Gettu Betur, Woody Allen og ægileg ósmekklegheit

Fólk mætti ekkert sérstaklega vel á kvikmynda-Gettu Betur-kvöldið. Við vorum fimm að horfa á Gettu Betur og flest urðum við fyrir miklum vonbrigðum með úrslitin. Ég er alveg sannfærður um að Versló hefði aldrei unnið MR, þeir bara höfðu ekki það sem þurfti, sigldu til sigurs á baki Borgó.

Eygló stakk af þegar Annie Hall byrjaði þannig að við vorum bara fjögur. Annie Hall er alltaf góð, Christopher Walken er alltaf í uppáhaldi. Þetta var í fyrsta sinn sem ég horfði á dvd-útgáfuna sem ég á af henni og ég áttaði mig á því hvers vegna hún var svona ódýr, ég hef nefnilega aldrei séð mynd jafn illa formataða fyrir sjónvarp, þegar skjárinn var tvískiptur þá var þetta bara kvöl og pína.

Mangi Teits kom í lok Annie Hall þannig að allir hinir fóru þegar henni var lokið. Hann sýndi mér þá ósmekklegasta sjónvarpsþátt sem ég hef nokkurn tíman séð, sá heitir Jam. Þegar Eygló kom heim skelltum við Bananas í, ég hafði gleymt hvað hún er fyndin, Sylvester Stallone með stjörnuleik löngu áður en Rocky kom út. Eftir myndina ræddum við aðallega um trúmál enda er Mangi eðaltrúleysingi.