Gærdagurinn var skemmtilegur

Gærdagurinn var skemmtilegur. Ég hafði ekkert sofið um nóttina og fór síðan í vinnuna klukkan hálf átta. Ég byrjaði daginn á því að segja upp vinnunni til að geta eytt meiri tíma í námið og sleppt áhyggjum. Við lifum af en það hefði verið auðveldara með þessum aukapeningi á mánuð. Síðasti vinnudagurinn var frekar týpískur, í kaffitímanum uppgötvaðist Fréttablaðsgreinin og því var slengt fyrir framan mig:”Þessi er kunnuglegur”. Ég held að enginn hafi lesið greinina í heild sinni, aðalorðið sem þeir sáu var “bloggari”.

Einn Svíi sem vinnur með mér (og hefur nokkrum sinnum sungið með mér Queenlög) fékk aukapöntun á síðustu stundu sem hann hefði verið svona tvo tíma með en við tókum okkur saman nokkrir með honum og kláruðum þetta á svona 20 mínútum, það var gaman að enda þetta á smá samvinnu. Fullt af góðu fólki sem ég vann með þarna og líklega væri allt í lagi að vinna þarna annað sumar þó ég voni að ég fái eitthvað tengt náminu.

Eftir hádegi var farið í Holtagarða með Heiðu, Evu og Eygló, hittum reyndar líka Sigga og mömmu hans í Rúmfatalagernum. Ég fæ mjög hugsanlega annað samsetningarverkefni því Heiða keypti sér kommóðu sem er allt í lagi ef hún er ekki jafn flókin og skenkurinn er Eva keypti sér. Eftir samsetninguna á honum þá átti ég svona 20-30 skrúfur eftir og sá ekki fyrir mér að ég hefði nokkur staðar getað komið þeim fyrir.

Við fórum síðan í badminton þar sem Heiða rassskellti okkur öll aftur og aftur. Við Eva náðum reyndar að vinna Eygló og Heiðu en þá var Heiða meidd. Ég tel mig hiklaust hafa verið næst bestan því Heiða vann mig yfirleitt með minnstum mun (sem var þó mjög stór). Gaman að fara af stað í einhverju svona, verð að gera meira til að halda áfram að grennast.

Við skruppum næst heim og fórum í sturtu (allir fóru heim til sín og ein í sturtu). Ég fékk þá kortérs svefn og síðan fórum við öll aftur af stað á American Style sem var afmælisgjöf til systranna. Eva var óhugnalega fyndin þegar hún var að skera í sundur hamborgarann sinn til að elta uppi rauðleita bita (hún bað um vel steikt), þessir rauðleitu bitar voru svo ljósrauðir að Eva þurfti að þola sífellt háð. Ég hélt til streitu stefnu minni að fá mér alltaf einfaldan hamborgara. Heiða sagðist ekki treysta kvikmyndasmekk mínum því ég væri hrifinn af Woody Allen (einsog Eygló) og fór í kjölfarið að tala um einhverja mynd með Woody sem átti að heita Broken Arrow. Ég lagðist fram á borðið í hláturskasti með hún hélt því til streitu fram að þessi mynd væri til.

Stelpurnar fóru síðan í bíó (hluti af afmælisgjöfinni) en ég lét það vera og hélt til streitu bíóhatri mínu sem mun líklega haldast þar til Hilmir snýr aftur. Heiða og Eygló komu heim eftir bíó og við horfðum á nýjasta Friends og upptöku af Popppunkti [ekki lesa það sem á eftir kemur ef þú vilt ekki vita úrslitin]. Ég held en til streitu þeirri gagnrýni minni að nýja kerfið reyni of mikið á heppni. Ég hélt með Singapore Sling af því ég hef hitt einn úr hljómsveitinni (hann var ekki þarna) sem er vinur vinar míns og það er meiraðsegja til mynd af honum einhvers staðar hér. Ensími stóðu sig samt vel, sérstaklega á síðustu spurningunni og Martröðinni og áttu allt sitt skilið.

Þegar hér var komið við sögu var Heiða alveg að drepast og við skutluðum henni heim. Heiða litla vinnur á leikskóla og því starfi fylgir vissulega það að vera sífellt veikur fyrst um sinn. Ætli maður fái fleiri veikindadaga ef maður vinnur á leikskóla? Kerfið ætti allavega að vera þannig…

Sagan búin.