Tunga.is

Þetta er undarleg „frétt“ sem ég var að lesa á Vísi:
Fréttamiðilinn tunga.is sem undanfarna mánuði hefur flutt fréttir og fréttatengt efni á netinu er hættur starfsemi. Segir í orðsendingu á heimasíðu miðilsins að hann hafi orðið að gefast upp í samkeppni við Ríkisútvarpið. Gagnrýna forráðamenn tunga.is menntamálaráðuneytið og RÚV fyrir að halda úti niðurgreiddum fréttavef (ruv.is) og segja að þessi starfsemi komi í veg fyrir að fjárhagsgrundvöllur skapist fyrir óháða fréttamiðla á netinu.
Ég hef einu sinni áður heyrt um tunga.is og þá var einhver þarna að gagnrýna RÚV. Aldrei hef ég farið þangað og snöggt yfirlit á síðunni sýndi fram á það að þessi „fréttamiðill“ væri til að mynda með svipaða uppfærslutíðni og þessi dagbók. Yfirleitt er efnið á síðunni fengið annars staðar frá, til að mynda vísað í greinar á stjórnmálavefritunum. Vefurinn er síðan einstaklega ljótur. Ekkert lagt í útlitið, fyrirsagnirnar virðast hafa verið prentaðar yfir „fréttamyndirnar“ í Paint af einhverjum sem er nýbúinn að læra á það forrit. Þetta var semsagt svona bloggsíða með fréttaívafi, illa gerð bloggsíða.

Snögg rannsókn á þessari síðu leiddi mig til heimilis Ágústs Einarssonar og þá er það víst sonur hans (ekki Ágúst Ólafur þó heldur Einar) sem hefur séð um þessa síðu. Þetta kom mér á óvart enda bjóst ég satt best að segja eindregið við að finna nafn Benedikts Jóhannessonar (Bensi frændi Eyglóar) þarna. Þarna er allavega kominn sonur mannsins sem finnst fólk ekki fórna nógu miklu fyrir menntun sína, ég veit lítið um soninn.

Mín hugmynd um tilkomu þessarar síðu er á þá leið að einhver andstæðingur (eða einhverjir andstæðingar) RÚV hafi þarna komið og ákveðið að koma höggi á RÚV. Þeir hafa peninga til að henda í ruslið (ekki það að þetta sé í raun mjög dýrt, ýmis vefrit eru rekin í sjálfboðastarfi án peningamanns á bak við) og stofna þessa síðu með það að markmiði að leggja hana síðan niður í framtíðinni og kenna RÚV um.

Ég tel mig ágætlega vel að mér í netheimum, les blogg þar sem fólk er alltaf að vísa á áhugaverðar síður, aldrei man ég eftir að hafa lesið um þessa síðu (nema varðandi gagnrýnina á RÚV). Þessi síða virðist almennt ekki hafa verið rekin á þann hátt að ætlast væri til þess að fólk tæki eftir henni, hún fór nær huldu höfðu fyrir utan að gagnrýna RÚV en sendir síðan út fréttatilkynningu þegar þeir ákveða að „gefast upp fyrir RÚV“.

Það að segjast vera að gefast upp fyrir RÚV er náttúrulega út í hött, RÚV er almennt lítið notaður fréttamiðill, Morgunblaðið er augljóslega sterki samkeppnisaðilinn sem ekki er við ráðið á þessum markaði. Forráðamenn Tunga.is þykjast ekki vita það eða bara hreinlega vita það ekki enda voru þeir aldrei í alvörunni á veffréttamarkaðinum, þetta var bara show.

Ef ég myndi leggja niður þessa dagbókarsíðu og halda því fram að ég hafi gefist upp á samkeppninni við RÚV þá væri það álíka sannfærandi og þvaður forráðamanns Tunga.is.