Þetta er algjörlega uppáhalds vampírumyndin mín. Ég veit að hún er gölluð en mér finnst hún samt æðisleg.
Það væri örugglega þess virði að fara á Bram Stoker’s Dracula í bíó. Ég missti alveg af því á sínum tíma (fullungur fyrir hryllingsmyndir). Þess í stað er það UHD (4k) útgáfan í stóra sjónvarpinu.
Augljósasti galli myndarinnar er Keanu Reeves. Það var stórundarleg hugmynd að velja hann í þetta hlutverk (Christian Slater kom líka til greina sem hefði ekki heldur verið gott). Hann virkar stífur og hreimurinn hans er, samkvæmt átta heimildum á Wikipediu, einn sá versti ef ekki sá versti í kvikmyndasögunni. Coppola segir að vandinn hafi verið að Keanu var að vanda sig alveg rosalega mikið. Mér finnst samt stífleikinn virka fyrir persónuna. Mér finnst hann aðallega of sætur fyrir hlutverkið. Einhver sagði að Keanu væri svo rangur að hann væri næstum réttur. Ekki alveg en ég fyrirgef honum allavega.
Margir hafa líka gagnrýnt hreiminn sem Winona Ryder notar í myndinni. Hún passar samt betur að öllu öðru leyti þannig að flest okkar tökum miklu minna eftir því.
Gary Oldman er auðvitað stjarna myndarinnar og er yfirdrifinn eins og svo oft. Það virkar hérna eins og í mörgum, en ekki öllum, myndum hans. Þú þarft að vera yfirdrifinn þegar þú segist ekki smakka vín.
Anthony Hopkins gæðir sig líka á leiktjöldunum. Sama gildir um Sadie Frost. Tom Waits er dásamlega yfirdrifinn. Það er ákaflega gaman að fylgjast með honum. Richard E. Grant er lágstemmdari og það virkar. Cary Elwes hverfur svolítið í bakgrunninn líkt og kúrekinn sem ég man aldrei hver leikur.
Aðalmálið er samt að kvikmyndin er listaverk. Francis Ford Coppola vildi engar nútímabrellur. Allt var gert með tækni sem var til á fyrstu árum kvikmyndagerðar, það er á þeim tíma sem myndin á að gerast. Útkoman er yndisleg. Á stóra skjánum var hægt að njóta smáatriða sem ég hef aldrei áður séð. Myndin verður einfaldlega betri í hærri upplausn.
Það er hægt að njóta myndarinnar án þess að vita hvernig brellurnar voru gerðar. Það er hins vegar ákaflega skemmtilega að horfa á aukaefnið á disknum til að sjá töfrabrögðin, og margt af þessu var byggt á brellum töframanna, framkvæmd.
Ég myndi segja að myndin sé full hægfara á köflum ef mér þætti ekki svo gaman að horfa á hana. Ef það er galli þá fyrirgef ég hann líkt og ég fyrirgef Keanu og Guð fyrirgefur Drakúla.
Að öðrum ólöstuðum er það samt tónskáldið Wojciech Kilar sem stelur myndinni. Ég gæti ekki ímyndað mér að gera lista yfir bestu kvikmyndatónlistina án þess að setja þessa í topp fimm eða bara á toppinn.
Þessi mynd færir mér gleði og það er ástæðan fyrir því að hún er í UHD-safninu mínu.
Maltin gefur ★★★½ sem er innan skekkjumarka en samt full lítið.