Þegar ég átti ekki rafbókalesara í lit leitaði ég uppi svarthvítar teiknimyndasögur sem virkuðu vel á rafbleksskjá. Ein af þeim sem ég fann var Scott Pilgrim serían eftir Bryan Lee O’Malley. Mér líkaði hún. Þetta var samt 2013, eftir að myndin var komin út. Hún fór alveg framhjá mér, eins og flestum.
Ég féll ekki strax fyrir Edgar Wright. Almennt er ég lítið fyrir uppvakninga þannig að ég elti ekki upp Shaun of the Dead. Ég held að ég hafi bara endað að horfa óvart á Hot Fuzz í sjónvarpinu og mér þótti hún fyndin.
Síðustu fimmtán ár eða svo höfum við verið umkringd meintum teiknimyndasögumyndum. En þær afneita flestar uppruna sínum.¹ Hetjurnar fá ekki að klæðast búningunum sínum af því þeir eru hallærislegir og það þykir fáránlegt að setja grímur á alla þessu frægu leikara. Andlitin þurfa að sjást.
Auðvitað á þetta fyrst og fremst um Disney-Marvel (MCU). Mér leiðast flestar þessara mynda og ég nenni alls ekki að horfa á þær leiðinlegu til að átta mig á sögunni í þeim boðlegu.
Scott Pilgrim fer öfuga leið. Myndin fagnar uppruna sínum. Hún keyrir þetta jafnvel upp í ellefu. Sérstaklega fær allt sem varðar tölvuleiki að njóta sín. Þetta var flott á blaðsíðunni en það virkar jafnvel betur lifandi og í lit.
Það er fyndið að Ramona hefur það höfuðeinkenni að hún breyttir reglulega um hárlit af því það er ákaflega erfitt að sýna slíkt með svörtu og hvítu en það tókst samt einhvern veginn. Það fær samt að njóta sín á skjánum (tjaldinu).
Þó myndin noti liti vel og skemmtilega er Edgar nógu klár að nota upprunalega efnið þegar það hentar atriðinum. Hann endurskapar ramma með mjög sterkri notkun á svörtum lit. Hann fjarlægir ekki alveg aðra liti en svartur er í aðalhlutverki.
Tónlist leikur lykilhlutverk í teiknimyndasögunni og ég ímynda mér að það hafi kannski verið erfiðasta verkefnið þegar kom að gerð myndarinnar. Á blaðsíðunni er tónlistin táknuð myndrænt. Það tókst samt. Allt í anda sögunnar, og tímans…
Það er líka eitthvað sem myndin og teiknimyndasagan ná að grípa, andi þessa tímabils, um og uppúr aldamót.
Söguþráðurinn og persóna Scott Pilgrim nær einhvern veginn að vera sönn þrátt fyrir að vera ýkt og umgjörðin óraunveruleg. Ást og sorg. Þegar við kynnumst honum þorir hann varla að vera til og er um leið blindur á það hvernig hann kemur fram við fólk. En hann lærir.
Það er varla að ég muni eftir kvikmynd sem nær að velja leikara með meiri tryggð við frummyndirnar. Ekki nóg með að allir passi í hlutverkin heldur er þetta fólk sem hefur náð frægð og frama í millitíðinni. O’Malley fékk víst að segja álit sitt á leikaravalinu og það virðist hafa hjálpað.
Jason Schwartzman og Michael Cera voru líklega frægustu leikararnir. Aðrir sem höfðu notað frægðar voru frekar á niðurleið en upp. Chris Evans (kapteinn Ameríka), Kieran Culkin (Óskarinn um daginn), Mary Elizabeth Winstead (margt), Brie Larson (kapteinn Marvel og Community), Aubrey Plaza (Parks & Rec og *hóst* Meglapolis) Alison Pill (fullt af dóti) slær saman kjuðunum og öskrar Sex Bob-Omb!, Brandon Routh (Súpermann og Atómið) er skemmtilegur sem sjálfumglaður skúrkur, Anna Kendrick (enn fleira), Mae Whitman (Arrested Development) og Ellen Wong² (GLOW) sem Knives er svoltið uppáhalds.
Frá því um mitt síðasta ár hef ég verið að vinna mig í gegnum gamla þætti af hlaðvarpinu Doug Loves Movies. Aðdáun Doug Benson á myndinni þýðir að bæði Edgar Wright og margir leikararnir hafa komið fram sem gestir. Það leiddi til eftirminnilegs atviks þar sem Leonard Maltin var að keppa í leik sem er kenndur við hann og Chris Evans skoraði á hann með orðunum „Name it, bitch“.
Það er ekki orðaforði sem heyrist oft í kringum Maltin.
Ég elska þessa mynd meira í hvert skipti sem ég horfi á hana. Það sama gildir um teiknimyndasögurnar. Þetta er ein uppáhaldsmynd mín frá þessari öld, önnur af tveimur myndum Edgar Wright sem eru á þeim lista. Hin er auðvitað Baby Driver.
Mér hefur tekist að smita Gunnstein og við fórum saman í Bíó Paradís. Hann hefur líka lesið sögurnar og er jafnvel hrifnari af Baby Driver.
Það var gerð teiknimyndasería um Scott Pilgrim árið 2023 og það segir sitt að eiginlega allt fræga fólkið var tilbúið að vera aftur með. Mæli alveg með henni líka.
Maltin gefur ★★½ sem er alltof lítið en honum líkt.
¹ Undantekningar eru til, s.s. Deadpool og Spiderverse myndirnar.
² Knives á að vera of ung fyrir Scott en Ellen er þremur árum eldri en Michael Cera.