Ég vaknaði klukkan 11:00, eftir svona tvö snús fór ég á fætur og hitti Hjördísi sem var að teikna í gestabókina. Eftir örlitla umhugsun þá áttaði ég mig á því að rúmið væri besti staðurinn fyrir hressa mig. Eygló fór á fætur rétt á eftir mér en sneri einnig til baka. Við vöknuðum aftur klukkan 12:00 og þá drullaði ég mér á fætur en Eygló nokkru seinna (í náttfötunum). Ég fékk mér kjarngóðan morgunmat, mjólk & kakó og köku en síðan köku og kók. Ég byrjaði hreingerningarnar miklu af alkunnum dugnaði og vaskaði upp með hjálp Halla, hin kláruðu síðan að borða og gerðu allt fínt. Ég hlóð bílinn, það gekk vel enda búið að ganga á draslið og líka vegna þess að það er betra að hlaða öllum farangrinum í einu en að bæta dóti hvers og eins á þegar hann er sóttur einsog gert var á föstudaginn.
Við komumst af stað án vandkvæða enda bíllinn góður. Við fórum ekki langt því við höfðum ákveðið að skreppa í sund á Laugarvatni, laugin var góð og pottarnir líka. Aðalvandamálið við að synda þarna var að Halli djöfull var að synda með og hann kann þetta, hann snýr meiraðsegja við einsog kallarnir á Ólympíuleikunum enda æfði hann í nærri áratug, maður vill ekkert láta bera sig saman við svona fólk. Við stoppuðum ekki lengi í sundi.
Leiðin frá Laugarvatni að Selfossi var ömurlega leiðinleg, glerhált á köflum og þar að auki er bíllinn ekkert skemmtilegur þegar hann er svona þungur. Ekki bætti úr skák að sólin var lágt á lofti og skein í augun á mér. Við komust inn í Hveragerði og þar vorum við Eygló mjög andstæð í skoðunum um hvar ætti að kaupa ís eða pylsur. Eygló vildi fara í Eden en ég sagði að Eden væri skítastaður og okurbúlla, við enduðum nú samt í Eden. Ég vann mikinn siðferðislegan sigur þegar það kom í ljós að Eden er í raun skítastaður og okurbúlla. Náunginn sem var að selja ísinn þarna var bólugrafinn unglingur með sítt hár sem honum fannst óþarfi að hafa í teygju, ég er síðan nokkuð viss um að ég sá hann bora í nefið þegar hann hélt að enginn sæi til (ekki þvoði hann hendur sínar eftir það). Það var líka viðbjóðslega heitt þarna og ég var mjög feginn þegar við fórum.
Þegar við vorum að fara á Hellisheiðina keyrði ég rólega enda frekar hált og þar að auki grunaði mig hvernig umferðin myndi þróast, hægt og rólega varð það nefnilega ljóst að það voru ekki margar raðir á leiðinni til Reykjavíkur heldur ein löng. Einhverjir hálfvitar þrjóskuðust við og tóku framúr, mér er sérstaklega minnisstæður einn sem var á stórum svörtum bandarískum pallbíl sem lagði líf fjölda manns í stórhættu þegar hann tók framúr svona fimm bílum í einu, hvað ætli hann hafi grætt á því? Mínútu? Fimm mínútur? Það er náttúrulega alveg ljóst að svona fólk á ekki að vera með bílpróf. Einnig er ljóst að sumt fólk ræður ekki við að hafa há ljós á bílnum sínum, það ætti að finna þetta fólk, kippa háu ljósunum úr sambandi hjá þeim og banna þeim að keyra þegar dimmt er.
Við komumst heil á húfi í borgina og skutluðum Halla heim með blómvönd handa foreldrum hans sem redduðu bústaðinum fyrir okkur. Það dró síðan til tíðinda þegar við fórum frá Halla. Ég var að keyra af stað á ljósum yfir Háaleitisbraut þegar ég vann að eitthvað var að, það var greinilega sprungið. Ég var illa staddur því ég var á miðakreininni og þurfti nauðsynlega að komast út í kant. Ég gaf stefnuljós og það tók gríðarlega á að komast því ég sá ekki almennilega hvað var að gerast á akreininni sem ég var að fara skipta yfir á. Góðir ökumenn redduðu mér og komst á strætóinnskot, aðrir ökumenn voru ekki jafn indælir því einhver flautaði harkalega á mig fyrir að sóa svona 10 sekúndum af lífi hans þó að ég hafi á þeim tímapunkti verið kominn með hasarljósin á út í kanti.
Við Nils skiptum um dekk eldsnöggt þó við þyrftum að tæma skotið fyrst. Á meðan við vorum að skipta um dekk minntist ég á hve vanþakklátur maður væri þegar svona kæmi fyrir, maður hugsaði “af hverju ég? af hverju núna?” því þetta virtist vera óhentugur tími og óhentugur staður. Þetta var hins vegar frábær tími og frábær staður miðað við að þetta hefði getað gerst í kolniðamyrkri á föstudaginn eða Hellisheiðinni svona hálftíma áður. Tíminn var góður af því við höfðum fleygt Halla út rétt áður og því var auðveldara að tæma skottið og staðurinn var góður af því þarna var strætóinnskot og ljósastaurar allt í kring svo maður sá nákvæmlega hvað maður var að gera.
Við fleygðum Nils og Hjördísi heim til Nils (reyndar hef ég staðið Hjördísi að því að kalla þetta sitt “heim”) þar sem þau voru að öllum líkindum að fá sænskar kjötbollur á efri hæðinni hjá mömmu hans. Við komumst síðan heim klakklaust (hvað er þetta klakk sem maður vill vera laus við?) og þar var ekkert að frétta.