Ég byrjaði daginn á því að fara í próf, því miður tengdist prófið ekki neinu sem ég lærði þannig að það gekk ekki vel. Palli kom líka of seint til að fá köku.
Ég fór næst í sund og synti dáltið, ruglaðist reyndar fyrst inn á fótaaðgerðarstofu og balletskóla en svona er lífið.
Næst rölti ég á mótmæli sem voru afar vel heppnuð. Síðan fór ég í Kolaportið og keypti Blekking og þekking handa Mumma. Tók síðan eina bók á bókasafninu.
Við röltum heim og þar sem ég var að ganga Oddagötuna sá ég reyk í Vatnsmýrinni í töluverðri fjarlægð. Ég var ekki viss um hvað þetta væri enn ákvað að ef þetta væri eldur þá væri best að skoða málið betur, ég hljóp því yfir mýrina. Þegar nær dró þá sá ég að þetta væri eldur þannig að ég herti ferðina, steig í bleytu, óhreinir skór. Þegar ég kom á staðinn tók ég upp skilti og slökkti eldinn, þegar ég var búinn að slökkva mest af eldinum kom einhver náungi og hjálpaði mér að ganga endanlega frá honum.
Mér leið ekki vel að skilja þetta eftir svona, mig grunaði að eldurinn væri ekki alveg slokknaður, þannig að ég ákvað að hringja í slökkviliðið og spyrja ráða. Ég endaði á spjalli við einhvern náunga hjá 112 sem vissi ekkert hvað ég ætti að gera en endaði með því að beina mér til lögreglunnar. Lögreglan fékk staðsetningu hjá mér (bak við hól við eitt asnalegasta hringtorg borgarinnar) og er víst núna komin á staðinn.
Núna er reykjarlykt af mér, sem er reyndar töluvert skárra en reykingalykt, þannig að ég verð að fara í sturtu og í hrein föt.
Myndir af atburðum dagsins seinna, ég tek fram að Eygló datt ekki í hug að taka mynd af mér við slökkvistörf þó hún væri með myndavélina á sér.