Poor Things (2023)👍👍
{109-84-53-ø}

Þetta er einskonar Frankenstein. Hryllingur, vísindaskáldskapur, grín, gufupönk og töfraraunsæi. Skrýtin en góð skrýtin. Ekki fyrir alla (varla einu sinni flesta).

Ég hef bara séð The Favourite af myndum Yorgos Lanthimos og var ekki jafn hrifinn og margir. Ég hafði ekkert á móti henni, alveg einn þumall upp en ekki mikið meira en það. Það var eitt og sér ekki sérstakur hvati til þess að sjá Poor Things.

En í dag var ég að vinna á bak við tjöldin í Menningarsmyglinu hans Ásgeirs (framtíðarvarðveisla) og rakst á það sem hann skrifaði um Poor Things (og Barbie) þannig að ég ákvað að horfa á hana til þess að geta lesið greinina óhræddur við höskulda (það var alltaf stigsmunur á okkur varðandi þol fyrir slíku).

Poor Things er greinilega undir áhrifum Frankenstein en er í grunninn að afbyggja viðkvæma og eitraða karlmennsku. Munið, það að sýna okkur til að horfa á hlutina frá nýju sjónarhorni er ekki árás.

Myndin er óþægileg til að byrja með. Líklega er sá hluti of fráhrindandi fyrir marga en mér fannst húmorinn vega upp á móti. Þetta er nefnilega ótrúlega fyndin mynd.

Poor Things er líka bara flott. Það kemur alveg sérstaklega vel út að blanda fagurfræði gufupönks saman við töfraraunsæi (eða bara ævintýri).

Emma Stone er sérstaklega frábær. Willem Dafoe og Mark Ruffalo eru upp á sitt besta. Kathryn Hunter fær ekki mikið pláss en er eftirminnileg. Ramy Youssef er líklega með vanþakklátasta hlutverkið en er bráðnauðsynlegur sem „eðlilegi gaurinn“ til að landa bröndurum.

Nekt og kynlíf gæti fælt fólk frá og á köflum er það alveg sérstaklega og viljandi óþægilegt.

Small Soldiers (1998)👍👍
{108-83-ø-ø}

Tækni fyrir vopn er notuð í leikfangaframleiðslu og strákur þarf að takast á við herskáa tindáta (plastdáta). Blanda af tölvuteiknimynd, stopphreyfingu og lifandi myndum.

Ég er yfirlýstur aðdáandi Joe Dante en þegar auglýsingar fóru að birtast fyrir myndina Small Soldiers varð ég hissa og hræddur, mjög hræddur. Hún leit skelfilega út. Einhver undarleg eftiröpun á Toy Story? Hvað er málið Joe?

Flestir gagnrýnendur virtust vera á sama máli (Maltin gaf þó tvær og hálfa sem er meira en ég bjóst við) en ég mæli alveg með því að lesa það sem Jonathan Rosenbaum hafði að segja um myndina.

Við þurfum að lokum að horfast í augu við óttann þannig að ég ákvað að horfa loksins á Small Soldiers. Tók bara rúmlega aldarfjórðung.

Það komu fljótlega nokkrir góðir brandarar. Þannig að ég hugsaði með mér að þetta yrði allavega ekki skelfilegt. Síðan urðu brandararnir bara fyndnari.

Þetta er stórkostleg mynd. Hjálpaði það að væntingarnar voru lágar? Kannski en ég held að það skýri ekki hlátursköstin sem ég fékk yfir henni.

Small Soldiers er augljósasta ádeilumynd Joe Dante og auðvitað er hún að gera grín að öllu sem hún virðist vera á yfirborðinu.

Reyndar var það leikfangaframleiðslan sem greip mig fyrst. Það var verið að nota alvöru þrívíddarprentara (plús tæknibrellur). Þessi tækni er nefnilega gömul en fór ekki á flug fyrren einkaleyfi runnu út.

Tónlistin er frá Jerry Goldsmith sem samdi fyrir flestar myndir Dante með hann lifði. Inn í tónlistina hans er blandað saman vísunum í ýmislegt, s.s. Transformers (teiknimyndaseríuna). Þar að auki koma fyrir vel valin popp- og rokklög.

Leikaraliðið er ótrúlegt. Engar ýkjur. Foringi vondu leikfanganna hefur rödd Tommy Lee Jones og góði foringinn er Frank Langella. Við það bætast margir (þálifandi) úr Dirty Dozen og This is Spinal Tap. Síðan eru Christina Ricci og Sarah Michelle Geller með sem dúkkur.

Leikararnir sem við sjáum eru Gregory Smith (sem ég hef varla séð í neinu öðru en er fínn), David Cross (sem gæti verið launsonur eins fastaleikara Dante), Kirsten Dunst (sem er stórkostleg hérna), Phil Hartman (myndin er tileinkuð minningu hans), Ann Magnuson (hetjumamma) og Kevin Dunn (þið hafið líklega séð hann víða).

Síðan eru fastaleikarar hans Dante: Dick Miller, Wendy Schall og Robert Picardo (launfaðir David Cross). Síðan sjáum við líka frú Futterman (Jackie Joseph sem lék í upprunalegu The Little Shop of Horrors) örsnöggt upp í rúmi með Rance Howard (pabba Ron og Clint og afi Bryce Dallas Howard).

Dirty Dozen leikarar:

  • Ernest Borgnine(!)
  • Jim Brown
  • Bruce Dern (hálfgerður fastleikari Dante)
  • George Kennedy
  • Clint Walker

Spinal Tap meðlimir:

  • Christopher Guest
  • Michael McKean
  • Harry Shearer

The Ox-Bow Incident (1943)👍👍🖖
{107-82-ø-ø}

Myndin gerist árið 1885 í Villta vestrinu. Lögreglustjóri lítils bæjar er fjarverandi þegar fréttir berast um að bóndi í grenndinni hafi verið myrtur. Bæjarbúar hafa engin umsvif en vilja leita morðingjann uppi og taka hann af lífi án dóms og laga.[#]

Ég valdi að horfa á The Ox-Bow Incident af einfaldri ástæðu. Á yfirliti mínu yfir kvikmyndir sem ég hef séð er að minnsta kosti ein frá hverju ári frá 1930 til dagsins í dag. Nema 1943 og 1945. Það eru ekki margar frábærar myndir frá þessum árum (hvað ætli valdi?) en ég fann þessa á lista Maltin yfir hundrað myndir frá tuttugustu öldinni sem þú (hann nefnir þig persónulega) þarft að sjá. Núna er ég kominn með sextíu og átta af þeim.

Réttlæti, samviska, múgræði, lög og regla.

Söguþráðurinn er frekar fyrirsjáanlegur. Leikurinn er á köflum stífur og síns tíma. Þetta er eitthvað sem myndi gera margar myndir gjörsamlega óáhugaverðar en hérna skiptir það nær engu máli. Myndin er sígild.

Það eru margir ákaflega góðir leikarar hérna. Henry Fonda, Harry Davenport og Dan Andrews er með stærstu hlutverkin. Síðan er Harry Morgan í leikarahópnum þó ég hafi ekki þekkt hann strax. Ég man aðallega eftir honum úr Dragnet (1987) þar sem hann lék sömu persónu og í upprunalegu sjónvarpsþáttunum.

Anthony Quinn leikur mexíkanskan mann (ef þið vitið ekki þá var Quinn Mexíkani en lék oft persónur af öðrum uppruna) og nær að vera áberandi svalur. Þessi utan eru bæði hvít kona og svartur maður hluti af leitarhópnum. Mér skilst að kvikmyndin sé þar með formlega séð „Woke“.

Ekki nema 77 mínútur og það dugar.

Leonard Maltin gefur ★★★★ sem ég er mjög sáttur við.

God Bless America (2012)🫳
{106-81-ø-ø}

Hvað ef þú myndir bara myrða andstyggilega fólkið? Raunveruleikasjónvarpsdómara? Haturspredikara?

Mér líkar við Bob(cat) Goldthwait en ég hef alltaf verið svolítið efins um kvikmyndirnar sem hann hefur leikstýrt og því forðast þær. Þessi ádeila virkar ekki fyrir mig. Hún er eins og minna stíleseruð Natural Born Killers.

Samt er ég á því að atriðið í kvikmyndahúsinu ætti að vera sýnt í hverju einasta bíó fyrir hverja einustu mynd.

Maltin gefur ★★ og ég er svolítið hissa á örlætinu (miðað við hans vanalega smekk).

Looper (2012)👍👍
{105-80-ø-ø}

Glæpasamtök langt í framtíðinni nota tímaferðalög skemmra í framtíðinni til að vinna fyrir sig skítaverkin.

Önnur mynd (sjá Brick) eftir Rian Johnson og aftur með Joseph Gordon-Levitt í aðalhlutverki. Bruce Willis lokar síðan lúppu með því að mæta aftur í tímaferðalagsmynd.

Ég var mjög hrifinn. Söguþráðurinn er flækja og þó ég hafi setið eftir með spurningar held ég að það sé hægt að svara þeim. Mig langar að horfa á myndina aftur við tækifæri til þess að átta mig betur.

Veikasti punkturinn í sögunni er kannski að lúpperarnir hefðu líklega getað skipulagt líf sitt betur en líklega á það við um okkur flest.

Maltin gefur tvær og hálfa sem er níska.

Nashville (1975)👍🖖
{104-79-ø-ø}

Ég veit ekki hvernig ég ætti að súmmera upp söguþráðinn. Það eru margir þræðir.

Nashville er stútfull af kunnuglegum andlitum (og höndum) þessa tíma. Scott Glenn, Julie Christie, Henry Gibson, Lily Tomlin, Geraldine Chaplin, Karen Black, Shelley Duvall, Ned Beatty, Elliott Gould… Þegar hendurnar á Jeff Goldblum birtust þekkti ég þær strax. Skrýtið.

Ég get alveg séð hve góð þessi mynd er en um leið heillaði hún mig ekki sérstaklega lengst af. Endirinn var samt vel heppnaður og fékk mig til að endurskoða aðeins álit mitt á því sem á undan hafði gengið.

Annars finnst mér eins og ég hafi verið hrifnari af seinni Altman-myndum sem ég hef séð. The Player, Short Cuts, Gosford Park og A Prairie Home Companion. Ég hef samt ekki horft á neina þeirra nýlega.

Maltin gefur ★★★★ og flestir virðast hrifnari en ég.

Nightmare Alley (2021)🫳
{103-78-ø-ø}

Maður með fortíð (ekki sérstaklega spennandi) finnur sér samastað í karnivali. Hann heldur áfram og gerir hluti og missir áhuga minn.

Of löng. Kannski hefði þetta verið skárra með betri aðalleikara. Bradley Cooper gerir lítið fyrir mig. Í kringum hann eru góðir og skemmtilegir leikarar Willem Dafoe, Ron Perlman, Toni Collette, David Strathairn, Richard Jenkins og Rooney Mara (sem ég held ég hafi ekki séð í neinu öðru).

Myndin þjáist af oflengd. Fyrsti hlutinn er góður, miðjan missir flugið og uppgjörið er fyrirsjáanlegt. Aðallega var mér bara sama.

Bláendalokin eru mjólkuð eins og það eigi að koma okkur á óvart hvernig fer fyrir aðalpersónunni.

Bastarden (2023)👍👍
{102-77-52-ø}

Kapteinn á eftirlaunum fær leyfi til að reyna að rækta land á jósku heiðunum um miðja átjándu öld en lendir í útistöðum við aðalsmann í nágrenninu. Myndin snýst um stétt og stöðu, kynjamisrétti og fordóma.

Myndin gerist á tímum Friðriks V Danakonungs sem er sýndur sem velmeinandi fyllibytta sem er að minnsta kosti hálfur sannleikur (í hans tíð fór Danmörk á kaf í þrælahald í Vestur-Indíum). Ártöl eru óljós en mögulega var Kristján VII orðinn kóngur (flestir tengja hann væntanlega við Struensee) í lok myndarinnar.

Þetta er enn ein mynd sem var í uppáhaldi hjá Ásgeiri frá því í fyrra (eða hittifyrra, það er erfitt að velja útgáfuár). Þarna er líka Mads Mikkelsen í aðalhlutverki sem var í uppáhaldi hjá Ásgeiri. Hann hafði alveg rétt fyrir sér. Þetta er frábær mynd.

Melina Hagberg er flott sem Anmai Mus.

Það er óhætt að mæla með þessari.

Brick (2006)👍
{101-76-ø-ø}

Unglingur rannsakar morð fyrrverandi kærustu sinnar. Allt í Film Noir stíl en söguviðið er venjulegur „framhaldsskóli“ í Bandaríkjunum.

Rian Johnson gerði bestu myndina í síðasta Star Wars þríleiknum. Hann reyndi að brjóta upp mynstrið og bæta við syndir forkvalanna. Því miður guggnaði Disney og leyfði hinum andlausa J.J. Abrams að snúa aftur og eltast við væntingar leiðinlegustu aðdáendanna.

Johnson gerði í kjölfarið hina flottu Knives Out og uppfærði formúlu gamaldags glæpasagna með frábærum leikurum.

Brick kom rúmlega áratug áður en ég tók eftir Rian Johnson.

Ég var augnablik að átta mig á að þetta væri Joseph Gordon-Levitt undir lubbanum. Það er merkilegt af því ég átti auðvelt með að þekkja hann sem krakka í eldgömlum þáttum af Roseanne. Hann er með myndina á herðum sér og nær að vera sannfærandi með talanda og slangur tekið beint upp úr gömlum Noir-myndum.

Af öðrum leikurum verð ég að nefna Lukas Haas sérstaklega. Hann er ekkert sérstaklega ólíkur sjálfum sér eins og ég man eftir honum úr Vitninu.

Í smáatriðum er úrlausn morðsins flókin (jafnvel fáránleg í flækjum). Sem er í Noir-stíl. Um leið er myndin svo trygg hefðum þessarra kvikmynda raunverulegi sökudólgurinn er auðþekktur.

Mér fannst myndin vera alveg á mörkunum að vera stórkostleg. Það sem vantaði var jafnvægi í tóninum. Við höfum fáránleika þess að spila með þessar klisjur í samhengi unglinga en um leið alvarleika lífs og dauða. Brick sveiflast eiginlega á milli.

Veronica Mars sjónvarpsþættirnir komu nokkrum sinnum upp í hugann meðan ég horfði. Ég held að þar hafi einmitt tekist að ná þessu jafnvægi.

En Brick er fáránlega metnaðargjörn í því hvernig hún reynir að vera trú forminu sem líkt er eftir. Það bara gengur ekki alveg upp.

Maltin var frekar hrifinn og gaf ★★★.

MaXXXine (2024) 👍👍
{100-75-51-ø}

Maxine er búin að sigra heim listrænna kvikmynda og snýr sér að meginstraumskvikmyndum. Þá bankar fortíðin upp á. Framhald af X og Pearl. Þessi er alls ekki fyrir alla frekar en hinar myndirnar í seríunni

Þetta er uppáhaldsmyndin mín í seríunni. Sem er ekki almenn skoðun. Þeir dómar frá almennum áhorfendum gefa til kynna að eitt ákveðið atriði snemma í myndinni hafi farið illa í marga (skilaboð til þeirra sem áttuðu sig ekki á feminískum boðskap fyrri myndanna?). Sjálfur er ég ekkert sérstaklega hrifinn slíku jukki en ég komst yfir það.

Sögusviðið er Los Angeles árið 1985 og mér fannst takast mjög vel að endurskapa þann tíma. Þar að segja, þetta virkaði ekta á mig með þeim fyrirvara að ég þekki þetta bara úr kvikmyndum og sjónvarpi. Mig grunar að það hafi í raun verið markmiðið frekar en raunverulegur raunveruleiki.

Tónlist níunda áratugarins er vel nýtt og það var sérstaklega gaman að fá lag frá Frankie Goes To Hollywood sem heyrist of sjaldan.

Mia Goth keyrir þessa mynd áfram eins og hinar tvær en það er sérstaklega gaman að fá Kevin Bacon í hlutverk skíthæls. Svo var Sophie Thatcher (Heretic og Companion) í einskonar gestahlutverki. Fékk ekki mikið að gera en skemmtilegt að sjá hana. Danski leikarinn Giancarlo Esposito er eftirminnilegur sem umboðsmaður Maxine.

Hér á eftir koma mögulegir höskuldar. Það er alveg hægt að giska á hluta af lokaatriðinu út frá því sem ég er að segja.

Myndin er auðvitað ádeila eins og margar góðar hryllingsmyndir. Hún fjallar um hræðsluna við djöfladýrkun sem tröllréð öllu á þessum tíma og hefur snúið aftur síðustu ár. Þessi mynd er eiginlega and-Særingarmaðurinn. Jafnvel glittar í gagnrýni á það hvernig hryllingsmyndir hafa notað djöfladýrkun í gegnum tíðina.

Svolítið Hollywood Boulevard þarna í lokin. Vantaði aðeins að það væri gengið alla leið.