Gestagangur

Við erum alltaf að fá gesti sem er tilbreyting frá gamla staðnum þar sem við fengum nær aldrei heimsóknir. Í gær leit Heiða inn til okkar á leið úr vinnunni, vinnan hennar er í bakgarðinum okkar þannig að ég á núna myndir af henni í vinnunni. Eftir að Heiða var farin þá komu Svenni og Hrönn í mat, þeim hafði reyndar fyrst verið boðið í innflutningspartí en Hrönn átti bara afmæli (sem minnir mig á að Mummi mágur átti afmæli á föstudaginn en ég gleymdi því) þá þannig að þeim fannst mikilvægara að gera eitthvað annað.

Eftir matinn þá enduðum við einhvern veginn fyrir framan sjónvarpið og horfðum á fyrsta þáttinn af Survivor sem Svenni og Hrönn hafa víst aldrei fylgst með, reyndar höfum við Eygló bara séð eina seríu. Mér fannst þetta bara lofa góðu, skemmtilegur náunginn þarna Svartskeggur sem stal bara frá hinu liðinu, ég held með honum.

Í morgun fékk ég gest og ljósmyndarinn ég var ljósmyndaður, það var nokkuð erfitt að útskýra fyrir náunganum hvað ég hefði gert til þess að verðskulda þennan heiður.