Ex Machina (2014) 👍 {79-58-ø-ø}

Forritari (Domhnall Gleeson) fær óvænt boð frá yfirmanni sínum Oscar Isaac að koma í einangraða villu sína. Það kemur í ljós að hann á að skoða og gefa álit sitt á gervigreindarvélmenni (Alicia Vikander).

Rétt að taka fram að þetta er ekki gervigreind í þeim skilningi sem hugtakið hefur verið notað í markaðsetningarskyni undanfarin ár. Hér er gervigreind grundvölluð af meðvitund og þekkingu á eigin eðli. Myndin notar líkinguna við skáktölvu. Þú getur teflt við hana en hún skilur ekki að hún sé að tefla. Á sama hátt og ChatGPT skilur í raun ekki hvað það þýðir þegar það biðst afsökunar á mistökum sínum. Eftirlíking af meðvitund og skilningi.

Þema myndarinnar verður ljóst þegar lagið Enola Gay með Orchestral Manoeuvres in the Dark hljómar í bakgrunninum.

Hún fellur sumsé frekar í flokk vísindaskáldskaps sem telur gervigreindina mögulega hættulega. Það er ótrúlega útbreidd trú innan gervigreindarbransans. Auðvitað er raunverulega hættan af ChatGPT’um okkar tíma á að fólk sem ekki skilur hvernig þessar giskvélar virka noti þær til að stjórna mikilvægum innviðum.

Það sem stendur upp úr að Alicia Vikander er ótrúlega sannfærandi þá hún sé lengst af bara andlit á vélmennabúki. Þvílík frammistaða undir þessum takmörkunum.

Stór plús fyrir skot á njósnir tæknifyrirtækja á almenning á tíma þar sem margir voru enn í afneitun.

Novocaine (2025)👍
{78-57-48-22}

Titilpersónan okkar finnur ekki fyrir sársauka og lifir því vernduðu lífi. Hann fellur fyrir lægra settum starfsmanni og talar ekki einu sinni við mannauðsstjórann. Síðan koma bankaræningjar og ræna ástinni hans. Hann ákveður að taka lögin í sínar hendur.

Ég hafði áhyggjur af því að fyndnustu atriði myndarinnar væru í sýnishorninu sem við höfum séð ítrekað. Svo var ekki. Hún er fyndin í gegn. Það var samt full mikið ofbeldi í myndinni. Frekar óþarft og aðallega til að sýna hve mikill skíthæll bófastjórinn sé. Auglýsingar gera reyndar ljóst að það megi búast við ofbeldi og blóði.

Þetta er gott ár hjá Jack Quaid (sonur Dennis og Meg Ryan). Hann lék nefnilega líka í bestu mynd ársins (til þessa), Companion.

Ótengd Steve Martin myndinni.

Hot Fuzz (2007) 👍
{77-ø-ø-ø}

Í lok myndarinnar er orðið „fuzz“ notað og þegar ég útskýrði fyrir Gunnsteini að þetta væri slangur fyrir löggu ferðaðist ég aftur í tímann í Menntaskólann á Akureyri þar sem Örn Þór sagði okkur í fyrsta bekk nákvæmlega þetta.

Hvernig þýðir maður cornetto? Ís í vöfflu en ekki beint úr vélinni heldur frystinum. Allavega er þetta önnur myndin í Cornetto-þríleiknum hans Edgar Wright. Sú fyrsta var Shaun of Dead og hér snúa Simon Pegg og Nick Frost aftur í nýjum hlutverkum.

Lögga sem gerir allt eftir bókinni er svo óvinsæll meðal yfir- og samstarfsmanna að hann er sendur í kyrrlát þorp út á landi. En ekki er allt sem sýnist.

Stundum finnst mér gaman að endurskapa andlausar lýsingar á kvikmyndum sem birtust með dagskrá sjónvarps í dagblöðum hér áður fyrr.

Myndin sameinar og gerir grín að lögguvinamyndum sem voru vinsælar á níunda og tíunda áratugnum og hugljúfum enskum þorpsmorðgátuþáttum sem við þekkjum flest.

Þetta var myndin þar sem ég féll fyrir Edgar Wright. Ég held að hún sé ekki jafn góð og Shaun og alls ekki jafn góð og Baby Driver eða Scott Pilgrim. En hún er fyndin í gegn. Þó er ég að þessu sinni sammála Maltin um að það hefði mátt skera svolítið niður, sérstaklega í lokauppgjörinu.

Gunnsteinn sýndi engin viðbrögð við því að nágrannavarslan var ítrekað kölluð N.W.A. þannig að ég hef greinilega brugðist í rapptónlistaruppeldi.

Myndin er uppfull af leikurum. Marga sem við þekkjum mörg. Olivia Colman, Timothy Dalton, Jim Broadbent, Bill Nighy, Bill Bailey, Steve Coogan, Martin Freeman og Paul Freeman (ekki skyldir). Mér sýndist Cate Blanchett vera þarna og það var rétt hjá mér en hún er illþekkjanlegt. Peter Jackson fór alveg framhjá mér í hlutverki jólasveins. Svo var skemmtilegt að sjá illþekkjanlegan Íslandsvininn Rory McCann.

Maltin gefur ★★ sem er innan skekkjumarka hvað hann varðar.

Brats (2024) 🫳
{76-56-47-ø}

Um miðjan níunda áratuginn ákvað blaðamaðurinn David Blume að kalla hóp ungra leikara í Hollywood „The Brat Pack“ (vísun í hópinn í kringum Frank Sinatra – The Rat Pack). Nafnið fór á flug og er enn notað.

Það er reyndar erfitt að vita hverjir tilheyra þessum hóp. Þrönga skilgreiningin er a miða við leikarana í hinni mjög svo óeftirminnilegu mynd St. Elmo’s Fire. Emilio Estevez, Rob Lowe, Andrew McCarthy, Demi Moore, Judd Nelson og Ally Sheedy. En oft er bætt við fullt af leikurum, sérstaklega þeim sem tengdust myndum John Hughes.

Nærri fjörutíu árum seinna rifjar Andrew McCarthy upp þessa lífsreynslu í heimildarmyndinni Brats og tekur viðtöl við aðra sem fengu þennan stimpil á sig. Í myndinni fáum við að heyra að flestir eru sammála um að þeim þótti þetta niðrandi. Sér í lagi fannst þeim lítið gert úr leikhæfileikum þeirra með stimplinum.

Sem heimildarmynd er þetta ekki sérstaklega vel unnið. Of mikið af Andrew McCarthy að keyra um. Of mikið að tala um fólkið sem hann er að reyna að fá til að taka þátt. Hefði getað verið hálftíma styttra.

Ally en sérstaklega Demi eru góðar. Emilio er sárastur og mig grunar að það sé vegna þess að það var hann sem treysti blaðamanninum til að hanga með sér og hinum leikurunum.

Dægurmenningarsérfræðingar bæta litlu við myndinni. Kannski er hjálplegt fyrir yngri kynslóðir að koma með samhengi en hefði verið hægt að afgreiða það betur. Malcolm Gladwell kemur inn en er innihaldsrýr og bakkar með eina punktinn sinn.

Dramatískur hápunkturinn er þegar Andrew McCarthy hittir blaðamaninn David Blume. Ég var ekki að fíla það. Annars þótti Blume líka vera sérstaklega mikill leiðindagaur. Held að það hafi ekki verið bara hvernig honum var stillt upp.

Bleh.

The Peanut Butter Falcon (2019) 👍
{75-55-ø-ø}

Ungur maður með Downs er settur á elliheimili af því að önnur úrræði skortir. Hann er ekki sáttur og leggur af stað í ævintýraferð í leit að glímuskóla.

Ég er á mörkunum með þessa mynd. Hún er á köflum væmin. En ekki óhóflega, sérstaklega ekki miðað við þessa tegund af mynd.

Það sem gerir mig jákvæðan er að hún fékk mig reglulega til að hlæja og vakti raunverulega samúð með persónunum. Ég studdi þau í fáránleika myndarinnar.

Merkilegt nokk þá hefur Leonard Maltin skrifað um myndina þó hún sé ekki í handbókinni. Við erum greinilega nokkuð sammála:

Another Summer Sleeper

Það var annars Doug Benson (Doug Loves Movies hlaðvarpið) sem ýtti mér til að sjá þessa mynd.

Interstellar (2014)👎
{74-54-ø-22}

Það er alveg ástæða fyrir því að ég hef látið þessa mynd vera til þessa. Ég hef aldrei verið sérstaklega hrifinn af Christopher Nolan, allavega ekki miðað við fólk almennt, og ég hef takmarkað þol fyrir Matthew McConaughey. Fínn í True Detective. Annars svolítið eins og Nicolas Cage ef Cage væri alltaf fastur á sömu nótunni.

Tíu ára gömul mynd. Höskuldar framundan.

Ég bjóst ekki við miklu en ég bjóst við meiru. Það er eins og Nolan hafi séð 2001 og hugsað með sér að sú mynd hefði verið betri ef endirinn hefði verið útskýrður í þaula með vísindaskáldskap og svo troðið inn „lifðu hamingjusöm til æviloka“.

Myndin byrjaði að pirra mig strax með sífelldum endurtekningum um að jörðin vildi losna við mannfólkið og við ættum að koma okkur af jörðinni. Sem er ekki frábært þegar við upplifum þá tíma að við ættum að vera að einbeita okkur að takast á við vandamálin okkar. Voðalega Elon Muskískur boðskapur.

Eðlisfræðin í myndinni á víst að vera voðalega flott. Samt virðist enginn vísindamaður í myndinni skilja eða vita neitt. Það er hvergi vit að finna í neinum plönum. Það verður jafnvel verra þegar við skiljum plottið á bak við plottið. Djöfull er það þunnt og vitlaust.

Myndin er samt best þegar hún leyfir sér að vera spennumynd.

Þegar myndin byrjar að nálgast endalokin, sem tekur óbærilega langan tíma, hverfur eðlisfræðin og í stað kemur þvæla um að mannfólkið þróist upp í fimmvíddarverur. Arg.

Ef myndin hefði endað í svartholinu, allavega fyrir geimfarann, hefði ég verið sáttari. En myndin þarf að enda fallega og þá fer þvælan í botn. Gaurinn lifir af svartholið og myndin er teygð og teygð.

Síðan þarf myndin að enda fallega. Gaurinn lifir af svartholið. Og tónlistin gerir reynir að sannfæra okkur um að það skipti ekki máli hve vitlaust þetta sé og að við ættum bara að leyfa Nolan að mjólka tilfinningar okkar. Mögulega missti ég af einhverju því ég gat ekki hætt að ranghvolfa augunum.

Það er erfitt að hætta að bera myndina saman við 2001. Kannski sérstaklega fyrir mig þar sem ég sá þá mynd í þessum sama bíósal í fyrra. Það er ekkert í Interstellar sem nálgast glæsileika 2001.

Nolan hefði aldrei haft hugrekki til að troða kosmísku fóstri út í geiminn án útskýringa.

It Happened One Night (1934) 🫴
{73-53-ø-ø}

Dóttur ríks manns giftist auðnuleysingja í óþökk föður síns og leggur í ferð til að koma í veg fyrir að hjónabandið verði ógilt. Hún kynnist blaðamanni sem hjálpar henni og …

Mér finnst ég varla geta gefið þessari mynd einkunn. Mér leið eins og ég hafi séð hana hundrað sinnum áður. Það er vegna þess að það er vísað í hana í ótal myndum og atriði jafnvel endursköpuð (sérstaklega áberandi með Spaceballs). Sem þýðir að hún er vissulega áhrifamikil.

Ég hló varla en það er ekki eins og myndin hafi verið léleg. Kannski hefði ég hlegið ef ég hefði verið rétt stemmdur. Líklega er ég ekki sérstaklega hrifinn af þessum skrúfboltagamanmyndum.

Það hefði mátt sleppa atriðinu þar sem Clark Gable talar um að það þyrfti að löðrunga þessa konu einu sinni á dag hvort sem hún ætti það skilið eða ekki. Kannski var hann bara að segja alveg rosalega fyndinn „brandara“. Ekki eina dæmið um kvenfyrirlitningu en líklega það versta.

Titillinn er villandi. Þetta tók alveg nokkra daga og nætur. Ekki að myndin hafi verið of löng.

Ég ætla að giska að Maltin gefi fjórar stjörnur en best að tékka.

Maltin gefur ★★★★ sem er honum líkt. Hann segir að myndin hafi ekkert elst en honum til varnar þá er þetta úr síðustu útgáfunni af kvikmyndahandbókinni sem kom út fyrir rúmum áratug.

Scott Pilgrim vs. the World (2010) 👍👍
{72-ø-ø-21}

Þegar ég átti ekki rafbókalesara í lit leitaði ég uppi svarthvítar teiknimyndasögur sem virkuðu vel á rafbleksskjá. Ein af þeim sem ég fann var Scott Pilgrim serían eftir Bryan Lee O’Malley. Mér líkaði hún. Þetta var samt 2013, eftir að myndin var komin út. Hún fór alveg framhjá mér, eins og flestum.

Ég féll ekki strax fyrir Edgar Wright. Almennt er ég lítið fyrir uppvakninga þannig að ég elti ekki upp Shaun of the Dead. Ég held að ég hafi bara endað að horfa óvart á Hot Fuzz í sjónvarpinu og mér þótti hún fyndin.

Síðustu fimmtán ár eða svo höfum við verið umkringd meintum teiknimyndasögumyndum. En þær afneita flestar uppruna sínum.¹ Hetjurnar fá ekki að klæðast búningunum sínum af því þeir eru hallærislegir og það þykir fáránlegt að setja grímur á alla þessu frægu leikara. Andlitin þurfa að sjást.

Auðvitað á þetta fyrst og fremst um Disney-Marvel (MCU). Mér leiðast flestar þessara mynda og ég nenni alls ekki að horfa á þær leiðinlegu til að átta mig á sögunni í þeim boðlegu.

Scott Pilgrim fer öfuga leið. Myndin fagnar uppruna sínum. Hún keyrir þetta jafnvel upp í ellefu. Sérstaklega fær allt sem varðar tölvuleiki að njóta sín. Þetta var flott á blaðsíðunni en það virkar jafnvel betur lifandi og í lit.

Það er fyndið að Ramona hefur það höfuðeinkenni að hún breyttir reglulega um hárlit af því það er ákaflega erfitt að sýna slíkt með svörtu og hvítu en það tókst samt einhvern veginn. Það fær samt að njóta sín á skjánum (tjaldinu).

Þó myndin noti liti vel og skemmtilega er Edgar nógu klár að nota upprunalega efnið þegar það hentar atriðinum. Hann endurskapar ramma með mjög sterkri notkun á svörtum lit. Hann fjarlægir ekki alveg aðra liti en svartur er í aðalhlutverki.

Tónlist leikur lykilhlutverk í teiknimyndasögunni og ég ímynda mér að það hafi kannski verið erfiðasta verkefnið þegar kom að gerð myndarinnar. Á blaðsíðunni er tónlistin táknuð myndrænt. Það tókst samt. Allt í anda sögunnar, og tímans…

Það er líka eitthvað sem myndin og teiknimyndasagan ná að grípa, andi þessa tímabils, um og uppúr aldamót.

Söguþráðurinn og persóna Scott Pilgrim nær einhvern veginn að vera sönn þrátt fyrir að vera ýkt og umgjörðin óraunveruleg. Ást og sorg. Þegar við kynnumst honum þorir hann varla að vera til og er um leið blindur á það hvernig hann kemur fram við fólk. En hann lærir.

Það er varla að ég muni eftir kvikmynd sem nær að velja leikara með meiri tryggð við frummyndirnar. Ekki nóg með að allir passi í hlutverkin heldur er þetta fólk sem hefur náð frægð og frama í millitíðinni. O’Malley fékk víst að segja álit sitt á leikaravalinu og það virðist hafa hjálpað.

Jason Schwartzman og Michael Cera voru líklega frægustu leikararnir. Aðrir sem höfðu notað frægðar voru frekar á niðurleið en upp. Chris Evans (kapteinn Ameríka), Kieran Culkin (Óskarinn um daginn), Mary Elizabeth Winstead (margt), Brie Larson (kapteinn Marvel og Community), Aubrey Plaza (Parks & Rec og *hóst* Meglapolis) Alison Pill (fullt af dóti) slær saman kjuðunum og öskrar Sex Bob-Omb!, Brandon Routh (Súpermann og Atómið) er skemmtilegur sem sjálfumglaður skúrkur, Anna Kendrick (enn fleira), Mae Whitman (Arrested Development) og Ellen Wong² (GLOW) sem Knives er svoltið uppáhalds.

Frá því um mitt síðasta ár hef ég verið að vinna mig í gegnum gamla þætti af hlaðvarpinu Doug Loves Movies. Aðdáun Doug Benson á myndinni þýðir að bæði Edgar Wright og margir leikararnir hafa komið fram sem gestir. Það leiddi til eftirminnilegs atviks þar sem Leonard Maltin var að keppa í leik sem er kenndur við hann og Chris Evans skoraði á hann með orðunum „Name it, bitch“.

Það er ekki orðaforði sem heyrist oft í kringum Maltin.

Ég elska þessa mynd meira í hvert skipti sem ég horfi á hana. Það sama gildir um teiknimyndasögurnar. Þetta er ein uppáhaldsmynd mín frá þessari öld, önnur af tveimur myndum Edgar Wright sem eru á þeim lista. Hin er auðvitað Baby Driver.

Mér hefur tekist að smita Gunnstein og við fórum saman í Bíó Paradís. Hann hefur líka lesið sögurnar og er jafnvel hrifnari af Baby Driver.

Það var gerð teiknimyndasería um Scott Pilgrim árið 2023 og það segir sitt að eiginlega allt fræga fólkið var tilbúið að vera aftur með. Mæli alveg með henni líka.

Maltin gefur ★★½ sem er alltof lítið en honum líkt.


¹ Undantekningar eru til, s.s. Deadpool og Spiderverse myndirnar.

² Knives á að vera of ung fyrir Scott en Ellen er þremur árum eldri en Michael Cera.

Labyrinth (1986)🫴
{71-ø-ø-ø}

Unglingstúlka er þreytt á bróður sínum en iðrast þess samt að hafa beðið David Bowie um að hirða hann og leggur í hetjuför til að endurheimta krakkann.

Kannski er þetta ekki ein af uppáhaldsmyndum Eyglóar en hafði mikil áhrif á hana á sínum tíma. Ingimar hefur verið spenntur að sjá honum síðan við sáum heimildarmyndina um Jim Henson. Gunnsteini fannst myndin greinilega mjög fyndin.

Sjálfur hef ég alltaf verið frekar efins um myndina. Hún er mjög flott. Oft fyndin. Brúðurnar eru stórskemmtilegar og margar brellurnar líka. Það eru líklega helst tölvubrellurnar sem hafa elst illa. Kannski að George Lucas (framleiðandi myndarinnar) geti tekið að sér að laga þær? Hann hefur ekkert betra að gera þessa daganna.

Jennifer Connelly var ekki orðin fimmtán ára þegar tökur hófust og hún virkar ekkert sérstaklega vel í þessu hlutverki. Mig grunar að erfiðar aðstæður við tökur og ruglingsleg umgjörð hafi ekki hjálpað. Hún er líklega á skjánum í 90-95% tímans þannig að það mæðir full mikið á henni.

Samt er ég ekkert mikið hrifnari af David Bowie í sínu hlutverki. Merkilegt nokk þá eru það tónlistaratriðin sem virka ekki fyrir mig. Lögin eru bara ekki sérstaklega góð eða eftirminnileg. Kannski er til fólk sem syngur alltaf með en ég tengi ekkert við þau.

Hefði þessi mynd verið betri ef manneskjurnar hefðu líka verið brúður?

Handritið er þunnt. Samið af Terry Jones (Monty Python) og, skv. Wikipediu, ýmsum öðrum (þ.á.m. George Lucas).

Það er fleira fólk sem þið þekkið í myndinni en þið gætuð haldið. Margir úr Prúðuleikurunum, s.s. Frank Oz, Dave Goelz og Steve Whitmire. Kenny Baker og Warwick Davis (jafnaldri Jennifer) nýta smæð sína til að klæðast búningum. Síðan vann Gates McFadden á bak við tjöldin við danshönnun. Mig rámar í að hún hafi átt að leika stjúpuna en ekki fengið vinnuleyfi í Bretlandi sem leikari. Brian Henson var líka að vinna með brúðurnar (rétt áður eða eftir að hann var með Audrey II fyrir Frank Oz í Little Shop of Horrors).

Þetta er ekki slæm mynd en ég er alltaf mikið hrifnari af öllum Prúðuleikaramyndunum.

Maltin gefur ★★★ sem mér finnst örlátt.

Predestination (2014) 👍
{70-52-ø-ø}

Það er erfitt að segja nokkuð meira en að Predestination fjallar um tímaferðalög. Fyrirfram hefði ég búist við meiri hasar en skortur á slíku er ekki galli að mínu mati.

Sarah Snook og Ethan Hawke eru í aðalhluverki. Margir kannast við hana úr Succession þáttunum (sem ég höndla ekki vegna þess að ég hata allar persónurnar) en hún lék líka í einni uppáhaldsmyndinni minn frá því í fyrra, Memoir of a Snail.

Myndin byggir á sögu eftir Robert A. Heinlein frá árinu 1959. Ég hef aldrei lesið neitt eftir Heinlein, svo ég viti, en hann var einn af uppáhaldsrithöfundum George R. R. Martin¹ í æsku. Ég ætti að kíkja á eitthvað eftir hann. Mig grunar að þessi saga hafi haft töluverð áhrif á tímaferðalagsbókmenntir og kvikmyndir frá seinnihluta síðustu aldar og til nútímans.

Kvikmyndin kemur inn á svið sem er nátengt okkar tíma en tekur ekki afstöðu á okkar forsendum.

Í heild var ég mjög hrifinn af myndinni. Ég er hrifinn af tímaferðalagsmyndum en vill að þær gangi upp. Þessi virðist gera það – allavega innan eigin forsendna.

Þetta er svona mynd þar sem mig grunar að einkunnin gæti hækkað ef ég sæi hana aftur. Mögulega lækkað.

Ég held að ég hafi heyrt minnst á þessa í Doug Loves Movies hlaðvarpinu.

¹ George R. R. Martin sýndi myndina í bíóinu sínu og þótti hún frábær og trú upprunalegu sögunni þó honum hafi ekki þótt titillinn góður. Hann viðurkenndi samt að All You Zombies væri frekar óþægilegur titill.

But like many of his contemporaries, Heinlein did some of his best work at shorter lengths.

„All You Zombies“ is one of those classic short stories. Like time travel yarns? Time paradoxes? „All You Zombies“ was… is… will remain THE last word on all those subjects. And now, improbably, it has been made into a movie.

[…]

Must admit, I don’t much like the title. I can see why they changed it — „All You Zombies“ would have had people thinking it was a George Romero picture or a WALKING DEAD ripoff, when actually the use of ‘zombie’ is entirely metaphorical — but I wish they would have changed it to something a bit catchier.#

Saw PREDESTINATION at the Cocteau on opening night, and thought it was terrific… and very faithful to the Heinlein story.  Ethan Hawke was very good, and Sarah Snook was great.  This one will be on my Hugo nominations ballot, for sure.  See it at the Cocteau if you’re in Santa Fe, or at your own favorite movie palace if you’re not, but see it… especially if you like time travel, SF, and RAH.#