Vendipunkturinn

Ég hef stundum verið að spá í vendipunktum hjá Metallica og Queen.

Það sem ég sé endurtaka sig í sögu þessara hljómsveita er vendipunkturinn. Það er stóra platan, ákveðinn hápunktur sem hljómsveitin náði og síðan breytist ýmislegt.

Hjá Queen er platan A Night at the Opera (með Bohemian Rhapsody) en Svarta Albúmið (Nothing Else Matters) hjá Metallica. Báðar eiga þessar plötur það sameiginlegt að almenningur telur þær það besta sem hljómsveitirnar hafa látið frá sér.

Eldri aðdáendur eru hins vegar þannig að þeir telja eldri plötur betri, Sheer Heart Attack (plata 3) er yfirleitt hæst á vinsældarlista gömlu Queenaðdáendanna á meðan ég hef það á tilfinningunni að Master of Puppets sé hliðstæð meðal eldri Metallicaaðdáenda (gæti verið rangt hjá mér). Eldri aðdáendurnir eru ekki sérstaklega hrifnir af stóru plötunni, hún er of „commercial“ eða eitthvað álíka.

Til eru nýrri hópar aðdáenda sem kunna jafnvel best að meta plötur sem koma á eftir stóru plötunni, ég hef hitt fólk sem er stórhrifið af Load, Reload og Garage Inc og Queenaðdáendur sem eru á því að A kind of Magic, The Miracle og Innuendo séu bestar.

Með Queenaðdáendur þá hef ég séð að þeir sem eru hrifnir af öllum tímabilum (þó hugsanlega mismikið) þá er Queen II (plata númer 2) vinsælust, sem er skrýtið miðað við að hún er ekki hæst á lista eldri aðdáendanna. Ég veit ekki hvaða mat svipaðs hóps aðdáenda Metallica verði enda er slíkur hópur ekki til.

Mitt álit á þessu ferli er að þetta sé nauðsynlegur liður í þróun hljómsveitarinnar, þú getur ekki endalaust gert það sama, verður að breyta til og það á það til að ergja gamla aðdáendur sem telja sig svikna að einhverju leyti. Þetta er allt nauðsynlegt.

Þetta eru samt bara mínar pælingar, ekki mjög vísindalega unnar enda ekki mikill Metallicaaðdáandi (bara almennur borgari sem kann best við Svarta Albúmið). Deilið áliti ykkar.

0 thoughts on “Vendipunkturinn”

  1. Metallica seldu sig frá og með svarta albúminu. Þó að það séu nokkur ágæt lög á því er ég alfarið á móti því af hugsjónaástæðum.

Leave a Reply