Andrés Önd og Heimilistíminn

Fyrir Önnu systur þá skrifa ég færslu sem hún getur kommentað við.

Í lok maí fer ég til Akureyrar að ná í bækur af því það þarf að fara að tæma hús. Ég ætla væntanlega að taka Heimilistímann sem afi batt inn, að vissu leyti gæti það talist undarlegt en ég lá í þessum blöðum á sínum tíma, merkilega heillandi. Ég ætla líka að ná í Þórbergssafnið og aðrar þær bækur sem ég var búinn að segja að ég ætlaði að taka.

Eitt sem ég var að spá í hvort ég ætti að taka er Andrés Önd sem afi batt inn. Anna á náttúrulega Andrés en ég veit ekkert um hvort hún ætlar einhvern tímann að taka hann til Svíþjóðar. Ég lá að sjálfsögðu líka í Andrésblöðunum (þó ekki þeim dönsku þó þau séu nokkur þarna).

Þegar afi ákvað að binda blöðin inn þá lét hann mig sjá um að raða þeim í rétta röð og að telja þau til. Einhvern tímann eftir að ég hafði raðað blöðunum og áður en afi batt þau inn tóku Aðalsteinn og Starri frændi sig til að lesa blöðin.Afleiðingin af þeim lestri er að eitt bindið í öfugri röð, elsta blaðið er fremst og yngsta aftast, ég var ákaflega bitur útaf þessu og Eygló segir að ég sé það enn.