Vefsýnarverðlaunin

Ég var hvattur til að taka þessi verðlaun fyrir þannig að ég skal gera það.

Vefsýn var að veita sína verðlaun og ég birti hér með lista yfir sigurvegara þeirra (sem er meira en þeir gera):
Besti íslenski vefurinn: tonlist.is
Besti fyrirtækisvefurinn: vinbud.is
Besti einstaklingsvefurinn: bjorn.is
Besti afþreyingarvefurinn: hugi.is
Besta útlits- og viðmótshönnun: nikitaclothing.com
Ókei, tónlist.is er góð hugmynd í grunninn en þeir treysta á óþægilega microsofttækni, lögin eru í of lágum gæðum, ég hef heyrt um marga sem hafa lent í vandræðum með síðuna og aðgangur er of dýr miðað við þetta allt.

ÁTVR sigrar og ég hef ekkert álit á því, hef líklega aldrei notað þann vef né aðra þá vefi sem voru tilnefndir.

Björn vinnur fyrir besta einstaklingsvefinn. Ég skoða Björn í hverri viku en það er ekki möguleiki að hann sé betra en Fréttir sem var líka tilnefndur. Síða Björns er þannig sé ekkert merkilegri en aðrar bloggsíður stjórnmálamanna fyrir utan það hve lengi hann hefur haldið henni gangandi og fyrir það hve oft hann nær að minnast á Sovétríkin. Ég hefði náttúrulega átt að vinna, ég veit að ég var tilnefndur því ég gerði það sjálfur.

Hugi, besti afþreyingarvefurinn. Ég hélt að málefnin væru búin að taka þetta yfir. Íslendingabók er hins vegar miklu merkilegri vefur, með miklu víðari notendahóp. Algert rugl.

Nikita Clothing vinnur fyrir besta útlitið og það fyrsta sem ég sá þegar fór þangað var að hluti textans á forsíðunni hulinn. Líklega ekki viljandi. Líklega vegna þess að vefurinn var ekki hannaður fyrir Opera. Ég sá annars ekki neitt við þennan vef sem gaf til kynna að hann væri íslenskur. Ég myndi annars aldrei veita verðlaun fyrir útlit, innihaldið skiptir öllu máli, útlitið á bara ekki vera fyrir.