Bústaðaferð A-Ö

Ég er búinn að fleygja inn bústaðaferðasögufærslum hér í dagbókina en ég lét myndir og söguna í heild sinni á sérstaka Bústaðaferðasíðu.

Bústaðaferð bókasafnsfræðinörda
9.-11.janúar 2004

Föstudagur

Bókasafnsfræðinördar fóru af stað í ferðalag, áfangastaðurinn var sumarbústaður nálægt Laugarvatni. Litli bíllinn hans Óla var fullur af fólki (Óli, Eygló, Hallgrímur, Hjördís og Nils) og drasli. Á seinnihluta leiðarinnar komu upp vandamál, bíllinn festist en Óli losaði hann án hjálpar. Þegar nær dró bústaðinum þá leiðbeindi Hallgrímur aðeins skakkt og aftur festist bíllinn. Fólkið reyndi að ýta bílnum en ekkert gekk enda kann þetta fólk ekki að ýta. Þegar farþegarnir höfðu farið að leita eftir aðstoð þá fór Óli að moka og hagræða bílnum, Óli var laus áður en aðstoðin barst.

Leiðbeiningar fengust og bíllinn fór réttu leiðina án mikilla átaka. Nils, Hallgrímur og Eygló höfðu af einhverjum ástæðum ákveðið að rölta dáltið þarna en enduðu samt í bílnum aftur. Nú var komið að afleggjara og ekið var eftir honum þar til að kom að bíl sem var fastur þannig að ekki var framhjá honum komist, ekki var hægt að bakka neitt því tveir bílar voru rétt á eftir. Þegar var farið að tala við bílstjórana tvo þá kom í ljós að þar var annar bókasafnsfræðinörd og fyrrverandi kennari Nils, Ísland er lítið. Kennarinn góði vissi um aðra leið að bústaðinum (sem var í svona 300 metra fjarlægð) þannig að eftir bakk og vesen þá komust allir á leiðarenda (reyndar hafði Óli þá hent öllum nema Hallgrími (hinum sterka) úr bílnum).

Í bústaðinum var farið að elda mat og þegar Óli var búinn að snæða þá fór hann að laumast til að búa til krem á afmæliskökuna hans Hallgríms. Laumuspilið tókst þá samsærisfélagarnir hafi ekki náð að hafa taumhald á Hallgrími. Allir nema Eygló fengu sér þá köku.

Næst var farið í heitan pott og allt gekk vel þar til að fólk varð vart við músagang, Óli fer af stað til að hindra inngöngu músanna en það tókst ekki og þurfti hann að reka mús út og náði af henni mynd.

Eftir að Óli hafði farið í sturtu sá hann að önnur mús var inni og tók hann sig til við að reka hana út líka. Seinni músin var snjallari og klifraði meðal annars í gluggatjöldum. Eftir myndatöku þá fékk músin reisupassann. Mikið var rökrætt um hvaða spil skyldi valið fyrir kvöldið og að lokum var Matador tekið fyrir. Í nokkrar umferðir var jafnt en síðan þá varð ljóst að Óli og stelpurnar voru að taka forskot. Hallgrímur var fyrstur að falla eftir harða baráttu þar sem hann reddaði sér einu sinni einkar glæsilega. Næstur féll Nils og nokkrum umferðum seinna var Eygló gjaldþrota. Hjördís barðist til síðasta blóðdropa en Óli fékk ekkert samviskubit við að kreista þá út. Enn og aftur er ljóst að allir eru heppnir að Óli valdi sér ekki að fara út í peningabrask.

Laugardagur

Þegar við vöknuðum þá gátum við séð að það var alveg gríðarlega mikið af bústöðum hérna í kring. Snemma á laugardag ákváðum við að fara út að ganga, þegar við gengum um svæðið virtist það minna en þegar við vorum að bakka og keyra löturhægt þarna kvöldið áður. Nils fór að fíflast eitthvað og þegar bíll keyrði framhjá okkur tók hann upp á því að benda eitthvað út í loftið. Bíllinn stoppaði og Eygló var spurð hvað við hefðum verið að benda, hún gat lítið svarað.Þegar heim kom þá ætluðum við að spila Hringadróttinsspilið en þegar ég áttaði mig á að það tæki örugglega meirihluta dagsins að finna eitthvað úr reglunum þá ákváðum við að fara í Kínverska skák í staðinn. Plúsinn við Kínverska skák er að við gátum hringt aftur og aftur í Árnýju til að fá reglurnar á hreint. Halli var í þeirri vondu stöðu að hafa aldrei spilað Rommí sem er eiginlega nauðsynlegur grunnur í Kínverska skák og tapaði því einkar glæsilega. Ég vann hins vegar með yfirburðum.

Þegar Kínversku skákinni lauk þá var komið að matseld. Matseldin gekk afskaplega vel og fylltist allt af reyk. Eftir mat fór ég í pottinn og hin bættust við hægt og rólega. Þegar við komum úr pottinum varð ég var við músafaraldur í núðluafgöngum sem hafði verið settur í geymslu utan dyra, við skoðuðum þær og tókum fullt af myndum af þeim.

Rétt um miðnætti byrjuðum við í póker. Hallgrímur var líka að spila póker í fyrsta skipti en náði samt að vinna aftur og aftur. Eygló datt fyrst út enda ekki í stuði. Hallgrímur tók miklar áhættur og datt þannig út. Mér gekk misvel en þegar var skipt um pókerafbrigði og tvistarnir giltu allt þá fór allt upp á við. Undir lokin þá var Nils með 5200 í matadorpeningum, ég með rétt tæp 40.000 og Hjördís með rúm 50.000. Hjördís hafði unnið síðustu hendurnar og það hefur reddað henni á toppinn. Ég fékk af einhverjum ástæðum gælunafnið Óli Fairplay með tilvísun í Johnny Fairplay úr Survivor.

Síðan fórum við að sofa.

Sunnudagur

Ég vaknaði klukkan 11:00, eftir svona tvö snús fór ég á fætur og hitti Hjördísi sem var að teikna í gestabókina. Eftir örlitla umhugsun þá áttaði ég mig á því að rúmið væri besti staðurinn fyrir hressa mig. Eygló fór á fætur rétt á eftir mér en sneri einnig til baka. Við vöknuðum aftur klukkan 12:00 og þá drullaði ég mér á fætur en Eygló nokkru seinna (í náttfötunum). Ég fékk mér kjarngóðan morgunmat, mjólk & kakó og köku en síðan köku og kók. Ég byrjaði hreingerningarnar miklu af alkunnum dugnaði og vaskaði upp með hjálp Halla, hin kláruðu síðan að borða og gerðu allt fínt. Ég hlóð bílinn, það gekk vel enda búið að ganga á draslið og líka vegna þess að það er betra að hlaða öllum farangrinum í einu en að bæta dóti hvers og eins á þegar hann er sóttur einsog gert var á föstudaginn.

Við komumst af stað án vandkvæða enda bíllinn góður. Við fórum ekki langt því við höfðum ákveðið að skreppa í sund á Laugarvatni, laugin var góð og pottarnir líka. Aðalvandamálið við að synda þarna var að Halli djöfull var að synda með og hann kann þetta, hann snýr meiraðsegja við einsog kallarnir á Ólympíuleikunum enda æfði hann í nærri áratug, maður vill ekkert láta bera sig saman við svona fólk. Við stoppuðum ekki lengi í sundi.Leiðin frá Laugarvatni að Selfossi var ömurlega leiðinleg, glerhált á köflum og þar að auki er bíllinn ekkert skemmtilegur þegar hann er svona þungur. Ekki bætti úr skák að sólin var lágt á lofti og skein í augun á mér. Við komust inn í Hveragerði og þar vorum við Eygló mjög andstæð í skoðunum um hvar ætti að kaupa ís eða pylsur. Eygló vildi fara í Eden en ég sagði að Eden væri skítastaður og okurbúlla, við enduðum nú samt í Eden. Ég vann mikinn siðferðislegan sigur þegar það kom í ljós að Eden er í raun skítastaður og okurbúlla. Náunginn sem var að selja ísinn þarna var bólugrafinn unglingur með sítt hár sem honum fannst óþarfi að hafa í teygju, ég er síðan nokkuð viss um að ég sá hann bora í nefið þegar hann hélt að enginn sæi til (ekki þvoði hann hendur sínar eftir það). Það var líka viðbjóðslega heitt þarna og ég var mjög feginn þegar við fórum.

Þegar við vorum að fara á Hellisheiðina keyrði ég rólega enda frekar hált og þar að auki grunaði mig hvernig umferðin myndi þróast, hægt og rólega varð það nefnilega ljóst að það voru ekki margar raðir á leiðinni til Reykjavíkur heldur ein löng. Einhverjir hálfvitar þrjóskuðust við og tóku framúr, mér er sérstaklega minnisstæður einn sem var á stórum svörtum bandarískum pallbíl sem lagði líf fjölda manns í stórhættu þegar hann tók framúr svona fimm bílum í einu, hvað ætli hann hafi grætt á því? Mínútu? Fimm mínútur? Það er náttúrulega alveg ljóst að svona fólk á ekki að vera með bílpróf. Einnig er ljóst að sumt fólk ræður ekki við að hafa há ljós á bílnum sínum, það ætti að finna þetta fólk, kippa háu ljósunum úr sambandi hjá þeim og banna þeim að keyra þegar dimmt er.

Við komumst heil á húfi í borgina og skutluðum Halla heim með blómvönd handa foreldrum hans sem redduðu bústaðinum fyrir okkur. Það dró síðan til tíðinda þegar við fórum frá Halla. Ég var að keyra af stað á ljósum yfir Háaleitisbraut þegar ég fann að eitthvað var að, það var greinilega sprungið. Ég var illa staddur því ég var á miðakreininni og þurfti nauðsynlega að komast út í kant. Ég gaf stefnuljós og það tók gríðarlega á að komast því ég sá ekki almennilega hvað var að gerast á akreininni sem ég var að fara skipta yfir á. Góðir ökumenn redduðu mér og ég komst á strætóinnskot, aðrir ökumenn voru ekki jafn indælir því einhver flautaði harkalega á mig fyrir að sóa svona 10 sekúndum af lífi hans þó að ég hafi á þeim tímapunkti verið kominn með hasarljósin á út í kanti.

Við Nils skiptum um dekk eldsnöggt þó við þyrftum að tæma skotið fyrst. Á meðan við vorum að skipta um dekk minntist ég á hve vanþakklátur maður væri þegar svona kæmi fyrir, maður hugsaði “af hverju ég? af hverju núna?” því þetta virtist vera óhentugur tími og óhentugur staður. Þetta var hins vegar frábær tími og frábær staður miðað við að þetta hefði getað gerst í kolniðamyrkri á föstudaginn eða Hellisheiðinni svona hálftíma áður. Tíminn var góður af því við höfðum fleygt Halla út rétt áður og því var auðveldara að tæma skottið og staðurinn var góður af því þarna var strætóinnskot og ljósastaurar allt í kring svo maður sá nákvæmlega hvað maður var að gera.

Við fleygðum Nils og Hjördísi heim til Nils (reyndar hef ég staðið Hjördísi að því að kalla þetta sitt “heim”) þar sem þau voru að öllum líkindum að fá sænskar kjötbollur á efri hæðinni hjá mömmu hans. Við komumst síðan heim klakklaust (hvað er þetta klakk sem maður vill vera laus við?) og þar var ekkert að frétta.

Myndir

Varnaðarorð! Þessi síða inniheldur myndir af bókasafnsfræðinördum, það er ekki alltaf fögur sýn. Mýsnar eru hins vegar sætar.