Próf í morgun, ekki fjör. Ég hef verið of veikur í vikunni til að læra nokkurn skapaðan hlut og þar að auki svaf ég nær ekkert í nótt. Til að gera allt sem verst þá var helvítis prófið í hjúkrunarfræðihúsinu Eirbergi. Eirberg er næsta hús við geðdeild Landsspítalans til að gera allt auðveldara ef ég hefði farið yfirum á prófinu. Frábært. Próf klukkan 9:00 á laugardagsmorgni. Ég fór náttúrulega miklu fyrr af stað til að hafa tíma til að villast, einsog alltaf þegar maður gefur sér tíma til að villast þá finnur maður allt um leið (nema að ég lagði eins langt frá og mögulegt var).
Ég fer inn í húsið og þar er þessi stóra klukka á veggnum, þessi dómsdagsklukka. Þetta var svona klukka sem telur mínúturnar með dynk, smellur harkalega í tannhjólum. Upplífgandi. Ég fer af stað og finn stofu með því númerinu 201 sem mér var sent í tölvupóst. Þessi stofa er ekki upplífgandi þar sem hún er pínulítil og merkt Curator. Ég sá fyrir mér að þarna væru geymdar leyfar þeirra sjúklinga sem hjúkrunarfræðinemar slátra á ferli sínum. Það var nokkuð ljóst að þú gætir ekki slátrað rúmlega tuttugu lömbum þarna inni þannig að ég ályktaði að það gæti verið önnur stofa.
Ég ráfaði augnablik um og fann stofu sem var merkt C-201 og var öllu bjartari, þar var líka fólk á ferli. Til að gleðja mig þá er önnur dómsdagsklukka þarna, kannski ekki alveg ekta dómsdags heldur meira svona armbandsúr guðs, mínúturnar eru taldar með sjálfstraustsdrepandi dynkum.
Þegar ég var búinn að ákveða að fleygja mér útum glugga þá kom Palli og lyfti anda mínum á örlítið hærra stig með því að benda á að hann myndi líka drepast í þessu prófi.
Þegar klukkan var rúmlega 9:00 var okkur hleypt inn, ég valdi sæti sem næst hurðinni til þess að geta flúið eða allavega komið mér hljóðlega út. Til að byrja með fékk ég tvö próf en ekkert formúlublað sem gerði mig afar hressan. Prófið var ekkert þungt en til að vega upp á móti því þá var ég afar lélegur. Ég er nokkuð viss um að ná þessu svo lengi sem einhver sem hefur ekkert vit á aðferðafræði fer yfir því ég held að bullið mitt hafi verið sannfærandi. Reikningsdæmin þarna átti einmitt að reikna með aðferðunum sem ég hafði lært, eða allavega notaði ég aðferðirnar sem ég kunni á þau og fékk sannfærandi útkomu.
Ég var fljótur með prófið og þegar ég sá að fólk úr stofunni við hliðina var byrjað að fara leit ég til kennarans og benti út, í stað þess að kinka kolli eða hrista höfuðið þá dinglaði hún höfðinu í hringi. Ég ákvað að reyna að skila prófinu. Kennarinn neitaði mér um að skila prófinu og sagði að ég ætti að vera klukkutíma, klukkan á veggnum (ekki dómsdagstýpan reyndar) var þá fimm mínútur í. Ég benti henni á að nemendur í hinni stofunni væru byrjaðir að fara en hún svaraði að reglur væru reglur (allavega fyrir mig). Ég settist aftur niður og rúmlega einni mínútu seinna byrjar kennarinn að benda eitthvað, ég fatta ekkert hvað það átti að þýða enda hefur þessi kennari einhverja líkamstjáningu sem er ókunn í íslensku samfélagi. Ég giska að lokum að ég megi skila og þá hvíslar hún að mér að klukkan á veggnum sé vitlaus. Ég dreg mínar eigin ályktanir um hvað sé vitlaust.