Ungir Elvis-aðdáendur reyna að rækta ást sína í heimi sem elskar þau ekki.
Wild At Heart var mikið gagnrýnd fyrir kynlíf og ofbeldi/ógeð. Sem er gott og gilt. Fólk hefur mismunandi mörk. Ef þið viljið ekki sjá svoleiðis þá er þetta ekki mynd fyrir ykkar.
Ég hafði ekki séð Wild At Heart áður. Ég hef nefnilega mismunandi þol fyrir myndum David Lynch. Lost Highway gerði mig svo fráhverfan honum að ég sá ekki Mulholland Drive fyrren tiltölulega nýlega. Mér fannst hún svo góð að ég gerði mislukkaða tilraun til að horfa á Inland Empire. Ekki fyrir mig.
Kannski er ástæðan fyrir því að ég féll fyrir Wild At Heart sú að af öllum myndum David Lynch minnir hún mig mest á Twin Peaks. Hún var gerð bókstaflega á sama tíma. Svo eru mörg kunnugleg andlit þaðan í myndinni.
Auðvitað á Wild At Heart það sameiginlegt með Twin Peaks að vera framleidd af Propaganda Films, sumsé Sigurjóni Sighvatssyni. Það er erfitt að ýkja hvað það þótti merkilegt að Íslendingur væri að vinna með svona frægum „Hollywood“ leikstjóra.
Tónlistarvalið í myndinni gerði mikið fyrir mig. Það virðist á yfirborðinu vera næstum kaotískt, allt frá Glenn Miller til þungarokks, en það nær allt að þjóna myndinni. Toppurinn er líklega þegar við fáum Elvis-lögin frá Nicolas Cage. Í fyrra laginu nær Lynch að endurskapa Elvis-æði með þungarokksaðdáendur í hlutverki táningsstúlkna sem við (allavega ég) þekkjum úr fréttamyndum þess tíma.
Ættfræði er alltaf skemmtileg. Ég ætla að láta vera að tala um Coppola-fjölskylduna. Við höfum nefnilega mæðgur að leika mæðgur, Diane Ladd (Christmas Vacation) og Laura Dern (Jurassic Park). Ættarnafnið Dern kemur frá leikaranum Bruce Dern (The ‘burbs). Þær tvær passa alveg einstaklega vel inn í mynd sem er full af undarlegustu leikurum Hollywood. Ég meina, Crispin Glover er þarna.
Af öllum krípí Willem DaFoe skúrkum er þessi Willem DaFoe skúrkur mesta krípið. Hann var líka alveg ógurlega ólíkur sjálfum sér. Þið vitið að hann getur leikið tiltölulega indæla menn líka, s.s. í Florida Project. Veit ekki hvort hann var indæll Jesú.
Ég held að mér þyki Wild At Heart betri en Mulholland Drive. Það er eitthvað við hvernig hún blandar saman töfraraunsæi, poppkúltúr og súrealisma.¹
Maltin gefur ★★☆☆ og það er ekki óvænt því hann hefur lágan þröskuld fyrir kynlífi og ógeði. Roger Ebert varð fokvondur þegar Wild At Heart vann gullpálmann í Cannes.
Óli gefur ★★★★★👍👍🖖
¹ Ég held að David Lynch hafi aldrei litið á sig sem súrealista af því hann taldi þá stefnu vera í eðli sínu pólitíska
