Listmálari fer til að þess að mála aðalskonu á afskekktri eyju nærri Bretaníuskaga í Frakklandi í lok átjándu aldar.
Portrait de la jeune fille en feu er mynd um konur og eftir konu. Céline Sciamma skrifaði handrit og leikstýrði.
Öll aðalhlutverkin eru í höndum kvenna. Af þeim er það Valeria Golino sem ég þekki best enda var hún mjög áberandi á seinni hluta níunda áratugarins og fyrri hluta þess tíunda. Rain Man, Hot Shots myndirnar, Immortal Beloved og svo framvegis. Hinar eru Noémie Merlant, Adèle Haenel og Luàna Bajrami. Þær eru allar frábærar. Ekki mikið meira að segja um það.
Söguþráðurinn er ekki flókinn. Það eru aðstæður, persónur og sambönd sem skipta öllu.
Í gegnum Portrait de la jeune fille en feu er áberandi skortur á einu sem við búumst við að fá í kvikmyndum. Það gerir hins vegar þau fáu atriði sem eru þannig skreytt ennþá öflugri. Sérstaklega í lokin.
Þetta er ótrúlega falleg kvikmynd og endurspeglar að ýmsu leyti málverk. Mörg augnablik eru ekki bara þannig að þú gætir sett þau í ramma og hengt á vegg heldur líta bókstaflega út eins og málverk. Búningarnir eru mjög sannfærandi. Fötin líta ekki bara vel út, þau líta út fyrir að vera gerð til þess að nota þau.
Ef ég færi alveg ógurlega sparlega með fimm stjörnu dóma, sumsé ef ég væri að leita að myndum sem nálgast fullkomnun, myndi Portrait de la jeune fille en feu samt fá þær allar. Ein besta mynd sem ég hef séð.
★★★★★