Verslunarmannahelgin

Ég hef aldrei farið á neina hátíð um verslunarmannahelgina nema 1997 þegar ég vann í Borgarnesi og fór heim til Akureyrar en það var aðallega til fara í brúðkaup þannig að það telst varla með. En ég skrapp náttúrulega niður í bæ um verslunarmannahelgina og þar var nú alltaf einhver hátíð, í fyrra fór ég ekki neitt, hékk bara í Reykjavík. Í ár er ég sáttur við að hanga aftur í Reykjavík og fá bara Evu í heimsókn. En það var ekki það sem ég ætlaði að tala um.

Eitt árið sem Halló Akureyri var fór ég á föstudagskvöldi niður í bæ og þar var indæl stemming, betra en yfirleitt. Fólk var í stuði og skemmti sér, enginn leiðindi. Í fréttunum daginn eftir var endalaust verið að tala um hve slæmt hefði verið í miðbæ Akureyrar, ólæti og slagsmál. Algerlega ósanngjörn gagnrýni, bara verið að reyna að búa til fréttir. Þegar ég fór niður í bæ á laugardagskvöldið hafði stemmingin í bænum breyst og lýsing fréttanna hefði verið réttlætanleg það kvöld. Ég hafði það sterklega á tilfinningunni að fréttaflutningur af hátíðinni hefði breytt stemmingunni, eyðilagt hana. Ég held þar af leiðandi að fjölmiðlar þurfi að passa sig á fréttaflutningi af svona hátíðum því það er hægt að eyðileggja þær með svona lygum.

3 thoughts on “Verslunarmannahelgin”

Lokað er á athugasemdir.