Pigen med nålen (2024) 👍 {54-40-38-10}

Þar sem við Gunnsteinn erum eiginlega alltaf að horfa á efni á ensku ákvað ég að bjóða honum að koma með mér á Stúlkuna með nálina í Bíó Paradís sem er einmitt tilnefnd fyrir að vera góð með sem er ekki á ensku. Sem fyrr fæ ég foreldraverðlaun vegna áráttu minnar að vilja vita sem minnst um kvikmyndirnar sem ég sé.

Það er annars skrýtið með höskulda fyrir þessa mynd. Hún er byggð á raunverulegum atburðum og því geri ég ráð fyrir að Danir þekki þetta mál fyrirfram. Þið getið kíkt á Wikipediu ef þið viljið fá nánari upplýsingar.

Ég fór sumsé óvart á enn eina hryllingsmyndina. Hún gerist við lok fyrri heimsstyrjaldarinnar. Ung kona fátæk kona upplifir hrylling þess að vera ung fátæk kona og síðan verður allt miklu verra.

Það er hægt að segja ýmislegt um kvikmyndatökuna en sumt fannst mér aðallega gert til að vera flott frekar en það passaði sögunni.

Semsagt, góð mynd en sú óhugnanlegasta sem ég hef séð undanfarið.

Strange Darling (2024) 👍👍
{53-ø-ø-ø}

Ég sá þessa í bíó og það var þess virði. Þar að auki vissi ég nær ekkert um myndina sem var plús. Þetta er ein af þeim myndum sem ég heyrði fyrst af í gegnum hlaðvarpið The Movies That Made Me. Bæði leikstjórinn JT Mollner og kvikmyndatökustjórinn Giovanni Ribisi (já, bróðir Pheobe í Friends) komu í þáttinn í fyrra. Það var ljóst að Joe og Josh voru mjög hrifnir af Strange Darling og slík meðmæli hafa ekki brugðist til þessa.

Myndin byrjar á Fargo-legum texta að myndin sé byggð á sannri sögu um fjöldamorðingja. Sem er ekki satt. Það eru annars Coen-bræður sem koma upp í hugann þegar ég ímynda mér innblásturinn að myndinni. Strange Darling keyrir samt á meiri hraða en myndir þeirra. Það er aldrei öruggur tími fyrir persónurnar. Myndin er svört gamanmynd, og hryllingsmynd, og glæpamynd.

Myndin er ekki línuleg. Við hoppum fram og til baka. Það væri freistandi að tengja það við Pulp Fiction en ég held varla. Þó hefur Tarantino líklega gert alla djarfari í að spila með tímaröðina. Þetta er gert mjög vel í Strange Darling.

Aðalpersónurnar okkar eru ekki kynntar með nöfnum. Willa Fitzgerald leikur dömuna (minnir aðeins á Juliette Lewis hérna) og Kyle Gallner (Beaver úr Veronica Mars) er demóninn. Ed Begley Jr. og Barbara Hershey leika hippa í kofa í nágrenni skógarins. Það eru fáar persónur í myndinni.

Margir leikarar hafa fært sig á bak við myndavélina í leikstjórastólinn en fáir hafa tekið að sér kvikmyndatöku eins og Ribisi. Hann hefur mikinn metnað fyrir þessu. Litirnir í myndinni eru úthugsaðir en ekki svo að það ætti að fara í taugarnar á fólki. Nema ósennileiki þess að einkennisbúningur hjúkrunarfræðings sé svona rauður.

Tónlistin í myndinni hoppar á milli Chopin, ískurssins sem er svo vinsælt í kvikmyndinum (en fór ekki sérstaklega illa í mig hérna) og rólegheitalaga. Love Hurts er lykillag myndarinnar sem minnti mig auðvitað á að það heyrðist ekki í myndinni Love Hurts.

Ég er ekki einn um þá skoðun að Strange Darling hafi verið ein besta mynd síðasta árs (kvikmyndahátíðir 2023 – almenn dreifing í fyrra). Hún var örugglega, ásamt Love Lies Bleeding, skemmtilegasta nýja myndin sem ég sá í bíói í fyrra. Mæli með fyrir fólk sem verður ekki afhuga myndinni við lesturinn á þessari færslu.

The Lair of the White Worm (1988)👍👍
{52-39-ø-ø}

Um daginn var ég að leita að upplýsingum um vampírumynd sem ég sá í æsku. Þá rifjaðist upp fyrir mér þessi mynd. Ekki að ég hafi séð hana áður en ég hafði heyrt um hana.

The Lair of the White Worm er hálf-vegins vampírumynd og byggð á bók með sama titli eftir Bram Stoker (höfund Drakúla). Varla samt hægt að flokka skrýmslin á annan veg.

Fornleifafræðingur gerir dularfulla uppgötvun sem gæti mögulega gæti tengst sögulegu ormadrápi (sbr. Fáfnir) aðalsmanns í grenndinni. Þá hafa líka verið óútskýrð mannshvörf þar í kring.

Ég vissi að Hugh Grant léki í myndinni en þegar upphafsnafnaþulan byrjaði sá ég nafn sem kom á óvart: Peter Capaldi, frægastur fyrir að leika Dr. Who. Fyrst þegar hann birtist þekkti ég hann ekki. Satt best að segja hélt ég að þarna væri Hugh Grant. Capaldi er nefnilega hárprúðari þarna en ég á að venjast.

Peter Capaldi - Ekki Hugh Grant
Peter Capaldi – Ekki Hugh Grant

Hugh Grant leikur afkomanda drekabanans og það liggur í augum upp hvert hlutverk hans ætti að vera í myndinni. Síðan leikur Amanda leikur sérvitra aðalskonu. Leikstjórinn er Ken Russell.

Þetta er hryllingsgamanmynd. Hún sló ekki í gegn á sínum tíma en er álitin költ-mynd, og bara almennt skrýtin. Það er ekki alltaf ávísun á skemmtun.

Í þessu tilfelli virkar það … á mig allavega. Hallærislegar, viljandi hallærislegar, brellur skemmta vel. Þó er reyndar alveg ákaflega velheppnuð förðun á einni aðalpersónunni. Saman er þetta yfirdrifið og gaman. Töluvert blóð en meira kjánalegt en hryllilegt.

Maltin gefur ★★½ sem er frekar óvænt. Hefði giskað að hann hefði í mesta lagi gefið tvær.

Dracula (1931)
{51-ø-38-ø}

Ein af þeim myndum sem mér gafst lengst af ekki tækifæri til að sjá. Það er eiginlega synd að ég hafi séð Bela Lugosi í myndum Ed Wood áður en ég loksins sé hann sem Drakúla.

Þessi útgáfa er eiginlega lengra frá upphaflegu bókinni heldur en gamla Nosferatu. Hún er aðallega mjög stytt útgáfa. Ég hafði ekki áttað mig á að myndin gerist á þriðja áratugnum, um aldarfjórðungi eftir að bókin kom út. Hún er sumsé samtímamynd.

Myndin er á köflum stíf og leikritaleg (enda byggð á leikriti). Brellurnar með að lýsa upp augu Lugosi virkuðu ekki á mig. Augun hans eru nægilega dramatísk fyrir. Það eru hins vegar leðurblökurnar sem eldast verst af öllum brellunum.

Það er ljóst að Bela Lugosi hefur mótað það hvernig Drakúla hefur birst eftir að myndin kom út. Hans vampíra er tiltölulega myndalegur maður frá upphafi til enda. Búningurinn endurómar í gegnum flestar vampírumyndir sem ég ólst upp við.

Dracula er viljandi fyndin mynd, á köflum. Sér í lagi eru það Renfield og sjúkraliðinn sem þarf að passa upp á hann sem sjá um grínið. Samt eru einstaka atriði eða skot sem sýna Renfield svolítið óhugnanlegan.

Það væri áhugavert að sjá hvernig spænska Drakúla, sem var tekin upp samhliða þessari, kemur út í samanburðinum. Sumir segja að hún sé betri en ég veit ekki hvort ég nenni henni.

Ég var hrifnari af þessari heldur en Frankenstein sem kom út sama ár. Sú mynd greip mig aldrei (ég hef reyndar heyrt að Bride of Frankenstein sé betri). Annars er ég illa að mér í gömlu Universal skrýmslunum.

Dracula (1931) er meiriháttar mynd í kvikmyndasögunni en ekki búast við of miklu.

Maltin gefur ★★★½.

Á síns tíma mælikvarða

Í dag er verið að skoða fortíðina með gagnrýnum augum. Það á bæði við um fólk og menningu. Margir telja þetta bull og vitleysu og segja að við getum ekki dæmt fortíðina með augum nútíðarinnar. Ég held að við getum það alveg en við megum líka skoða fortíðina með síns tíma mælikvarða.

Í Bristol var styttu af Edward Colston fleygt í höfnina. Á Wikipediu og Mogganum má lesa að hann hafi verið mannvinur (philanthropist). Og þrælasali. Það er augljóslega sturlað. Í þessu tilfelli þá útilokar eitt annað. Algjörlega. Þú getur ekki verið mannvinur og þrælasali. Fullt af fólki á tímum Colston vissi það alveg. En málið er auðvitað að í nútímanum hefur hugtakið fyrst og fremst verið um ríka hvíta kalla sem vildu kaupa ást fjöldans og fallegar línur um sig í sögubókunum. Oft á tíðum hefur þetta verið gert til þess að draga athyglina frá því hvernig þeir græddu alla þessa peninga. Við ættum að finna nýtt hugtak til að nota um svona kalla.

Það er í fréttum að HBO hafi fjarlægt Gone With The Wind af streymisveitu sinni. Ég skal láta vera að benda á að myndin er bæði ofmetin og of löng. Allir vita það. En hvað er að henni? Hið augljósa er að svartar persónur í myndinni eru skrípamyndir en ekki manneskjur. En það er ekki bara það sem gerir myndina ógeðfellda.

Myndin er sögufölsun. Ég veit að margir munu benda á að Hollywood kvikmyndir eru iðulega sekar um að víkja frá sannleikanum til að myndin verði betri. En í þessu tilfelli eru breytingarnar ekki í þágu listar eða afþreyingar. Gone With the Wind er hluti af kerfisbundinni herferð til að fegra þrælahald og Suðurríkin. Við ættum að horfa á þetta sömu augum og þegar reynt er að fegra Hitler og nasista.

 

The Witch (2015) 👍👍
{50-ø-37-ø}

Ég er að horfa á óvanalega mikið af hryllingsmyndum. Það er eins og Nosferatu hafi slegið tóninn í upphafi árs. Í þessu tilfelli eru raunar um mjög bein áhrif því leikstjóri myndarinnar og handritshöfundur er sá sami, Robert Eggers.

The Witch gerist á svipuðu svæði og nornaofsóknirnar í Salem en töluvert fyrr. Miðpunktur myndarinnar er fjölskylda sem segir skilið við byggð Púrítana af því að faðirinn hefur aðrar hugmyndir um túlkanir á Biblíunni. Það er ekki farið út í smáatriði.

Þessi fjölskylda er mjög einangruð og lífið erfitt. Þau búa ekki í kofi í skóginum heldur í kofa upp við skóginn. Harmleikur skekur fjölskylduna og allt fer til fjandans.

Anya Taylor-Joy leikur aðalhlutverkið, dóttur á táningsárum (man ekki að aldurinn hafi verið gefinn upp). Leikkonan sjálf er aðeins eldri en persónan en virkar mjög sannfærandi. Voðalega lítil og krúttleg. Mér finnst eins og hún hafi náð að yngja sig líka í Furiosa og sú mynd kom bara út í fyrra.

Myndin fer ekki þá leið sem ég bjóst við. Mjög góð. Mér finnst ég annars vera of jákvæður í dómum þessa daganna en ég er svo sem að velja myndirnar vandlega.

Þetta er samt ekki fyrir alla. Á sinn hátt er hún mun óhugnanlegri en Nosferatu. Það er blóð en aðallega snýst þetta um hið hryllilega sem getur komið fram í fólki.

Nosferatu: Eine Symphonie des Grauens (1922)
{49-ø-ø-ø}

Það eru líklega 27 ár síðan ég sá þessa mynd fyrst (og síðast). Það var myndbandsspóla og túbusjónvarp. Mig grunar líka að sú útgáfa hafi verið styttri. Mig minnir að ég hafi á sínum varla haldið athyglinni á myndinni. Hún heillaði mig ekki. Hún hræddi mig ekki.

Nosferatu leikstjórans F.W. Munrau er augljóslega byggð á Drakúla eftir Bram Stoker og fólk tók eftir því. Ekkja höfundarins var rétthafi og tókst að láta eyðileggja flest eintök af myndinni vegna þessa brots á höfundalögum. Það tók marga áratugi að endurskapa heillega útgáfu af myndinni.

Almennt held ég að gamanmyndir þögla tímabilsins eldist betur af því að ýkjukenndi leikstíllinn er oft fyndinn. Það á einmitt við hérna. Taktarnir eru fyndnir og því erfiðara að taka myndina alvarlega.

Mér var hugsað til annarrar myndar Munrau sem heitir Sunrise: A Song of Two Humans (1927). Hún var engin gamanmynd og leikstíllinn var nærri jafn ýkjukenndur. En mér fannst hún virka mikið betur og ég hreifst af henni þrátt fyrir augljósa galla.

Mér þótti skrýtið að það sást sjaldnast á birtunni hvort það væri dagur eða nótt. Það hjálpar ekki að til að koma hryllingnum til skila. Ég velti fyrir mér hvort það sé bara galli á þessari útgáfu af myndinni eða hvort þetta hafi alltaf verið svona.

Það er eiginlega bara undir lokin sem við sjáum raunverulegt myrkur. Þau skot sem ná að koma til skila ógninni sem stafar af Orlok greifa eru einmitt í þessum hluta myndarinnar. En þá erum við búin að sjá hann oflýstan í gegnum alla myndina sem gerir gervið gervilegt sem er erfitt að hugsa þegar myrkrið skellur á. Kannski er myndin meira ógnvekjandi í verri útgáfu á túbusjónvarpi og mögulega mætti sleppa sumum þessum atriðum sem tók áratugi að finna.

Það eru íkonísk atriði í myndinni sem enduróma í gegnum nær allar vampírumyndir sem ég man eftir. Svo er skemmtilegt að sjá hvernig Murnau notar tæknibrellur af sömu sort og Coppola í sinni Drakúlamynd.

Nosferatu heillaði mig hvorki né hræddi í þetta skipti. Hún er mikilvæg í kvikmyndasögunni en ekki sígild í bókstaflegri merkingu þess orðs.

Maltin gefur myndinni ★★★½ sem mér finnst of mikið en kemur ekki á óvart frá honum.

Sing Sing (2024) 👍👍
{48-38-36-ø}

Fangar í Sing Sing setja upp leikrit. Eða, öllu heldur, mennska í ómennsku kerfi.

Þessi fór á listann minn þegar hún taldist líkleg til að fá Óskarsverðlaunatilnefningu sem besta myndin. Það gekk ekki eftir en hún fékk nokkrar aðrar, s.s. Colman Domingo sem besti leikari í aðalhlutverki. Sem hann á skilið.

Myndin var uppfull af frábærum leikurum sem eru flestir, ólíkt aðalleikaranum, fyrrverandi fangar sem tóku þátt í sama verkefni og myndin fjallar um. Margir leika útgáfu af sjálfum sér. Það er hreint út sagt ótrúlegt miðað við frammistöðu þeirra.

Myndin er hjartnæm og fyndin. Hún náði mér alveg. Mögulega besta mynd sem ég hef séð frá 2024.

Bram Stoker’s Dracula (1992) 👍👍🖖
{47-ø-ø-ø}

Þetta er algjörlega uppáhalds vampírumyndin mín. Ég veit að hún er gölluð en mér finnst hún samt æðisleg.

Það væri örugglega þess virði að fara á Bram Stoker’s Dracula í bíó. Ég missti alveg af því á sínum tíma (fullungur fyrir hryllingsmyndir). Þess í stað er það UHD (4k) útgáfan í stóra sjónvarpinu.

Augljósasti galli myndarinnar er Keanu Reeves. Það var stórundarleg hugmynd að velja hann í þetta hlutverk (Christian Slater kom líka til greina sem hefði ekki heldur verið gott). Hann virkar stífur og hreimurinn hans er, samkvæmt átta heimildum á Wikipediu, einn sá versti ef ekki sá versti í kvikmyndasögunni. Coppola segir að vandinn hafi verið að Keanu var að vanda sig alveg rosalega mikið. Mér finnst samt stífleikinn virka fyrir persónuna. Mér finnst hann aðallega of sætur fyrir hlutverkið. Einhver sagði að Keanu væri svo rangur að hann væri næstum réttur. Ekki alveg en ég fyrirgef honum allavega.

Margir hafa líka gagnrýnt hreiminn sem Winona Ryder notar í myndinni. Hún passar samt betur að öllu öðru leyti þannig að flest okkar tökum miklu minna eftir því.

Gary Oldman er auðvitað stjarna myndarinnar og er yfirdrifinn eins og svo oft. Það virkar hérna eins og í mörgum, en ekki öllum, myndum hans. Þú þarft að vera yfirdrifinn þegar þú segist ekki smakka vín.

Anthony Hopkins gæðir sig líka á leiktjöldunum. Sama gildir um Sadie Frost. Tom Waits er dásamlega yfirdrifinn. Það er ákaflega gaman að fylgjast með honum. Richard E. Grant er lágstemmdari og það virkar. Cary Elwes hverfur svolítið í bakgrunninn líkt og kúrekinn sem ég man aldrei hver leikur.

Aðalmálið er samt að kvikmyndin er listaverk. Francis Ford Coppola vildi engar nútímabrellur. Allt var gert með tækni sem var til á fyrstu árum kvikmyndagerðar, það er á þeim tíma sem myndin á að gerast. Útkoman er yndisleg. Á stóra skjánum var hægt að njóta smáatriða sem ég hef aldrei áður séð. Myndin verður einfaldlega betri í hærri upplausn.

Það er hægt að njóta myndarinnar án þess að vita hvernig brellurnar voru gerðar. Það er hins vegar ákaflega skemmtilega að horfa á aukaefnið á disknum til að sjá töfrabrögðin, og margt af þessu var byggt á brellum töframanna, framkvæmd.

Ég myndi segja að myndin sé full hægfara á köflum ef mér þætti ekki svo gaman að horfa á hana. Ef það er galli þá fyrirgef ég hann líkt og ég fyrirgef Keanu og Guð fyrirgefur Drakúla.

Að öðrum ólöstuðum er það samt tónskáldið Wojciech Kilar sem stelur myndinni. Ég gæti ekki ímyndað mér að gera lista yfir bestu kvikmyndatónlistina án þess að setja þessa í topp fimm eða bara á toppinn.

Þessi mynd færir mér gleði og það er ástæðan fyrir því að hún er í UHD-safninu mínu.

Maltin gefur ★★★½ sem er innan skekkjumarka en samt full lítið.

Tiger Stripes (2023) 👍
{46-37-35-ø}

Kynþroskalíkamshryllingur frá Malasíu og hryllingur þess þegar vinir yfirgefa þig. Tólf ára stelpa byrjar á blæðingum og líkami hennar fer í gegnum óhefðbundnar breytingar. Eða kannski hefðbundnar af því að mér skilst myndin byggi á þjóðtrú.

Það er ekki ólíklegt að leikstjóri/handritshöfundur myndarinnar hafi séð Carrie (eða bara lesið bókina eins og ég). Þetta er engan veginn eftirherma en hún er á svipuðu svæði varðandi þema.

Myndin kom á óvart þó ég hafi vitað cirkabát það sama og ég útlistaði hér að ofan. Tæknibrellurnar eru frekar ódýrar, í bókstaflegri merkingu, en vel notaðar. Mig grunar að ástæðan fyrir því að myndin gengur upp sé aðalleikkonan. Ef hún virkaði ekki í þessu hlutverki myndi allt hrynja.