Rölt niður í bæ

Jæja, ég rölti niður í bæ núna áðan. Kuldinn er bara notalegur þegar maður er úti af fúsum og frjálsum vilja. Ég byrjaði á að fara í 2001 og sá þar fjórar Marxbræðramyndir í pakka, það fer á gjafalistann. Einnig var þarna lokkandi safn af Wooster & Jeeves þáttum. Ég lét þetta tvennt vera enda á ég afmæli eftir skamman tíma. Ég pantaði hins vegar tvær Steve Martin myndir sem verða á næsta kvikmyndakvöldi ef þær verða komnar til landsins, ef þær verða ekki komnar verða bara einhverjar aðrar Steve Martin myndir. Ég leyfi sjálfum mér að velja myndirnar fyrir það kvöld þar sem kvöldið kemur í kjölfar afmælis míns. Ég spjallaði aðeins við Sigga í 2001 um þýðingar, hann vill helst engan texta sem kemur kannski ekki á óvart miðað við að búðin hans er besti staðurinn til að redda sér slíkum útgáfum af myndum.

Næsti viðkomustaður var Diskabúð Valda, ég tjékkaði bak við og hann á tvær Queenplötur sem ég væri til í að eiga en ég týmdi ekki að eyða rúmum þúsundkalli í eitthvað sem ég á geisladisk. Ég ákvað að kíkja aðeins á myndböndin í veikri von um að hann ætti eitthvað Queendóterí sem ég á ekki og viti menn! Rock in Rio 1985! Ég var snöggur að kaupa þessa spólu enda hef ég aldrei séð þessa tónleika. Frábært. Valdi spurði mig hvernig Queensafnið mitt gengi og ég útskýrði að það myndi ganga betur ef ég væri ekki fátækur námsmaður sem þyrfti að útskýra svona innkaup fyrir kærustunni.

Ég rölti niðureftir, skrapp í Bónus og á leiðinni útúr búðinni sá ég andlit sem mér fannst ég kannast við. Ég kallaði á eftir náunganum:“Már!“ (Þetta er góð leið til sjá hvort maður hafi rétt fyrir sér án þess að þurfa að spyrja fólk beint.) Már leit við og hann var Már, ég kynnti mig og heilsaði honum snöggt.

Ég endaði í Kolaportinu en fann ekkert þar, bolirnir frekar leiðinlegir og Queen er, merkilegt nokk, ekki í tísku. Á leiðinni út rakst ég á Dúdda og Ágústu sem virtust hress sem var ánægjulegt. Reyndar spurði ég þau ekki beint út hvort þeim liði vel enda er ég konungur þess að kunna ekki „small talk“ og get því ekki spurt „hvað segirðu?“ jafnvel þegar mig langar einstaklega mikið til að vita hvernig fólki líður.

Ég sá eftir því að hafa ekki myndavélina með mér, pollurinn í kringum Ráðhúsið var svo einstaklega óþrifalegur í dag að það þyrfti að taka mynd af honum. Ég fatta ekki þessa polla í kringum hús, það er einsog að arkitektar hugsi aldrei um praktíska hluti einsog hve erfitt er að þrífa svona polla (reyndar er það bara staðreynd að arkitektar hugsa ekki um svoleiðis). Um daginn sá ég tvö jólatré í pollinum við Þjóðarbókhlöðuna. Jólatréin er annars útum allt, er ekki hægt að skorða þau einhvern veginn svo þau fjúki ekki?