Persónuleikar Survivorkeppenda

Ásgeir er að skjóta, meðal annars líklega, á mig í nýjasta Survivorbloggi sínu. Hann er þar að tala kríp vs. fólk með *góðan persónuleika*.

Í fyrsta lagi finnst mér undarlegt hverja hann Ásgeir telur upp sem eigendur góðra persónuleika. Hann telur til; Big Tom, Ethan, Colby og Cathy. Alice fær aukaaðild að þessum klúbb.

* Big Tom er alveg að drepast úr kvenfyrirlitningu, hann sýndi það nokkrum sinnum þegar hann var að keppa og þá sérstaklega þegar hann var að greiða atkvæði. Hann leikur vissulega þennan góðláta sveitadurg en það er grunnt á ófétið.

* Ethan er bara vælukjói. Hann er í því að rembast til að gera öllum til geðs, passa sig að styggja ekki neinn. Hann hefði aldrei getað unnið í Afríku án aðstoðar Lex en eyddi tíma sínum í að baktala hann.

* Cathy þykjist alltaf lenda á milli hópa alveg óvart, hún er líklega skást af góðu persónuleikunum.

* Colby var einhver grimmasti keppandinn í Survivor. Hann plataði Jerry í Ástralíu á nastí hátt. Hann vissi vel að hún var hrifinn af honum, hann nýtti sér það eins lengi og hann gat en stakk hana í bakið þegar það hentaði honum.

* Alicia fær bara aukaaðild að klúbbnum hans Ásgeirs enda er hún í alvörunni almennileg. Líklega er hún of heiðarleg fyrir Ásgeir.

Rupert fær enga aðild að klúbbnum hans Ásgeirs af einhverjum undarlegum ástæðum, kannski útaf klúðrum sínum í keppninni. Mig er reyndar farið að gruna að áherslan á klúður Ruberts sé til þess gerð að við missum trúnna á hann þannig að það komi kannski á óvart þegar hann nær langt.

*Krípin* eru að mati Ásgeirs fólk einsog Rich, Lex og Rob. Þetta er fólk sem þorir að vera áberandi, þorir að taka áhættur og þorir að spila leikinn.

* Rich kom reyndar í þessa keppni án metnaðs, hann vissi að allir vildu sigra hann þannig að það var engin alvara í þessu hjá honum.

* Lex kom með djarfan leik síðast og breytti stöðunni algerlega. Frábært alveg, ef þetta fleytir honum á toppinn þá væri það verðskuldað.

* Boston Rob er svo montinn að hann mun aldrei komast á leiðarenda, hann heldur að hann stjórni keppninni. Grobb hans á eftir að gera fall hans skemmtilegt.

Málið er kannski fyrst og fremst að skemmtangildi þáttarins ræðst af hlutfalli *góðu gæjanna* og *vondu gæjanna*. Ef góðu gæjarnir eru of margir verður þátturinn bara hundleiðinlegur, getið þið ímyndað ykkur þátt sem væri fullur af Ethan týpum? Vá hvað það yrði leiðinlegt. Það er hins vegar aldrei leiðinlegt að hafa marga vonda gæja, þeir gera leikinn skemmtilegri.

Getið þið ímyndað ykkur síðustu seríu án Johnny Fairplay? Rubert var skemmtilegur góður gæji af því hann er svo óheftur, miklu skemmtilegri en þessir sem Ásgeir telur upp, en hann hefði ekki getað haldið uppi seríunni einn. Jon gerði síðustu seríu skemmtilega, án hans hefði maður ekki getað lifað sig jafn mikið inn í þetta. Það er kannski eitt sem vantar í þessa þáttaröð, almennilegt illmenni, einhvern sem maður getur hatað eða hlegið með. Boston Rob er næstur því að vera illmenni en hann er bara of heimskur til að spila það til enda.

Maður á líka aldrei að gleyma að þetta er leikur, fólkið er allt að leika að einhverju leyti, þetta er óraunveruleikasjónvarp. Ég held að við ættum að verðlauna skemmtilega fólkið með því að halda með þeim. Þeir sem ætla að fara í gegnum þetta með því að vera næs við alla eru að alveg jafn mikið að leika persónu einsog þeir sem Ásgeir stimplar *kríp* en þeir gera þetta bara á leiðinlegan hátt, þeir eru líka ekki djarfir keppendur, þeir fara öruggu leiðina.

Það er líka athyglivert að fylgjast með því hvernig *góðu gæjarnir* eru alveg jafn mikið í svikunum og *krípin*, þeir bara væla á meðan í von um að fólk sjái ekki í gegnum þá.

Þetta er nú orðið nógu löng og samhengislaus færsla, það eru væntanlega ótal ásláttarvillur enda er ég í fartölvunni.

One thought on “Persónuleikar Survivorkeppenda”

  1. Ég var aldrei að halda því fram að þetta væru allt einhverjir englar, enda hvítþvegnir einstaklingar vissulega óspennandi. Hins vegar eru þeir sem ég taldi upp með mun fleiri plúsa en mínusa – og ég er ósammála því að þeir séu litlausir. Svo hefur bara ekki verið sýnt nógu mikið af Aliciu til þess að ég hafi getað gert upp hug minn með hana.

    Og varðandi Rupert: ef ég dæmdi eftir síðustu þáttaröð þá væri hann vissulega frábærasti persónuleiki sem sést hefur í Survivor. En hann er einfaldlega sá sem hefur ollið mestum vonbrigðum í þessari seríu, voða eitthvað óviss með sjálfan sig og veit ekki almennilega hvað hann á af sér að gera – um leið og gamli Rupert mætir aftur á svæðið er hann að sjálfsögðu í hópi þeirra bestu.

    Gæti röflað meira í þér en verð víst að fara að kenna, sammála þér með balansinn btw

Lokað er á athugasemdir.