Música (2024) 👍 {26-24-22-ø}

Sjálfsævisöguleg mynd um Rudy, ungan mann með líflega hárgreiðslu sem heyrir tónlist allsstaðar. Hann kynnist stúlkunni sem lék Veronicu í Riverdale sjónvarpsþáttunum (sem ég gafst upp á þegar þeir voru á stórundarlegar slóðir). Eða öllu heldur, höfundur myndarinnar (heitir líka Rudy) sem leikur sjálfan sig kynntist leikkonunni þegar hún var að leika unga konu sem Rudy (persónan sem Rudy leikur) kynnist.

Þetta er eiginlega léttvigtar rómantísk gamanmynd en vel skrifuð og fyndin með skemmtilegum stílæfingum sem hjálpa sögunni í stað þess að flækjast fyrir. Helsta vandamálið er kannski að ákveðnir kaflar minna sterklega á rómantíska gamanmynd frá 2008.

Ef þið eruð alveg fráhverf rómantískum gamanmyndum ættuð þið auðvitað að forðast Música (2024) en annars mæli ég með.

Robot Dreams (2023) 👍 {24-22-20-ø}

Robot Dreams er teiknimynd um hund sem eignast vélmennavin. Hugljúf (klisjuorð), og skemmtileg (hversdagsorð). Ingimar var líka hrifinn.

Ég hafði smá áhyggjur af því að myndin væri lof til gervigreindar en svo er ekki. Sagan er töluvert eldri en núverandi gervigreindarbóla.

Fyrirfram vissi ég að myndin væri evrópsk. Reyndar hefði ég fattað það um leið og myndin byrjaði. Ekki út af tungumálinu heldur þessara týpísku nafnarunu um framleiðendur og „í samstarfi við“ sem einkennir samevrópskar kvikmyndir núorðið.

Myndin er samt ekki á spænsku eða frönsku. Það er ekkert talað mál, bara sungið. Hins vegar er mikið um texta sem er allur á ensku og myndin gerist í New York. Það virtist skrýtið en myndin er víst byggð á samnefndri teiknimyndasögu (höfundur: Sara Varon).

Á yfirborðinu er þetta saga um vináttu og einmanaleika en ég held að undir niðri sé hún fyrst og fremst um ástarsambönd. Sérstaklega um ákveðna þætti tengda þeim samböndum en ég gæti farið að höskulda með að kafa dýpra.

Þar sem myndin var gefin út í Bandaríkjunum í fyrra er hún á nokkrum topplistum þess árs. Hvort hún sé svo góð veit ég, eða held, ekki. Það má samt vel mæla með henni.

Girls Will Be Girls (2024) 👍 {23-21-19-ø}

Þroskasagan indverskrar stúlku. Ástarsaga unglinga. Samband mæðgna. Þó kannski fyrst og fremst um stöðu kvenna, sérstaklega stúlkna, í indversku samfélagi.

Myndin gerist að mest í indverskum heimavistarskóli en kannast aðallega við slíkt eftir að hafa lesið um æsku Freddie Mercury. Hann gekk einmitt í slíkan skóla, fjarri fjölskyldunni sem var á Zanzibar. Þó skólaeiður nemenda tala um að viðhalda indverskum siðum er þessi tegund af skólum fyrst og fremst arfleifð Breska heimsveldisins.

Allt sem ég hef skrifað um myndina segir að Mira sé sextán ára stelpa en ég er nokkuð viss um að hún verður, eða er að verða, átján ára í myndinni. Ekki aðalatriði en skrýtið að þetta sé ekki á hreinu. Ég kíkti meira að segja á upplýsingar um indverskt menntakerfi og það passar illa að hún sé 16 ára.

Áður en myndin byrjar eru birtur texti sem upplýsir að engir undir lögaldri hafi leikið í myndinni. Kannski byggir þetta á indverskum reglum en ég held ég hefði ekki haft áhyggjur af þessu ef ég hefði séð myndina án þess að lesa fyrirvaran.

DISCLAIMER

This film contains sensitive content. Viewers discretion is advised.
All performances in this film are carried out by adult actors, with no involvement of minors.

Mira brýtur múra með því að vera yfirumsjónarmaður nemenda (head-prefect) í skólanum sínum fyrst kvenna. Sem slíkur reynir hún meðal annars að ýta á að strákarnir þurfi að bera ábyrgð á hegðun sinni í stað þess að kenna stúlkunum um. Þetta er ekki vinsælt meðal skólabræðra hennar og við sjáum líka dæmi um konur sem reyna að verja feðraveldið.

Hún kynnist líka strák sem er mjög viðkunnanlegur en það er erfitt að viðhalda námsárangri, félagslegri stöðu og fjölskyldusamböndum meðfram því sambandi.

Smá viðvörun um höskuld, svo ónákvæmur að þið skiljið hann ekki nema að horfa á myndina. Það er atriði undir lok myndarinnar sem er á vissan hátt óhugnanlegra en nokkuð sem sést í hryllingsmyndum. Auðvitað er þetta ekki hryllingsmynd.

Þetta er mynd sem er það sem hún virðist vera. Þeim sem finnst lýsingin áhugaverð finnst hún örugglega góð.

Pulp Fiction (1994) 👍👍🖖 {22-ø-ø-4}

Hve margir kvikmyndaunnendur hafa heimsótt McDonald’s í Frakklandi til að fá Royale With Cheese?

Pulp Fiction tilheyrir uppáhaldsbíóárinu mínu (sjá færslu um Forrest Gump) og hún er líka uppáhaldsmyndin mín frá því ári (erfið samkeppni við Léon og Clerks).

Á sínum tíma (1992-1993) missti ég af Reservoir Dogs. Hún var sýnd í Borgarbíó á Akureyri í rúma viku rétt eftir að ég fermdist. Ég held að ég hafi ekki verið mikið að fara í ellefubíó þegar ég var fjórtán ára.

Mig grunar samt aðalmálið hafi verið að hún leit ekki spennandi út. Ég vissi hvað „reservoir“ þýddi en ég skildi ekki hvaða tengsl slík fyrirbæri hefði við hunda og hafði ekki sérstakan áhuga að horfa á myndina til að komast að því.

Ég tók ekki heldur eftir því þegar True Romance (1993 – handrit Tarantino) kom fyrst en ég náði að lauma mér framhjá skilaríkjaskoðun þegar Natural Born Killers (1994 – líka eftir Quentin en hötuð af honum) var sýnd í Borgarbíó.

Þegar Pulp Fiction kom árið 1994 fór það ekki framhjá neinum. Orðið Reyfari (íslenski titillinn) finnst tólf sinnum árin 1993 og 1996 á vefnum Tímarit, árin á milli finnst það samanlegt rúmlega sexhundruð sinnum.

Myndin var frumsýnd í október 1994 í Regnboganum og ég sé ekki betur en að hún hafi komið í Borgarbíó á Akureyri í … maí 1995. Ári eftir að hún sló í gegn í Cannes.

Krakkar mínir, hér áður fyrr þurftum við fyrir Norðan að bíða eftir að fá sýningareintökin frá Reykjavík. Pulp Fiction var bara sýnd í einu kvikmyndahúsi og gekk þar í marga mánuði. Kannski var bara ein filma með íslenskum texta.

Á þessum tímum fór ég reglulega í borgarferðir, fyrst og fremst til að fara í bíó. Ég skipulagði það yfirleitt þannig að ég fór þrisvar hvern heilan dag sem ég var í Reykjavík. Þannig að ég var búinn að sjá hana áður en hún kom í Borgarbíó, jafnvel tvisvar. Ég er nokkuð viss um að ég fór þrisvar á hana í bíó.

Ég átti Pulp Fiction á myndbandsspólu, DVD og hún er ein af fáum UHD (4K) diskunum mínum. Þannig að það má segja að hún sé í uppáhaldi hjá mér. Svo hafði ég líka sinnt kvikmyndauppeldinu þannig að Gunnsteinn var búinn að sjá hana einu sinni áður en hann stakk upp á að fara á partýsýningu í Bíó Paradís.

Það virtist viðeigandi fara að sjá Pulp Fiction í Bíó Paradís enda sá ég hana „þar“ fyrir þrjátíu árum. Þegar búið var að kaupa miða spurði Gunnsteinn mig hvort færslan yrði jafn löng og sú um Forrest Gump. Ég er auðvitað á því að ekki sé hægt dæma myndir raunverulega fyrren eftir áratug, ef ekki meir, þannig að þetta verða töluverð skrif. Sjáum til.

Mín upplifun er að kvikmyndir séu svolítið fyrir og eftir Pulp Fiction. Auðvitað ekki bókstaflega og það er alveg hægt að segja um ótal kvikmyndir sem breyttu kvikmyndagerð. Ein mótrökin eru að Tarantino steli öllu sem er satt en ekki punkturinn. Það eru líka fáir kvikmyndagerðarmenn sem eru jafn tilbúnir að viðurkenna svona bein áhrif. Það er ekkert nýtt í Pulp Fiction en hún raðar hlutunum upp á nýtt og gerir það alveg ákaflega vel.

Look Who’s Talking myndirnar þrjár eru frekar gleymdar í dag. Á sínum tíma voru þær mjög vinsælar þó einungis sú fyrsta hafi verið talin góð. Í fyrstu tveimur myndunum léku John Travolta og Bruce Willis (bara rödd). Það að sá síðarnefndi hafi ekki verið með í þriðju myndinni segir eitthvað um stöðu kvikmyndaferils þeirra (í staðinn var Danny DeVito – einn framleiðandi Pulp Fiction).

Willis hafði lítið afrekað annað en fyrstu Die Hard myndirnar. Myndir eins og The Bonfire of the Vanities (1990), Hudson Hawk (1991) og The Last Boy Scout (1991) töldust flopp og þó Death Becomes Her (1992) hafi selt fjölda miða fékk hún slæma dóma.

Travolta hafði ekkert annað en Look Who’s Talking á þessum tíma. Hans frægðarsól virtist hafa sest. Fólk bjóst ekki við neinu af honum.

Hugsið um Look Who’s Talking í atriðinu þar sem Willis og Travolta hittast.

Samuel L. Jackson var gaur sem við höfðum séð í nokkrum myndum, aðallega frá Spike Lee. Kvikmyndaunnendur þekktu hann, fáir aðrir. Hérna varð Samuel L. Jackson „nafn“.

Fyrirsætur sem færa sig yfir í kvikmyndaleik hafa sjaldan fengið hól gagnrýnenda. Árið 1993 lék Uma Thurman í Even Cowgirls Get the Blues og endaði með tilnefningu til Razzie verðlaunana sem versta leikkonan. Hún hafði reyndar fengið betri dóma í myndum eins og Henry & June (1990) en fáir sáu hana nema fólk sem hafði áhuga á bókmenntum fyrirhluta tuttugustu aldarinnar eða nekt.

Reyndar hafði ég séð þá mynd (ekki af bókmenntaáhuga) þannig að Maria de Medeiros, sem lék Anaïs Nin, var á mínum radar. Hún leikur eiginkonu Butch (Bruce Willis). Innilega einföld og saklaus í andstöðu við flesta karaktera myndarinnar.

Pulp Fiction byrjar á rólegheitum og keyrir sig síðan hratt upp. Ég held ég hafi aldrei horft á myndina án þess að finna sæluhroll þegar Misirlou og titlarnir fara af stað.

Tónlistarval Tarantino er veigamikill hluti af Pulp Fiction. Þetta eru frábær lög en líkt og aðalleikararnir voru þau ekki vinsæl á þessum tíma. Þau voru ekki svöl. Forrest Gump var með sígildu rokklögin sem allir þekktu en þetta var brimbrettarokk og diskó. Áhrif myndarinnar voru slík að lögin Girl, You’ll Be a Woman Soon og Son of a Preacher Man náðu inn á vinsældarlista eftir að myndin kom út.

Á geisladisknum voru ekki bara lögin heldur líka klippur úr myndinni. Pumpkin and Honey Bunny, Royale With Cheese, Zed’s Dead Baby, Bring Out The Gimp, Jack Rabbit Slims Twist Contest, Peronality Goes A Long Way og Ezekiel 25:17.

Það ómar af þeim tíma þar sem hljóðrás kvikmynda var klippt niður og gefin út á hljómplötum til þess að aðdáendur gætu fengið að njóta þeirra heima við.

Það er út af geisladisknum sem ég kann ræðu Samuel L. Jackson utan af. Sem þýðir líka að ég veit vel að fyrsta útgáfan er ólík þeirri sem hann fer með á veitingastaðnum. Af sömu ástæðu veit ég að Amanda Plummer breytir orðaröðinni í „I’m gonne execute every …“

Hið fyrrnefnda er ekki gloppa í söguþræðinum. Hún er mannleg. Jafn mannleg og að Jules er í raun ekki að vísa í Esekíel 25:17 heldur fyrst og fremst Sonny Chiba (sem Tarantino elskar, sbr. True Romance).

Honey Bunny línan er af ólíkum toga af því þetta er endurtekning á sama atriðinu. Hún ætti að vera nákvæmlega eins. Ég veit ekki hvort Amanda Plummer breytti línunni sjálf en ég er nokkuð viss um að Tarantino notaði viljandi tvær mismunandi útgáfur. Kannski er þetta Rashōmon (1950) vísun en aðallega er þetta til þessa að pota í tímalínu myndarinnar.

Á sínum tíma heyrði ég marga kvarta yfir því að það væri erfitt að skilja Pulp Fiction af því kaflarnir væru ekki í réttri tímaröð. Það var jafnvel til fólk sem áttaði sig engan veginn á því hvað var í gangi og héldu að það væru mistök fólgin í því að persóna hefði dáið í einum kafla en birst aftur í þeim næsta. Lukkulega fyrir það fólk kom Everybody Loves Raymond (auðvelt skotmark) fljótlega á sjónarsviðið þannig að það fékk skemmtiefni sem það gat ráðið við.

Það sem er áhugavert við Honey Bunny línuna er að ég hef ekki fundið neina aðra raunverulega gloppu í söguþráð myndarinnar. Það að horfa oft á Pulp Fiction hefur orðið til þess að ég sé að sagan myndar betri heild en þessi uppskipting gæti gefið til kynna.

Sem dæmi er eitt sem ég veit að fólk hefur kvartað yfir. Af hverju rekst Butch (Bruce Willis) á Marcellus Wallace (Ving Rhames)? Er það ekki óhóflega mikil tilviljun. Ef þú raðar öllu í rétta tímaröð sést að það passar.

Marcellus Wallace var greinilega í íbúð Butch með Vince (Travolta) en hafði skroppið út til að kaupa handa þeim morgunmat. En er ekki skrýtið að glæpaforinginn sé í svona skítaverkefni? Undir öðrum kringumstæðum hefði það verið Jules (Jackson) að vinna með Vince en hann er hættur og farinn. Wallace er fáliðaður og tekur að sér tiltölulega hættulaust verkefni svo aðrir menn hans geti séð um leitina.

Tarantino leyfir fólk að leysa þessa (veigalitlu) gátu og er sama þó allir tengi ekki þræðina. Þetta er ekki eitthvað gáfnapróf heldur andstæðan við þá áráttu að tyggja allt ofan í áhorfendur.

Ýmislegt sem ég held að hægt væri að túlka sem gloppur í myndinni er í raun komið til vegna þess að persónurnar eru ekki rosalega klárar. Persóna Bruce Willis undirstrikar þetta með því að hrósa sjálfum sér fyrir afrek sem byggði fyrst og fremst á kæruleysi annarra. Hann segir glæpamennina hafa vanmetið sig sem er akkúrat öfugt við það sem gerðist. Þeir héldu einfaldlega að hann væri ekki nógu vitlaus til að snúa aftur heim til sín.

Margir kvikmyndaleikstjórar hafa gert atriði þar sem karakter sprautar sig með vímuefnum (næstum því jafn mikil klisja og sígarettuatriði). Tarantino gerir það með stíl en ólíkt flestum þá nær hann að rústa sjónrænu rómantíkinni með ofneysluatriðinu. Uma Thurman með æluna út á kinn er mun eftirminnilegri.

Það þyrfti kannski að tala um hvern leikara fyrir sig en ég er þegar búinn að skrifa of mikið. Harvey Keitel, Tim Roth, Eric Stoltz, Rosanna Arquette … Og auðvitað Julia Sweeney. Ég nefndi við Gunnstein að ég hefði hitt þá síðastnefndu og hann svaraði mér að ég hefði líka sagt honum það þegar við horfðum fyrst á myndina. Annars er frægasta mynd hennar It’s Pat is líka frá 1994 (aldrei séð’ana og langar ekki). Síðan má auðvitað nefna að Steve Buscemi var lítt þekkjanlegur sem Buddy Holly.

Christopher Walken er með eitt besta „inn og út“ atriði í kvikmyndasögunni. Mig grunar að það sé til fólk sem man ekki eftir neinu öðru úr Pulp Fiction. Einræðan er auðvitað frábær á pappír en Walken neglir hana.

Einu sinni var ég spenntur fyrir því að vita hvað væri í skjalatöskunni en auðvitað er þetta bara vísun í „feðginin“ sem bóka sig á gistihúsið í Léon.

Myndin er ekki gallalaus og það sem ég tek kannski helst eftir er að ég hef minna þol fyrir niðrandi orðum. Fólk misskilur oft svona gagnrýni á notkun á hlutum eins „n-orðinu“. Ég er ekki reiður. Þetta er bara svo óhóflegt að það verður hálfkjánalegt. Atriðið í kjallaranum með „gimpinu“ fellur í svipaðan flokk hjá mér.

Pulp Fiction hefur samt staðist tímans tönn. Hún hefði átt að vinna Óskarinn fyrir árið 1994. Við vissum þá þegar að hún hefði breytt kvikmyndum, að hún myndi enduróma árum saman. The Shawshank Redemption er frábær myndi en áhrifalítil. Forrest Gump er kannski ekki jafn slæm og fólk segir en hún er ákaflega veigalítil. Tarantino vann þó allavega fyrir handritið.

Maltin gefur ★★★½.

Þetta var örugglega lengra en Forrest Gump færslan.

Fancy Dance (2023) 👍👍 {21-20-18-ø}

Einhver besta mynd ársins 2023 (þegar hún var sýnd á kvikmyndahátíðum) eða 2024 (þegar hún fór í almenna dreifingu). Þið ættuð að reyna að finna hana frekar en að lesa það sem ég hef að segja. Sumt hljómar kannski dramatískt og niðurdrepandi en ekki láta það stoppa ykkur.

Eftir hvarf konu sem tilheyrir Seneca–Cayuga þjóðinni þarf fjölskylda hennar bæði að fást við áhugaleysi alríkislögreglunnar og eigin sambönd. Kjarni myndarinnar eru frænkurnar Jax (Lily Gladstone) og Roki (Isabel Deroy-Olson). Báðar leikkonurnar eru stórkostlegar.

Strax á fyrstu mínútum myndarinnar eru undirstrikað að frænkurnar eru langt frá því að vera fullkomnar. Í kringum þær er fólk sem vill oft á tíðum breyta rétt en mistekst. Vel meinandi manneskjur eyðileggja út frá sér vegna skilningsleysis. Allt mjög mannlegt.

Það er eiginlega ekki hægt að tala um Fancy Dance án þess að nefna Killers of the Flower Moon (2023) þar sem Lily Gladstone var líka í aðalhlutverki. Sú mynd var góð þó hún hafi verið of löng til að halda dampi en of stutt til að gera flókinni (sannri) sögu góð skil. Í raun alveg frábært dæmi um kvikmynd sem hefði átt að vera sjónvarpssería.

Fancy Dance segir tiltölulega einfalda persónulega sögu. Þetta er ekki sönn saga en þó raunveruleg. Konur sem tilheyra frumbyggjaþjóðum eru myrtar eða hverfa sporlaust án þess að alríkisyfirvöld sýni því raunverulegan áhuga.

Conclave (2024) 👍 {20-19-17-ø}

Páfinn deyr og dramað byrjar. Það er alltaf gaman að horfa á myndir sem leyfa sér að fara hægt og gera það vel. Plott og dýpri plott. Allir leikarar eru frábærir (Fiennes, Lithgow, Rossellini, Tucci). Umgjörðin öll mjög flott. Sérstaklega þegar kardínálarnir eru að koma í Vatíkanið. Andstæðurnar allar, nútíminn og hefðin, hið heilaga og það veraldlega.

Undir lok myndarinnar virtist hún kannski taka sig of alvarlega. Hún er alveg verulega góð en ekki sérstaklega djúp. Endilega kíkið á hana.

Håndtering av udøde (2024) 🫳 {19-18-16-ø}

Höndlun hinna ódauða er kannski rökrétt þróun í uppvakningamyndum. Mig grunar nefnilega að vinsældir slíkra mynda sé tengd því að þessi skrýmsli eru ekki sérstaklega yfirnáttúruleg. Þetta sést á því að útbreiðslan á uppvakningum er tengd við vírusa. Þetta eru vísindalega möguleg skrýmsli! Reyndar ekki en …

Þegar við fjarlægjumst yfirnáttúruna hljótum við að vilja meiri raunveruleika. Eða hvað? Håndtering av udøde reynir að svara þeirri spurningu og mitt svar er: Nei, takk.

Hryllingurinn í myndinni er hversdagslegur, persónulegur, hægfara og niðurdrepandi. Það er ekkert skemmtilegt við hana.

Mín tilfinning er að hérna hafi tekist að gera kvikmyndina sem átti að gera. Hún er kannski ekki fyrir mig en ég held að það hafi aldrei verið ætlunin.

Megalopolis (2024) 👎 {18-17-15-ø}

Ég bjóst ekki við að nýjasta mynd Francis Ford Coppola væri sérstaklega góð en ég vonaði að hún væri áhugaverð. Það átti reyndar við um fyrsta klukkutímann. Fáránleg en stundum skemmtilega skrýtin.

En það dregst og dregst. Söguþráður er varla til staðar. Persónusköpun ekki heldur. Mig langaði samt að sjá hvert þetta færi og þetta fór ekkert. Mig grunar að það sé boðskapur þarna en ekki nenni ég að greina myndina í leit að honum.

Myndin er Shakespearísk en ekki á góðan máta heldur vegna tilgerðarlegra takta.

Margt í hönnuninni minnti mig á óræða framtíðarheiminn úr Mystery Men (1999). Dustin Hoffman, Jon Voight, Shia LeBeouf og Aubrey Plaza voru bara skrefi frá því að vera persónur úr þeirri mynd. Mögulega hefði þetta virkað betur sem gamanmynd en þegar ég hló var ég aldrei viss um hvort það væri tilætlunin.

Adam Driver og Laurence Fishburne gera að vanda sitt besta en það bjargar engu. Aðrir leikarar fá lítið til að vinna úr eða gera ekkert úr því.

Ekki horfa á Megalopolis. Kíkið á Mystery Men í staðinn.

Bullitt (1968) 🫳 {17-16-ø-3}

Steve McQueen myndar ákveðna eyðu í kvikmyndaáhorfi mínu. Ég hef örugglega séð einhverjar myndir hans og langar að sjá aðrar en almennt heillar hann mig ekki. Þannig að það var ágætt tækifæri að sjá Bullitt í bíó. Það segir kannski eitthvað að ég var með yngri bíógestum (en Gunnsteinn mögulega yngstur).

Ég held ég geti alveg séð hvað heillaði fólk við þessa mynd (þó ★★★½ frá Maltin hafi líklega alltaf verið óhóflegt) en mér finnst hún ekki hafa elst vel. Hún er hægfara og fyrirsjáanleg. Það lifnar reyndar aðeins yfir henni í flottum bílaeltingaleik sem virðist hafa fundið upp á klisjum sem eru enn notaðar.

Samband hetjunnar okkar við kærustuna er frekar grunnt. Þannig missir það alveg marks þegar hún er með einhverjar áhyggjur af ofbeldinu.

Ég hef á tilfinningunni að ef ég hefði séð þessa mynd þegar ég var yngri hefði ég kannski fallið fyrir henni. Í dag kemst ég varla yfir hvað er kjánalegt að aðalpersónan heiti Byssukúla (Bissukúla? Byssukýla?).

Tónlistin er líklega sá hluti myndarinnar sem virkar best. Hún var vissulega síns tíma en án þess að vera gamalsdags.