust Bunny nái að toppa Companion sem besta mynd ársins 2025.

Óli gefur ★★★★★👍👍

Zero Effect (1998) ★★★★☆👍👍

Sherlock Holmes í bland við Fletch reynir að leysa fjárkúgunarmál.

Í The Zero Effect leikur Bill Pullman einkaspæjara sem leysir flóknustu gáturnur í samstarfi við uppgjafalögfræðinginn Ben Stiller. Ryan O’Neal þarf á hjálp þeirra að halda. Kim Dickens og Angela Featherstone leika lykilhlutverk.

Það er óneitanlega gaman að sjá Pullman í fyndnu hlutverki. Hann mæti gera meira af því. Frægasta grínhlutverk hans er auðvitað Spaceballs en mér þykir alltaf vænt um Ruthless People.

Zero Effect er gerð af Jake Kasdan, syni Lawrence Kasdan (Silverado og The Big Chill plús auðvitað handritin að Empire og Raiders). Svo er Lisa Henson, dóttir Jim, framleiðandi.

Í lokin áttaði ég mig skyndilega á því hvað Kasdan hafði gert í Zero Effect. Ég var svo hissa að ég hafi ekki fattað það að ég ætla ekki að segja hvað það er. Allavega hækkaði það einkunn mína. Ef þið eruð ógeðslega spennt getið fundið mig á Letterboxd og valið að sjá umsögnina sem ég skrifaði þrátt fyrir höskuldana sem hún inniheldur.

Kasdan reyndi að gera þáttaröð byggða á myndinni og ég er svolítið spældur að það hafi ekki tekist. Nokkru seinna gerði hann of sjaldan séða mynd sem heitir The TV Set sem fjallar um raunirnar sem fylgja því að reyna að gera sjónvarpsþáttaraðir. Mögulega eru tengsl þar á milli.

Maltin gefur ★★⯪☆.

Óli gefur ★★★★☆👍👍

Nouvelle Vague (2025) ★★★★⯪👍👍

Sönn saga af tilgerðarlegum kvikmyndagagnrýnanda sem dreymir um að verða tilgerðarlegur leikstjóri.

Nouvelle Vague er kvikmynd um gerð kvikmyndar sem ég fílaði svo lítið að ég hef kallað hana Andleysi¹ Godard. Ég geri mér alveg grein fyrir því að À bout de souffle var byltingarkennd. Hún fór aðallega í taugarnar á mér.

Af því það eru ekki allir jafn góðir í frönsku og ég² þá er rétt að nefna að titillinn vísar í frönsku nýbylgjuna. Hópur fransks gáfufólks, oft kvikmyndagagnrýnendur var ekki hrifið af því sem var að gerast í þarlendri kvikmyndagerð og ákvað að gera eitthvað nýtt sjálf.

Þannig að í Nouvelle Vague hittum við fyrir margt af mikilvægasta fólkinu sem kom að frönsku nýbylgjunni. Mér þótti skemmtilegt að persónurnar voru kynntar með skjátexta þó ég hafi stundum gleymt hver væri hvur.

Satt best að segja veit ekki nóg til að segja hverjir tilheyrðu bylgjunni og hverjir ekki. Ég fíla til dæmis Agnès Varda sem var að gera kvikmyndir á þessum tíma en var eiginlega aðeins á undan. Hún kemur líka bara snöggt fyrir í myndinni.

Þegar Jean-Luc Godard fær loksins að gera kvikmynd á eftir öllum vinum sínum er hann mjög meðvitaður um að hafa fallið á Orson Welles prófinu enda nærri þrítugur. Hann virðist ekki þakklátur fyrir tækifærið og nær að pirra alla í kringum sig, sérstaklega bandarísku leikkonuna Jean Seberg³ sem vildi mun frekar vinna með François Truffaut.

Auðvitað veit ég ekki hvað er satt. Ef ég á að trúa Nouvelle Vague þá vissi Jean-Luc Godard alveg hve tilgerðarlegur hann var og mér líkar betur við hann í kjölfarið. Þá skil ég Le Mépris sem meira sjálfsháð en ég gerði mér grein fyrir.

Leikararnir eru frábærir. Sérstakleg Guillaume Marbeck sem Godard og Zoey Deutch sem Seberg. Í heild er Nouvelle Vague alveg einstaklega vel heppnuð og skemmtileg. Ég get ekki sagt að ég hafi kafað í feril Richard Linklater en mér sýnist að þetta sé ný hlið á leikstjóranum.

Óli gefur ★★★★⯪👍👍

¹ Reyndar nota ég Andleysi því fólk sem þekkir hana bara undir enska titlinum Breathless fattar strax hvað ég er að tala um.

² Sumsé, nenna ekki einu sinni að fletta þessu upp eins og ég gerði til að vera alveg viss.

³ Líf Jean Seberg er eiginlega áhugaverðari en þessi kvikmynd. Hún var ofsótt af bandarískum yfirvöldum vegna stuðnings við óæskileg samtök.

Train Dreams (2025) ★★★⯪☆👍

Skógarhöggsmaður þarf að takast á við ýmsar áskoranir í lífinu.

Train Dreams er mynd sem vill vera djúp en tekst það aldrei almennilega. Mér leið ákaflega oft eins og það væri verið að mjólka tár úr mér og það tókst ekki (og það er auðveldara en þið haldið). Myndin er þó vissulega sorgleg og jafnvel falleg.

Nú er ég ekki aðdáandi þess að hafa sögumenn í kvikmyndum og mér fannst það ekki virka í Train Dreams. Sýna en ekki segja er ákveðin klisja en langt frá því að vera ósönn. Ég held að mörg atriði hefðu jafnvel getað verið sterkari ef það væri ekki útskýrt nákvæmlega hvaða tilfinningar maðurinn á skjánum hafi verið að upplifa. Þetta er ákveðin vantrú á áhorfendum.

Joel Edgerton er góður í aðalhlutverkinu, sem og Felicity Jones og Kerry Condon. William H. Macy kemur mjög sterkur inn.

★★★⯪☆👍

Wild At Heart (1990) ★★★★★👍👍🖖

Ungir Elvis-aðdáendur reyna að rækta ást sína í heimi sem elskar þau ekki.

Wild At Heart var mikið gagnrýnd fyrir kynlíf og ofbeldi/ógeð. Sem er gott og gilt. Fólk hefur mismunandi mörk. Ef þið viljið ekki sjá svoleiðis þá er þetta ekki mynd fyrir ykkar.

Ég hafði ekki séð Wild At Heart áður. Ég hef nefnilega mismunandi þol fyrir myndum David Lynch. Lost Highway gerði mig svo fráhverfan honum að ég sá ekki Mulholland Drive fyrren tiltölulega nýlega. Mér fannst hún svo góð að ég gerði mislukkaða tilraun til að horfa á Inland Empire. Ekki fyrir mig.

Kannski er ástæðan fyrir því að ég féll fyrir Wild At Heart sú að af öllum myndum David Lynch minnir hún mig mest á Twin Peaks. Hún var gerð bókstaflega á sama tíma. Svo eru mörg kunnugleg andlit þaðan í myndinni.

Auðvitað á Wild At Heart það sameiginlegt með Twin Peaks að vera framleidd af Propaganda Films, sumsé Sigurjóni Sighvatssyni. Það er erfitt að ýkja hvað það þótti merkilegt að Íslendingur væri að vinna með svona frægum „Hollywood“ leikstjóra.

Tónlistarvalið í myndinni gerði mikið fyrir mig. Það virðist á yfirborðinu vera næstum kaotískt, allt frá Glenn Miller til þungarokks, en það nær allt að þjóna myndinni. Toppurinn er líklega þegar við fáum Elvis-lögin frá Nicolas Cage. Í fyrra laginu nær Lynch að endurskapa Elvis-æði með þungarokksaðdáendur í hlutverki táningsstúlkna sem við (allavega ég) þekkjum úr fréttamyndum þess tíma.

Ættfræði er alltaf skemmtileg. Ég ætla að láta vera að tala um Coppola-fjölskylduna. Við höfum nefnilega mæðgur að leika mæðgur, Diane Ladd (Christmas Vacation) og Laura Dern (Jurassic Park). Ættarnafnið Dern kemur frá leikaranum Bruce Dern (The ‘burbs). Þær tvær passa alveg einstaklega vel inn í mynd sem er full af undarlegustu leikurum Hollywood. Ég meina, Crispin Glover er þarna.

Af öllum krípí Willem DaFoe skúrkum er þessi Willem DaFoe skúrkur mesta krípið. Hann var líka alveg ógurlega ólíkur sjálfum sér. Þið vitið að hann getur leikið tiltölulega indæla menn líka, s.s. í Florida Project. Veit ekki hvort hann var indæll Jesú.

Ég held að mér þyki Wild At Heart betri en Mulholland Drive. Það er eitthvað við hvernig hún blandar saman töfraraunsæi, poppkúltúr og súrealisma.¹

Maltin gefur ★★☆☆ og það er ekki óvænt því hann hefur lágan þröskuld fyrir kynlífi og ógeði. Roger Ebert varð fokvondur þegar Wild At Heart vann gullpálmann í Cannes.

Óli gefur ★★★★★👍👍🖖

¹ Ég held að David Lynch hafi aldrei litið á sig sem súrealista af því hann taldi þá stefnu vera í eðli sínu pólitíska

Judge Dredd (1995) ★★★☆☆👍

Í dystópískri framtíð hefur dómstóll götunnar tekið yfir.

Ég hef enga tengingu við Judge Dredd. Mögulega hef ég kíkt á einhverjar teiknimyndasögur en varla lesið. Ég sá þessa ekki á sínum tíma og sleppti líka endurgerðinni.

Samkvæmt því sem ég hef lesið voru miklar deilur milli Sylvester Stallone og leikstjórans Danny Cannon um tón Judge Dredd. Annar vildi alvarlega hasarmynd og hinn vildi fyndna hasarmynd. Galli myndarinnar er að hún nær engu jafnvægi. Helsti kostur myndarinnar er að hún er ógeðslega fyndin.

Sylvester Stallone veit¹ alveg í hvaða mynd hann vill vera. Hann er á yfirkeyrslu. Um leið og hann byrjaði að tala hló ég. Armand Assante nær næstum að jafna þetta orkustig en aðrar leikarar ná ekki flugi. Sem er líklega gott í tilfelli Rob Schneider sem hefur sjaldan verið jafn þolanlegur.

Ég veit ekki hvort Judge Dredd hefði verið betri ef hún hefði verið alvarleg en ef hún hefði leyft sér að keyra á fáránleikanum væri hennar minnst með meiri hlýju.

Maltin gefur ★★☆☆.

Óli gefur ★★★☆☆👍 en það væri líklega hægt að sannfæra hann um að hækka um svona hálfa stjörnu en aldrei um að hætta að tala um sjálfan sig í þriðju persónu.

¹ Sylvester Stallone er endalaust áhugaverður karakter og þó mér hafi þótt Sly gölluð sem heimildarmynd þá gefur hún ákveðna innsýn í manninn.

My Old Ass (2024) ★★★★⯪👍👍

Kanadísk stúlka sem er að fara að heiman í háskóla fær ráð frá konu sem hefur verið í hennar sporum.

My Old Ass er hugljúf þroskasaga sem náði mér alveg. Aðalhlutverkið er leikið af Maisy Stella sem var víst í þáttunum Nashville (sem ég hef aldrei séð). Hún er frábær og náði að vinna mig á band hennar þrátt fyrir að persónan sé hranaleg við fyrstu sýn. Hún hefur útgeislun kvikmyndastjörnu.

Aubrey Plaza er konan sem reynir að ráðleggja henni. Kerrice Brooks og Maddie Ziegler (úr Fitting In) eru vinkonur hennar. Margot Robbie leikur ekki neitt en framleiddi myndina. Megan Park skrifaði handrit og leikstýrði.

Óli gefur ★★★★⯪👍👍

There Will Be Blood (2007) ★★★★☆👍👍

Þetta er eiginlega eins og Dallas¹ nema að það verður meira blóð en mátti sýna í bandarísku útsendingarsjónvarpi.

Mér finnst Paul Thomas Anderson mistækur. Boogie Nights góð. Magnolia mehh. One Battle After Another gríðarlega ofmetin og ég trúi varla öðru en hún gangi fljótlega í gegnum endurmat. Þannig að ég reyndi bara að vera opinn fyrir There Will Be Blood ... þó ég hafi reyndar einu sinni reynt að horfa á hana áður og gefist upp (en það var á tölvuskjá þannig að það telst ekki með).

There Will Be Blood er mjög góð. Mér þótti hún samt greinilega fyndnari en mörgum í salnum. Mig grunar jafnvel að fólk beri of mikla virðingu fyrir Daniel Day-Lewis til þess að sjá þegar hann er að reyna að vera fyndinn.

Undanfarna daga hefur verið endalaust vitnað í Quentin Tarantino sem finnst Paul Dano vera vonlaus leikari og haft skemmt myndina. Ég er bara ósammála. Mér fannst persónan óþolandi en ég er nokkuð viss um að það hafi verið markmiðið.

Það sem mér fannst kannski helsti gallinn við There Will Be Blood er að undir lokin tekur myndin stökk fram í tímann. Mér leið eins og það vantaði eitthvað. Tilfinningalegt uppgjör sem nær út fyrir tímabilið sem við fylgdumst með.

Maltin gefur ★★★⯪.

Óli gefur ★★★★☆👍👍

¹ Talandi um Dallas. Þó ég hafi ekki séð myndina áður hef ég endalaust heyrt vísanir í þessa mjólkurhristingssögu. Hún minnir mig alltaf á tvöfalda þáttinn „Who Shot Mr. Burns?“² í The Simpsons. Þar stofnar C. Montgomery Burns olíufélag sem borar á ská.

² Sem er vísun í Dallas-þáttinn Who Shot J.R.?