Hárið

Í morgun var ég eldsnemma í vinnunni að taka vakt fyrir félaga minn, afskaplega hress. Ég var að hlusta á Létt FM sem var jafn hresst og ég. Í útvarpinu kom síðan lag úr Hárinu, íslensku útgáfunni frá því fyrir hátt í tíu árum síðan semsagt. Í fyrra fór ég á Hárið hjá LMA (Leikfélag Menntaskólans á Akureyri (sem ég var einu sinni í)), þar lék Hildur vinkona Eyglóar (frænka Evu og Heiðu sem eru sífellt títtnefndari) aðalhlutverkið. Ég var ekkert sérstaklega hrifinn af uppfærslunni í heild sinni en ég verð að segja að Hildur stóð sig afskaplega vel og það var það sem rifjaðist upp fyrir mér. Mig langaði eiginlega meira að heyra Hildi syngja þetta lag heldur en þessa sem söng það í útvarpinu.

Ég tek fram að ég er ekkert sérstaklega mikið fyrir að hrósa fólki að óþörfu og það að minnast á svona hlut ári seinna segir mikið um hve hátt álit ég hef á frammistöðu hennar.