Ung bandarísk dansmær fer til Vestur-Þýskalands til að læra ballet og fljótlega kemur í ljós að það er eitthvað skuggalegt á seyði í skólanum hennar.
Satt best að segja var Suspiria ekki á stóra áhorfslistanum mínum. Mér þótti ólíklegt að hún myndi höfða til mín. Þó ákvað ég að drífa mig þegar hún var sýnd í Bíó Paradís.
Suspiria er fyndin hryllingsmynd. Ofbeldisatriðin eru oft það fáránleg að það er erfitt að hlæja ekki. Mig grunar að það sé betra að sjá myndina í bíósal þar sem fólk er almennt með á nótunum.
Þó Suspiria sé fáránleg er hún samt ákaflega vel gerð. Það er ljóst að Dario Argento er hæfur kvikmyndagerðarmaður. Kvikmyndatakan er alveg frábær. Þetta var víst síðasta myndin sem var gerð með Technicolor¹ á Ítalíu og það sést. Ég er svo einfaldur að það er hægt að gleðja mig með fallegum litum.
Tónlistin í Suspiria er eftir Dario Argento og rokkhljómsveitina Goblin. Hún er oft á mörkunum að fara yfir strikið milli stemmingar og hávaða en nær samt að halda sig réttum megin.
Ég held að ég sé orðinn betri í að sætta mig við ítalska hljóðvinnslu fyrri ára. Sumsé þegar allar raddir eru einfaldlega teknar upp eftir á og oft af öðrum leikurum. Það verður til ákveðin fjarlægð milli hljóðs og myndar og kemur oft niður á frammistöðu leikara. Það náði samt ekki að ergja mig sérstaklega í þetta sinn.
Alla myndina var ég að reyna að fatta hvers vegna ég kannaðist við aðalleikkonuna Jessica Harper og þurfti síðan að fletta því upp þegar ég kom heim. Hún hefur leikið ýmislegt í gegnum tíðina en ég þekki andlit hennar best úr Steve Martin myndinni Pennies From Heaven.
Þetta er ekki mynd fyrir alla en hún náði mér.
Maltin gefur ★★★☆ sem kom mér töluvert á óvart. Kannski er hann minna viðkvæmur fyrir evrópsku blóði.
Óli gefur ★★★★⯪👍👍🖖.
¹ Technicolor var kvikmyndatöku- og vinnslutækni sem skapaði ákaflega sterka liti með því að taka upp rautt/grænt/blátt hvert í sínu lagi og blanda þeim saman í lokaútgáfunni. Þetta er ekki nákvæm útskýring en vonandi hjálpar þetta eitthvað. Eldri Disney-teiknimyndir og The Wizard of Oz eru dæmi um notkun á Technicolor.
